Samrómur – lestrarkeppni grunnskóla

Samrómur – lestrarkeppni grunnskóla

Í fyrra tók Salaskóli þátt í lestrarkeppni Samróms og hafnaði í öðru sæti í
æsispennandi keppni. Nemendur, starfsfólk, foreldrar og systkini voru dugleg að taka þátt
sem skiluðu okkur þessum glæsilega árangri og 5 Sphero Bolt vélmönnum. Í ár ætlum við
að taka þátt í annað sinn og munu nemendur okkar fá tækifæri til að taka þátt á skólatíma en
frábært væri ef þeir myndu líka taka þátt heima. Allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til
að taka þátt í nafni skólans. Lestrarkeppni Samróms stendur einungis yfir í viku,
dagana 18.-25. janúar.

Samrómur er heiti samvinnuverkefnis sem snýr að því að safna röddum Íslendinga til að
búa til opið gagnasafn fyrir notkun á íslensku í upplýsingatækni þannig að tölvur geti skilið
íslensku. Lestrarkeppnin er því liður í því að safna röddum fyrir verkefnið. Upptökurnar af
lestrinum eru síðan notaðar til þess að kenna tölvum og tækjum að skilja málið.

Takið þátt, ferlið er einfalt og mjög fljótlegt.
1. Farið inn á þessa vefslóð: https://samromur.is/tala
2. Veljið hversu margar setningar þið viljið lesa.
3. Veljið Salaskóla , setjið inn aldur, kyn og móðurmál.
4. Staðfestið skilmálana og persónuverndaryfirlýsingu verkefnisins.
5. Ýtið á ,,Áfram”.
6. Lesið góðu ráðin, hakið við ,,Sleppa þessum glugga næst” og ýtið á ,,Áfram”.
7. Ýtið á hljóðnemann og lesið setninguna sem birtist á skjánum. Ýtið á pásu þegar
þið hafið lokið við að lesa setninguna. Til að lesa næstu setningu ýtið þið á
hljóðnemann og svo koll af kolli.
8. Þegar þið hafið lokið við að lesa inn allar setningarnar ýtið þá á ,,Senda”.

Staða keppninnar er síðan birt jafnóðum á stigatöflu sem er aðgengileg inni á heimasíðu
verkefnisins. Við hvetjum nemendur, foreldra, systkini og starfsmenn til þess að
lesa inn fyrir Salaskóla og telst hver lesin setning vera stig fyrir skólann. Hver
þátttakandi má taka eins oft þátt og hann vill, því fleiri setningar því fleiri stig.
Þetta getur nýst börnum sem góð æfing í lestri, sér í lagi þar sem hægt er að hlusta á sína
eigin upptöku og meta hvort hún hafi verið rétt lesin.

Forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, munu hleypa keppninni af
stokkunum, verða verndarar hennar og veita verðlaun að henni lokinni. Hér má einmitt
sjá myndband þar sem forsetahjónin segja frá keppninni og senda kveðju til landsmanna
og hvetja alla til að taka þátt í þessu mikilvæga átaki til að styðja við tungumálið okkar.
Ef þið viljið síður að ykkar barn/börn taki þátt í lestrarkeppni grunnskólanna þá megið
þið endilega láta okkur vita af því annars gerum við ráð fyrir því að allir megi taka þátt.

Ljáðu íslenskri tungu rödd þína. Það er á okkar valdi að alltaf megi finna svar á
íslensku.

Birt í flokknum Fréttir.