Nú er komið að 5. valtímabili. Smellið á tengilinn hér að neðan og veljið. Þarf að gerast í síðasta lagi 11. mars.
Author Archives: Ásgerður Helga Guðmundsdóttir
Innritun í framhaldsskóla – kynningarfundur
Miðvikudaginn 3. mars verður kynningarfundur um innritun í framhaldsskóla í vor. Sölvi Sveinsson kemur frá menntamálaráðuneytinu og segir frá breyttum aðferðum og svarar fyrirspurnum. Mikilvægt að foreldrar mæti og kynni sér málið. Fundurinn verður kl. 20.00 hér í Salaskóla. Á hann eru einnig boðaðir foreldrar úr nágrannaskólunum.
Innritun í grunnskóla Kópavogs fyrir skólaárið 2010 2011
Innritun 6 ára barna (fædd 2004) fer fram í grunnskólum Kópavogs mánudaginn 8. og þriðjudaginn 9. mars. Sjá heimasíður skólanna.
Sömu daga fer fram innritun nemenda sem flytjast milli skólahverfa og þeirra sem flytja í Kópavog eða koma úr einkaskólum.
Nemendur í 1. – 10. bekk sem búa í Kórahverfi innritast í Hörðuvallaskóla.
Haustið 2010 munu skólar hefjast með skólasetningardegi mánudaginn 23. ágúst. Foreldrar eru hvattir til að skoða heimasíður skólanna.
Sérstök athygli er vakin á því að umsóknarfrestur um heimild til að stunda nám í einkaskólum eða grunnskólum annarra sveitarfélaga er til 1. apríl og skulu umsóknir berast fræðsluskrifstofu rafrænt á eyðublaði sem er á heimasíðunni www.kopavogur.is. Sækja þarf um að nýju fyrir nemendur, sem nú eru í slíkum skólum, ef gert er ráð fyrir að þeir verði þar næsta vetur.
Framkvæmdastjóri fræðslusviðs
Dregur úr einelti í Salaskóla
Í desember var gerð könnun meðal nemenda í 4. – 10. bekk um einelti. Samskonar könnun hefur verið lögð fyrir á hverju hausti undanfarin ár. Niðurstöður könnunarinnar er athyglisverðar. Í fyrsta lagi dregur heldur úr einelti frá því fyrir ári síðan, þ.e. nú segjast 9% nemenda hafa orðið fyrir einelti á móti tæplega 15% í fyrra. Auk þess líður nemendum almennt betur en fram kom í fyrra.
Fleira áhugavert kemur fram. Mikill munur kemur fram í viðhorfum stráka og stelpna til eineltis. Fleiri stelpur eru tilbúnar að leggja aðra í einelti en strákar og einnig eru fleiri stelpur sem segjast hafa lagt aðra í einelti sl. 2-3 mánuði.
Niðurstöðurnar má finna hér á heimasíðunni Niðurstöður Olweusar-könnunar des. 2009
Vegna veðurs
Skv. veðurspá fer veður á höfuðborgarsvæðinu versnandi þegar líður á daginn og það getur skollið á blindbylur.
Við höfum því slegið skákmóti nemenda í 1. – 4. bekk sem átti að vera í dag á frest og það verður eftir viku.
Dægradvölin er opin en við hvetjum þá foreldra sem það geta að sækja börn sín fyrr í dag.
Takið vel á móti dósasöfnurum
Lególiðið okkar varð Íslandsmeistari síðasta haust. Liðið er því á leið á Evrópumót grunnskóla í Legó í Istanbúl 21. – 25. apríl. nk. Liðið þarf að safna fyrir ferðinni og mun gera það með ýmsum hætti. Nú næstu daga ætla krakkarnir að ganga í hús í hverfinu og safna dósum og biðjum við ykkur um að taka vel á móti þeim og leggja þessu verkefni lið með. Krakkarnir verða sérstaklega merktir.
Ef einhver hefur aðgang að fyrirtæki sem er tilbúið til að leggja fram styrk og fá í staðinn nafns síns getið eða lógó, þá þiggjum við það líka, þarf ekki að vera meira en 5 þús kr. en allt er þegið. Hafið samband við skólastjóra ef um slíkt er að ræða.
LEGÓ keppnin er árleg keppni milli grunnskóla á Íslandi í tækniúrlausnum og eru LEGÓ kubbar notaðir í því skyni. Reynir mjög á tæknilega úrlausnir, frumkvöðla hugsun, skapandi nálgun, forritun, rannsóknarvinnu að ógleymdri samvinnu nemenda. Salaskóli hefur verið framarlega í þessum fræðum á undanförnum árum.
Skapandi hugsun er grundvöllur nýsköpunar í atvinnulífi. Mikilvægt er hún fái aukið vægi í námi barna og unglinga. Með þátttöku í Evrópukeppni af þessari tagi verður hægt að vekja athygli á þessu mikilvæga starfi og hrífa fleiri með, til heilla fyrir íslenskt atvinnulíf.
Lið Salaskóla er einstaklega öflugt núna og vonir standa til að ná góðu gengi á mótinu. Það myndi væntanlega vekja jákvæða athygli á landi og þjóð úti í henni Evrópu.
