Hjólabretti, hlaupahjól, reiðhjól og hjólaskór

Að gefnu tilefni skal tekið fram að
– hjólabretti og hlaupahjól séu geymd heima á skólatíma en dregin fram eftir að skóla lýkur
– krakkarnir komi ekki á hjólaskóm í skólann þar sem þeir skemma dúkinn á skólagöngunum
– þeir sem koma á reiðhjóli í skólann hafi hjálm á höfðinu.
Þetta var ákveðið á kennarafundi fyrr í dag. Smellið á "lesa meira" fyrir frekari rökstuðning.

Það er kominn vorhugur í okkur öll og ekki síst krakkana. Þá eru sumarleikföngin dregin fram og tími útileikja hefst. Á hverju degi kemur fjöldi krakka í skólann með hlaupahjól, hjólabretti eða á reiðhjólum. Sumir eru líka á skóm sem eru með hjólum í sólanum og hægt að renna sér á ógnarhraða ef undirlagið er nógu gott.

Við í Salaskóla fögnum því hvað krakkarnir eru duglegir að hreyfa sig. En samt sem áður erum við í talsverðum vandræðum með þessi leiktæki hér á skólatíma. Hjólabretti og hlaupahjól er ekki hægt að skilja eftir úti vegna hættu á að þeim verði stolið. Og við höfum ekkert geymslupláss til að geyma þau á meðan á skólatíma stendur. Krakkarnir hafa borið hjólabrettin með sér inn í kennslustofur og það hefur valdið talsverðum vandræðum. Hlauphjólin liggja í hrúgu í eða við anddyri, ólæst, og sl. föstudag hurfu þrjú slík hjól og hafa eigendur þeirra ekki séð þau síðan. Skólinn ber enga ábyrgð á hjólunum, hvorki vegna þjófnaðar né skemmda. Ekki er neitt vesen með reiðhjólin, þau standa bara læst í hjólagrindunum við skólann.

Þá er annar þáttur í þessu sem við höfum áhyggjur af. Krakkarnir eru hjálmlaus bæði á hlaupahjólum og hjólabrettum. Slys hafa orðið, sem betur fer ekki alvarleg þó. En óvarið höfuð, sem þeystist um skólalóðina ofan á búk sem stendur á hjólabretti, er vissulega í hættu á að skaðast alvarlega.

Þar sem við berum ábyrgð á börnunum í frímínútum og á skólatíma getum við ekki leyft þeim að leika sér á þessum leiktækjum í frímínútum. Það eru því vinsamleg tilmæli okkar til ykkar foreldrar að hlaupahjólin og hjólabrettin verði geymd heima en dregin fram eftir að skólatíma lýkur. Sjálfsagt er að koma á reiðhjóli í skólann en þó biðjum við ykkur í endilega að tryggja að reiðhjólahjálmurinn sé þar sem hann á að vera, á höfðinu. Vil þó taka fram að við berum enga ábyrgð á reiðhjólinu.

Hjólaskórnir eru ákveðið vandamál, þar sem krakkarnir freistast til að renna sér á þeim eftir dúknum á göngum skólans. Dúkurinn hefur skemmst vegna þessa og við mælumst því til að aðrir skór séu notaðir í skólann.

Við viljum taka fram að við höfum óskað eftir því við bæjaryfirvöld að hér verði sett upp einhver aðstaða fyrir hjólabrettaáhugamenn. Vonir standa til þess að það verði gert í sumar. Þá viljum við einnig taka fram að við erum að vinna að því lausn á þessum málum öllum fyrir haustið, því okkur er ekki ljúft að banna notkun jafn frábærra leiktækja og hér um ræðir. En þangað til verða ofangreindar reglur að gilda.

86% foreldra ánægðir með Salaskóla

86% foreldra í Salaskóla eru ánægð með skólann skv. foreldrakönnuninni sem lögð var fyrir í apríl. Rúmlega 8% hafa ekki skoðun og tæp 6% eru óánægð. Sambærilegri spurningu svöruðu foreldrar í grunnskólum Reykjavíkur árið 2006 og þá voru 80% foreldra ánægð með skólann sem barnið þeirra var í, rúmlega 12% höfðu ekki skoðun og tæp 8% lýstu óánægju.

