Gulur dagur þriðjudag 10.sept

Á morgun, þriðjudag 10. september, ætlum við í Salaskóla að hafa GULAN dag, til að sýna stuðning í gulum september vegna vitundarvakningar um geðheilbrigði, líðan og sjálfsvígsforvarnir.

Það málefni, eins og svo mörg önnur, tengjast skólasamfélaginu með beinum hætti og mikilvægt að við sýnum hvert öðru stuðning, skilning og hlýju.

Hér eiga gildi Salaskóla vel við – Vinátta, Virðing, Samstarf.
Nemendur og starfsfólk munu klæðast gulu eða bera eitthvað gult á morgun!

Velkomin í Salaskóla!

Velkomin í Salaskóla!

Skólasetning verður föstudaginn 23. ágúst. 
Nemendur í 2.-4. bekk mæta kl. 9:00, nemendur í 5.-7. bekk mæta kl. 10:00 og nemendur í 8.-10. bekk mæta kl. 11:00. 

Skólasetningin verður í opnu rými við aðalinngang skólans, nálægt stiganum. Foreldrar eru hjartanlega velkomnir með börnum sínum. Eftir stutta skólasetningarathöfn fara nemendur í kennslustofur þar sem umsjónarkennarar bjóða þá velkomna og fara stuttlega yfir skólabyrjun og helstu áherslur. 

Nemendur í 1. bekk mæta ekki til hefðbundinnar skólasetningar en umsjónarkennarar þeirra munu boða hvern nemanda til viðtals ásamt foreldrum en viðtölin fara fram dagana 22. og 23. ágúst.

Kennsla hefst samkvæmt stundaskrám mánudaginn 26. ágúst kl. 8:20.

Foreldrar eru minntir á að skrá börn sín í skólamötuneyti en skráning er nauðsynleg þó skólamáltíðir verði gjaldfrjálsar, skráning á þessari slóð: Vala skólamatur – Umsóknarvefur

Forstöðukona frístundar Kristrún Sveinbjörnsdóttir veitir allar upplýsingar er varða frístund, kristrunsv@kopskolar.is

Við hlökkum til nýs skólaárs!

200.000 krónur til Barnaspítala Hringsins

Leikfélag Salaskóla og Fönix, skipað nemendum úr unglingadeild, afhentu á dögunum ávísun að upphæð 200.000 krónur til Barnaspítala Hringsins, en peningurinn er ágóði af sölu á leiksýningu félagsins. Unglingarnir settu upp verkið ,,Stefán rís“ byggt á bókinni ,,Unglingurinn“ eftir þá Arnór Björnsson og Óla Gunnar Gunnarsson.

Fyrrum nemendur Salaskóla, þeir Aron Ísak Jakobsson og Matthías Davíð Matthíasson, komu á fund skólastjóra eftir áramót og lögðu til að vera með leiklistarklúbb fyrir nemendur í unglingadeild, þar sem þeirra bestu minningar úr skólanum voru tengdar leiklistastarfi. Stjórnendur úr félagsmiðstöðinni Fönix bættust svo í hópinn ásamt kennara úr unglingadeild. Áheyrnaprufur voru svo snemma á önninni og fljótt var búið að skipa glæsilegan leikhóp sem lagði allt sitt í æfingar og skipulag svo að úr varð glæsileg leiksýning. Uppselt var á sýningar hópsins og var mikil ánægja meðal áhorfenda enda sýningin full af húmor og gleði, sem og raunum þess að vera unglingur. Snemma var ákveðið að gefa ágóðann til góðgerðarmála og var hópurinn sammála um hvert styrkurinn skyldi renna. Úr varð að Hrönn Sigríður Steinsdóttir kom og tók við styrknum fyrir hönd Barnaspítala Hringsins. Unglingarnir mega vera stolt af þessum frábæra árangri og vonumst við til þess að leiklistarverkefnið haldi áfram á næsta skólaári.

Lokauppgjör lokaverkefna nemenda á unglingastigi

Undanfarna daga hafa nemendur á unglingastigi verið að vinna að lokaverkefnum sínum þetta skólaárið.

Lokaverkefni 8. bekkjar hefur snúist um að gera góðverk sem eftir hefur verið tekið í nærsamfélaginu sem og víðar. Krakkarnir vilja af þessum sökum bjóða foreldrum og öllum sem vilja láta gott af sér leiða að mæta á kynningu á verkefnum sínum sem haldin verður í skólanum milli 10:30 og 12:00 á morgun, miðvikudag. Þar verður ýmis varningur og veitingar til sölu og hvetjum við ykkur til að koma með smá skotsilfur til að versla af krökkunum. Allur ágóði af sölunni rennur til góðra málefna.