Kostnaður við ferðina er nokkur og felst að mestu í að komast til og frá keppnisstað auk gistingar. Nemendur verða sjálfir að kosta ferðina þar sem skólinn sem slíkur hefur ekki fjármuni til að standa straum af ferðinni. Því leitum við til ykkar um aðstoð við fjáröflun, þar sem margt smátt gerir eitt stórt.
Innritun í framhaldsskóla fyrir haustönn 2010
Rafræn innritun
Innritun í framhaldsskóla er rafræn, þ.e. sótt er um skólavist á netinu. Framhaldsskólar skilgreina sjálfir í samráði við menntamálaráðuneytið inntökuskilyrði á einstakar námsbrautir. Inntökuskilyrði eru birt í skólanámskrá á vefsíðu hvers framhaldsskóla.
Smellið á lesa meira til að fá frekari upplýsingar.
Innritun nemenda úr 10. bekk grunnskóla (fæddir 1994 eða síðar)
Forinnritun verður 12.-16. apríl. Þá eiga nemendur að velja aðalskóla og annan til vara. Nemendur í tilteknum grunnskólum eiga forgang að skólavist í ákveðnum framhaldsskólum hafi þeir staðist inntökuskilyrði. Þeim er hins vegar frjálst að sækja um hvaða skóla sem er.
Þar sem innritun fer fram á netinu þurfa nemendur að komast í nettengda tölvu til að geta sótt um. Hægt er að komast í nettengdar tölvur bæði í grunnskólum og framhaldskólum.
Allir framhaldsskólar bjóða upp á aðstoð sé hennar óskað.
Þarf að senda eitthvað með umsóknunum?
Nemendur 10. bekkjar þurfa ekki að senda afrit af prófskírteinum úr með umsóknum. Einkunnirnar verða sendar rafrænt til þess skóla sem sótt er um. Vottorð eða sérstakar upplýsingar um nemendur, sem ekki er að finna á rafræna umsóknareyðublaðinu, geta nemendur hengt við umsókn sem fylgiskjal eða sent í pósti til skóla. Aðrir umsækjendur þurfa að senda með umsókn gögn sem ekki eru til staðar í upplýsingakerfi framhaldsskóla (Innu).
Hvar má fá aðstoð og ráðgjöf?
Námsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum þekkja vel til náms á framhaldsskólastigi og eru umsækjendur hvattir til að leita upplýsinga og ráðgjafar hjá þeim. Gott er að vera tímanlega á ferðinni því að maímánuður er mikill annatími í framhaldsskólum.
Hvernig er sótt um?
Umsækjendur þurfa að sækja um veflykil sem opnar þeim persónulegan aðgang að innrituninni. Sótt er um veflykil frá og með 1. apríl á menntagatt.is/innritun og kemur hann til baka í tölvupósti. Á sama stað er rafrænt umsóknareyðublað með leiðbeiningum og ýmsar upplýsingar um nám í framhaldsskólum.
Morgunkaffi – dagsetningar komnar
Nú eru skólastjórnendur að bjóða foreldrum hvers bekkjar í morgunkaffi með spjalli og spekúleringum um skólastarfið. Fundirnir hefjast allir kl. 8:10 og eru á kaffistofu starfsmanna. Að loknu spjalli er bekkurinn heimsóttur. Allt búið kl. 9:00. Dagsetningar eru komnar hér á netið og hægt er að sjá þær með því að smella hér.
Við hvetjum alla foreldra, bæði pabba og mömmur til að mæta.
Morgunkaffi fyrir foreldra í 1. bekk
Skólastjórnendur í Salaskóla bjóða foreldrum hvers bekkjar fyrir sig í morgunkaffi einu sinni á vetri. Þriðjudaginn 26. janúar er foreldrum Glókolla boðið. Við byrjum kl. 8:10 og erum á kaffistofu starfsmanna. Bjóðum ykkur velkomin þangað. Á fundinum ræðum við skólastarfið almennt og viljum gjarnan heyra ykkar upplifun, hugmyndir og skoðanir. Eftir spjall heimsækjum við bekkinn. Allt búið kl. 9:00. Það er mjög mikilvægt að allir mæti og hvetjum feður jafnt sem mæður að koma. Miðvikudaginn 27. koma svo foreldrar Sólskríkja og foreldrar Stara fimmtudaginn 28. janúar.
Vetrarleyfi
Vetrarleyfi verður 18. og 19. febrúar. Við vekjum athygli á að við erum með vetrarleyfi á öðrum tíma en aðrir skólar í Kópavogi. Þetta var ákveðið síðasta vor þar sem áhugi er á að hafa börnin í skólanum bolludag, sprengidag og öskudag. Á öskudag verður skóladagur þó styttri en venjulega. Þá verður furðufatadagur í skólanum og skemmtileg dagskrá fyrir alla nemendur frá kl. 9:00 – 12:00. Nemendur geta þó mætt til kennara sinna kl. 8:10, en við gefum svigrúm til kl. 9:00 svo tími sé til að koma sér í furðufötin.