ottarsbikarinn_007small.jpg

Fjörlegur körfubolti

ottarsbikarinn_007small.jpgÞað er orðin hefð í skólanum að blása til körfuboltamóts í unglingadeildinni á aðventunni. Að þessu sinni var nemendum í Lindaskóla boðið að koma og taka þátt. Spilaðir voru margir fjörlegir leikir og fóru leikar þannig að bæði stelpu- og strákalið úr 9. bekk í Lindaskóla, voru efst að stigum og fengu verðlaunapeninga afhenta.

Að þessu sinni var í fyrsta skipti spilað um svokallaðan Óttarsbikar sem er til minningar um Óttar Bjarkan, fyrrverandi húsvörð Salaskóla, sem lést í byrjun þessa árs. Strákar í 10. bekk Salaskóla fengu bikarinn afhentan í fyrsta skipti fyrir frækilega framgöngu í körfuboltanum í dag. Óttarsbikarinn mun ávallt verða varðveittur innan skólans og bikarinn fá þeir sem sýna sérlega góða frammistöðu í körfuboltanum

Lúsíuhátíð

 Það er orðin hefð í Salaskóla að halda upp á Lúsíumessu sem tengist verndardýrðlingnum Santa Lúsíu. Kór Salaskóla, sem er skipaður nemendum úr 3.-7. bekk, sér ávallt um Lúsíuathöfnina undir stjórn Ragnheiðar tónmenntakennara. Krakkarnir klæðast þá hvítum kyrtlum, hnýta silfurbönd um mitti sér og höfuð og með ljós í hönd. Lúsían sjálf er prýdd ljósakransi og með rauðan linda um mitti. Í morgun fór Lúsíugangan um allan skólann með tilheyrandi söng og hátíðleika. Katrín Kristinsdóttir í fálkum var Lúsían þetta árið. Nemendur komu fram á ganga með kennurum sínum og fylgdust með göngunni. Falleg og friðsæl stund í morgunsárið.

gerpur_kristn_001small.jpg

Rithöfundur sótti okkur heim

gerpur_kristn_001small.jpgNú í morgunsárið kom rithöfundurinn Gerður Kristný í heimsókn í skólann og hitti alla nemendur í 1. – 5. bekk. Gerður sagði frá barnæsku sinni, kynnti eldri bækur sínar eins og Mörtu Smörtu, Garðinn og Ballið á Bessastöðum og las síðan úr nýjustu bókinni Prinsessunni á Bessastöðum.  Krakkarnir kunnu vel að meta frásögn Gerðar, hlustuðu af athygli og skemmtu sér hið besta. Það er afar kærkomið að fá góðar heimsóknir sem þessar, þær eru tilbreyting frá hversdagsleikanum og brjóta upp skammdegið.  

adventa.jpg

Aðventuganga foreldrafélagsins

adventa.jpgAðventuganga foreldrafélagsins verður fimmtudaginn 10. desember nk. kl. 17:30. Hist verður við Salaskóla og svo gengið þaðan. Öllum íbúum Salahverfis er boðið að taka þátt. Eftir göngu er boðið upp á smákökur og kakó í skólanum. Missið ekki af þessum skemmtilega og árlega viðburði.

Jólabingó 3. desember

Jólabingó fyrir alla fjölskylduna í Salaskóla fimmtudaginn 3. desember kl. 20:00

Miðaverð kr. 400

9. bekkur í Salaskóla stefnir á að fara í ungmenna- og tómstundabúðirnar að Laugum í Dalabyggð í lok janúar og rennur allur ágóði af bingóinu  í ferðasjóð nemenda.

Jóladagatal grunnskólanna á www.umferd.is

Jólagetraun Umferðarstofu er með nýju sniði í ár. Á hverjum degi, frá 1. desember til 24. desember, geta grunnskólabörn svarað nýrri spurningu með því að opna jóladagatal á www.umferd.is og komist þannig í verðlaunapott.

Heppinn þáttakandi er dreginn út á hverjum degi og fær hann skemmtileg verðlaun.

Allir þátttakendur geta merkt svör sín með nafni bekkjar og skóla og komist þannig í sérstakan bekkjarverðlaunapott.