387 foreldrar svöruðu spurningunni í könnuninni hjá okkur. Við erum vissulega ánægð með niðurstöðuna, en vildum gjarnan hafa enn fleiri foreldra ánægða. Það eru 22 foreldrar sem lýsa óánægju og þann hóp viljum við gjarnan minnka.

Þessi könnun er mikilvægur þáttur í að bæta skólastarfið. Við erum að vinna úr henni og væntum þess að geta kynnt niðurstöður þegar líður á mánuðinn.

Skák í Salaskóla

 

Skák hefur verið iðkuð af kappi í Salaskóla um árabil. Strax á fyrsta starfsári skólans, árið 2001, var skákborðum komið fyrir víðsvegar um skólann, bæði í kennslustofum og á göngum og nemendur hvattir til að tefla í skólanum. Einn af kennurum skólans, Margrét Sveinsdóttir, sýndi skákinni sérstakan áhuga, hvatti nemendur til að tefla og leiðbeindi þeim. Töfl stóðu öllum til boða og hægt var að setjast við skákborðið bæði í kennslustundum og í frítíma. Margir hinna ungu nemenda skólans sýndu þá þegar mikinn áhuga og færni í skákinni. Þá strax komu fram miklir hæfileikar hjá nemendum sem síðar hafa náð miklum árangri. Einn nemandi í 2. bekk sat t.d. löngum stundum við skákborð á gangi skólans og bauð bæði gestum og gangandi að tefla við sig. Foreldrar sem áttu leið í skólann fengu t.d. að spreyta sig á að tefla við hann og máttu margir þola ósigur fyrir þessu unga pilti.

Á öðru starfsári skólans réðst Tómas Rasmus að skólanum og hefur hann sinnt skákþjálfun nemenda og skáklífi skólans upp frá því. Allir nemendur lærðu mannganginn og fengu kennslu í skák í smiðjum og auk þess voru tvær skákæfingar á viku eftir skóla. Skákmót voru sett upp í skólanum og skólinn tók þátt í skólaskákmótum. Innanskólaskákmótin hafa alla tíð verið afar fjölmenn og á fyrsta mótinu árið 2003 kepptu t.d. 70 af 160 nemendum skólans á mótinu. Það hlutfall hefur haldist í gegnum tíðina.

Fljótlega fór Salaskóli að láta til sín taka á skákmótum. Fyrst á Kópavogsmótinu í skólaskák árið 2003 og á Íslandsmeistaramótum fór að bera á skólanum bæði fyrir góðan árangur og einnig fyrir hversu margar sveitir skólinn sendi til keppni. Skólinn skipaði sér fljótlega í fremstu röð með öflugum skákskólum eins og Rimaskóla, Laugalækjarskóla og Barnaskóla Vestmannaeyja. Árið 2006 varð skólinn Íslandsmeistari barnaskólasveita og tók þátt í Norðurlandamóti sem haldið var í Danmörku. Árið 2007 sendi skólinn sveit í heimsmeistaramót í skólaskák í Búlgaríu. Það varð góð ferð því sveitin hreppti heimsmeistaratitil. Í kjölfarið fór sveitin til Namibíu og Grænlands til að kynna skák og tefla við þarlenda skólakrakka.

Árið 2009 hreppti Salaskóli Íslandsmeistaratitil grunnskóla. Sveitin hélt til Stokkhólms og tók þátt í Norðurlandamóti grunnskóla í skák. Sveitin vann mótið með yfirburðum og fagnaði Norðurlandameistaratitli. Sigurganga skólans hélt áfram á vormánuðum 2010 en þá varði skáksveit hans Íslandsmeistaratitilinn.

