Hjólabretti, hlaupahjól, reiðhjól og hjólaskór

Að gefnu tilefni skal tekið fram að
– hjólabretti og hlaupahjól séu geymd heima á skólatíma en dregin fram eftir að skóla lýkur
– krakkarnir komi ekki á hjólaskóm í skólann þar sem þeir skemma dúkinn á skólagöngunum
– þeir sem koma á reiðhjóli í skólann hafi hjálm á höfðinu.
Þetta var ákveðið á kennarafundi fyrr í dag. Smellið á "lesa meira" fyrir frekari rökstuðning.

Það er kominn vorhugur í okkur öll og ekki síst krakkana. Þá eru sumarleikföngin dregin fram og tími útileikja hefst. Á hverju degi kemur fjöldi krakka í skólann með hlaupahjól, hjólabretti eða á reiðhjólum. Sumir eru líka á skóm sem eru með hjólum í sólanum og hægt að renna sér á ógnarhraða ef undirlagið er nógu gott.

Við í Salaskóla fögnum því hvað krakkarnir eru duglegir að hreyfa sig. En samt sem áður erum við í talsverðum vandræðum með þessi leiktæki hér á skólatíma. Hjólabretti og hlaupahjól er ekki hægt að skilja eftir úti vegna hættu á að þeim verði stolið. Og við höfum ekkert geymslupláss til að geyma þau á meðan á skólatíma stendur. Krakkarnir hafa borið hjólabrettin með sér inn í kennslustofur og það hefur valdið talsverðum vandræðum. Hlauphjólin liggja í hrúgu í eða við anddyri, ólæst, og sl. föstudag hurfu þrjú slík hjól og hafa eigendur þeirra ekki séð þau síðan. Skólinn ber enga ábyrgð á hjólunum, hvorki vegna þjófnaðar né skemmda. Ekki er neitt vesen með reiðhjólin, þau standa bara læst í hjólagrindunum við skólann.

Þá er annar þáttur í þessu sem við höfum áhyggjur af. Krakkarnir eru hjálmlaus bæði á hlaupahjólum og hjólabrettum. Slys hafa orðið, sem betur fer ekki alvarleg þó. En óvarið höfuð, sem þeystist um skólalóðina ofan á búk sem stendur á hjólabretti, er vissulega í hættu á að skaðast alvarlega.

Þar sem við berum ábyrgð á börnunum í frímínútum og á skólatíma getum við ekki leyft þeim að leika sér á þessum leiktækjum í frímínútum. Það eru því vinsamleg tilmæli okkar til ykkar foreldrar að hlaupahjólin og hjólabrettin verði geymd heima en dregin fram eftir að skólatíma lýkur. Sjálfsagt er að koma á reiðhjóli í skólann en þó biðjum við ykkur í endilega að tryggja að reiðhjólahjálmurinn sé þar sem hann á að vera, á höfðinu. Vil þó taka fram að við berum enga ábyrgð á reiðhjólinu.

Hjólaskórnir eru ákveðið vandamál, þar sem krakkarnir freistast til að renna sér á þeim eftir dúknum á göngum skólans. Dúkurinn hefur skemmst vegna þessa og við mælumst því til að aðrir skór séu notaðir í skólann.

Við viljum taka fram að við höfum óskað eftir því við bæjaryfirvöld að hér verði sett upp einhver aðstaða fyrir hjólabrettaáhugamenn. Vonir standa til þess að það verði gert í sumar. Þá viljum við einnig taka fram að við erum að vinna að því lausn á þessum málum öllum fyrir haustið, því okkur er ekki ljúft að banna notkun jafn frábærra leiktækja og hér um ræðir. En þangað til verða ofangreindar reglur að gilda.

86% foreldra ánægðir með Salaskóla

86% foreldra í Salaskóla eru ánægð með skólann skv. foreldrakönnuninni sem lögð var fyrir í apríl. Rúmlega 8% hafa ekki skoðun og tæp 6% eru óánægð. Sambærilegri spurningu svöruðu foreldrar í grunnskólum Reykjavíkur árið 2006 og þá voru 80% foreldra ánægð með skólann sem barnið þeirra var í, rúmlega 12% höfðu ekki skoðun og tæp 8% lýstu óánægju.

