Góð lestrarkennsla bæði fyrir stráka og stelpur í Salaskóla

Þessa dagana er mikið rætt um kynjamun í skólastarfi og að strákar standi sig verr en stelpur t.d. í lestri. Við höfum verið að skoða hvernig staðan er hér í Salaskóla og ef niðurstaða lesfimiprófa Menntamálastofnunar í 1. – 4. bekk frá því í maí 2020 kemur í ljós að munur milli kynjanna er varla greinanlegur. Leshraði stráka og stelpna í 1. og 2. er hnífjafn, í 3. bekk lesa stelpur 4 orðum meira á mínútu en strákar og í 4. bekk lesa þær 12 orðum meira en strákar.
Þess má einnig geta að allir þessir árgangar í Salaskóla voru yfir landsmeðaltali og þrír þeirra yfir viðmiðum Menntamálastofnunar. Þetta er býsna góður árangur.
Lesfimiprófin mæla aðeins lestrarhraða en ekki lesskilning. Þau eru því fyrst og fremst mælikvarði á hvernig tökum nemendur hafa náð á lestrartækninni.
Þessar niðurstöður bera byrjendakennslunni í lestri í skólanum sannarlega gott vitni.

Öskudagur, vetrarleyfi og skipulagsdagur

1. Á morgun er öskudagur og eins og venjulega er það svolítið öðruvísidagur í Salaskóla. Nemendur mæta í grímubúningum í skólann og taka þátt í alls konar skemmtilegum verkefnum. Unglingadeildin hefur fengið sína dagskrá og valið sig inn á verkefni. Nemendur í 1. – 7. bekk: Nemendur mæta á bilinu 8:10 – 9:00 í skólann. Við gefum þetta svigrúm svo þeir sem þurfa lengri tíma til að koma sér í búninginn geti það. Allir eiga að vera mættir í sínar stofur kl. 9:00. Ávextir eru í nestistímanum eins og venjulega og kl. 11:30 – 12:00 er boðið upp á pylsur. Ekkert nammi eða nammipokar í skólanum. Skólastarfið er búið kl. 12:00 og þá opnar dægradvölin fyrir þá sem þar eru.

2. Vetrarleyfi er á fimmtudag og föstudag, 18. og 19. febrúar. Þá er skólinn alveg lokaður, dægradvölin líka. Góða skemmtun í leyfinu.

3. Skipulagsdagur er miðvikudaginn 17. mars. Þennan dag er dægradvölin líka með skipulagsdag og því eru engir nemendur í skólanum þennan dag.

16. febrúar í unglingadeild

Þriðjudaginn 16. febrúar verður útivistar– og skíðadagur hjá 8. – 10. bekk. Það hafa ekki allir áhuga á að taka þátt í þessu og þeir sem ekki ætla að fara mæta í skólann og vinna undir stjórn kennara. Þeir eiga að mæta kl. 9:00 í skólann og geta því sofið aðeins út 🙂

Við munum leggja af stað klukkan 9:15 frá skólanum og skíðum til klukkan 14:30 og lagt af stað klukkan 15:00. Þar sem þetta er ekki bara skíðaferð þá mega nemendur sem ekki vilja fara á skíði eða bretti koma með sleða. Við höfum aðstöðu í Bláfjallaskála og þar er hægt að borða nestið sitt og svona. Nemendur koma með nesti sjálf, bæði eitthvað að bíta í og drykki. Ekki er hægt að kaupa neitt á staðnum. 

Lyftukortin kosta  930 krónur, leiga á skíðum og bretti er 2.460 krónur. Hafa þetta í reiðufé takk. Nánari upplýsingar um leiguna og fleira var send foreldrum í tölvupósti. 

Það er fín veðurspá fyrir morgundaginn en alltaf getur farið svo að ekki verði opið. Við látum vita á milli kl. 8.00 og 8:30 hvort farið verði eða ekki. Verði ekki farið þá er bara skóli frá kl. 9:00.

Bestu kveðjur – skólastjóri

Um nám og líðan nemenda

Í síðustu viku héldum við málþing með nemendum í 8. – 10. bekk. Viðfangsefnið var nám og líðan nemenda. Málþingin voru þrjú, eitt með hverjum árgangi. Að loknum inngangi unnu nemendur í hópum og ræddu málin og skiluðu svo niðurstöðum til skólastjórnenda. Nemendur lýstu ánægju með margt í starfi skólans og lögðum fram fjölmargar góðar tillögur um það sem þau gætu gert, það sem skólinn gæti gert og það sem foreldrar gætu gert. Verið er að vinna úr niðurstöðunum og við höldum svo áfram með þessa vinnu.

Á morgun setjast svo kennarar á rökstóla með Hermundi Sigmundssyni prófessor og ræða um nám og líðan. Hermundur hefur látið sig þessi mál varða á undanförnum misserum og það er fagnaðarefni að fá hann til skrafs og ráðagerða í skólanum.

