Í morgun fór fram brunaæfing þar sem okkar stóra skólahúsnæði var rýmt samkvæmt rýmingaráætlun skólans. Æfingin gekk mjög vel í alla staði – nemendur og starfsfólk stóð sig með prýði. Næst verður farið yfir áætlunina í heild sinni og henni breytt ef reynslan sýnir að þörf er á slíku.
Category Archives: Fréttir
Leiksýningin Rúi og Stúi
Kópavogsdeild Rauða krossins og Leikfélag Kópavogs hafa tekið upp samstarf í tengslum við barnasýninguna Rúa og Stúa sem Leikfélagið sýnir og er ætluð nemendum í 1.- 5. bekk. Þriðjungur af andvirði hvers miða á sýninguna fer til styrktar barna- og ungmennastarfi Kópavogsdeildar Rauða krossins.
Leikhúsgestir geta þannig slegið tvær flugur í einu höggi, stutt börn og ungmenni í gegnum hjálparstarf Rauða krossins og notið bráðskemmtilegrar leiksýningar. Markmið samstarfsins er meðal annars að efla samstarf félagasamtaka i Kópavogi.
Um leiksýninguna:
Rúi og Stúi eru sérkennilegir uppfinningamenn sem hafa fundið upp vél sem getur búið til eða lagað hvað sem er. Bæjarbúar eru afar ánægðir með vélina eins og gefur að skilja en blikur eru á lofti þegar vélin bilar og bæjarstjórinn hverfur. Samtímis fer skuggalegur karakter á kreik í bænum og undarlegustu hlutir fara að hverfa úr fórum bæjarbúa.
Sex leikarar taka þátt í sýningunni sem er í leikstjórn Harðar Sigurðarsonar. Aðstoðarleikstjóri og allsherjarreddari er Sigrún Tryggvadóttir, Bergrún Íris Sævarsdóttir sér um leikmynd og lýsingu annast Arnar Ingvarsson og Skúli Rúnar Hilmarsson. Fjölmargir aðrir hafa einnig lagt hönd á plóg til að gera sýninguna sem best úr garði.
Kópavogsmótið í skák
Kópavogsmótið í skák, sveitakeppni 2009, var haldið hér í Salaskóla í dag 16. október. Alls kepptu 13 lið í eldri flokki og 22 lið í yngri flokki eða alls 35 lið sem er algert met í skákmóti í Kópavogi. Aldrei hefur mótið verið stærra. Hér í skólanum voru 140 keppendur auk varamanna að hugsa um skák í dag, líklega um 160 keppendur.
Hjallaskóli kom sá og sigraði í yngri flokki og Salaskóli sigraði í eldri flokki,
Norræna skólahlaupið
Norræna skólahlaupið fór fram á dögunum hér í skólanum. Allir nemendur skólans hlupu í tilefni þess – hver og einn hljóp í samræmi við eigin getu. Allir stóðu sig með mestu prýði og hlupu sem mest þeir máttu. Þeir bekkir sem stóðu sig einstaklega vel og eftir var tekið voru maríuerlur og fálkarnir. En sá nemandi sem hljóp lengst allra í skólanum, alls 7,3 km., var Arnaldur í fálkum.
Markmiðið með hlaupinu er að hvetja nemendur til þess að æfa hlaup og auka með því útiveru og hreyfingu. Auk þess að kynna nauðsyn þess að hreyfa sig, reyna á líkama sinn og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan.
Verðlaunafhending fyrir fjölgreindaleika
Verðlaunaafhending fyrir Fjölgreindaleika Salaskóla fór fram í morgun, 12. október.
Auður íþróttakennari lagði áherslu á að í raun og veru væru allir sigurvegarar á fjölgreindaleikunum því svo einstaklega vel þóttu nemendur standa sig, yngri sem eldri. Öll liðin fengu stig fyrir unnin störf og veitt voru sérstök verðlaun fyrir þrjú efstu liðin sem hlutu flest stig.