Nemendur í 9. bekk hafa í lokaverkefni sínu verið að hanna matarvagna; setja sama matseðla, rekstraráætlun, líkön, útbúa markaðsefni og fleira. Þau bjóða foreldrum og öðrum matgæðingum að koma og skoða afrakstur vinnunnar á sýningu sem stendur yfir frá kl. 10:30-12:00 á morgun miðvikudag. Þar verður jafnframt hægt að kjósa um besta, frumlegasta og girnilegasta matarvagninn.

Nemendur í 10. bekkur hafa í sínu lokaverkefni verið að vinna að nýsköpunarverkefni þar sem þau hanna vöru og útbúa viðskiptaáætlun. Þau munu halda vörumessu fyrir foreldra og gesti og gangandi frá 10:00-11:30 á morgun.

Stefán rís

Hópur nemenda á unglingastigi hefur verið við stífar æfingar vegna uppsetningar leikrits í Salaskóla.

Verkið heitir „Stefán rís“ og byggir á bókinni “Leitin að tilgangi unglingsins” eftir Arnór Björnsson, Óla Gunnar Gunnarsson og Bryndísi Björgvinsdóttur.

Stefán, aðalsöguhetjan, er krúttlegur, geðþekkur og aðlaðandi strákur sem er að byrja í 10. bekk og verður ástfangin í fyrsta sinn. En með ástinni koma ótrúlega erfiðir hlutir eins og að missa málið og muna ekki hvað maður heitir og að breytast í hálfvita í hvert skipti sem maður hittir gyðjuna. Höfundarnir vilja ólmir hjálpa og breyta atburðarrás verksins til að gera Stefán að þeim töffara sem hann þarf að verða til að ná í stelpuna.Það hefði þó kannski verið betra fyrir Stefán að eiga höfunda með aðeins meiri tilfinningagreind sem hefðu geta tekið betri ákvarðanir fyrir hann. Í lokin tekur Stefán svo eins og allar góðar hetjur málin í sínar hendur og rís upp gegn félagsþrýstingi og höfundaofríki.

Búið er að setja á dagskrá þrjár sýningar:

14. maí kl. 16:00 – sýning fyrir starfsfólk Salaskóla (hálfgerð „general prufa“)
15. maí kl. 19:00 – frumsýning
16. maí kl. 19:00 – 2. sýning

ATH að 16. maí er einnig vorhátíð foreldrafélagsins og afþreying og matarvagnar á skólalóðinni frá 17-19 – kjörið tækifæri til að fjölskyldur komi saman til að fagna vori og skella sér svo á leiksýningu!

Miðaverði er stillt í hóf. Sjoppa verður á staðnum!

0-5 ára – 0kr.

6-12 ára – 1000kr

13+ – 2000kr

Þátttakendur í uppsetningunni hafa ákveðið að hluti af ágóða við verkefnið renni til Barnaspítala Hringsins ❤

Hverfishátíð Salahverfis

Vorhátíð Salaskóla verður að þessu sinni hverfishátíð Salahverfis!

Hin árlega vorhátíð foreldrafélags Salaskóla verður að þessu sinni sannkölluð hverfishátíð!
Hátíðin verður fimmtudaginn 16. maí og hefst klukkan 17:00.
Á staðnum verða matarvagnar og hægt að kaupa sér mat.
ATH að kl. 19:00 er 2. sýning á leikverki sem unglingadeild Salaskóla hefur unnið að og því tilvalið að panta sér miða á hana í beinu framhaldi af vorhátíðinni (miðasala: midasalastefanris@gmail.com )
Dagskráin:
– Matarvagnar: Gastro truck, 2Guys, Duns Donuts
– Veltibílinn
– Hoppukastalar
– BMX Brós
– Fjöltefli við Hjörvar Stein, margfaldan Íslandsmeistara í skák og Jóhönnu Björg fyrrum nemenda Salaskóla (bara mæta inn í sal skólans, taka skák og hafa gaman).
Foreldrar eru hvattir til að mæta með börnum sínum, ömmu og afa og nágrönnunum!
Allir velkomnir!
Komum saman og gerum úr þessu sannkallaða vorhátíð í hverfinu okkar!

-Foreldrafélag Salaskóla.

Netöryggisfræðsla

Foreldrafélag Salaskóla, í samstarfi við Salaskóla, býður nemendum í 4.-10. bekk fræðsluerindi er snýr að þáttum er varða netöryggi, upplýsinga- og miðlalæsi. Auk þess verður foreldrum boðið fræðsluerindi um sama efni í sömu viku og fræðsla til nemenda fer fram á skólatíma.

8.-10. bekkur – ,,Algóritminn sem elur mig upp“. Mánudagur 29. apríl í salnum. 

