Velheppnuð árshátíð í 8. – 10. bekk

Árshátíð nemenda í 8. – 10. bekk var haldin miðvikudaginn 9. apríl.  Þema hátíðarinnar var hjarta, spaði, tígull og lauf og voru glæsilegar skreytingar hvert sem litið var. Mikil stemning var á hátíðinni og skemmti fólk sér hið besta. Nemendur mættu í sínu fínasta pússi vel snyrtir og margir afar brúnir og sællegir. Þeir voru sjálfum sér og skólanum til sóma með prúðmannlegri framkomu sinni.

Siggi kokkur ásamt starfsfólki sínu í eldhúsi sá um stórglæsilegan veislumat sem mjög góður rómur var gerður að. Starfsfólk þjónaði til borðs og hafði gaman að.

Kennarar tróðu upp með eitt atriði sem var spurningakeppni milli kennara og nemenda. Skemmtu allir sér vel yfir þessari uppákomu sem endaði með sigri nemenda. Að lokum voru kynnt úrslit kosninga sem nemendur stóðu fyrir.

Að loknu borðhaldi og skemmtiatriðum voru þeyttar skífur og héldu DJ-ar uppi dansstuði þar til hátíðinni lauk.

Margir nemendur lögðu á sig mikla vinnu til að árshátíðin gæti orðið sem glæsilegust og getum við verið þakklát og ánægð með þetta dugmikla unga fólk.

Könnun á viðhorfum foreldra

Við erum nú að kanna viðhorf foreldra skólastarfsins. Þetta er liður í því að bæta skólastarfið og afar mikilvægt fyrir okkur nú í undirbúningi fyrir næsta skólaár. Við viljum því hvetja foreldra til að svara könnuninni. Niðurstöður verða birtar fljótlega eftir að könnun er lokið. Könnuninni verður lokað 19. apríl.

Í raun er um þrjár kannanir að ræða, eina fyrir yngsta stig, aðra fyrir miðstig og þá þriðju fyrir unglingastig.

Foreldrar fá línk inn á könnunina senda í tölvupósti. Ef einhver fær hann ekki er hann beðinn um að senda okkur línu eða hringja og fá aðgang. Netfangið er hafsteinn@kopavogur.is og síminn 570 4600.

Verri spá fyrir Bláfjöll

Spáin fyrir Bláfjöll á miðvikudag, 2. apríl er nú heldur verri en í morgun. Skv. upplýsingum frá starfsmönnum i fjöllunum er óvíst um opnun þar á morgun gangi spáin eftir. Biðjum fólk að fylgjast með hér á heimasíðunni á miðvikudagsmorgun. 

Stórmót í skák í Salaskóla

Nú um helgina fer fram hér í Salaskóla sveitakeppni grunnskóla, nemenda í 1. – 7. bekk, í skák. Salaskóli er með þrjú lið. Mikil spenna ríkir en úrslit verða ekki kunn fyrr en seinnipartinn á sunnudag. Teflt er frá kl. 13:00 – 17:30 bæði laugardag og sunnudag.