Lestrarátak Ævars vísindamanns

Við minnum á lestrarátak Ævars vísindamanns og hvetjum eindregið til þátttöku

Hér eru upplýsingar um átakið,(tekið af: www.visindamadur.com )

  1. Það má lesa hvaða bók sem er.
  2. Á hvaða tungumáli sem er.
  3. Hljóðbækur og ef einhver les fyrir þig telst með.
  4. Allir krakkar í 1. – 7. bekk mega taka þátt.

Fyrir hverjar þrjár bækur sem þið lesið prentið þið út lestrarmiða, fyllið út og skilið á næsta skólabókasafn, sem mun svo koma þeim til skila.

Ef einhverjir eru að taka þátt utan skóla (eins og t.d. krakkar sem búa í útlöndum) er hægt að senda lestrarmiðana á: Heimili og skóli, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Í byrjun mars verður dregið úr öllum innsendum lestrarmiðum og fá fimm krakkar í verðlaun að vera persónur í æsispennandi geimverubók eftir Ævar vísindamann, Gestir utan úr geimnum, sem kemur út í apríl.

​Í síðustu tveimur átökum voru lesnar meira en 114 þúsund bækur. Það verður einstaklega spennandi að sjá hvernig okkur gengur í ár.

Áfram lestur!

ÝTTU HÉR TIL AÐ HLAÐA NIÐUR LESTRARMIÐUNUM

 

Skipulagsdagur 7. október

Föstudaginn 7. október verður skipulagsdagur í Salaskóla og öðrum grunnskólum í Kópavogi. Sama á einnig við um leikskólana hér í hverfinu. Þennan dag er dægradvölin einnig lokuð en á skólaárinu eru tveir skipulagsdagar í dægradvölinni. Sameiginleg fræðsludagskrá er fyrir alla grunnskólana á vegum menntasviðs Kópavogsbæjar og er áherslan þar á lestur og mál. Starfsfólk dægradvalar Salaskóla fer á námskeið í skyndihjálp en það er auðvitað bráðnauðsynlegt fyrir starfsfólk þess að kunna að bregðast við ef eitthvað kemur fyrir. 

IMG 0207

Góðir gestir í heimsókn

IMG 0207
Við höfum fengið góða gesti til okkar í nóvember. Rithöfundurinn Gunnar Helgason kom til okkar og las upp  úr nýju bókinni sinni „Gula spjaldið í Gautaborg“. Krakkarnir tóku honum vel og margir gáfu sig á tal við hann eftir upplesturinn. Töframaðurinn Einar og aðstoðarkona hans kíktu á krakkana í 1. – 4. bekk og sýndu töfrabrögð upp úr nýrri bók sem er að koma út. Það er mikil tilbreyting að fá góða gesti í heimsókn og von er á fleirum síðar í þessum mánuði.
Myndir frá heimsóknunum.

lestrark

Víðlesnir nemendur á miðstigi keppa sín á milli

lestrarkSpurningakeppnin LESUM MEIRA 2014, sem er lestrarkeppni á miðstigi, hófst í morgun með því að flórgoðar og tjaldar kepptu sín á milli. Afar skrautleg og flott lið mættu til leiks þennan morguninn með hvatningaspjöld í stíl við skrautlegan klæðnað og andlitsmálningu. Flórgoðar báru sigur úr bítum að þessu sinni með litlum mun stiga en bæði liðin stóðu sig afbragðs vel. Síðar í vikunni mætast tildrur og vepjur og þannig koll af kolli þar til fundin hafa verið tvö lið til að keppa til úrslita sem verður í lok nóvember.

Markmiðið með keppninni er að nemendur verði víðlesnari, auki við orðaforða sinn og áhugi á bókalestri eflist. Lið bekkjanna þurfa að svara spurningum er reyna á almenna kunnáttu, ýmislegt úr heimi bókmenntanna og lesefni bókanna sem teknar eru fyrir í þessari keppni. Krakkarnir hafa einmitt verið að lesa ákveðnar bækur fyrir keppnina til að undirbúa sig fyrir keppnina. Skipuð eru bekkjarlið með 5 nemendum en bekkurinn stendur á bak við liðið með allan sinn bókalestur og fær tækifæri til að hala inn stig þegar spurningum er beint til hans.  Liðin fá úthlutað ákveðnum litum og mega skreyta sig þeim lit í keppninni.  Myndir frá keppninni.

