Nemendur í músarrindlum, sem eru fyrstubekkingar, komu á bókasafnið á dögunum til að læra á það og velja sér bók. Stefanía á bókasafninu kenndi þeim á útlánin og hvert þau ættu að skila bókum þegar þau kæmu með bækurnar aftur. Það voru áhugasamir nemendur sem fylgdust með þessum leiðbeiningum og vönduðu sig síðan við að skrá bækurnar út til þess að taka með niður í kennslustofu. Vafalítið eiga þessir nemendur eftir að koma oft við á bókasafninu í vetur.
Category Archives: Fréttir
Skólasetning
Nemendur streymdu á skólasetningu í morgun til þess að hitta umsjónarkennarann sinn, skólafélagana og fá stundaskrána í hendur. Krakkarnir voru hressir og glaðlegir að sjá eftir gott sumarfrí, eftirvæntingin skein úr andlitunum en það bar á feimni hjá einstaka nemanda eins og ofureðlilegt er. Foreldrar koma gjarnan með krökkunum í skólann fyrsta daginn. Skólinn hefst svo samkvæmt stundaskrá á morgun, fimmtudag, en fyrstubekkingar mæta ekki í skólann fyrr en á föstudaginn.
Nýtt skólaár
Skrífstofa skólans hefur nú opnað aftur eftir sumarleyfi en undanfarna daga hafa stjórnendur skólans unnið hörðum höndum að því að hnýta lausa enda varðandi skipulag vetrarins. Mikilvægt er að við fáum sem fyrst tilkynningar um breytingar frá foreldrum ef einhverjar eru. Hlökkum til samstarfsins í vetur.
Skólasetning er 22. ágúst og nemendur mæta sem hér segir:
2., 3. og 4. bekkur kl. 9:00
5., 6. og 7. bekkur kl. 10:00
8., 9. og 10. bekkur kl. 11:00
Kennsla í 2. – 10. bekk hefst samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 23. ágúst.
Nemendur sem eru að fara í 1. bekk verða sérstaklega boðaðir með foreldrum sínum dagana 22. og 23. ágúst. Kennsla skv. stundaskrá hefst í 1. bekk föstudaginn 24. ágúst.
Dægradvöl opnar fimmtudaginn 23. ágúst fyrir 2. – 4. bekk.
Sumarleyfi
Skrifstofa Salaskóla er lokuð vegna sumarleyfa frá 21. júní. Opnað aftur 9. ágúst. Hægt er að skrá nýja nemendur í skólann hér á vefnum. Einnig er hægt að koma áríðandi skilaboðum til skólans með því að senda tölvupóst til skólastjóra hafsteinn@salaskoli.is. Hafið það gott í sumar.
Athugið að gátlistar (innkauplistar) yfir það sem nemendur þurfa að hafa i skólatöskunni sinni eru hér hægra megin á síðunni.
Bréf frá skólastjóra vegna matar í mötuneyti Salaskóla
Í síðustu viku var þáttur á Stöð 2 þar sem fjallað er um offitu Íslendinga. Þar var minnst á mötuneyti Salaskóla en umsjónarmaður þáttarins hafði komið hér einn daginn og fengið sýnishorn af mat sem hún fór með í greiningu í Matís. Þennan dag var grísasnitsel í matinn og það er skemmst frá því að það kom á daginn að sneiðin innihélt 240 hitaeiningar (kcal) í hundrað grömmum, þar af 16-17% kolvetni og 11% fitu. Til samanburðar inniheldur hreint kjöt á milli 110-140 hitaeiningar í hundrað grömmum, þar af ekkert kolvetni og 3-6% af fitu. Þess ber að geta að utan um snitselið er brauðrasp sem inniheldur kolvetni. Í framhaldi af þessu hefur svo spunnist umræða um hollustu máltíða í skólamötuneytum og ályktanir dregnar út frá blessuðu snitselinu. Að því tilefni tel ég rétt að upplýsa ykkur um eftirfarandi.
1. Alls voru framreiddar 159 máltíðir frá á skólaárinu,
en við höfðum engan kokk í eldhúsinu frá skólabyrjun til
15. september.
