Starfsáætlun frístundar Salaskóla

Hagnýtar upplýsingar

Forstöðukona frístundar er Kristrún Sveinbjörnsdóttir. Frístundin er fyrir börn í 1.-4. bekk. Sími frístundar er 441-3200. Símatími er alla virka daga á milli 12-13. Eftir þann tíma er bara hægt að ná í okkur í gegnum netfang. Ef nauðsyn krefur er hægt að koma skilaboðum í gegnum skólarita í síma 441-3200. Netfang frístundar er salafristund@kopskolar.is og æskilegt er að öll skilaboð séu komin fyrir kl. 12  viðkomandi dag. 

Allar umsóknir um frístund þurfa að berast í gegnum þjónustugátt Kópavogs. Umsóknir og breytingar þurfa að berast fyrir 20. hvers mánaðar. 

Frístund er opin frá 13:30-17:00 virka daga. Frístund hefur tvo skipulagsdaga á skólaárinu. Þá daga er lokað hjá okkur. Þegar skólinn er með vetrafrí þá er lokað í frístund. Þegar skólinn er með skipulagsdaga og foreldraviðtöl þá  er opið í frístund frá kl 8:10-17:00. Skrá þarf sérstaklega á þessa daga með því að senda póst á salafristund@kopskolar.is Einungis er tekið  á móti skráðum börnum þessa daga.

Í vikunni milli jóla og nýárs er opið í  ákveðnum skóla í Kópavogi. Skrá þarf sérstaklega  þessa daga.

Í dymbilviku er opið í frístund frá 8:10-16:00. Skrá þarf sérstaklega á þessa daga.

Forföll eru tilkynnt til skólarita eða í gegnum mentor. Öll önnur forföll eða frávik þarf að tilkynna til frístundar.

Gjaldskrá og innheimta

Gjaldskrá frístundar má finna á heimasíðu Kópavogsbæjar.

Starfið í vetur – frístund

Við byggjum frístundina upp á fjölbreytileika og að allir fái verkefni við sitt hæfi. Yfir skólaárið er frístundin þrískipt. Haustdagskrá er frá skólabyrjun til 1. október. Yfir veturinn erum við með öflugt hópastarf. Vordagskrá er frá 1.maí og til skólaloka. Þá er lögð áhersla á hreyfingu og útiveru. Það er mikið farið í hjóla og göngutúra um hverfið okkar og næsta nágrenni. Strætóferðir á söfn og skemmtileg svæði til að leika á. Skipulagða leiki á skólalóð. Nágrannaskólar okkar heimsóttir hvort sem er um fótboltakeppni að ræða eða að skoða og leika í öðrum skólum. Vetrardagskráin þá er hópastarf. Skipt er í hópa eftir árgöngum. Á þessu tímabili er skipulögð dagskrá til 15:30 alla daga. Kaffið er frá 13:30-14:00 alla daga. Allir hópar fara í útivist flesta daga.

Í miðju rými frístundar er tafla sem sýnir myndrænt skipulag dagsins hjá öllum hópum.

Hópastarf sem er í boði

Föndur Erum með nokkur verkefni í gangi í einu. Skiptum öllu föndri út á ca 2 vikna fresti.

Ipad tímar Kennari sem sér um tölvuumsjón er búin að búa til svæði fyrir okkur. Þar er mikið  af  þroska og námsleikjum sem þau geta farið í. Einungis má vera á þessu svæði þegar verið er í Ipad í dægradvöl.

Bakstur Allir hópar fara einu sinni í viku í bakstur. Þar er verið að fara í alla almenna undirstöðu í bakstri og frágang í eldhúsi.

Bókasafn Það er róleg og notaleg stund. Þar  er hægt að skoða bækur, mikið af spilum og svo er hægt að lita og teikna.

Salurinn. Þar er verið að fara í stærri hreyfileiki.

Spilahópur. Þar er farið í borðspil af öllum gerðum. Þar er líka hægt að fara í gólf og pútta sem og æfa sig í innikeilu.

Fönix. Það er félagsmiðstöðin í skólanum. Þar eru Wii og playstation tölvur sem og billjard borð og fótboltaspil.

Hópastarf sem kennara sjá um

Gerpla. Tvisvar í viku erum við með tíma út í Gerplu. Það er tveir þjálfara frá Gerplu sem sjá um að byggja upp tímann. Hreyfing í leik er það sem gengið er út frá.

Skák. Skák kennari við skóla sér um öflugt skákstarf. Þar er bæði farið í undirstöðu atriði og svo að tefla. Mikið um skák mót.

Kór. Þeir sem vilja geta verið í kór. Það eru tónmennta kennara sem sjá um þetta.

Fjör með Ísaki. Þar er farið í hreyfileiki sem og hópeflisleiki út í íþróttahúsi.

Leynileikhúsið. Leiklistarkennsla er í gangi allan veturinn. Það eru svo sýningar tvisvar á ári hjá þeim.

Dans. Hægt er að skrá sig á dans námskeið þar sem farið er í gunn atriði í samkvæmisdönsum.

Stuðningur  í frístund

Börn sem þurfa mikinn  stuðning er boðið upp á að byrja í litlum hóp með þroskaþjálfa  og stuðningsfulltrúum. Þarna eru 3 starfsmenn frá 13:30-16:00. Þetta er skipulögð dagskrá þar sem reynt er að mæta þörfum allra. Þetta er svona lítil frístund við rólegar aðstæður þar sem verkefni eru aðlöguð að þeirra aðstæðum og getu.

