Spjaldtölvuverkefni Salaskóla

Farið var af stað með spjaldtölvuverkefni Kópavogsbæjar haustið 2015. Verkefnið byrjaði með kosningaloforði Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, sem varð að veruleika: að allir nemendur í grunnskólum Kópavogs myndu fá spjaldtölvur til að nota í skólanum. Saga spjaldtölvuvæðingarinnar er samt sem áður töluvert lengri hér í Salaskóla, en áður höfðu nokkrir kennarar hér unnið með þær í þrjú ár. Nú hefur öllum nemendum í 5. – 10. bekk verið afhentar spjaldtölvur og verkefnið heldur áfram að þróast.                            Verkefnið hefur gengið vel og ákváðum við í Salaskóla að gera þrjú stutt myndbönd um verkefnið. Í einu þeirra heyrum við hvað starfsfólk hefur að segja um verkefnið, í öðru hverjar skoðanir nemenda er og í þriðja lagi foreldrar. Við munum koma til með að birta myndböndin næstu vikurnar.

Hvað hefur starfsfólk skólans að segja um verkefnið ? 

Rætt var við:

Huldu Geirsdóttur, deildarstjóra og jafnframt forsprakka spjaldtölvuverkefnsins hér í Salaskóla, en það var hún sem kom með þá hugmynd fyrir um það bil fimm árum að byrja nota spjaldtölvur í kennslu.

Kristínu Björk, kennsluráðgjafa spjaldtölvuverkefnisins. Í því felst að vera kennurum grunnskólum Kópavogs innan handar, halda námskeið og skipulegga og búa til verkefni.

Loga Guðmundsson, verkefnastjóra upplýsingatækni og kennara við Salaskóla. Logi er forfallinn tæknifíkill og hefur verið með frá upphafi við að þróa nýja kennsluhætti með spjaldtölvunum.

Fyrsta myndbandið má nálgast hér

Vísindasmiðja

Nemendur í Salaskóla hafa verið duglegir við að heimsækja Vísindasmiðju Háskóla Íslands. Þar fá þeir að kynnast heimi náttúru – og raunvísinda. Starfsmenn smiðjunar eru bæði nemendur og kennarar Háskóla Íslands í eðlis-, efna og náttúrufræði.

Nemendur í 7. bekk heimsóttu smiðjuna í dag og við tókum nokkrar myndir.

Ása kennari ásamt efnafræðingi sem sýndi okkur allskyns kúnstir

Fleiri myndir má nálgast hér

 

Skákmót 1. og 2. bekkur

Skákmót Salaskóla 2017, hófst klukkan 8.20 í dag og kepptu 1. og 2. bekkur

Við tókum nokkrar myndir af krökkunum í dag og svo munu fleiri myndir bætast við í myndasafnið eftir hvert mót.

En dagskráin er sem hér segir:

Föstudaginn 17. mars kl. 8:20 til 11:30 – 8. – 10. bekkur

Þriðjudaginn 21. mars kl. 8:20 til 11:30 – 3.-4. bekkur

Miðvikudaginn 22. mars kl. 8:20 til 11:30 – 5. – 7. bekkur

Meistaramót meistaranna, þar sem 3-4 úr hverjum árgangi taka þátt verður haldið á fimmtudaginn 21. mars.

Fleiri myndir má nálgast hér 

Framhaldsskólakynning iðn-og verkgreina

Íslandsmót iðn- og verkgreina og Framhaldsskólakynning

Nemendur í 9. og 10. bekk í Salaskóla munu fara í vettvangsferð í Laugardalshöll þann 17. mars kl 10.30.

Markmið ferðarinnar er að gefa nemendum tækifæri til að kynna sér ólíkar starfsgreinar og námsframboð framhaldsskóla.

Í Laugardalshöll munu 26 framhaldsskólar kynna námsframboð sitt, bæði bóklegt og verklegt.

Náms- og starfsráðgjafar, kennarar og fulltrúar nemenda verða á staðnum og svara fyrirspurnum um námið, félagslífið og inntökuskilyrði.

Á sama tíma fer fram Íslandsmót iðn- og verkreina sem að jafnaði er haldið á tveggja ára fresti.
Í þetta sinn munu nemendur í um 24 verkgreinum keppa sín á milli um Íslandsmeistaratitill í sinni grein. Sigurvegurum gefst síðan kostur á að keppa á Evrópukeppni iðn- og verkgreina í Búdapest 2018. Okkar nemendur fá tækifæri til að fylgjast með þessu unga fólki takast á við krefjandi og raunveruleg verkefni í samkeppni sem reynir á hæfni, fagmennsku og skipulagshæfileika. Einnig gefst þeim kostur á að snerta á og prófa hluti undir handleiðslu fagfólks í ýmsum greinum.

Nemendur fara í Laugardalshöllina í rútum í fylgd kennara og starfsmanna skólans. Tekið verður á móti okkur í Laugardalshöllinni þar sem heimsóknin mun hefjast á stuttri kynningu um atburðinn á sal. Síðan verður okkur fylgt inn á framhaldsskólakynninguna. Þegar nemendur hafa gengið í gegnum hana tekur keppnissvæði Íslandsmótsins við þar sem verða um 26 keppnis- og sýningarbásar.

Nemendur munu hafa 2 klukkustundir til að ganga um og kynna sér það sem ber fyrir augum og eru hvattir til að vera duglegir að spyrja, skoða, snerta og prófa. Í lok heimsóknarinnar eiga nemendur að mæta í anddyri hallarinnar þar sem við munum bíða eftir þeim og fylgja þeim út í rútu.

Laugardaginn 18. mars er Fjölskyldudagur milli kl. 10 – 14. Frítt er inn og geta gestir tekið þátt í margvíslegum skemmtilegum þrautum og leikjum, fengið að smakka á afrakstri keppenda í matvælagreinum, prófað rafmagnsbíla, ýtu- og skipstjórnaherma, fylgst með róbótum leysa þrautir og margt fleira skemmtilegt.

Nánari upplýsingar má nálgast á facebook 

.