Nemendur og bekkir eru hvattir til að taka þátt í jóladagatalinu, sem er í senn skemmtilegt og fræðandi.

Hver veit – kannski vinnur bekkurinn þinn pítsuveislu!

Jóladagatalið verður á www.umferd.is frá 1. desember til 24. desember.

„Feisbúkk“ og félagsleg vandræði

Ágætu foreldrar

 

Við höfum orðið vör við að mjög margir nemendur Salaskóla eru aðilar að „facebook“ netsamfélaginu. Eins og mörg ykkar þekkja býður þetta samfélag upp á ágætis samskipti af ýmsu tagi og fleira skemmtilegt. En dökku hliðarnar finnast líka og ég er hræddur um að þær komi einkum fram hjá börnum og unglingum. Í hverri einustu viku þurfum við hér í skólanum að taka á málum sem verða til í samskiptum nemenda á „facebook“. Þessi samskipti eiga nemendur eftir skóla og á kvöldin. Þetta getur t.d. verið þannig að einhver skráir eitthvað á „statusinn“ hjá sér og fær óviðurkvæmilegar athugasemdir frá einhverjum „facebook-vinum“. Komið hafa upp hörð orðaskipti, hótanir, niðurlægjandi tal, athugasemdir um útlit og geðslag og fleira í þeim dúr.

 

Þegar nemendur mæta svo í skólann morguninn eftir eru þeir í uppnámi og telja sig þurfa að gera upp sakir eða ljúka málum. Þegar svo er verður lítið um nám hjá viðkomandi. Kennarar hafa verið að taka á málum af þessu tagi og mörg þeirra lenda hjá skólastjórnendum og þarf oft mikla vinnu til að koma á sáttum og góðum friði.

 

Samskiptasamfélag af þessu tagi er oft of flókið og ögrandi fyrir þann þroska sem börn og unglingar búa yfir. Þau átta sig ekki á því að það sem þau skrifa sjá margir aðrir, það getur misskilist og það getur sært aðra og valdið miklum leiðindum. Svo eru þau líka að safna sem flestum „vinum“ og sumir sem óska eftir „vinfengi“ kunna að vera varasamir.

 

Ég vil biðja foreldra að hugleiða þessi mál og fylgjast með og skoða „facebook“ svæði barna sinna. Ábyrgð foreldra er mikil þegar kemur að netnotkun og mikilvægt er að leiðbeina börnum og unglingum hvernig á að ganga um í netsamfélagi eins og „facebook“.

 

Með kveðju – Hafsteinn Karlsson, skólastjóri

kassi-600.png

Skólanum færð gjöf

kassi-600.pngÚlfar Andri Sölvason nemandi í þröstum kom færandi hendi í skólann í morgun. Hann gaf skólanum glænýtt spil, Vikings, sem er algjörlega íslensk hönnun. Hann sagði að pabbi sinn hefði hannað spilið og það væri mjög skemmtilegt. Hann afhenti skólastjóra spilið að viðstöddum bekkjarfélögum sínum og saman fór allur hópurinn inn bókasafn þar sem spilið verður til útláns. Við þökkum kærlega fyrir þessa góðu gjöf.

 

Ömurlegir eineltistilburðir

Næstkomandi föstudag hefur verið boðaður á Feisbúkk "kick a ginger day" og þá á að sparka í þá sem eru rauðhærðir. Við höfum verulegar áhyggjur af þessu. Fyrir ári síðan máttu rauðhærðir krakkar þola mikið ofbeldi í skólum vestan hafs.

Þessi fáránleiki má ekki ná hingað. Við biðjum ykkur um að ræða þetta við ykkar krakka og kennarar munu einnig tala við bekkina sína.

Ef einhver nemandi fer að haga sér með þeim hætti sem þarna er boðaður verður brugðist hart við. Skólinn með þeim úrræðum sem hann hefur og félagsmiðstöðin hefur ákveðið að útiloka þá frá starfinu þar í einn mánuð.

Tökum höndum saman og komum í veg fyrir svona ömurlega eineltistilburði.