Nokkrar mikilvægar upplýsingar frá okkur í Salaskóla.

Á morgun, miðvikudaginn 19. desember er árlegt körfuboltamót unglingadeildar og kennara. Öll íþróttakennsla niður í 1. – 7. bekk. Jólaball unglingadeildar er um kvöldið. Það er skyldumæting á það og að því loknu eru nemendur í 8. – 10. bekk komnir í jólafrí. Þeir eiga ekki að mæta á fimmtudag.

Á fimmtudag, 20. desember, eru jólaböll fyrir 1. – 7. bekk. Nemendur mæta til kennara sinna, 10 mínútum fyrir jólaballstímann, og fara þaðan fylktu liði í salinn þar sem dansað er kringum jólatréð. Hljómsveit skipuð nemendum úr 10. bekk leikur fyrir jóladansi. Nemendur eiga að mæta sem hér segir:

Kl. 9:00 – 1. bekkur hrossagaukar, 2. bekkur maríuerlur, 3. bekkur glókollar, 4. bekkur branduglur, 6. bekkur himbrimar (kennari Margrét) , 7. bekkur heiðagæsir

Kl. 10:00 – 1. bekkur lóur, 2. bekkur sólskríkjur, 3. bekkur músarrindlar, 4. bekkur snæuglur, 5. bekkur lundar, 6. bekkur lómar (kennari Ingibjörg), 7. bekkur margæsir

Kl. 11:00 – 1. bekkur spóar, 2. bekkur steindeplar, 3. bekkur þrestir, 4. bekkur eyruglur, 5. bekkur teistur, 6. bekkur súlur (kennari Sara Dögg), 7. bekkur snjógæsir

Nú kann að vera að einhverjir foreldrar viti ekki í hvaða hópi börn þeirra eru þá eru tvær leiðir til að komast að því. Í fyrsta lagi að spyrja barnið, því það veit mjög líklega hvað hópurinn sem það er í heitir. Í öðru lagi að senda fyrirspurn í tölvupósti á kennara.

Jólafrí hefst að loknu jólaballi og skóli hefst að nýju skv. stundaskrá 4. janúar 2019.

Ljósa- og friðarganga ​þriðjudaginn 4. desember kl. 17.00​

Aðventuganga foreldrafélagsins verður með aðeins breyttu sniði í ár.​ Gengin stuttur hringur um hverfið með ljós í þágu friðar. Gangan endar á skólalóðinni þar sem flutt verður stutt hugleiðing. Að lokinni útiverunni yljum við okkur á heitu súkkulaði og smákökum í skólanum. 
Skólahljómsveit Kópavogs flytur nokkur lög í anddyri skólans áður en gengið verður af stað. 
Hvetjum alla til að koma með ljós og eiga notalega samverustund. 

Foreldrafélagið

Forritunarvika – Klukkustund kóðunar

Alþjóðlega Hour of Code (Klukkustund kóðunar) forritunarvikan verður haldin dagana 3. – 9. desember um heim allan. Markmiðið með átakinu er að hver og einn nemandi forriti í a.m.k. eina klukkustund. Átakið hefur náð til yfir 140 milljón þátttakenda í yfir 180 löndum.

Búið er að skrá Salaskóla til þátttöku og munu allir nemendur skólans taka þátt í forritunarvikunni. Kennsluefnið má m.a. finna á vefslóðinni https://hourofcode.com/us/is/learn . Boðið er upp á verkefni á íslensku en einnig má finna fullt af verkefnum á ensku sem og 43 öðrum tungumálum á vefsíðunni. Vefsíðan er mjög aðgengileg og einföld í notkun og því ættu nemendur að geta valið sér verkefni eftir aldri og áhugasviði og unnið jafnvel heima ef áhugi er fyrir því.

Hér má sjá kynningarmyndband um Hour of Code. 

16. fjölgreindaleikar Salaskóla

16. fjölgreindaleikar Salaskóla fara fram á morgun fimmtudag og föstudag 22. og 23. nóvember. Þá er nemendum skipt í ca. 15 manna lið sem keppa í margskonar greinum sem reyna á ólíkar greindir nemenda. Liðsstjórar koma úr 9. og 10. bekk og þeir sjá alveg um sinn hóp þessa daga og hafa ævinlega staðið sig með miklum sóma. Báða daga eiga nemendur að mæta kl. 8:10 hjá sínum kennara en fara þaðan í hópinn sinn.

Nemendur eiga ekki að koma skólatöskur, en þurfa að hafa nesti með fyrir kaffitímann, brauð eða ávöxt, og gott að hafa það í litlum bakpoka sem þau bera með sér allt sem þau fara. Athugið að ekki eru ávextir í skólanum þessa daga. Við útvegum svala fyrir kaffitímann. Krakkarnir fá svo að borða í mötuneytinu í hádeginu. Skólinn er búinn hjá öllum um hálftvö.

Ekki er sund eða valgreinar þessa daga – bara fjölgreindaleikarnir. Dægradvölin er opin eins og venjulega.

Þess má geta að fjölgreindaleikar eru hugmynd sem varð til í Salaskóla og hefur verið tekin upp í mörgum öðrum skólum á Íslandi og jafnvel í útlöndum. Í fyrra gerðum við heimildamynd um fjölgreindaleikana og við hvetjum ykkur til að skoða það Slóðin á það er hér https://www.youtube.com/watch?v=KXdKrl-boZA&t=10s

Skólasetning 23. ágúst

Salaskóli verður settur fimmtudaginn 23. ágúst n.k. Nemendur eiga að mæta sem hér segir:

Kl. 8:30 – 2. 3. og 4. bekkur
Kl. 9:30 – 5. 6 og 7. bekkur
Kl. 10:30 – 8. 9. og 10. bekkur

Nemendur mæta í anddyri skólans og fara síðan í kennslustofur með kennurum sínum. Foreldrar eru velkomnir með börnunum.

Nemendur sem eru að byrja í 1. bekk verða boðaðir í einstaklingsviðtöl með foreldrum sínum 22. og 23. ágúst.
Fyrsti skóladagurinn hjá 1. bekk er 24. ágúst.

Útskrift 10. bekkinga miðvikudaginn 6. júní

Útskrift 10.bekkinga verður miðvikudaginn 6. júní kl. 20.00. Þetta er hátíðleg en um leið gleðileg athöfn og mæta nemendur og foreldrar þeirra, prúðbúin. Ef t.d. afi og amma vilja koma með eru þau velkomin.  Athöfnin fer þannig fram að nemendur flytja ávörp og atriði, skólastjórnendur ávarpa og afhenda vitnisburð. Að  útskrift lokinni er kaffisamsæti í boði foreldra og skólans.

Skólaslit fimmtudaginn 7. júní

Skólaslit Salaskóla verða fimmtudaginn 7. júní nk. og eiga nemendur að mæta sem hér segir:

Kl. 9:30 – 1. bekkur, 3. bekkur, 5. bekkur, 7. bekkur og 9. bekkur
Kl. 10.00 – 2. bekkur, 4. bekkur, 6. bekkur og 8. bekkur.

Nemendur mæta í anddyri þar sem verður smá viðhöfn. Að henni lokinni fara þeir með kennurum sínum í kennslustofurnar.