Hin árlega aðventuganga foreldrafélagsins verður nk. fimmtudag, 6. desember. Hún hefst í Salaskóla kl. 16:30 og þar tekur Skólahljómsveit Kópavogs á móti öllum með jólalögum. Lagt verður af stað frá Salaskóla kl. 1700 og gengið að Lindakirkju þar sem skólakórinn syngur. Síðan verður gengið aftur í skólann þar sem bíður okkar rjúkandi súkkulaði og gómsætar jólasmákökur.
Kl. 19:30 sama dag er svo jólabingó á vegum 9. bekkjar en það er liður í fjáröflun fyrir ferð í skólabúðirnar að Laugum í Sælingsdal. Ótrúlegir vinningar í boði. Krakkarnir ætla líka að vera með smá kaffisölu ásamt smá fjáröflunarbás þar sem nokkrar vörutegundir verða til sölu (t.d. mandarínukassar, lakkrís, útikerti, jólapappír og kannski eitthvað fleira). Það verður bæði hægt að borga með peningum eða kortum (posi á staðnum). Það er engin skylda að kaupa eitthvað en auðvitað verða krakkarnir ótrúlega glöð ef þið sjáið ykkur fær um að styrkja þau á einhvern hátt 🙂

Nú þegar eru búnar þrjár keppnir og sú fjórða verður á morgun, miðvikudag, þegar svölur og súlur etja kappi saman. Liðin samanstanda af þremur nemendum en stuðningsliðið, sem er bekkurinn, skipar stórt hlutverk því eins og gefur að skilja er mjög mikilvægt að styðja vel við sitt lið, hvetja og fagna á réttum stöðum og sýna í alla staði háttprúða framkomu. Einnig má beina einni spurningu til bekkjarins ef liðið stendur á gati. Bekkirnir mæta prúðbúnir til leiks því hver bekkur skartar ákveðnum litum. Þetta eru miklar skrautsýningar bæði er varðar föt og andlitsmálningu. Ekki má gleyma hvatningaspjöldunum sem að sjálfsögðu eru líka í réttum litum. Sumir bekkir hafa jafnvel troðið upp með atriði til að styðja enn betur við liðið sitt. Á meðfylgjandi myndum sést annars vegar lið ritanna spreyta sig í síðustu viku á spurningum sem fyrir það voru lagt – hins vegar eru glæsileg stuðningslið teista og rita í salnum. 