Söfnum hausti

Menningarhúsin tóku sig til og græjuðu ljósmyndaleik fyrir vetrarfríið í næstu viku undir yfirskriftinni Söfnum hausti. Þar eru fjölskyldur hvattar til að fara út í haustið – búa til haustkórónur og laufaskúlptúra, virða fyrir sér fugla og útsýni, faðma tré og bregða á leik á ýmsan hátt. Þær taka af sér mynd – eða fá einhvern til að taka af sér mynd – og deila á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #söfnumhausti.

Þess má geta að nokkrir þátttakendur / myndasmiðir munu hreppa glaðning

Hér er hlekkur á leikinn eða sjá mynd hér fyrir neðan

Bleikur dagur þann 16.október

Það er bleikur dagur núna á föstudaginn. Kennarar og starfsfólk skólans ætla því að mæta í bleikum fötum í tilefni dagsins og hvetjum við nemendur til þess að gera það líka. Þannig lýsum við upp skammdegið í bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni stuðning okkar og samstöðu.

https://www.bleikaslaufan.is/um-atakid/bleiki-dagurinn/

Ólympíuhlaup ÍSÍ 2020

Föstudaginn 11.september er Ólympíuhlaup ÍSÍ frá kl. 11:00 -13:00 hér í Salaskóla.
Hlaupið hefst stundvíslega klukkan 11:00 og lýkur klukkan 13:00.Ræst verður í hollum klukkan 11:00. Nemendur á unglingastigi leggja fyrst af stað, næst fer miðstig og síðast yngsta stig.
Hringurinn sem nemendur fara í Ólympíuhlaup ÍSÍ er 2.5 km. Þess má geta að nemendur hlaupa eða ganga sama hring og í fyrra. Vert er að nefna að nemendur geta valið hversu marga hringi þeir hlaupa.

Eftirfarandi reglur eru til viðmiðunar fyrir hvern árgang:

Nemendur í 8. – 10. bekk hlaupa 2-4. hringi (5 – 10 km).

Nemendur í 4. – 7. bekk hlaupa 1-4. Hringi (2.5 – 10 km).

Nemendur í 2. – 3. bekk hlaupa 1-2 hringi (2.5 – 5 km).

Nemendur í 1. bekk hlaupa 1 hring með umsjónakennara. (2.5 km).

Við viljum brýna fyrir foreldrum að nemendur séu klæddir eftir veðri, í góðum skóm og fatnaði til hreyfingar. Við hvetjum alla nemendur til að koma með merktan vatnsbrúsa.

Að loknu hlaupi eða frá kl 12:00 ætlar skólinn að bjóða upp á grillaðar pylsur fyrir alla.

Samrómur – Salaskóli í öðru sæti

Salaskóli var í öðru sæti í Lestrarkeppni grunnskólanna á síðunni samromur.is á meðal grunnskóla með fleiri en 450 nemendur. Í heildina lásu nemendur, kennarar og foreldrar 4 þúsund setningar.

Keppnin var haldin til þess að safna upptökum af lestri barna og unglinga sem verða notaðar til þess að kenna tölvum og tækjum íslenska tungu. Nemendur í Salaskóla hafa því lagt mikilvægt lóð á vogarskálarnar til að styrkja stöðu íslensku í stafrænum heimi.

Til hamingju nemendur, kennarar og foreldrar barna í Salaskóla með árangurinn.

Hér koma myndir frá því þegar nemendur og höfundar Samróms komu við í Salaskóla og afhentu fyrir hönd Salaskóla, Ásu, Hafsteini og nemendum í 4.bekk viðurkenningaskjal og fimm Sphero bolt vélmenni.

Meistaramót Salaskóla

Meistaramót Salaskóla í skák 2020 fer fram fimmtudaginn 21.maí (uppstigningardagur) í Stúkunni við Kópavogsvöll. Tefldar verða sjö umferðir eftir svissneska kerfinu. Umhugsunartími verður 8+2 mínútur á skák fyrir hvern keppenda. Taflið hefst kl. 17.30 og ætti að vera lokið um kl. 20.Veitt verða verðlaun fyrir þrjá efstu einstaklinga í 1-4 bekk,5-7 bekk og 8-10 bekk sem og í öllum skólanum.

Þeir einstaklingar sem standa sig best á mótinu hljóta rétt til þátttöku á Íslandsmóti barna- og grunnskólasveita sem fer fram helgina 23-24 maí og keppa þar fyrir hönd skólans um að komast á Norðurlandamót barnaskólasveita sem fyrirhugað er að fari fram í Danmörku í október nk. Skráning og nánari upplýsingar um skólamótið: https://docs.google.com/forms/d/10Bs-EKp26aSwrFFx-dZ90LENfqGGBjMG03L4YHh8BgA/edit

Vegna þess hve skólastarf hefur orðið fyrir miklum truflunum undanfarnar vikur er mótið sett á skólafrídag og foreldrar þurfa því að sjá um að koma börnunum á mótið og svo heim aftur.