100dagar

Hundraðdagahátíðin

100dagar
Í dag eru fyrstubekkingarnir okkar búnir að vera 100 daga í skólanum og af því tilefni var haldið upp á daginn með hundraðdagahátíð. Þá er nú margt gert sér til skemmtunar og mikið um að vera. Nú rétt fyrir hádegi í dag var búið að koma fyrir tíu skálum með góðgæti á eitt stórt borð  og það var verkefni hvers og eins að telja tíu mola í poka úr hverri skál sem gerði alls hundrað. Krakkarnir voru mjög einbeittir við þetta verkefni og létu ekkert trufla sig enda nákvæmisverk að telja nákvæmlega 100 stykki. Ýmiss önnur verkefni voru í gangi t.d. bjuggu allir sér til hundraðdagakórónu og röðuðu 100 perlum upp á band. Eftir hádegismatinn verður svo sleginn botninn í veisluna með því að horfa á kvikmynd saman og borða nammið úr pokanum sínum. Skemmtileg hefð í Salaskóla sem hefur viðgengist nokkuð lengi. Myndir frá hátíðinni.

reykir3

Góðar fréttir úr Reykjaskóla

reykir3
Eins og fram hefur komið hér á síðunni dveljast sjöundubekkingar í skólabúðunum á Reykjum í Hrútafirði frá mánudegi fram á föstudag. Eftrifarandi fréttaskeyti barst frá kennurunum þeirra í gær:
Hér úr Reykjaskóla er allt gott að frétta.
Nemendur hafa verið frábærir og eru á fullu allan daginn í hópavinnu og skemmta sér mjög vel. Krakkarnir eru að kynnast nýjum vinum úr Austurbæjarskóla og ná hóparnir vel saman. Þau hafa fengið hrós frá starfsmönnum Reykjaskóla fyrir góða hegðun og mikla jákvæðni. Það kom í ljós að það var búið að fjarlægja tíkallasímann svo nemendur hafa ekki getað hringt heim sjálfir en hafa aðgang að síma á skrifstofu kennara ef þau vilja. Þau hafa hins vegar ekkert viljað hringja heim! 🙂 Þau virðast glöð með veru sína hér. Maturinn hér í skólanum hefur verið mjög góður og hafa nemendur tekið vel til matar síns. Þá eru þau sérstaklega ánægð með kvöldkaffið (mjólk, kex, muffins og kleinuhringir!)

Veðrið hefur verið mjög gott, pínu kalt en sól á lofti og fallegt veður. Næturnar ganga mjög vel. Að sjálfsögðu er aðeins vakað fram á kvöld…. en sofa eins og steinar ÞEGAR þau lognast út af :). Umgengni hefur verið góð á vistinni, búið um rúm alla morgna og skóm raðað nánast alltaf upp í hillur. Allir eru frískir og kátir. Einstaka hnútur í maga sem hefur liðið hjá eftir gott spjall. Yndislegir krakkar.    Björgvin og Hrafnhildur.      Myndir.

Sjöundubekkingar á Reykjum

Nemendur í 7. bekk sem lögðu af stað frá skólanum kl. 9 í morgun áleiðis til Reykja í Hrútafirði eru komnir á staðinn. Ferðin gekk vel og nú eru allir að koma sér fyrir á herbergjum áður en hádegismatur hefst.  

ltlar_hnatur

Gamli og nýi tíminn

ltlar_hnatur

Tvær litlar snótir í 1. bekk fengu það verkefni að reikna nokkur dæmi sem sett voru upp í spjaldtölvu (ipad). Dæmin voru misþung og sum reyndu meira á en önnur. Puttarnir voru á lofti en stundum vantaði fleiri putta til að klára dæmin. Hvað var til ráða? Þær gripu pinnabretti á næstu hillu, en eins og menn vita hefur það verið notað í stærðfræðinámi áratugum saman. Önnur þeirra taldi saman pinnana á brettinu  og hin var með spjaldtölvuna og saman fundu þær svarið sem var síðan skráð til þess að komast í næsta dæmi. Á endanum fengu þær rósir og verðlaunapening í spjaldtölvunni fyrir vel leyst verkefni.  Ekki dóu þær ráðalausar, þessar litlu duglegu hnátur.

ipadar__1._bekk_

Spjaldtölvur í Salaskóla

ipadar__1._bekk_
Áhuginn og einbeitnin skein út úr andlitum fyrstubekkinganna okkar, glókollanna, er þeir fengu í hendurnar spjaldtölvur (ipada) í síðustu tveimur kennslustundunum í gær. Tveir og tveir unnu saman og þeir gátu valið um nokkur verkefni í spjaldtölvunni t.d. að búa til lítið tónverk, „sulla“ í litríku vatni, búa til listaverk og raða saman pinnum eftir fyrirmynd. Allir kepptust við að vinna í verkefnunum sínum og samvinnan hefur sjaldan verið betri. Þetta er hluti af þróunarverkefni sem Salaskóli tekur þátt í á þessu skólaári en markmið þess er m.a. að auk aðgengi allra nemenda skólans að upplýsingatækni og þróa notkun spjaldtölva í öllu námi þeirra. Bæði kennarar og nemendur sýna verkefninu mikinn áhuga og margt er á döfinni í þessum efnum. Sjá myndir frá ipad-stund hjá glókollum og sólskríkjum.





jolaball

Gleðilega jólahátíð

jolaball
Afar prúðbúnir nemendur mættu í skólann í morgun á litlu jólin í Salaskóla. Gengið var í kringum jólatréð og var vel tekið undir jólasöngvana við undirspil hljómsveitarinnar Jólakúlnanna sem er skipuð starfsfólki Salaskóla. Skyndilega heyrðist brambolt við einn gluggann og inn kom veltandi jólasveinn sem mundi alls ekki hvað hann hét í fyrstu. En þegar sveinki var búinn að liðka sig aðeins og dansa með krökkunum kom í ljós að þetta var sjálfur Þvörusleikir. Hann lék á létta strengi og reitti af sér brandarana – sumir á kostnað kennaranna einhverra hluta vegna. Ætli jólasveinum sé illa við kennara? Allir skemmtu sér hið besta. Eftir velheppnuð litlu jól fóru krakkarnir heim með bros á vör og langþráð jólafrí hófst. 

Starfsfólk Salaskóla óskar nemendum og aðstandendum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári með þakklæti fyrir gott samstarf á árinu. Hittumst hress á ný föstudaginn 4. janúar skv. stundaskrá.  Nokkrar myndir sem sýna heimsókn Þvörusleikis.

Tónlistarkennara vantar við Salaskóla

Vegna forfalla vantar tónlistarkennara við Salaskóla frá 14. janúar og út skólaárið. Um er að ræða 70-100% starf. Auk tónlistarkennslu þarf viðkomandi að geta stjórnað kór skólans. Umsóknarfrestur er til 4. janúar. Upplýsingar um starfið gefur Hafsteinn Karlsson, skólastjóri í síma 8211630. Aðeins er hægt að sækja um starfið rafrænt á www.kopavogur.is.