Hildur Berglind Jóhannsdóttir sem er nemandi í Ritum í Salaskóla gerði sér lítið fyrir um helgina og varð Íslandsmeistari stúlkna 10 ára og yngri. Við óskum Hildi innilega til hamingju með frábæran árangur og óskum henni áframhaldandi góðs gengis.
Category Archives: Fréttir
Þótt vindar blási er Salaskóli opinn
Þrátt fyrir smá gjóstur í morgun þá opnuðum við skólann á venjulegum tíma. Það eru foreldraviðtöl í skólanum, allir kennarar komnir í hús og byrjaðir að ræða við foreldra. Dægradvölin opnaði kl. 8:00.
Að gefnu tilefni viljum við taka fram að skólahald í Salaskóla fellur ekki niður vegna veðurs. Hins vegar er það foreldra að meta hvort þeir senda börn sín í skólann þegar illviðri geisa.
Landspítala afhent gjöf
Krakkarnir í 7. og 8. bekk söfnuðu fé til Landspítala Hringsins í desember með því að halda jólamarkað í skólanum þar sem seld voru jólakort, listaverk, kökur og góðgæti. Ágóðinn var afhentur Landspítalanum við hátíðlega athöfn í sal skólans í morgun þar sem forsvarsmenn Landspítalans tóku við gjöfinni og þökkuðu þann hlýhug sem krakkarnir sýndu í verki.
Ekki lengur mannekla í dægradvöl
Í allt haust vantaði okkur starfsfólk í dægradvöl, en með dugnaði starfsfólks þar tókst okkur að halda henni gangandi. Nú um áramótin bættist við starfsfólk og nú er dægradvölin fullmönnuð. Rétt tæplega hundrað börn eru í dægradvölinni og oft mikið fjör á daginn. HK hefur tekið upp samstarf við okkur og við erum einnig að leita samstarfs við önnur íþrótta- og tómstundafélög.
Hressir krakkar í útikennslu
Útikennsla fellur ekki niður þó illa viðri. Það er bara að búa sig vel og vera í góðum og hlýjum fatnaði. Hópur í 3.- 4.bekk var að byrja í útikennslu í dag. Á milli þess sem gengið var milli heimila til að taka myndir af krökkunum var rassaþotukeppni og nestistími. Regla númer eitt var höfð að leiðarljósi og það var að skemmta sér vel.
Prófadagar hjá nemendum í 8. – 10. bekk
Nú eru prófadagar hjá elstu nemendum skólans. Nemendur koma til prófs kl. 8:30 á morgnana og fara síðan heim að prófi loknu. Prófum lýkur nk. föstudag. Hér koma nokkur góð ráð til krakka sem eru í próflestri.
Myndasöfn
Hækkun á matarverði
Máltíðin í mötuneyti Salaskóla hefur að undanförnu verið á 235 kr. Vegna verðhækkana síðustu mánuði sjáum við okkur tilneydd til að hækka matarverðið í 250 kr. máltíðina. Hækkun þessi gildir frá næstu mánaðamótum.
Við viljum einnig biðja foreldra um að virða gjalddaga, því að við eigum erfitt með að standa í skilum ef gjöldin skila sér ekki á réttum tíma.
Áfram samstarf við HK
Fyrir áramót tókum við upp samstarf við íþróttafélagið HK um æfingar fyrir yngri börn á dægradvalartíma krakkanna. Rúta kom í skólann og fór með nemendur í íþróttahúsið Kórinn og skilaði þeim svo aftur hingað.
Þetta heldur áfram nú í janúar, óbreytt að mestu. Þó er sú breyting að þetta verður á mánudögum og föstudögum, fimmtudagarnir detta út. Rúta kemur hingað og skilar börnunum svo aftur hingað í skólann að lokinni æfingu.
Við erum með samstarf við fleiri íþrótta- og æskulýðsfélög í bígerð og vonum að málin skýrist fljótlega hvað það varðar.