2. Af þessum 159 máltíðum voru 64 fiskmáltíðir, 47 kjötmáltíðir,
spónamatur var 33 sinnum, pastaréttir 9 sinnum og annað
(grænmetisbuff, vorrúllur, pizza og hlaðborð) 6 sinnum.
3. Af 64 fiskmáltíðum voru 56 eldaðar úr spriklandi nýjum fiski
í eldhúsinu okkar. 8 máltíðir voru fiskibollur. Allt annað var eldað í
gufuofninum okkar að undanskildum plokkfiski (5 máltíðum)
sem var lagaður í pottinum.
4. Af 47 kjötmáltíðum voru 13 forunnar, þ.e. snitselið fræga
(4 máltíðir), pylsur og bjúgu (5 máltíðir), kjötbollur (4 máltíðir).
5. Spónamatur, sem voru 33 máltíðir, skiptist í mjólkurgrauta
(10 máltíðir), súpur sem sumar voru matarmiklar kjötsúpur
(18 sinnum), skyr og jógúrt (5 máltíðir).
6. 128 máltíðir voru því eldaðar frá grunni í eldhúsinu en 31 komu
að einhverju leyti forunnin til okkar, en fullkláruð hér. Af þeim voru
bollur 12 máltíðir en við getum ekki steikt þær í þeim tækjum
sem við höfum. Kaupum þær því þannig.
Sjá nánar hér.
Ekki ætla ég að mæla snitselinu bót en það er alveg ljóst að hér er ekki um dæmigerða máltíð í mötuneyti Salaskóla, aðeins í boði 4 sinnum yfir veturinn. Þess ber að geta að þáttargerðarmaðurinn mætti hér í skólann með tökumann eftir að matartíma var lokið. Allur maturinn var búinn að undanskildum einhverjum tveimur sneiðum sem ég bauð henni að fá.
Það voru sem sagt leifarnar eftir að 500 manns höfðu tekið til matar síns. Sennilega ekki bestu bitarnir en ég vakti athygli hennar á því að þetta væri lang síðustu bitarnir og líklega ekki dæmigerðir. Ekki var það tekið fram í þessari umfjöllun.
Þetta eru fremur óvísindaleg vinnubrögð hjá þáttastjórnandanum og óneitanlega stórar ályktanir sem dregnar eru af þessu snitseli sem hún vissi mæta vel að væri mjög sjaldan í boði og aukinheldur allra síðustu bitarnir. Það er ómaklegt að vega að fagfólki í mötuneytum með þessum hætti. Í Salaskóla er reynt að hafa matinn fjölbreyttan „heimilismat“ og við erum sífellt að vinna meira hér frá grunni. Þess ber að geta að daglega eru reiddir hér fram 500 skammtar, starfsmenn mötuneytisins eru 2,5 og hver skammtur er seldur á 395 kr.
Að lokum langar mig að geta þess nemendur Salaskóla eru einstaklega hraustir og vel á sig komnir. Í rannsóknum hefur komið fram að íþróttaþátttaka þeirra er einhver sú mesta á landinu og svo er meira um það að þeir borði morgunmat heima hjá sér áður en þeir fara í skólann en í flestum öðrum skólum.
Hvað sem öllu líður þá munum við halda áfram að bæta mötuneytið okkar. Við fögnum góðu eftirliti en viljum sanngjarna umfjöllun.
Skólanum slitið
Salaskóla var slitið í dag hjá 1. – 9. bekk en þá komu nemendur til þess að taka á móti vitnisburði sínum. Hafsteinn skólastjóri sagði nokkur vel valin orð, kórinn söng lög og allir tóku undir skólasönginn „Í Salahverfið mætum við sérhvern skóladag…“ áður en umsjónarkennarar gengu til stofu með bekkinn sinn til að afhenda einkunnirnar. Margir foreldrar fylgdu krökkunum sínum á skólaslitin í dag. Krakkarnir hlupu svo út í sumarið á eftir, léttir í lund, tilbúnir að takast á við ævintýrin sem bíða handan við hornið í sumarfríinu.