Fleira er svo á döfinni tengt þessu og vænta má þess að þessi vinna skili sér inn í skólastarfið á næstunni.

Stelpurnar úr Salaskóla fengu gull á Íslandsmeistaramóti grunnskólaveita í skák

Íslandsmót grunnskólasveita í stúlknaflokki fór fram á laugardaginn, 30. janúar 2021 í skákhöllinni í Faxafeni 12. Teflt var í þremur flokkum en svo fór að skólar úr Kópavogi hirtu öll gullverðlaunin. Smáraskóli vann öruggan sigur 1.-2. bekk. Mikil spenna var í hinum flokkunum Hörðuvallaskóli vann nauman sigur í 3.-5. bekk og það gerði Salaskóli í 6.-10. bekk. Liðið var skipað þeim Katrínu Maríu Jónsdóttur, Arey Amalíu Sigþórsdóttur McClure og Elínu Láru Jónsdóttur og liðsstjóri var Jón H. Arnarson. Við óskum þeim öllum til hamingju með glæsilegan árangur.

Samrómur – lestrarkeppni grunnskóla

Samrómur – lestrarkeppni grunnskóla

Í fyrra tók Salaskóli þátt í lestrarkeppni Samróms og hafnaði í öðru sæti í
æsispennandi keppni. Nemendur, starfsfólk, foreldrar og systkini voru dugleg að taka þátt
sem skiluðu okkur þessum glæsilega árangri og 5 Sphero Bolt vélmönnum. Í ár ætlum við
að taka þátt í annað sinn og munu nemendur okkar fá tækifæri til að taka þátt á skólatíma en
frábært væri ef þeir myndu líka taka þátt heima. Allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til
að taka þátt í nafni skólans. Lestrarkeppni Samróms stendur einungis yfir í viku,
dagana 18.-25. janúar.

Samrómur er heiti samvinnuverkefnis sem snýr að því að safna röddum Íslendinga til að
búa til opið gagnasafn fyrir notkun á íslensku í upplýsingatækni þannig að tölvur geti skilið
íslensku. Lestrarkeppnin er því liður í því að safna röddum fyrir verkefnið. Upptökurnar af
lestrinum eru síðan notaðar til þess að kenna tölvum og tækjum að skilja málið.

Takið þátt, ferlið er einfalt og mjög fljótlegt.
1. Farið inn á þessa vefslóð: https://samromur.is/tala
2. Veljið hversu margar setningar þið viljið lesa.
3. Veljið Salaskóla , setjið inn aldur, kyn og móðurmál.
4. Staðfestið skilmálana og persónuverndaryfirlýsingu verkefnisins.
5. Ýtið á ,,Áfram”.
6. Lesið góðu ráðin, hakið við ,,Sleppa þessum glugga næst” og ýtið á ,,Áfram”.
7. Ýtið á hljóðnemann og lesið setninguna sem birtist á skjánum. Ýtið á pásu þegar
þið hafið lokið við að lesa setninguna. Til að lesa næstu setningu ýtið þið á
hljóðnemann og svo koll af kolli.
8. Þegar þið hafið lokið við að lesa inn allar setningarnar ýtið þá á ,,Senda”.

Staða keppninnar er síðan birt jafnóðum á stigatöflu sem er aðgengileg inni á heimasíðu
verkefnisins. Við hvetjum nemendur, foreldra, systkini og starfsmenn til þess að
lesa inn fyrir Salaskóla og telst hver lesin setning vera stig fyrir skólann. Hver
þátttakandi má taka eins oft þátt og hann vill, því fleiri setningar því fleiri stig.
Þetta getur nýst börnum sem góð æfing í lestri, sér í lagi þar sem hægt er að hlusta á sína
eigin upptöku og meta hvort hún hafi verið rétt lesin.

Forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, munu hleypa keppninni af
stokkunum, verða verndarar hennar og veita verðlaun að henni lokinni. Hér má einmitt
sjá myndband þar sem forsetahjónin segja frá keppninni og senda kveðju til landsmanna
og hvetja alla til að taka þátt í þessu mikilvæga átaki til að styðja við tungumálið okkar.
Ef þið viljið síður að ykkar barn/börn taki þátt í lestrarkeppni grunnskólanna þá megið
þið endilega láta okkur vita af því annars gerum við ráð fyrir því að allir megi taka þátt.

Ljáðu íslenskri tungu rödd þína. Það er á okkar valdi að alltaf megi finna svar á
íslensku.

Gleðileg jól / Merry christmas

Litlu jól með breyttu sniði í ár. Hver bekkur var inn í sinni stofu í stað jólaballs, en aðeins 1.-4. bekkur (einn bekkur í einu) fór og söng jólalög með Stefáni tónlistarkennara inn í sal.
Við óskum ykkur gleðilegra jóla og hafið það allra best yfir hátíðarnar með ykkar nánustu. Þetta hafa verið skrítnir tímar – en það má með sanni segja að allir hafa staðið sig vel hér í Salaskóla.

Merry Christmas everyone.