Jólabingó 3. desember

Jólabingó fyrir alla fjölskylduna í Salaskóla fimmtudaginn 3. desember kl. 20:00

Miðaverð kr. 400

9. bekkur í Salaskóla stefnir á að fara í ungmenna- og tómstundabúðirnar að Laugum í Dalabyggð í lok janúar og rennur allur ágóði af bingóinu  í ferðasjóð nemenda.

Jóladagatal grunnskólanna á www.umferd.is

Jólagetraun Umferðarstofu er með nýju sniði í ár. Á hverjum degi, frá 1. desember til 24. desember, geta grunnskólabörn svarað nýrri spurningu með því að opna jóladagatal á www.umferd.is og komist þannig í verðlaunapott.

Heppinn þáttakandi er dreginn út á hverjum degi og fær hann skemmtileg verðlaun.

Allir þátttakendur geta merkt svör sín með nafni bekkjar og skóla og komist þannig í sérstakan bekkjarverðlaunapott.

Nemendur og bekkir eru hvattir til að taka þátt í jóladagatalinu, sem er í senn skemmtilegt og fræðandi.

Hver veit – kannski vinnur bekkurinn þinn pítsuveislu!

Jóladagatalið verður á www.umferd.is frá 1. desember til 24. desember.

„Feisbúkk“ og félagsleg vandræði

Ágætu foreldrar

 

Við höfum orðið vör við að mjög margir nemendur Salaskóla eru aðilar að „facebook“ netsamfélaginu. Eins og mörg ykkar þekkja býður þetta samfélag upp á ágætis samskipti af ýmsu tagi og fleira skemmtilegt. En dökku hliðarnar finnast líka og ég er hræddur um að þær komi einkum fram hjá börnum og unglingum. Í hverri einustu viku þurfum við hér í skólanum að taka á málum sem verða til í samskiptum nemenda á „facebook“. Þessi samskipti eiga nemendur eftir skóla og á kvöldin. Þetta getur t.d. verið þannig að einhver skráir eitthvað á „statusinn“ hjá sér og fær óviðurkvæmilegar athugasemdir frá einhverjum „facebook-vinum“. Komið hafa upp hörð orðaskipti, hótanir, niðurlægjandi tal, athugasemdir um útlit og geðslag og fleira í þeim dúr.

 

Þegar nemendur mæta svo í skólann morguninn eftir eru þeir í uppnámi og telja sig þurfa að gera upp sakir eða ljúka málum. Þegar svo er verður lítið um nám hjá viðkomandi. Kennarar hafa verið að taka á málum af þessu tagi og mörg þeirra lenda hjá skólastjórnendum og þarf oft mikla vinnu til að koma á sáttum og góðum friði.

 

Samskiptasamfélag af þessu tagi er oft of flókið og ögrandi fyrir þann þroska sem börn og unglingar búa yfir. Þau átta sig ekki á því að það sem þau skrifa sjá margir aðrir, það getur misskilist og það getur sært aðra og valdið miklum leiðindum. Svo eru þau líka að safna sem flestum „vinum“ og sumir sem óska eftir „vinfengi“ kunna að vera varasamir.

 

Ég vil biðja foreldra að hugleiða þessi mál og fylgjast með og skoða „facebook“ svæði barna sinna. Ábyrgð foreldra er mikil þegar kemur að netnotkun og mikilvægt er að leiðbeina börnum og unglingum hvernig á að ganga um í netsamfélagi eins og „facebook“.

 

Með kveðju – Hafsteinn Karlsson, skólastjóri

kassi-600.png

Skólanum færð gjöf

kassi-600.pngÚlfar Andri Sölvason nemandi í þröstum kom færandi hendi í skólann í morgun. Hann gaf skólanum glænýtt spil, Vikings, sem er algjörlega íslensk hönnun. Hann sagði að pabbi sinn hefði hannað spilið og það væri mjög skemmtilegt. Hann afhenti skólastjóra spilið að viðstöddum bekkjarfélögum sínum og saman fór allur hópurinn inn bókasafn þar sem spilið verður til útláns. Við þökkum kærlega fyrir þessa góðu gjöf.

 

Ömurlegir eineltistilburðir

Næstkomandi föstudag hefur verið boðaður á Feisbúkk "kick a ginger day" og þá á að sparka í þá sem eru rauðhærðir. Við höfum verulegar áhyggjur af þessu. Fyrir ári síðan máttu rauðhærðir krakkar þola mikið ofbeldi í skólum vestan hafs.

Þessi fáránleiki má ekki ná hingað. Við biðjum ykkur um að ræða þetta við ykkar krakka og kennarar munu einnig tala við bekkina sína.

Ef einhver nemandi fer að haga sér með þeim hætti sem þarna er boðaður verður brugðist hart við. Skólinn með þeim úrræðum sem hann hefur og félagsmiðstöðin hefur ákveðið að útiloka þá frá starfinu þar í einn mánuð.

Tökum höndum saman og komum í veg fyrir svona ömurlega eineltistilburði.

legmeistarar_heirair_001small.jpg

Legómeistarar heiðraðir

legmeistarar_heirair_001small.jpg
Legómeistararnir, Róbóbóbó, voru heiðraðir með miklu lófataki í sal skólans í gær þar sem söfnuðust saman nemendur skólans og starfsfólk. legmeistarar_heirair_004small.jpgLególiðið endurtók skemmtiatriði sem þeir fluttu í keppninni og sungu og léku svokallaðan Legóbílablús við mikinn fögnuð áheyrenda. Í dag kom svo iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, hitti legómeistarana og fékk kynningu á verkefninu þeirra.  

Sjálfsmatsskýrsla Salaskóla

Sjálfsmatsskýrsla Salaskóla 2007-2009 er komin út. Hún hefur verið birt á heimasíðu skólans undir hlekknum skólinn > mat á skólastarfi. Í skýrslunni er gerð grein fyrir sjálfsmatsaðferðum skólans og þar er matsáætlun næstu ára. Greint er frá niðurstöðum úr ýmsum könnunum og prófum og að síðustu er umbótaáætlun. Við hvetjum foreldra til að kynna sér skýrsluna.

dagbkin.jpg

Sigur hjá Róbóbóbó

dagbkin.jpgLególíð Salaskóla, Róbóbóbó, náði frábærum árangri í Legókeppninn First Lego League sem haldin var í dag, 7. nóvember, í Keili í Reykjanebæ. Liðið sýndi mikla samhæfni og sérlega góða færni í öllum hlutum keppninnar og endaði sem sigurvegari og FLL- meistari 2009 á Íslandi.

Einnig fengu þeir sérstök verðlaun fyrir góðar dagbókarfærslur og besta hönnun á vélmenni. Sigurinn gefur þeim rétt til þátttöku í Evrópukeppni FLL sem haldin verður í Tyrklandi í apríl 2010. Liðsmönnum Róbóbóbó og liðsstjórum eru færðar hamingjuóskir. en þau uppskera nú í samræmi við mikla og óeigingjarna vinnu síðustu vikna. Meira á www.firstlego.is og á heimasíðu Róbóbóbó.

bell.jpg

Brunaæfingu lokið

bell.jpgÍ morgun fór fram brunaæfing þar sem okkar stóra skólahúsnæði var rýmt samkvæmt rýmingaráætlun skólans. Æfingin gekk mjög vel í alla staði – nemendur og starfsfólk stóð sig með prýði. Næst verður farið yfir áætlunina í heild sinni og henni breytt ef reynslan sýnir að þörf er á slíku.