Innritun í framhaldsskóla – kynningarfundur

Miðvikudaginn 3. mars verður kynningarfundur um innritun í framhaldsskóla í vor. Sölvi Sveinsson kemur frá menntamálaráðuneytinu og segir frá breyttum aðferðum og svarar fyrirspurnum. Mikilvægt að foreldrar mæti og kynni sér málið. Fundurinn verður  kl. 20.00 hér í Salaskóla. Á hann eru einnig boðaðir foreldrar úr nágrannaskólunum.

Innritun í grunnskóla Kópavogs fyrir skólaárið 2010 – 2011

Innritun 6 ára barna (fædd 2004) fer fram í grunnskólum Kópavogs mánudaginn 8. og þriðjudaginn 9. mars. Sjá heimasíður skólanna.

Sömu daga fer fram innritun nemenda sem flytjast milli skólahverfa og þeirra sem flytja í Kópavog eða koma úr einkaskólum.

Nemendur í 1. – 10. bekk sem búa í Kórahverfi innritast í Hörðuvallaskóla.

Haustið 2010 munu skólar hefjast með skólasetningardegi mánudaginn 23. ágúst. Foreldrar eru hvattir til að skoða heimasíður skólanna.

Sérstök athygli er vakin á því að umsóknarfrestur um heimild til að stunda nám í einkaskólum eða grunnskólum annarra sveitarfélaga er til 1. apríl og skulu umsóknir berast fræðsluskrifstofu rafrænt á eyðublaði sem er á heimasíðunni www.kopavogur.is. Sækja þarf um að nýju fyrir nemendur, sem nú eru í slíkum skólum, ef gert er ráð fyrir að þeir verði þar næsta vetur.

Framkvæmdastjóri fræðslusviðs

Dregur úr einelti í Salaskóla

Í desember var gerð könnun meðal nemenda í 4. – 10. bekk um einelti. Samskonar könnun hefur verið lögð fyrir á hverju hausti undanfarin ár. Niðurstöður könnunarinnar er athyglisverðar. Í fyrsta lagi dregur heldur úr einelti frá því fyrir ári síðan, þ.e. nú segjast 9% nemenda hafa orðið fyrir einelti á móti tæplega 15% í fyrra. Auk þess líður nemendum almennt betur en fram kom í fyrra.

Fleira áhugavert kemur fram. Mikill munur kemur fram í viðhorfum stráka og stelpna til eineltis. Fleiri stelpur eru tilbúnar að leggja aðra í einelti en strákar og einnig eru fleiri stelpur sem segjast hafa lagt aðra í einelti sl. 2-3 mánuði.

Niðurstöðurnar má finna hér á heimasíðunni Niðurstöður Olweusar-könnunar des. 2009 

Vegna veðurs

Skv. veðurspá fer veður á höfuðborgarsvæðinu versnandi þegar líður á daginn og það getur skollið á blindbylur.

Við höfum því slegið skákmóti nemenda í 1. – 4. bekk sem átti að vera í dag á frest og það verður eftir viku.

Dægradvölin er opin en við hvetjum þá foreldra sem það geta að sækja börn sín fyrr í dag.

vidhorfskonnun.jpg

Viðhorfakönnun foreldra

Vorið 2009 var gerð könnun meðal foreldra um viðhorf þeirra til skólans og skólastarfsins. Könnunin er liður í sjálfsmati skólans og eru niðurstöður úr henni nú aðgengilegar á vefsíðu skólans. Smellið hér eða farið inn á hnappinn SKÓLINN og veljið Mat á skólastarfi. 

vidhorfskonnun.jpg

100dagar.jpg

Hundraðdagahátíðin

100dagar.jpgMánudaginn 8. febrúar síðastliðinn var hundraðasti skóladagurinn hjá fyrsta bekk og var haldin hátíð í tilefni þess. Bekkjunum  var öllum  blandað saman og fóru þau á stöðvar og unnu ýmis verkefni tengd tugum og hundraði. Þau bjuggu meðal annars til 100 daga kórónu, heftuðu saman 10 hlekki og tíndu 10 mismunandi góðgæti í poka þar sem 10 var af hverri sort. Að stöðvavinnunni lokinni var svo horft á mynd og nammið borðar. Dagurinn gekk mjög vel og voru krakkarnir stillt og góð.

