Author Archives: Ásgerður Helga Guðmundsdóttir
Góðgerðahlaup Salaskóla
Í dag föstudaginn 15. september, fer Ólympíuhlaup UMFÍ fram í Salaskóla. Við höfum ákveðið að gera hlaupið að „Góðgerðarhlaupi“ og styrkja gott málefni.
Fyrir valinu varð Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, SKB. Það er félag sem stendur skólasamfélaginu okkar nærri. SKB styður við fjölskyldur, fjárhagslega og félagslega, heldur uppi foreldra- og unglingafundum, listmeðferðum og sinnir margvíslegu öðru stuðningsstarfi við krabbameinssjúk börn og fjölskyldur þeirra. Svo vel vill til að september mánuður en tileinkaður gylltu slaufunni, en sú slaufa er tileinkuð börnum með krabbamein.
Það er spenna í okkur á hlaupdegi og við höfum beðið foreldra og aðra velunnara skólans að styrkja nemendur um eina krónu fyrir hvern nemenda, en það eru þá 530kr – upphæð framlags getur þó að sjálfsögðu verið frjáls og allt skiptir máli.
Endilega takið þátt og hjálpið okkur að hjálpa öðrum – við hlaupum til góðs!
Framlög má leggja inn á reikning Salaskóla, 0536-14-750900, kt. 670601-3070.
Snemma í morgun höfðu safnast rúmlega 100.000kr og við erum spennt að hækka þá upphæð og munum láta ykkur vita þegar við komum styrknum á framfæri.
Skólaárið 2023-2024!
Skólasetning Salaskóla verður miðvikudaginn 23. ágúst.
- Nemendur í 2.-4. bekk mæta kl. 9:00.
- Nemendur í 5.-7. bekk mæta kl. 10:00
- Nemendur í 8.-10. bekk mæta kl. 11:00.
Skólasetningin verður í opnu rými við aðalinngang skólans, nálægt stiganum.
Foreldrar eru hjartanlega velkomnir með börnum sínum.
Eftir stutta skólasetningarathöfn fara nemendur í kennslustofur þar sem umsjónarkennarar bjóða þá velkomna og fara stuttlega yfir skólabyrjun og helstu áherslur árgangsins.
Nemendur í 1. bekk mæta ekki til hefðbundinnar skólasetningar en umsjónarkennarar þeirra hafa boðað hvern nemanda til viðtals ásamt foreldrum en viðtölin fara fram dagana 22. og 23. ágúst.
Kennsla hefst samkvæmt stundatöflum hjá öllum árgöngum fimmtudaginn 24. ágúst.
Frístund er lokuð á skólasetningardegi en opnar kl. 13:20 fyrsta skóladaginn.
Foreldrar nemenda í 1.-4. bekk fá allar frekari upplýsingar um skráningar og aðra þætti sem snúa að frístundastarfinu frá Kristrúnu Sveinbjörnsdóttur sem er ný forstöðukona frístundar.
Foreldrar skrá börn sín í mötuneyti skólans í gegnum þjónustugátt á heimasíðu Kópavogsbæjar.
Sá möguleiki er nú fyrir hendi að við skráningu geta foreldrar valið hvort þeir skrái börnin í „vegan“ fæði eða ekki.
Þeir sem nú þegar eiga virkar skráningar í mötuneyti og vilja breyta yfir í „vegan“ verða að skrá sig inn og framkvæma breytinguna.
Foreldrar nemenda í 1.-7. bekk geta einnig valið skráningu í ávexti sem morgunhressingu og hafa langflestir nýtt það.
Unglingastiginu verður boðið í hafragraut í morgunfrímínútum alla virka daga.
Skóladagatal skólaársins 2023-2024 er aðgengilegt á heimasíðu skólans.
Skrifstofa skólans er opin alla virka daga kl. 8:00-15:00.
Símanúmer skólans er 441-3200.
Ritari er Ásdís Sigurjónsdóttir en hún er öllum hnútum kunnug hvað skólastarfið varðar og svarar fyrirspurnum hratt og vel, netfang; ritari@salaskoli.is .
Við hlökkum til að hittast aftur eftir sumarfríið – GLEÐILEGT NÝTT SKÓLAÁR!
Erasmus verkefni
Salaskóli hefur undanfarin àr tekið þátt í fjölbreyttum Erasmus verkefnum. Verkefnið sem við erum þátttakendur í þetta skólaàrið ber heitið Art is for All. Þátttökuskólar eru í Wales, Þýskalandi og Spáni. Hér er QR kóði á sameiginlega vefsíðu verkefnisins.
Snjallir nemendur í Kópavogi
Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk
Alþjóðlegur dagur Downs heilkennis
Nemandi í Salaskóla verðlaunahafi í teiknisamkeppni grunnskólanema
Úrslit í árlegri teiknisamkeppni grunnskólanema liggja nú fyrir og var Embla Dröfn Hákonardóttir, nemandi í 4. bekk, ein af vinningshöfum.
Öllum nemendum 4. bekkjar var boðið að taka þátt en þessi skemmtilega teiknisamkeppni hefur notið mikilla vinsælda meðal nemenda, kennara og skólastjórnenda í áraraðir og eru allir sem hlut eiga að máli sammála um að keppnin sé bæði góð hvatning fyrir nemendur og skemmtileg leið til að brjóta upp hefðbundið skólastarf.
Myndin sem Embla teiknaði er ein þeirra 10 mynda sem hlaut viðurkenningu í ár, en hún var í hópi þeirra rúmlega 1.200 mynda sem bárust í keppnina.Bekkjarsjóður Emblu mun hljóta 40.000 kr. verðlaunafé frá Mjólkursamsölunni sem bekkurinn getur nýtt í að gera sér glaðan dag saman og efla liðsheild í samráði og samvinnu við umsjónakennara sinn og/eða skólastjórnendur.
Við óskum Emblu Dröfn innilega til hamingju með þessa viðurkenningu.