Fundur um netnotkun 13. febrúar

Fimmtudaginn 13. febrúar kl. 20:00 – 21:00 bjóðum við foreldrum í 5. – 10. bekk til fundar um netnotkun barna og unglinga. Óli Örn Atlason, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar fer rækilega yfir málin. Hann hefur góða þekkingu á þessum málum og er vel inni í því sem krakkar eru að sýsla á netinu. Hann leitast við að svara spurningum eins og hvað eru þau að gera á netinu og hvernig. Það er mikilvægt fyrir alla foreldra að fá einhverja innsýn í þetta og því biðjum við ykkur öll að gefa ykkur þessa klukkustund þann 13. febrúar. Athugið að þetta er sami fyrirlestur og Óli var með hér í skólanum 23. janúar fyrir 8. – 10. bekkjar foreldra. Nú bjóðum við foreldrum 5. – 7. bekkinga og þeim unglingaforeldrum sem ekki komust um daginn.
Þetta er frábær fyrirlestur sem engin má missa af. Fundurinn verður í salnum í skólanum.

DSC01123

Gott fyrir lestraráhugann að fá rithöfund í heimsókn

DSC01123

Gunnar Helgason kom við hjá okkur í dag og las upp úr nýjustu bókinni sinni  Rangstæður í Reykjavík. Einnig talaði hann um fyrri bækurnar tvær sem eru komnar út áður í þessum bókaflokki. Það voru nemendur í 4. – 6. bekk sem komu í Klettagjá til að hlýða á Gunnar og nutu upplestursins sem var afar líflegur og skemmtilegur. Þau voru síðan dugleg að spyrja Gunnar á eftir um tilurð bókanna og hvert yrði framhaldið. Heimsókn sem þessi er eins og vítamínsprauta fyrir krakkana, kynning á slíku efni er afar hvetjandi fyrir lestraráhuga almennt, margir verða leitandi á eftir og taka sér bók í hönd. Fleiri myndir frá heimsókn Gunnars.

Nú þurfa krakkarnir bók í jólagjöf

Smá hugleiðing vegna PISA skýrslunnar:

Niðurstöður PISA rannsóknarinnar frá 2012 voru kynntar í vikunni. Við fyrstu sýn eru þær varla gleðiefni fyrir okkur Íslendinga, sem viljum ævinlega vera mest og best í öllu. Það er reyndar til einföld lausn á þeim vanda sem við erum í, en hún kostar korter á dag. En í PISA leynast líka góð tíðindi fyrir okkur Frónbúa.

Engum nemanda ofaukið
Fyrst að jákvæðu fréttunum. Íslenskum grunnskólum tekst að mestu að útmá þann mun sem er mögulega á aðstöðu nemenda eftir fjárhag heimilanna innan sama skólahverfis. Jöfnuður milli grunnskóla hér á landi er með allra mesta móti í heiminum. Og niðurstöður PISA rannsóknarinnar staðfesta ennfremur að innan hvers skóla er getustig nemenda það fjölbreytilegasta sem gerist í heiminum, hver skóli hefur bæði mjög sterka og mjög slaka nemendur. Þetta er ein mikilvægasta sérstaða íslenska grunnskólans. Við viljum ekki aðgreiningu eftir námsgetu, við viljum ekki skilja neinn út undan. Í okkar skólum á engum nemanda að vera ofaukið.

Íslenskum nemendum líður vel í skólanum
PISA sýnir mjög jákvæða þróun á skólabrag og bekkjaranda sl. 4 ár í íslensku skólum. Stuðningur kennara við nemendur er mikill og samband nemenda við kennara áberandi betra en almennt gerist í OECD ríkjunum. Nemendur líður nú mun betur í nemendahópnum í skólanum, agi í tímum hefur aukist og viðhorf nemenda til skólans batnað. Af þessu má sjá að íslenski grunnskólinn stendur sig þrátt fyrir allt býsna vel. Aðgreining er lítil og nemendum líður almennt vel.

Krakkar verða að lesa meira – líka heima
Mesta áhyggjuefnið í PISA niðurstöðunum er æ slakari lestrarhæfni íslenskra unglinga, ekki bara stráka heldur líka stelpna. Ástæðan er náttúrulega engin önnur er sú að krakkar lesa of lítið og miklu minna nú en áður. Þeir gera eitthvað annað á þeim tíma sem þeir ættu að verja til lesturs. Lesskilningur eykst ekki nema með lestri og því meira sem börn og unglingar lesa því betur skilja þau það sem þau lesa – svo einfalt er það. Það er ekki aðeins verkefni skólans að hvetja börn og unglinga til lesturs. Þar skipta foreldrarnir langmestu máli. Ef við ætlum að snúa ofan af þessu verða foreldrarnir og að sjálfsögðu krakkarnir sjálfir að taka fullan þátt í því með skólunum.