Í gærkvöldi var útskrift nemenda í 10. bekk sem fór fram við hátíðlega athöfn í sal skólans. Tónlistarmenn úr röðum 10. bekkinga fluttu tónlistaratriði og fulltrúar nemenda auk umsjónarkennara í 10. bekk fluttu ávörp. Hver nemandi var kallaður upp á svið þar sem flutt voru vel valin orð um hann og prófskírteini afhent. Að athöfn lokinni buðu foreldrar upp á kaffi og kökur.
Skemmtileg vorverkefni í upplýsingamennt
Upplýsingamennt á að vera samþætt öllum námsgreinum í skólanum og nýtast bæði kennurum og nemendum í öllu þeirra starfi. Í upplýsingamennt felst m.a. að geta leitað sér upplýsinga t.d. í bókum eða á vefnum, unnið úr upplýsingunum til að setja fram á aðgengilegan og skemmtilegan hátt fyrir aðra. Allir nemendur í Salaskóla eru að gera eitthvað í þessu veru og sum verkefni þeirra er hægt að sjá á síðunni Upplýsingamennt í Salaskóla undir flipanum Skólinn.
Þriðjubekkingar voru einmitt að klára verkefni á dögunum þar sem reyndi á upplýsingaleikni og úrvinnslu upplýsinga ásamt því að þurfa að vera býsna glögg/glöggur á liti, form og hvernig myndir birtast. Þau fjölluðu hvert og eitt um áhugamálin sín og hver nemandi bjó til sína eigin sýningu í forritinu Photostory. Verkefnin má sjá hér. Fleiri verkefni eru á leiðinni á síðuna.
Skólaslitin 2012
Nemendur í 10. bekk verða útskrifaðir miðvikudaginn 6. júní og hefur foreldrum verið sent bréf þar um. Nemendur í 1. – 9. bekk eiga að mæta til skólaslita fimmtudaginn 7. júní og hefur bekkjum verið skipt upp í tvo hópa, annar hópurinn mætir kl. 10:00 en hinn kl. 10:30. Mæting er í anddyri skólans þar sem umsjónarkennarar taka á móti þeim. Hópskipting er sem hér segir:
kl. 10:00 | kl. 10:30 |
þrestir |
hrossagaukar lóur músarrindlar sendlingar glókollar maríuerlur kríur mávar lundar álftir ernir himbrimar |
Styrkur til SOS Barnaþorpsins afhentur
Krakkarnir í unglingadeild skólans tóku fyrir mannréttindi og SOS Barnaþorpin sem þemaverkefni nú í vor – er lauk formlega með söfnun á opna deginum hér í skólanum. Þar seldu þau kaffi og kökur og höfðu einnig til sölu svokallaðar trönum sem eru pappírsfuglar sem eru brotnir á ákveðinn hátt. Trönurnar voru að sjálfsögðu búnar til hér í skólanum og mikið kapp lagt við verkefnið. Söfnunin gekk gríðarlega vel því alls söfnuðust um kr. 140.000.- Ragnar Schram frá SOS Barnaþorpum á Íslandi var boðaður í heimsókn í morgun, 29. maí, og honum afhent umslagið með peningunum ásamt kveðju frá Salaskóla. Ragnar fræddi krakkana í leiðinni um SOS barnaþorpin, hvernig þau urðu til, skipulag þeirra og þá uppbyggingu sem á sér stað í tengslum við þau. Það er ljóst að styrkurinn frá Salaskóla fer í að styrkja 3 þorp í eitt ár, eitt í Haíti, annað í Afríku og það þriðja í Tailandi. Það er aldrei að vita nema framhald verði á þessu verkefni í framtíðinni. Í lok afhendingar var slegið upp veislu með muffins sem Reynir bakari gaf krökkunum fyrir dugnaðinn. Sjá einnig frétt á heimasíðu SOS Barnaþorpin á Íslandi http://www.sos.is/frettir/nr/1125
Velheppnuð vorhátíð
Vorhátíð Salaskóla heppnaðist afar vel og ekki spillti veðrið fyrir.
Hér koma myndir frá hátíðinni sem tala sínu máli.