Bebras tölvuáskorun 2022

Bebras (e. Beaver) áskorunin er alþjóðlegt verkefni sem felst í að auka áhuga á upplýsingatækni og efla rökhugsun og tölvufærni (e. Computational thinking) meðal nemenda á öllum skólastigum. Þetta er ein fjölmennasta áskorun sem notuð er til kennslu í upplýsingatækni og var hún keyrð í fyrsta sinn á Íslandi í nóvember 2015 og er Ský í forsvari fyrir verkefnið á Íslandi. Salaskóli tók að sjálfsögðu þátt í þessu frábæra verkefni í nóvember síðastliðnum líkt og undanfarin ár. 

Niðurstöðurnar úr Bebras tölvuáskoruninni 2022 voru kynntar fyrir nemendum í gær og í dag. Þriðja árið í röð var Salaskóli með flesta þátttakendur af þeim skólum sem tóku þátt á Íslandi sem og allir árgangar voru yfir meðaltali í stigaskori bæði yfir höfuðborgarsvæðið sem og á landsvísu, frábær árangur það.

Alls tóku 352 nemendur í 3. – 9. bekk þátt sem er virkilega vel gert og þökkum við öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum kærlega fyrir.

 

Fjölgreindaleikar 2022 – Verðlaunaafhending

Fjölgreindaleikar Salaskóla voru haldnir í síðastliðnum mánuði, 10. – 11. nóvember og hafa löngum þótt vera einn mikilvægasti viðburður skólaársins.

Markmiðið með leikunum er að vinna að góðum skólabrag með því að nemendur á ólíkum aldri vinna saman að lausn verkefna sem reyna á allar greindir mannskepnunnar. Leikarnir eru jafnframt keppni milli hópa í samvinnu og félagsanda. Þar reynir ekki síst á leiðtoga hvers hóps, en það eru nemendur úr elstu bekkjum skólans. Þá daga sem leikarnir standa yfir ríkir einstök gleði í skólanum og til að ýta enn frekar undir hana mætir starfsfólk í furðufötum.

Allir nemendur taka þátt í leikunum og er þeim skipt í um 40 hópa og í hverjum hópi eru nemendur af öllum skólastigum.  Keppnisgreinar eru um 40 og hver hópur keppir í öllum greinum.  Keppnisgreinar reyna eins og áður segir á allar greindir og fjölbreytni er afar mikil. 

Í morgun voru sigurvegarar heiðraðir með verðlaunapeningum í íþróttahúsinu. Við óskum þeim öllum innilega til hamingju með frábæran árangur.

Lúsíuhátíð 2022

Það hefur löngum verið hefð í Salaskóla að halda upp á Lúsíumessu sem tengist verndardýrðlingnum Santa Lúsíu í kringum 13. desember. Nemendur í 4. bekk eru í aðalhlutverki og Lúsían hefur í gegnum tíðina verið valin úr 7. bekk. Nemendur klæðast hvítum kyrtlum, hnýta silfurbönd um mitti sér og höfuð og halda á ljósi. Lúsían sjálf er prýdd ljósakransi og með rauðan linda um mitti.

Undanfarin tvö ár hafa verið með breyttu sniði í ljósi aðstæðna og því var ákaflega ánægjulegt að geta haldið upp á messuna á hefðbundin máta í morgun þegar Lúsíugangan fór um allan skólann með söng og tilheyrandi hátíðleika undir stjórn Stefáns Hauks tónlistarkennara. Falleg og friðsæl stund í Salaskóla í morgunsárið.

 

Jólamarkaður 4. bekkinga

Á þriðjudaginn, 6. desember, stóð 4.bekkur fyrir mjög vel heppnuðum jólamarkaði sem þau hafa verið að vinna að síðustu vikur. 

Þau voru í raun að taka þátt í tveimur verkefnum.  Fyrra verkefnið heitir Öðruvísi jóladagatal og er á vegum SOS-barnaþorpa. Verkefnið snýst um réttindi barna og byggir á stuttum fræðsluerindum og myndböndum af börnum í nokkrum löndum heimsins. Seinna verkefnið er Erasmus+ verkefni sem heitir Art is for All sem við erum þátttakendur í með skólum í Þýskalandi, Spáni og Wales.

Hluti af báðum verkefnunum snýst um að láta gott af sér leiða og buðu nemendur því ættingjum sínum til skemmtunar og jólamarkaðar þar sem þau seldu ýmsan varning og veitingar sem þau höfðu búið til. Allur ágóðinn af markaðnum um 120.000 kr. var afhentur SOS barnaþorpum í dag. Hér má lesa frétt um verkefnið á heimasíðu SOS barnaþorpana.

Við erum svo stolt af 4. bekkingunum okkar og þessu yndislega framtaki þeirra – sem er svo gefandi, en um leið fræðandi og þroskandi og frábært skólaverkefni!

Jólahurðasamkeppni 2022

Nú í nokkur ár höfum við flautað til leiks í jólahurðasamkeppni hér í Salaskóla í lok nóvember og hafa nemendur keppst við að setja hurðir sínar í jólalegan búning til að freista þess að vinna best skreyttu hurðina. Dómnefnd var sett saman sem í sameiningu fór yfir allar innsendar myndir með það að markmiði að finna sigurvegara.

Eftir vandlega skoðun komst dómnefnd að þeirri niðurstöðu að 7. árgangur myndi hljóta
verðlaun í ár fyrir fallegar og vandaðar hurðaskreytingar. Ýmsir þættir vöktu
athygli dómnefndar s.s. dýpt mynda, QR kóði sem kallaði fram jólalag við skönnun og samræmt ævintýraútlit þó hver hurð hafi verið sérstök.

Aukaverðlaun fékk 5. bekkur sem sýndi mikla samvinnu og hver og einn nemandi gerði hluta í verkinu. Skreytingarnar voru skemmtilegar og frágangur snyrtilegur.

Við óskum vinningshöfum innilega til hamingju.

Klukkustund kóðunar

Alþjóðlega Hour of Code (Klukkustund kóðunar) forritunarvikan stendur nú yfir en í ár er hún haldin dagana 5. – 11. desember um heim allan.  Markmiðið með átakinu er að hver og einn nemandi forriti í a.m.k. eina klukkustund. Átakið hefur náð til yfir 1,5 milljarð þátttakenda í yfir 180 löndum.

Salaskóli er að sjálfsögðu með eins og undanfarin ár og fá allir nemendur skólans tækifæri til að taka þátt. Nemendur eru hvattir til að kóða meira heima ef áhugi er fyrir því. Á heimasíðu verkefnisins má finna fullt af spennandi verkefnum á yfir 45 tungumálum og því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. 

Jólaþorp Salaskóla

Jólaþorp Salaskóla er löngu orðin árleg hefð en í ár var þorpið sett upp í níunda sinn af nemendum í 7. bekk í samstarfi við smiðjukennara skólans. Þorpið hefur upp á flest það að bjóða sem prýða má slíkt þorp, s.s. skóla, vita, bryggju, báta, lest, kirkju, skíðabrekku, skóg, jólasveina og að sjálfsögðu fólk af öllum stærðum og gerðum. Í dag, 5.desember, var jólaþorpið formlega opnað og voru fyrstu gestirnir nemendur í 1. bekk en það er mjög vinsælt að koma í heimsókn og skoða þorpið enda hellist jólaandinn yfir þá sem það gera. Við hvetjum foreldra og aðra áhugasama að koma og líta á þorpið við tækifæri.