Á morgun, öskudag, verður mikið fjör hér í skólanum. Þá verður skólastarf brotið upp með ýmsum uppákomum. Nemendur mæta um kl. 9 en geta komið fyrr ef foreldrar óska þess. Það má koma í grímubúningum og boðið er upp á andlitsmálun í skólanum. Skemmtun verður á sal fyrir alla aldurshópa þar sem verður mikið glens og gaman en auk þess verður stöðvavinna og ýmislegt fleira í boði fyrir krakkana. Endað verður á pylsuveislu um klukkan 12. Hlökkum til að sjá ykkur, krakkar.
Category Archives: Fréttir
Takið vel á móti dósasöfnurum
Lególiðið okkar varð Íslandsmeistari síðasta haust. Liðið er því á leið á Evrópumót grunnskóla í Legó í Istanbúl 21. – 25. apríl. nk. Liðið þarf að safna fyrir ferðinni og mun gera það með ýmsum hætti. Nú næstu daga ætla krakkarnir að ganga í hús í hverfinu og safna dósum og biðjum við ykkur um að taka vel á móti þeim og leggja þessu verkefni lið með. Krakkarnir verða sérstaklega merktir.
Ef einhver hefur aðgang að fyrirtæki sem er tilbúið til að leggja fram styrk og fá í staðinn nafns síns getið eða lógó, þá þiggjum við það líka, þarf ekki að vera meira en 5 þús kr. en allt er þegið. Hafið samband við skólastjóra ef um slíkt er að ræða.
LEGÓ keppnin er árleg keppni milli grunnskóla á Íslandi í tækniúrlausnum og eru LEGÓ kubbar notaðir í því skyni. Reynir mjög á tæknilega úrlausnir, frumkvöðla hugsun, skapandi nálgun, forritun, rannsóknarvinnu að ógleymdri samvinnu nemenda. Salaskóli hefur verið framarlega í þessum fræðum á undanförnum árum.
Skapandi hugsun er grundvöllur nýsköpunar í atvinnulífi. Mikilvægt er hún fái aukið vægi í námi barna og unglinga. Með þátttöku í Evrópukeppni af þessari tagi verður hægt að vekja athygli á þessu mikilvæga starfi og hrífa fleiri með, til heilla fyrir íslenskt atvinnulíf.
Lið Salaskóla er einstaklega öflugt núna og vonir standa til að ná góðu gengi á mótinu. Það myndi væntanlega vekja jákvæða athygli á landi og þjóð úti í henni Evrópu.
Kostnaður við ferðina er nokkur og felst að mestu í að komast til og frá keppnisstað auk gistingar. Nemendur verða sjálfir að kosta ferðina þar sem skólinn sem slíkur hefur ekki fjármuni til að standa straum af ferðinni. Því leitum við til ykkar um aðstoð við fjáröflun, þar sem margt smátt gerir eitt stórt.
Innritun í framhaldsskóla fyrir haustönn 2010
Rafræn innritun
Innritun í framhaldsskóla er rafræn, þ.e. sótt er um skólavist á netinu. Framhaldsskólar skilgreina sjálfir í samráði við menntamálaráðuneytið inntökuskilyrði á einstakar námsbrautir. Inntökuskilyrði eru birt í skólanámskrá á vefsíðu hvers framhaldsskóla.
Smellið á lesa meira til að fá frekari upplýsingar.
Innritun nemenda úr 10. bekk grunnskóla (fæddir 1994 eða síðar)
Forinnritun verður 12.-16. apríl. Þá eiga nemendur að velja aðalskóla og annan til vara. Nemendur í tilteknum grunnskólum eiga forgang að skólavist í ákveðnum framhaldsskólum hafi þeir staðist inntökuskilyrði. Þeim er hins vegar frjálst að sækja um hvaða skóla sem er.
Þar sem innritun fer fram á netinu þurfa nemendur að komast í nettengda tölvu til að geta sótt um. Hægt er að komast í nettengdar tölvur bæði í grunnskólum og framhaldskólum.
Allir framhaldsskólar bjóða upp á aðstoð sé hennar óskað.
Þarf að senda eitthvað með umsóknunum?
Nemendur 10. bekkjar þurfa ekki að senda afrit af prófskírteinum úr með umsóknum. Einkunnirnar verða sendar rafrænt til þess skóla sem sótt er um. Vottorð eða sérstakar upplýsingar um nemendur, sem ekki er að finna á rafræna umsóknareyðublaðinu, geta nemendur hengt við umsókn sem fylgiskjal eða sent í pósti til skóla. Aðrir umsækjendur þurfa að senda með umsókn gögn sem ekki eru til staðar í upplýsingakerfi framhaldsskóla (Innu).