Samstarf við íþróttafélög

Það er stórt skref að fara á æfingar og geta séð um sig sjálfur. Foreldar þurfa að hugsa vel út í þessi mál. Okkar ábyrgð á barninu nær ekki út fyrir skólalóðina.

Breiðablik og HK eru með tómstundavagn sem við sendum í. Við sendum á allar æfingar hjá þessum félögum.

Við erum líka í samstarfi við Gerplu og sendum þau á æfingar þar.

Þau sem æfa sund hjá Breiðablik þá er líka samstarf um að senda á æfingar þar.

Skólabragur

Við leggjum mikið upp úr að öll samskipti gangi vel. Það eiga allir að fá að njóta sín.  Við höfum verði að gera verkefni sem efla og styrkja hópinn sem þau eru í sem heild. Við höfum verið með verkefni þar sem við eru að fjalla um vináttuna. Hvernig vinir við viljum vera og hvað gerir okkur að góðum vin. Þau fara svo út með myndavél og mynda vínáttu. Við höfum fjallað um einelti og gert eineltismyndbönd.

Ef grunur vaknar um einelti

Ef grunur vaknar um einelti þá fylgjumst við vel með þeim samskiptum. Haft er samband við foreldra og námsráðgjafi er settur í málið.

Barnaráð

Barnaráð er starfandi í frístundinni. Þar er verið að vinna með barnalýðræði í sem víðustum skilning. 10 barna hópur þvert á alla hópa hittist einu sinni í viku og farið er yfir starf frístundarinnar. Hvað er skemmtilegt að gera og hverju vilja þau breyta og bæta? Allir sem eru í frístund fara einhver tímann í barnaráð. Við starfólkið rýnum svo í punktana  sem koma og reynum að uppfylla þær óskir sem eru raunhæfar.

Foreldrasamstarf

Við leggjum mikið upp úr að foreldrasamstarf sé gott. Viljum að bilið á milli foreldra og frístundar sé sem minnst. Öllum póstum sem berast er svarað samdægurs og öll skilaboð sem berast er farið yfir um leið og þau berast. Við sendum fréttbréf vikulega. Þar er farið yfir vikuna sem er að líða og ef það eru einhver skilaboð fyrir næstkomandi viku þá kemur það fram þar. Við sendum líka heim dagskána sem við erum að vinna eftir svo foreldara séu upplýstir um hvað er í gangi á hverjum degi.

Við erum með lokaða FB síðu. Þar erum við dugleg að setja inn myndir og myndbönd af starfinu.

Öryggi og verkferlar

Fyrirkomulag inn- og útskráningar barna

Í upphafi dags er farið yfir þau börn sem eru fjarverandi á mentor. Þegar börn koma í frístundina er lesið upp. Þegar barn fer þá er það skráð út með að merkja við það á skráningarblaði.

Barn mætir ekki

Ef barn sem á að vera skráir sig ekki inn er byrjað að hafa samband við kennara hvort það komi einhverjar upplýsingar þar fram sem geta útskýrt þetta. Byrjað er að leita í skóla og á skólalóð. Haft er samband við foreldra.

Á ferð með börnin

Þegar farið er í ferðir er skrifaður nafnalisti og fjöldi barana sem fara í ferðina. Það er gengið í röð og starfmenn dreifa sér jafnt á hópin. Ef um strætóferð er að ræða er aldrei fleiri en 28 börn í hóp.

Að fara í íþróttarútu

Þeir foreldrar sem notfæra sér íþróttavagninn láta okkur vita í hvaða rútu barnið á að fara. Við pössum að barnið fari á réttum tíma í rétta rútu. Starfmaður í rútunni tekur svo við þeim þegar í rútuna er komið.

Alvarleg slys

Ef um alvarlegt slys er að ræða er hringt á 112 og haft samband við foreldra.

Smávægilegir áverkar

Ef smávægilegir áverkar lítil sár og þess háttar þá eru þau hreinsuð hér og settar viðeigandi umbúðir. Ef um höfuð högg og tannáverka er að ræða er alltaf haft samband strax við foreldra.

Rýmingaráætlun

Ef viðvörunarkerfi skólans fer í gang. Þá er samskonar rýmingar áætlun og gert er á skólatíma. Frístundin og þeir hópar sem eru í stofum skólans eru rýmdar og hópurinn fer á viðeigandi stað á skólalóðinni.

Innra mat

Frístundin er með fundi alla virka daga með þeim sem starfa í frístundinni. Þar er farið yfir daginn og skipulagið í heild sinni. Þar er góður vettvangur til að fara yfir þau mál sem betur geta farið og efla góða hluti líka.

Stjórnendur halda morgunkaffi með hverjum árgangi fyrir sig. Þar er forstöðukona frístundar og fer hún yfir skipulag starfsins. Þarna er góður vettvangur fyrir foreldar að koma með athugasemdir og spurningar. Á meðan á morgunkaffinu stendur koma foreldrar með skriflegar athugasemdir. Við fáum svo niðurstöður úr þessu og er það gott tækifæri að breyta því sem fólk er ekki ánægt með.

Stjórnendur senda líka út foreldrakönnun. Þar fær frístundin líka niðurstöður um innra starf hennar.

Frístundin er með 2. skipulagsdaga á ári og eru þeir notaðir til að skipuleggja starfið og fara yfir það sem betur  má fara. Í ár eru þetta 6. október og 13. mars.


Símenntunaráætlun

Þeir sem starfa í frístundinni eru sendir á skyndihjálparnámskeið ár hvert.