oskudagursmall.jpg

Öskudagsgleðin tókst vel – MYNDIR

oskudagursmall.jpgMYNDIRNAR segja sína sögu. Prúðbúnar verur, sumar býsna skuggalegar, aðrar afar hátíðlegar sáust á göngum Salaskóla í morgun. Stóru krakkarnir aðstoðuðu þau yngri við andlitsmálningu og allir höfðu nóg fyrir stafni. Búnar voru til grímur og hattar, farið í leiki, málað, kókoskúlur framleiddar í stórum stíl svo eitthvað sé nefnt. 

Sum þau eldri brugðu sér í íþróttahúsið og áttu góða stund þar við íþróttaiðkun. Allir dönsuðu, sungu og virtust skemmta sér hið besta. Pylsurnar runnu síðan ljúflega niður í hádeginu eftir lífleg morgunverk. 

Vetrarleyfi

Vetrarleyfi verður í Salaskóla dagana 18. – 19. febrúar eins og fram kemur á skóladagatali. Einnig er frí hjá nemendum mánudaginn 22. febrúar á skipulagsdegi kennara. Nemendur mæta í skólann aftur þriðjudaginn 23. febrúar samkvæmt stundaskrá.

trudur2.jpg

Fjör á öskudag

trudur2.jpgÁ morgun, öskudag, verður mikið fjör hér í skólanum. Þá verður skólastarf brotið upp með ýmsum uppákomum. Nemendur mæta um kl. 9 en geta komið fyrr ef foreldrar óska þess. Það má koma í grímubúningum og boðið er upp á andlitsmálun í skólanum. Skemmtun verður á sal fyrir alla aldurshópa þar sem verður mikið glens og gaman en auk þess verður stöðvavinna og ýmislegt fleira í boði fyrir krakkana. Endað verður á pylsuveislu um klukkan 12. Hlökkum til að sjá ykkur, krakkar.

Takið vel á móti dósasöfnurum

Lególiðið okkar varð Íslandsmeistari síðasta haust. Liðið er því á leið á Evrópumót grunnskóla í Legó í Istanbúl 21. – 25. apríl. nk. Liðið þarf að safna fyrir ferðinni og mun gera það með ýmsum hætti. Nú næstu daga ætla krakkarnir að ganga í hús í hverfinu og safna dósum og biðjum við ykkur um að taka vel á móti þeim og leggja þessu verkefni lið með. Krakkarnir verða sérstaklega merktir.

Ef einhver hefur aðgang að fyrirtæki sem er tilbúið til að leggja fram styrk og fá í staðinn nafns síns getið eða lógó, þá þiggjum við það líka, þarf ekki að vera meira en 5 þús kr. en allt er þegið. Hafið samband við skólastjóra ef um slíkt er að ræða.

LEGÓ keppnin er árleg keppni milli grunnskóla á Íslandi í tækniúrlausnum og eru LEGÓ kubbar notaðir í því skyni. Reynir mjög á tæknilega úrlausnir, frumkvöðla hugsun, skapandi nálgun, forritun, rannsóknarvinnu að ógleymdri samvinnu nemenda. Salaskóli hefur verið framarlega í þessum fræðum á undanförnum árum.

Skapandi hugsun er grundvöllur nýsköpunar í atvinnulífi. Mikilvægt er hún fái aukið vægi í námi barna og unglinga. Með þátttöku í Evrópukeppni af þessari tagi verður hægt að vekja athygli á þessu mikilvæga starfi og hrífa fleiri með, til heilla fyrir íslenskt atvinnulíf.

Lið Salaskóla er einstaklega öflugt núna og vonir standa til að ná góðu gengi á mótinu. Það myndi væntanlega vekja jákvæða athygli á landi og þjóð úti í henni Evrópu.

Kostnaður við ferðina er nokkur og felst að mestu í að komast til og frá keppnisstað auk gistingar. Nemendur verða sjálfir að kosta ferðina þar sem skólinn sem slíkur hefur ekki fjármuni til að standa straum af ferðinni. Því leitum við til ykkar um aðstoð við fjáröflun, þar sem margt smátt gerir eitt stórt.