Hér eru Myndir frá verðlaunahátíð.
Í 3. sæti var lið nr. 11 – Strumparnir. Fyrirliðar voru: Jón Sævin (himbrimum) og Thelma Rut (smyrlum). Í liðinu voru: Bergdís(glókollum), Anna Sóley (maríerlum), Marel (hrossagaukum), Ragnheiður (lóum), Egill (lundum), Birkir (flórgoðum), Kári (helsingjum), Sigríður (uglum) og Elísabet (fálkum)
Í 2. sæti var lið nr. 10. Fyrirliðar voru Tinna (himbrimum) og Kristófer Anton (svölum). Í liðinu voru:Hrannar ( glókollum), Katla (maríuerlum), Kjartan G. (lóum), Þorleifur (lundum), Selma (helsingjum), Arnar (flórgoðum), Birkir (uglum), Elsa (uglum) og Dagný (fálkum).
Í 1. sæti var lið nr. 9 – Ofurliðið. Fyrirliðar voru Guðlaug (himbrimum) og Bjartur (svölum). Í liðinu voru Ásgerður (glókollum), Atli (steindeplum), Hákon (lóum), Birta (lundum), Ólafur (flórgoðum), Hilmar (helsingjum), Axel (fálkum ) og Ragnhildur (uglum).
Tveir fyrirliðar voru nefndir sem þóttu skara framúr en það voru þau Halldór Kristján í himbrimum og Kristín Gyða í svölum.
Viðbrögð við óveðri
NAUÐSYNLEGT er að tilkynna til skólans ef nemandi er hafður heima vegna óveðurs (eða veikinda). Hægt er að hringja á skrifstofu skólans (570 4600), senda tölvupóst (ritari@salaskoli.is) eða senda tilkynningu af svæði foreldra í mentor.is. Notið tölvupóst fremur en hringingar þar sem búast má við miklu álagi á símakerfi skólans.
Samræmda viðbragðaáætlun vegna óveðurs má finna hér á heimasíðu skólans. Við biðjum foreldra um að kynna sér hana.
Athugið eftirfarandi:
Skóla er aldrei lokað í óveðri nema fyrir tilstilli almannavarnanefndar.
Foreldrar verða að geta treyst því að skóli sé opinn hafi almannavarnir eða skólaskrifstofa ekki gefið út sérstaka tilkynningu um annað.
Ætlast er til að foreldrar meti sjálfir hvort þeir senda börn sín í skóla þegar óveður geisar. Sé þeim haldið heima þarf að tilkynna það til skóla eins og önnur forföll. Séu börnin hins vegar send í skóla er þess vænst af foreldrum að þeir fylgi börnum sínum í skólann og sæki þau að loknum skóladegi.
Ætlast er til þess af þeim kennurum sem kenna í síðasta tíma á stundaskrá hvers bekkjar að þeir sjái svo um að börnin fari ekki ein út í óveður að afloknum skóladegi. Heimferð þeirra sé tryggð – ella sé börnunum haldið í skóla þar til foreldrar sækja þau eða aðrar ráðstafanir hafa verið gerðar.
Telji foreldrar vafasamt að senda börn í skóla vegna óveðurs áréttar skólinn að aldrei sé teflt í tvísýnu, öryggi barnanna sitji ávallt í fyrirrúmi.
Val í unglingadeild – tímabil 2
Nú er fyrsta valtímabil skólaársins að renna út. Það fyrirkomulag sem við erum með núna virðist mælast vel fyrir. Nú er komið að valtímabili 2. Nemendur eiga að fara á netið og velja og þetta er eiginlega "fyrstur kemur, fyrstur fær" – kerfi, þannig að það er um að gera að drífa sig. Tvær nýjar valgreinar eru í boði, þ.e. námstækni og skapandi skrif.
Smellið á þennan línk til að komast í valblaðið: Val í unglingadeild – tímabil 2