387 foreldrar svöruðu spurningunni í könnuninni hjá okkur. Við erum vissulega ánægð með niðurstöðuna, en vildum gjarnan hafa enn fleiri foreldra ánægða. Það eru 22 foreldrar sem lýsa óánægju og þann hóp viljum við gjarnan minnka.

Þessi könnun er mikilvægur þáttur í að bæta skólastarfið. Við erum að vinna úr henni og væntum þess að geta kynnt niðurstöður þegar líður á mánuðinn.

Viðhorfakönnunin – meirihluti hafnar skólabúningum!

Á miðnætti á laugardag lauk viðhorfakönnuninni meðal foreldra. Könnunin fór fram á vefnum og alls svöruðu henni 391 foreldri. Gera má ráð fyrir að það séu foreldrar um 70% barna í Salaskóla. Við munum vinna úr könnuninni eins hratt og við getum og kynna niðurstöður fyrir foreldrum. Meðan á heildarvinnslu stendur má búast við glefsum úr niðurstöðum hér á heimasíðu skólans. 

Nú þegar liggur fyrir afstaða foreldra í Salaskóla til skólabúninga. 300 foreldrar tóku afstöðu með eða á móti skólabúningum, 91 hafði ekki skoðun eða svörðuðu ekki. Af þeim sem tóku afstöðu voru 40% hlynnt skólabúningum en 60% á móti.  

Breytingar í bígerð

Þó nokkrar breytingar eru fyrirhugaðar á skipulagi kennslu á öllum aldursstigum í haust. Kennarar hafa farið vandlega í saumana á kennsluháttum og skoðað hvað má betur fara. Einnig hafa niðurstöður úr PISA og samræmdum prófum verið til skoðunar sem og umræður og tillögur foreldra sem komu fram í morgunkaffinu fyrr í vetur. 

Niðurstaða okkar kemur fram í tveimur viðamiklum þróunarverkefnum sem þegar er byrjað að vinna að. Annað verkefnið nær yfir 1. – 7. bekk og þar er líklega sýnilegasta breytingin sú að bekkir verða ekki lengur aldursblandaðir, heldur verða í hverjum bekk nemendur sem fæddir eru á sama ári. Hver bekkur mun hins vegar eiga sér samstarfsbekk einum árgangi ofar eða neðar. Bekkirnir munu svo vinna saman að verkefnum þar sem aldursblöndun hentar vel. 

Á unglingastigi verður  skipulagi breytt þannig að auðveldara verði að koma til móts við ólíkan námsstíl nemenda. Hugmyndir okkar ganga út á að taka að hluta til upp áfangakerfi svipað og þekkist í framhaldsskólum, auka vinnu að stórum verkefnum, búa til leið fyrir nemendur sem eru mjög sjálfstæðir í námi og auka þátt list- og verkgreina á unglingastigi.

Við ætlum að auka fjölbreytni í kennsluháttum í öllum árgöngum. Gera starfið fjölbreyttara og freista þess að gera starfið í skólanum áhugavert fyrir alla nemendur. 

Fljótlega verða foreldrar boðnir á frekari kynningu á þessum hugmyndum. Þær eru í mótun og vinnslu þó svo að meginlínur liggi fyrir. Þess má geta að sótt hefur verið um styrki til að vinna þessi verkefni. 

Könnun á viðhorfum foreldra

Við erum nú að kanna viðhorf foreldra skólastarfsins. Þetta er liður í því að bæta skólastarfið og afar mikilvægt fyrir okkur nú í undirbúningi fyrir næsta skólaár. Við viljum því hvetja foreldra til að svara könnuninni. Niðurstöður verða birtar fljótlega eftir að könnun er lokið. Könnuninni verður lokað 19. apríl.

Í raun er um þrjár kannanir að ræða, eina fyrir yngsta stig, aðra fyrir miðstig og þá þriðju fyrir unglingastig.

Foreldrar fá línk inn á könnunina senda í tölvupósti. Ef einhver fær hann ekki er hann beðinn um að senda okkur línu eða hringja og fá aðgang. Netfangið er hafsteinn@kopavogur.is og síminn 570 4600.