Hvar má fá aðstoð og ráðgjöf?
Námsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum þekkja vel til náms á framhaldsskólastigi og eru umsækjendur hvattir til að leita upplýsinga og ráðgjafar hjá þeim. Gott er að vera tímanlega á ferðinni því að maímánuður er mikill annatími í framhaldsskólum.
Hvernig er sótt um?
Umsækjendur þurfa að sækja um veflykil sem opnar þeim persónulegan aðgang að innrituninni. Sótt er um veflykil frá og með 1. apríl á menntagatt.is/innritun og kemur hann til baka í tölvupósti. Á sama stað er rafrænt umsóknareyðublað með leiðbeiningum og ýmsar upplýsingar um nám í framhaldsskólum.
Skákakademia í Salaskóla
Við hófum störf hjá skákakademiu Kópavogs föstudaginn 29. janúar 2010. Skákakademia Kópavogs er styrkt af skákstyrktarsjóði Kópavogs. Kennarar eru frá Skákskóla Íslands en Salaskóli sér um aðbúnað og aðstöðu. Á myndinni sem fylgir eru eftirtaldir einstaklingar.
Aftari röð frá vinstri:
Lenka Ptacnikova skákmeistari og skákkennari, Tómas Rasmus kennari, Helgi Ólafsson stórmeistari og skákkennari og Hafsteinn Karlsson, skólastjóri Salaskóla.
Fremri röð: Skáknemendur í fyrsta tímanum hjá skákakademiunni.
Hildur Berglind Jóhannsdóttir, Eiríkur Örn Brynjarsson, Ómar Yamak, Guðmundur Kristinn Lee og Birkir Karl Sigurðsson.
Fleiri nemendur eru væntanlegir.
Æfingar skákakademiunnar verða líklega framvegis þannig:
Staður vísindamiðstöð Salaskóla.
Mánudagur kl: 14:00 til 16:00
Miðvikudagur kl: 12:30 til 14:00
Föstudagur kl: 14:00 til 16:00
Morgunkaffi – dagsetningar komnar
Nú eru skólastjórnendur að bjóða foreldrum hvers bekkjar í morgunkaffi með spjalli og spekúleringum um skólastarfið. Fundirnir hefjast allir kl. 8:10 og eru á kaffistofu starfsmanna. Að loknu spjalli er bekkurinn heimsóttur. Allt búið kl. 9:00. Dagsetningar eru komnar hér á netið og hægt er að sjá þær með því að smella hér.
Við hvetjum alla foreldra, bæði pabba og mömmur til að mæta.
Góðgæti í heimilisfræði
Í heimilisfræði læra nemendur góðar vinnuaðferðir í meðferð matvæla og útbúa alls kyns góðgæti þar sem ákveðnar uppskriftir eru lagðar til grundvallar. Nemendur eru oft spenntir að fá uppskriftir heim til þess að þeir geti prófað sig áfram þar. Uppskriftum nemenda í 1. – 4. bekk hefur verið safnað saman í eina bók og er að finna í heimilisfræðihorninu hér á síðunni ásamt fleiri uppskriftum.
Morgunkaffi fyrir foreldra í 1. bekk
Skólastjórnendur í Salaskóla bjóða foreldrum hvers bekkjar fyrir sig í morgunkaffi einu sinni á vetri. Þriðjudaginn 26. janúar er foreldrum Glókolla boðið. Við byrjum kl. 8:10 og erum á kaffistofu starfsmanna. Bjóðum ykkur velkomin þangað. Á fundinum ræðum við skólastarfið almennt og viljum gjarnan heyra ykkar upplifun, hugmyndir og skoðanir. Eftir spjall heimsækjum við bekkinn. Allt búið kl. 9:00. Það er mjög mikilvægt að allir mæti og hvetjum feður jafnt sem mæður að koma. Miðvikudaginn 27. koma svo foreldrar Sólskríkja og foreldrar Stara fimmtudaginn 28. janúar.
Vetrarleyfi
Vetrarleyfi verður 18. og 19. febrúar. Við vekjum athygli á að við erum með vetrarleyfi á öðrum tíma en aðrir skólar í Kópavogi. Þetta var ákveðið síðasta vor þar sem áhugi er á að hafa börnin í skólanum bolludag, sprengidag og öskudag. Á öskudag verður skóladagur þó styttri en venjulega. Þá verður furðufatadagur í skólanum og skemmtileg dagskrá fyrir alla nemendur frá kl. 9:00 – 12:00. Nemendur geta þó mætt til kennara sinna kl. 8:10, en við gefum svigrúm til kl. 9:00 svo tími sé til að koma sér í furðufötin.