Forskóli tónlistarnáms

Undanfarin ár hefur skólinn boðið nemendum í 2. bekk upp á flautunám í litlum hópum beint eftir skóla. Þetta geta öll  7 ára börn nýtt sér hvort sem þau eru í dægradvölinni eða ekki.

Kostnaði er stillt í hóf og hafa börn í dægradvöl einungis verið að borga fyrir flautu og námsefni, en ef  það er til blokkflauta á heimilinu þá er sjálfsagt að nota hana.

Ef barnið er ekki í dægradvöl þá bætist við hófstillt námskeiðsgjald. Þetta tilboð hafa mörg börn nýtt sér sem stefna á að fara í tónlistarskóla og læra á hljóðfæri. Þarna læra þau grunnatriði í tónfræði og nótnalestri í gegnum hljóðfæraleik, hreyfingu, sköpun og verkefnavinnu.

Kennt verður í beinu framhaldi af skóla eða kl. 13: 35 – 14: 15. Foreldrar barna í 2. bekk hafa fengið nánari upplýsingar í tölvupósti. 

skolasetning

Skólasetning Salaskóla

skolasetning

Í dag, 22. ágúst, var Salaskóli settur í 14. sinn en þá mættu nemendur í andyri skólans og voru skipaðir í bekki af skólastjórnendum. Nemendur fóru síðan með umsjónarkennara sínum í kennslustofu bekkjarins þar sem afhent var stundaskrá og spjallað saman. Margir foreldrar fylgdu börnum sínum til skóla í dag. 

Myndir frá skólasetningu.

Það er alltaf eftirvænting hjá krökkunum að byrja aftur, gaman að hitta félagana og setja dagana í fastar skorður. Flestir eru broshýrir, jafnvel sposkir á svipinn en aðrir hljóðir og pínulítið feimnir sem er afar eðlilegt við þessar aðstæður. Í Salaskóla eru um 550 nemendur núna og hafa þeir aldrei verið fleiri. Við, starfsfólkið í Salaskóla, hlökkum til starfsins í vetur. Skóli hefst samkvæmt sundaskrá á mánudaginn, 25. ágúst, hjá öllum nema 1. bekkingum sem verða boðaðir sérstaklega. 

Síðustu dagar skólaársins

Minnum á óskilamuni. Hér er fullt af fíneríis fatnaði. Það sem gengur ekki út gefum við til góðgerðasamtaka. 

 

Fimmtudagskvöldið 5. júní kl. 20:00 verða 10. bekkingar útskrifaðir úr skólanum við hátíðlega athöfn. Foreldrar koma með sínum 10. bekking og allir eiga að koma með eitthvað á kaffiborðið – helst heimabakað. Afar og ömmur einnig velkomin. 

 Föstudaginn 6. júní eru skólaslit og þeim verður skipt í tvennt. Helmingur nemenda í 1. – 9. bekk mætir kl. 10 og hinn kl. 10:30. Í fyrstu verður safnast saman í anddyri skólans þar sem við eigum góða stund saman og eftir það gengur hver bekkur til sinnar stofu með umsjónarkennara sínum. Foreldrar eru velkomnir ef þeir vilja. Skólaslitin taka um 40 mínútur. Dægradvölin er opin frá kl. 8 – 12. Þeir sem ætla að nýta hana verða að láta vita. Bekkirnir eiga að mæta sem hér segir á skólaslitin: 

Kl. 10:00 – Maríurerlur, sandlóur, músarrindlar, hrossagaukar, tjaldar, vepjur, spóar, svölur, ritur, teistur, kjóar.

Kl. 10:30 – Steindeplar, glókollar, sólskríkjur, lóur, þrestir, tildrur, jaðrakanar, súlur, kríur, mávar, lundar, smyrlar. 

Vorskóli fyrir verðandi 1.bekkinga

Fimmtudaginn 8. og föstudaginn 9. maí verður vorskóli fyrir þau börn sem hefja nám í 1. bekk í Salaskóla haustið 2014. Vorskólinn byrjar kl. 14:00 og er til 15:30 báða dagana. Fyrri daginn mæta börnin með foreldrum sínum í anddyrið, þar verður lesið í bekki og þau fara með kennurum sínum í kennslustofuna. Á meðan þau eru í skólanum er kynning fyrir foreldrana í salnum. Seinni daginn koma foreldrarnir með þeim í skólann, skilja þau eftir og koma svo og sækja þau. 

