Salaskóli óskar eftir stuðningsfulltrúum og/eða frístundaleiðbeinendum.

Salaskóli óskar eftir að ráða stuðningsfulltrúa og/eða frístundaleiðbeinendur.

Í Salaskóla eru tæplega 600 nemendur og um 100 starfsmenn. Í skólanum er faglegt og metnaðarfullt starf, þar ríkir góður starfsandi og boðið er upp á gott starfsumhverfi. Í störfunum felst stuðningur við nemendur í námi og leik. Fyrri hluta dags er unnið með nemendum í kennslustundum og eftir hádegi í frístundastarfi – til greina kemur að ráða starfsmenn í fullt starf eða hlutastarf sem væri þá ýmist fyrir eða eftir hádegi.

Hér má finna nánari upplýsingar og til þess að sækja um : alfred.is/starf/salaskoli

Skólaslit

Þá er formlega búið að slíta Salaskóla þetta skólaárið og allir farnir sælir og glaðir út í sumarfríið. Við þökkum ykkur fyrir viðburðarríkt og skemmtilegt skólaár og hlökkum til að sjá ykkur í haust.

Útskrift 10.bekkinga

Rétt í þessu fór fram útskrift 10.bekkinga, hátíðleg en um leið gleðileg athöfn. Flutt voru ávörp og nemendurnir sjálfir sáu um tónlistaratriðin.
Við eigum eftir að sakna þessara krakka og óskum þeim innilega til hamingju og góðs gengis í framtíðinni.

ÚTSKRIFT 10. BEKKINGA OG SKÓLASLIT Í 1.-9. BEKK

10. bekkingar verða útskrifaðir föstudaginn 3. júní kl. 11:00 í Lindakirkju.
Foreldrar hafa fengið upplýsingar um útskriftina í tölvupósti.

Þriðjudaginn 7. júní 2022 eru skólaslit í Salaskóla.
Tímasetningar eru sem hér segir.

1.-4. bekkur:
kl. 8:30 Mæting í skóla í stofu hjá umsjónarkennara.
kl. 9:00 Nemendur mæta á sal. Söngur og skólaslit.
Þeir nemendur sem eru skráðir á frístundaheimilið fara beint þangað eftir skólaslit.

5.-7. bekkur:
kl. 9:30 Mæting í skóla í stofu hjá umsjónarkennara.
kl. 10:00 Nemendur mæta á sal. Söngur og skólaslit.
Skóla er lokið hjá nemendum strax eftir skólaslitin og þá fara allir af stað út í sumarfríið.

8. og 9.bekkur:
kl. 10:30 Mæting í skóla í stofu hjá umsjónarkennara.
kl. 11:00 Nemendur mæta á sal. Söngur og skólaslit.
Skóla er lokið hjá nemendum strax eftir skólaslitin og þá fara allir af stað út í sumarfríið.

Ekki er formlega gert ráð fyrir foreldrum við skólaslitin þó þeir séu að sjálfsögðu velkomnir.
Þröngt verður í salnum og nemendur verða þar með kennurum sínum og sitja á gólfinu, svipað og þeir gera á samsöng og öðrum samkomum 🙂

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2022

Nokkrum starfsmönnum Salaskóla var boðið til athafnar hjá Heimili og skóla við lok síðustu viku. Tilefnið var tilnefning til foreldraverðlauna Heimilis og skóla árið 2022 í flokknum „dugnaðarforkar“.

Í  umsögn með tilnefningunni kom fram að þær Guðlaug Björg Eiríksdóttir þroskaþjálfi og Gígja Jónsdóttir, með stuðningi frá Hrefnu Björk Karlsdóttur aðstoðarskólastjóra og Hafsteini Karlssyni fyrrverandi skólastjóra, hafi komið með hlýju og fagmennsku að starfi í einhverfudeild skólans. Þar sé áhersla á skólaumhverfi þar sem einhverfir nemendur blómstra.

Orðrétt kemur fram í umsögn:

„Nálgun þeirra, hlýja, þolinmæði, innsæi og fagmennska er ótrúleg. Starfsfólk einhverfudeildarinnar mætir nemendum þar sem hver og einn er staddur og bætir þekkingu nemendans á fjölbreyttan hátt. Trú þeirra á getu nemenda til að læra í gegnum áhugasvið og styrkleika hvers og eins skilar sér í áhugasömum nemendum með jákvæða sjálfsmynd og trú á eigin getu. Svona er jákvætt og uppbyggjandi skólaumhverfi sem allir einhverfir nemendur eiga rétt á“.

Til hamingju öll með frábæra viðurkenningu á góðu og faglegu starfi!

Kópurinn 2022

Salaskóla hlotnaðist í gær sá heiður að fá Kópinn 2022, sem viðurkenningu fyrir verkefnið „Sköpun og tækni“. Kópurinn er viðurkenning Menntaráðs Kópavogsbæjar og er veitt árlega fyrir framúrskarandi skóla- og frístundastarf.

Við getum verið mjög stolt af því að þetta skólaár voru fjögur verkefni í Salaskóla og Félagsmiðstöðinni Fönix tilnefnd til Kópsins. Það eru verkefnin: „Beint í mark“ – „Fönix“ – „Kosningaverkefni 10. bekkjar“ – „Sköpun og tækni“.

Þorvaldur Hermannsson kennari í Salaskóla veitti viðurkenningunni viðtöku í gær í athöfn á hátíðarsal Álfhólsskóla. Þar kynnti Þorvaldur verkefnið sem hann hefur þróað í nokkur ár. Í „sköpun og tækni“ gefst nemendum tækifæri til að hanna og skapa, tengja verkefni við áhugasvið og styrkleika sína og vinna með fjölbreyttan efnivið auk ýmissa tækja, tóla og verkfæra.

Það er mikill heiður að fá tilnefningu til Kópsins og viðurkenningu fyrir framúrskarandi skólastarf. Í Salaskóla er metnaðarfullt og gróskumikið skóla- og frístundastarf og á bakvið hvert verkefni standa margir aðilar, mörg handtök, og mikil þróunar- og skipulagsvinna.

Viðurkenningar sem þessi eru í raun hrós og hvatning til okkar allra að halda áfram að vinna að faglegum og spennandi verkefnum, með hagsmuni nemenda að leiðarljósi.

Til hamingju öll í Salaskóla!

Vísindadagar

Sápukúlugerð, reyksprengjur, Covid Break out, þrívíddargleraugu, fílatannkrem, geimflaugar, skordýraætur, könglarannsókn var meðal annars það sem í boði var fyrir nemendur á vísindadögum.

Þetta var nú aldeilis fróðlegt, en bæði nemendur og starfsfólk skemmtu sér konunglega. Svo má auðvitað ekki gleyma að Vísindavilli kemur í heimsókn til okkar á morgun 🤓

Skipulagsdagur og skólaslit

Við minnum á að mánudaginn 16.maí er skipulagsdagur í Salaskóla og því ekki skóladagur hjá nemendum.
Frístundaheimilið er opið þann dag samkvæmt sérstökum skráningum og hafa foreldrar í 1.-4.bekk fengið tölvupóst um það frá Auðbjörgu.

Útskrift 10.bekkinga verður föstudaginn 3. júní kl. 11.
Skólaslit verða hjá 1.-9.bekk þriðjudaginn 7. júní. Tímasetningar verða sendar til ykkar fljótlega.