Algóritminn sem elur mig upp: Hvers virði eru upplýsingarnar um okkur og hvað greiðum við fyrir aðgang okkar að samfélagsmiðlum? Farið yfir mikilvægi þess að vera læs á upplýsingar og miðla í nútíma samfélagi. Fjölmiðlalæsi, auglýsingalæsi, myndlæsi o.fl. Hvernig virka algóritmar samfélagsmiðlanna og með hvaða hætti hefur tæknin áhrif á okkar daglega líf og líðan? Hvað þarf að hafa í huga varðandi samskipti á netinu, áreitni frá ókunnugum og deilingu mynda? Markmiðið með fræðslunni er að valdefla nemendur í taka stjórn á eigin skjánotkun og kenna þeim leiðir til að nýta tæknin á betri hátt. Erindið byggir á niðurstöðum rannsóknar Fjölmiðlnefndar og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands um börn og netmiðla.
Foreldrafræðsla

Fræðsluerindi fyrir foreldra í salnum Salaskóla. ,,Algóritminn sem elur mig upp“. Mánudagur 29. apríl kl. 17:30-18:30.

Hvað segja rannsóknir okkur um stöðuna á miðlanotkun barna á Íslandi í dag? Farið yfr atriði í stafrænu umhverfi sem beri að varast auk þess að gefa góð ráð varðandi notkun barna á skjátækjum og samfélagsmiðlum. Hvað þarf að hafa í huga varðandi samskipti á netinu, áreitni frá ókunnugum og deilingu nektarmynda? Hvaða aldurstakmörk eru á samfélagsmiðlum og af hverju? Hvaða aldurstakmörk eru á samfélagsmiðlum og af hverju? Er upplýsingaóreiða og skautun vandamál í íslensku samfélagi? Hvað áhrif mun gervigreindin hafa á okkar stafrænu tilveru á næstu árum. Erindið byggir á niðurstöðum rannsóknar Fjölmiðlnefndar í samstarfi við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands og Maskínu.

Netumferðarskólinn 4.-7. bekkur. Mánudagur 29. apríl 4. bekkur í kennslustofu og þriðjudagur 30. apríl 5.-7. bekkur í salnum.

Verkefnið er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í netöryggi og styrkt af Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Fjölmiðlanefnd og Persónuvernd fengu það hlutverk að vinna fræðsluefni um upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi ásamt því að auka þekkingu á persónuvernd í meðferð upplýsinga. Fræðsluerindið er blanda af fyrirlestri, hópverkefni og samtali við börnin þar sem áherslan er á vitundarvakningu, hugtakaskilning og valdeflingu.

Fyrirlesari er Skúli Bragi Geirdal – Verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd

Skúli Bragi Geirdal er fjölmiðlafræðingur að mennt og starfar sem verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd. Skúli stofnaði og heldur úti Tengslaneti um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi. Auk þess felst starf hans m.a. í stefnumótunarvinnu, alþjóðlegu samstarfi, fræðslustarfi og umsjón með rannsóknum nefndarinnar á miðlalæsi sem unnar eru í samstarfi við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands og Maskínu. Nefndinni er ætlað það lögbundna hlutverk að efla miðlalæsi almennings og miða því verkefni hans að því að ná til fólks á öllum aldri til að auka færni þess í að nota samfélagsmiðla og leitarvélar og vera gagnrýnið á það hvaðan upplýsingar koma. Skúli er þá einnig stundakennari í fjölmiðlafræðum við Háskólann á Akureyri.

Þættir sem fjallað er um (eftir aldri og þroska):
– Upplýsinga- og miðlalæsi. Hæfnin til að leita sér að, skilja, greina, meta og skapa upplýsingar á öruggan og skilvirkan hátt í gegn um mismunandi miðla og upplýsingaveitur.
– Virkni algóritma og áhrif þeirra á notkun okkar á stafrænum tækjum.
– Gervigreind – Hvað er handan við hornið og hvað ber að hafa í huga?
– Stafrænt fótspor og söfnun persónuupplýsinga.
– Samfélagsmiðlar, skjárinn og líðan.
– Skjáþreyta – Hvernig síminn kallar á athygli okkar.
– Skjátími – Nýta tímann frekar en drepa hann.
– Samskipti á netinu, áreiti og áreitni.
– Skautun og upplýsingaóreiða í íslensku samfélagi.
– Fjölmiðlanotkun Íslendinga – hvernig nálgumst við fréttir í dag?
– Aldursmerkingar á öppum og samfélagsmiðlum – Skoðum það í samhengi við       aldursmerkingar á efni í bíómyndum, þáttum og tölvuleikjum.
– Þættir sem ber að hafa í huga varðandi notkun snjalltækja í skólastarfi.
– Áhrif tækni á þjóðaröryggi, lýðræði og lýðheilsu.

Kópurinn og forvarnarsjóður Kópavogs

Opnað hefur verið fyrir tilnefningar til Kópsins, sem eru viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi skóla- og frístundastarf í grunnskólum Kópavogs.

Einnig er opið fyrir umsóknir í forvarnarsjóð Kópavogsbæjar.

Áhugasamir geta sent inn tilnefningar/umsóknir eða komið hugmyndum til skólastjóra sem getur aðstoðað við ferlið.