Til foreldra í Kópavogi

 
Tilkynning frá forvarnarfulltrúa Kópavogs: Næstkomandi 2. febrúar stendur Techno.is fyrir tónleikum á vínveitingastaðnum Broadway. Tvennir tónleikar fara þar fram aðrir fyrir 16 – 20 ára sem fara fram fyrr um kvöldið og síðar um kvöldið fara fram tónleikar fyrir 20 ára og eldri.

 

Það sem fer fyrir brjóstið á okkur sem stöndum að forvörnum, æskulýðsstarfi og reynum að hafa velferð barna og unglinga að leiðarljósi er aðallega tvennt:

Svo virðist sem að börn sem eru yngri geti keypt sér miða á tónleikana, margar leiðir hafa verið nefndar. Hitt er að skemmtunin fyrir 16 ára og eldri  fer fram á vínveitingastað, reyndar verður ekki selt áfengi á fyrri tónleikunum.

Við viljum hvetja foreldra barna yngri en 16 ára til að íhuga vel hvort börn þeirra eigi raunverulegt erindi á svona skemmtanir.

                                             Arnar Ævarsson, forvarnarfulltrúi

Þótt vindar blási er Salaskóli opinn

Þrátt fyrir smá gjóstur í morgun þá opnuðum við skólann á venjulegum tíma. Það eru foreldraviðtöl í skólanum, allir kennarar komnir í hús og byrjaðir að ræða við foreldra. Dægradvölin opnaði kl. 8:00.

Að gefnu tilefni viljum við taka fram að skólahald í Salaskóla fellur ekki niður vegna veðurs. Hins vegar er það foreldra að meta hvort þeir senda börn sín í skólann þegar illviðri geisa.

Ekki lengur mannekla í dægradvöl

Í allt haust vantaði okkur starfsfólk í dægradvöl, en með dugnaði starfsfólks þar tókst okkur að halda henni gangandi. Nú um áramótin bættist við starfsfólk og nú er dægradvölin fullmönnuð. Rétt tæplega hundrað börn eru í dægradvölinni og oft mikið fjör á daginn. HK hefur tekið upp samstarf við okkur og við erum einnig að leita samstarfs við önnur íþrótta- og tómstundafélög.

Hækkun á matarverði

Máltíðin í mötuneyti Salaskóla hefur að undanförnu verið á 235 kr. Vegna verðhækkana síðustu mánuði sjáum við okkur tilneydd til að hækka matarverðið í 250 kr. máltíðina. Hækkun þessi gildir frá næstu mánaðamótum.

Við viljum einnig biðja foreldra um að virða gjalddaga, því að við eigum erfitt með að standa í skilum ef gjöldin skila sér ekki á réttum tíma.

Áfram samstarf við HK

Fyrir áramót tókum við upp samstarf við íþróttafélagið HK um æfingar fyrir yngri börn á dægradvalartíma krakkanna. Rúta kom í skólann og fór með nemendur í íþróttahúsið Kórinn og skilaði þeim svo aftur hingað.

Þetta heldur áfram nú í janúar, óbreytt að mestu. Þó er sú breyting að þetta verður á mánudögum og föstudögum, fimmtudagarnir detta út. Rúta kemur hingað og skilar börnunum svo aftur hingað í skólann að lokinni æfingu.

Við erum með samstarf við fleiri íþrótta- og æskulýðsfélög í bígerð og vonum að málin skýrist fljótlega hvað það varðar.

Salaskóli á meðaltalinu

Niðurstöður samræmdra könnunarprófa í 4. og 7. bekk bárust í þann mund sem jólafrí brast á. Við höfum reiknað út meðaltalið fyrir skólann og er það nánast það sama og landsmeðaltal. Taflan sýnir útkomuna:

 

 Salaskóli  Landsmeðaltal  
 4. bekkur íslenska  6,4  6,2  
 4. bekkur stærðfræði  6,8  6,8  
 7. bekkur íslenska  6,8  7,0  
 7. bekkur stærðfræði  7,0  7,0  

 

Mikil veikindi í Salaskóla

Talsverð forföll eru nú meðal starfsfólks Salaskóla og þrátt fyrir góðan vilja tekst okkur ekki að manna þau öll. Við látum yngstu nemendur ganga fyrir og þurfum stundum að grípa til þess ráðs að fella niður kennslu hjá eldri nemendum. Vonandi gengur þetta hratt yfir.