Í Salaskóla er lögð áhersla á fjölbreytt skólastarf. Skákin er mikilvægur liður í fjölbreytninni og gefur fleiri nemendum tækifæri til að blómstra og njóta sín. Mörg hundruð börn og unglingar hafa mætt á æfingar og teflt á skákmótum í skólanum á þeim níu árum sem skólinn hefur starfað. Öflugustu skákmenn skólans eru í fremstu röð íslenskra skákmanna. Má þar nefna Patrek Maron Magnússon, Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur, Pál Andrason, Eirík Örn Brynjarsson, Guðmund Kristin Lee, Birki Karl Sigurðsson, Ómar Yamak, Hildi Berglindi Jóhannsdóttur.

Tómas Rasmus kennari hefur borið skákstarfið uppi og á að öðrum ólöstuðum mestan heiður á góðu gengi Salaskóla í skák. Aðrir sem einkum hafa komið að þjálfun er Smári Rafn Teitsson, Sigurlaug Friðþjófsdóttir, Hrannar Baldursson og Guðlaug Björk Eiríksdóttir.

alvidra.jpg

8. bekkingar fóru í Alviðru

alvidra.jpgNemendur í himbrimum og lómum gerðu sér ferð í Alviðru, umhverfis- og fræðslusetur Landverndar, ásamt kennurum sínum á dögunum. Þar er tekið á móti nemendum í náttúrufræðiskoðun. Krakkarnir fóru m.a. í fuglaskoðun, könnuðu Þrastaskóg og tóku sýni sem voru skoðuð í smásjá. Myndirnar tala sínu máli.

voskoli.png

Vorskóli í Salaskóla fyrir börn fædd 2002

Ágætu foreldrar tilvonandi 1. bekkinga!

Ykkur er boðið að koma með barnið ykkar í vorskóla fimmtudaginn 8. maí og föstudaginn 9. maí. Skólastundin hefst kl. 14:00 báða dagana og er til kl. 15:30. Börnin þurfa ekkert að hafa með sér. Fyrri daginn verður fræðslufundur fyrir foreldra. Við leggjum áherslu á að báðir foreldrar mæti. Þeir sem komast af einhverjum ástæðum ekki þessa daga verða að láta okkur vita. Ef barn hefur ekki verið innritað þarf að hafa samband við skólann strax.

voskoli.png

Skólasetning verður föstudaginn 22. ágúst fyrir hádegi. Nánari tímasetningu verður að finna á heimasíðu skólans og í dagblöðum þegar nær dregur.

Skólastjórnendur

skak2.jpg.jpg

Öflugir skákmenn í Salaskóla

skak2.jpg.jpgVel gekk í skákinni hjá ferðalöngum á Bolungarvík. Patrekur Maron Magnússon vann alla sína andstæðinga í 11 skákum og stóð uppi sem sigurvegari í mótinu og er Íslandsmeistari í skólaskák. Jóhanna Björg hafnaði í 5. sæti í sama flokki en í yngri fllokknum tók Guðmundur Kristinn fjórða sætið og  Birkir Karl það áttunda. Þetta eru allt gífurlega öflugir skákmenn sem hafa lagt mjög hart að sér. Við óskum þeim til hamingju með glæsilegan árangur.  

skak.jpg.png

Keppst við í skákinni

skak.jpg.pngFjórir nemendur úr Salaskóla unnu sér inn rétt til að tefla á landsmóti í skólaskák sem fram fer dagana 24.- 27. apríl á Bolungarvík. Það eru þeir Birkir Karl Sigurðsson og Guðmundur Kristinn Lee í yngri flokki en í þeim eldri eru þau Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Patrekur Maron Magnússon. Það fréttist rétt í þessu að Patrekur er efstur í sínum flokki eftir 4 umferðir. Hægt er að fylgjast með stöðunni og gengi okkar fólks  á skak.is eða á síðu Taflfélags Bolungarvíkur. Við óskum þeim góðs gengis áfram  í taflmennskunni. 

sblaklukka1.jpg

Gleðilegt sumar

sblaklukka1.jpg
Starfsfólk Salaskóla óskar nemendum og aðstandendum þeirra gleðilegs sumars með kærri þökk fyrir veturinn.