Ýmislegt verður gert og þau fá ávexti að borða í nestitímanum. 

Tómstundaúrræði fyrir 4. bekk næsta vetur

Að undanförnu hefur greinilega dregið verulega úr áhuga 4. bekkinga á að vera í dægradvöl eftir að skóla lýkur á daginn. Engu að síður er þörf á úrræði fyrir þennan aldur og því höfum við ákveðið að bjóða upp á nýjan valkost þar sem í boði verður áhugaverð dagskrá fyrir 4. bekkinga á mánudögum til fimmtudaga frá kl. 13:30 – 15:00. 
Góð blanda af skemmtilegu tómstundastarfi og möguleiki á að stunda heimanám einn dag í hverri viku. Tómstundastarfið sem í boði verður næsta haust ef næg þátttaka fæst er m.a. eftirfarandi: 
–    margmiðlun 
–    stuttmyndagerð 
–    smiðjur
–    skák og  dans
–    hreyfing og hreysti
–    heimanám einu sinni í viku
Áhersla er lögð á fjölbreytni og skapandi vinnu krakkanna. Einnig verður farið í ferðir af ýmsu tagi. 
Við bjóðum einnig upp á sveigjanleika gagnvart þeim sem eru í öðru tómstundastarfi t.d. einn af þessum dögum sem í boði eru. 
Við ljúkum hverjum degi á kaffi kl. 14:40 – 15:00.
Við æltum að leggja okkur fram við að gera þetta áhugavert fyrir þennan aldur
Verðið er lágmarksgjald í dægradvöl, þ.e. 6.615 kr. + 125 kr. á dag fyrir kaffi. 
Foreldrar barna í 3. bekk hafa fengið póst um þetta og upplýsingar um hvernig á að skrá börn í þetta skemmtilega úrræði. 

Umsókn um skólavist

Þeir foreldrar sem óska eftir skólavist í Salaskóla næsta skólaár fyrir börn sín eru beðnir um að láta okkur vita svo fljótt sem auðið er. Sama á við um ef fólk sér fram á að börn, sem nú eru í skólanum, verði það ekki næsta vetur. Við erum í skipulagsvinnu þessa dagana og mikilvægt að fá að vita um allar breytingar. Hafið samband með tölvupósti,hafsteinn@salaskoli.is

owl

Foreldradagur 28. janúar

owl
Á morgun, þríðjudaginn 28. janúar, er foreldradagur hér í Salaskóla þá koma nemendur með foreldrum sínum í skólann til að hitta umsjónarkennarann sinn og fá vitnisburð fyrir þá önn sem nú er liðin. Farið er yfir stöðu nemenda í náminu og horft til næstu annar. Í slíku viðtali setja nemendur sér gjarnan markmið fyrir námið fram að vori í samráði við kennarann og foreldra sína. Sú nýjung var tekin upp nú að foreldrar gátu pantað sér viðtalstíma á Mentor hjá umsjónarkennara barna sinna. Virðist sú tilhögun hafa mælst vel fyrir hjá foreldrum.

Foreldrum boðið í morgunkaffi

Í allmörg ár hafa stjórnendur Salaskóla haft þann ágæta sið að bjóða öllum foreldrum í morgunkaffi einu sinni á hverju skólaári. Að þessu sinni byrjum við í næstu viku en breytum nú aðeins út frá venjunni því nú eiga allir foreldrar í hverjum árgangi að mæta á sama tíma. Við byrjum alltaf kl. 8:10 í salnum okkar, spjöllum svolítið saman yfir kaffibolla og kíkjum svo á bekkina. Gerum ráð fyrir að allt sé búið kl. 9.00. Foreldrar eru beðnir um að fylla út eyðublað þar sem þeir eiga að skrifa 2-3 atriði sem þeir eru ánægðir með í starfi skólans og 2-3 atriði sem þeir telja að megi gera betur eða ábendingar um eitthvað sem þeir vilja sjá í skólastarfinu. Eyðublaðið verður sent heim með fundarboði og foreldrar geta því fyllt það út heima og skilað svo á fundinum. Við hvetjum alla til að mæta, bæði pabba og mömmur. 