Bók í jólapakkann
Jólin eru framundan og þar liggur svo sannarlega sóknarfæri. Allir krakkar sem vilja eiga margvíslega möguleika í framtíðinni óska sér bóka í jólagjöf. Og foreldrar sem vilja stuðla að betra læsi sinna barna lauma skemmtilegri bók í jólapakkann. Og auðvitað les svo öll fjölskyldan saman um jólin og ákveður að í framtíðinni eigi allir að lesa í bókinni sinni fyrir svefninn á hverju einasta kvöldi í a.m.k. stundarfjórðung. Já og ekki gleyma litlu börnunum, það þarf að lesa fyrir þau. Ef við viljum skora hærra á PISA þá er til einföld leið og hún kostar bara 15 mínútur á dag – lesa meira!

mavar

Lestrarkeppninnni LESUM MEIRA lokið

mavar

Undanfarnar fjórar vikur hafa bekkirnir á miðstigi verið að keppa saman í lestrarkeppninni LESUM MEIRA. Markmið keppninnar er að nemendur verði víðlesnari, auki við orðaforða sinn og að áhugi á bóklestri eflist. Frá skólabyrjun hafa krakkarnir verið að undirbúa sig fyrir keppnina með því að lesa bækur af ákveðnum lista sem gefinn er upp. Á honum eru valdar bækur sem eru við flestra hæfi og auðvelt er að nálgast, 16 íslenskar skáldsögur, 6 þjóðsögur og 3 endursagðar Íslendingasögur.

Krakkarnir hafi verið iðin við lesturinn, jafnt í skólanum sem heima, og komið vel lesin til keppni. Bekkir eru dregnir saman til að keppa í átta liða úrslitunum sem endar þannig að tveir bekkir standa eftir og keppa til úrslita. Hver bekkur fékk úthlutað ákveðnum lit sem liðin skreyttu sig með í keppni auk hvatningarorða og söngva. Keppnin er ekki ólík skipulagi Útsvarsins en spurningar eru bæði úr þeim sögum sem lesnar voru en einnig reynir á almenna þekkingu og vitneskju  úr heimi bókmenntanna auk leikhæfileika. Keppnirnar voru afar spennandi og jafnar og oft munaði ekki nema einu stigi á milli liða.  Í ár kepptu mávar og kríur til úrslita þar sem mávar fóru með sigur af hólmi og héldu titlinum frá því í fyrra. 

Í raun má segja að allir þeir nemendur á miðstigi sem lásu meira en venjulega séu siguvegarar því þeir náðu  því aðalmarkmiði keppninnar að verða víðlesnari. Í lokin er ekki úr vegi að nefna að upphaflega var LESUM MEIRA samstarfsverkefni forstöðumanna skólabókasafnanna í Kópavogi sem hefur þróast eftir ákveðnum leiðum í hverjum skóla fyrir sig. Sjá myndir frá úrslitum og einstökum keppnum. 

lesadagur

9. sept. – skemmtilegur dagur

lesadagur
Síðastliðinn föstudag var gríðarlega góð þátttaka í Göngum saman átakinu sem við sögðum frá fyrir helgi hér á heimasíðunni. Sumir nemendur voru afar duglegir og gengu mjög langa leið í skólann sem var mikill dugnaður svona í morgunsárið. Þegar komið var í skólann voru verkefni einkum tengd lestri því verið var að halda upp á Dag læsis. Vinabekkir hittust og gaman var að sjá hvernig stórir og smáir sameinuðust í lestrinum. Þau eldri lásu gjarnan fyrir þau yngri, krakkarnir skrifuðu saman sögur og margir sökktu sér djúpt niður í lesturinn. Alls staðar var lesið, undir borðum, upp á borðum, undir stigum, saman við borð, í krókum, í fataklefum og gjarnan var vasaljós notað við lesturinn. Nemendur mættu í náttfötum í skólann þennan dag sem setti notalegan blæ á daginn og gerði lesturinn einhvern veginn svo „kósí“. Skoðið myndir frá þessum skemmtilega degi.   

radlagdurskammtur

Göngum og lesum

radlagdurskammtur
Við hér í Salaskóla ætlum að taka þátt í átakinu Göngum í skólann 2013 og hvetjum alla, bæði nemendur og starfsfólk, til að vera með og byrja átakið okkar með því að ganga eða hjóla í skólann á næstkomandi mánudag, 9. september. Meðfylgjandi er góð ráð um daglega hreyfingu sem getur verið fróðlegt að kíkja aðeins á.  Smellið á myndina til að stækka.

Á mánudaginn ætlum við líka að halda upp á Dag læsis sem er 8. september. Þá verður bryddað upp á ýmsu á aldursstigunum í þágu lesturs og læsis. Sem dæmi má nefna að nemendur á miðstigi eru í óða önn að undirbúa þátttöku sína í lestrarkeppninni Lesum meira.  Í þeirri keppni taka þátt margir grunnskólar í Kópavogi þar sem aðalmarkmiðið er að nemendur verði víðlesnari, auki við orðaforða sinn og að áhugi á bókalestri eflist. Ákveðnar bækur eru „í pottinum“ og nú er um að gera fyrir bekkina að fara að undirbúa sig með því að allir nemendur lesi eins mikið og þeir komast yfir. Hljóðbækur eru gjarnan notaðar í þessu átaki.
readgongum-foreldri