Fyrsti fundurinn verður 14. janúar og þá eiga foreldrar 1. bekkinga að mæta. Fundirnir verða annars sem hér segir:

15. janúar – 2. bekkur

16. janúar – 4. bekkur

17. janúar – 3. bekkur

22. janúar – 5. bekkur

30. janúar – 8. bekkur

31. janúar – 7. bekkur

4. febrúar – 9. bekkur

5. febrúar – 10. bekkur

6. febrúar – 6. bekkur

Nú þurfa krakkarnir bók í jólagjöf

Smá hugleiðing vegna PISA skýrslunnar:

Niðurstöður PISA rannsóknarinnar frá 2012 voru kynntar í vikunni. Við fyrstu sýn eru þær varla gleðiefni fyrir okkur Íslendinga, sem viljum ævinlega vera mest og best í öllu. Það er reyndar til einföld lausn á þeim vanda sem við erum í, en hún kostar korter á dag. En í PISA leynast líka góð tíðindi fyrir okkur Frónbúa.

Engum nemanda ofaukið
Fyrst að jákvæðu fréttunum. Íslenskum grunnskólum tekst að mestu að útmá þann mun sem er mögulega á aðstöðu nemenda eftir fjárhag heimilanna innan sama skólahverfis. Jöfnuður milli grunnskóla hér á landi er með allra mesta móti í heiminum. Og niðurstöður PISA rannsóknarinnar staðfesta ennfremur að innan hvers skóla er getustig nemenda það fjölbreytilegasta sem gerist í heiminum, hver skóli hefur bæði mjög sterka og mjög slaka nemendur. Þetta er ein mikilvægasta sérstaða íslenska grunnskólans. Við viljum ekki aðgreiningu eftir námsgetu, við viljum ekki skilja neinn út undan. Í okkar skólum á engum nemanda að vera ofaukið.

Íslenskum nemendum líður vel í skólanum
PISA sýnir mjög jákvæða þróun á skólabrag og bekkjaranda sl. 4 ár í íslensku skólum. Stuðningur kennara við nemendur er mikill og samband nemenda við kennara áberandi betra en almennt gerist í OECD ríkjunum. Nemendur líður nú mun betur í nemendahópnum í skólanum, agi í tímum hefur aukist og viðhorf nemenda til skólans batnað. Af þessu má sjá að íslenski grunnskólinn stendur sig þrátt fyrir allt býsna vel. Aðgreining er lítil og nemendum líður almennt vel.

Krakkar verða að lesa meira – líka heima
Mesta áhyggjuefnið í PISA niðurstöðunum er æ slakari lestrarhæfni íslenskra unglinga, ekki bara stráka heldur líka stelpna. Ástæðan er náttúrulega engin önnur er sú að krakkar lesa of lítið og miklu minna nú en áður. Þeir gera eitthvað annað á þeim tíma sem þeir ættu að verja til lesturs. Lesskilningur eykst ekki nema með lestri og því meira sem börn og unglingar lesa því betur skilja þau það sem þau lesa – svo einfalt er það. Það er ekki aðeins verkefni skólans að hvetja börn og unglinga til lesturs. Þar skipta foreldrarnir langmestu máli. Ef við ætlum að snúa ofan af þessu verða foreldrarnir og að sjálfsögðu krakkarnir sjálfir að taka fullan þátt í því með skólunum.

Bók í jólapakkann
Jólin eru framundan og þar liggur svo sannarlega sóknarfæri. Allir krakkar sem vilja eiga margvíslega möguleika í framtíðinni óska sér bóka í jólagjöf. Og foreldrar sem vilja stuðla að betra læsi sinna barna lauma skemmtilegri bók í jólapakkann. Og auðvitað les svo öll fjölskyldan saman um jólin og ákveður að í framtíðinni eigi allir að lesa í bókinni sinni fyrir svefninn á hverju einasta kvöldi í a.m.k. stundarfjórðung. Já og ekki gleyma litlu börnunum, það þarf að lesa fyrir þau. Ef við viljum skora hærra á PISA þá er til einföld leið og hún kostar bara 15 mínútur á dag – lesa meira!

78bekkur

Nemendur í 7.og 8. bekk söfnuðu fyrir Rauða krossinn.

78bekkur
Nemendur í 7. og 8. bekk hafa verið í góðgerðarþema að undanförnu. Fulltrúi frá Rauða krossinum kom í heimsókn og fræddi okkur um starfsemina. Þemað endaði á kaffihúsi þar sem foreldrar og aðstandendur gátu keypt vöfflur, kaffi, djús, heimgerð jólakort og origami túlípana. Það söfnuðust rúmlega 70.000 kr. 
Helga Halldórsdóttir kemur frá Rauða krossinum á fimmtudaginn til að taka við peningunum sem söfnuðust á kaffihúsinu.