Í þessari viku, 11. – 15. febrúar, eru nemendur 9. bekkjar Salaskóla í skólabúðum að Laugum í Sælingsdal. Undanfarin ár hafa níundubekkingarnir okkar átt þess kost að dvelja í skólabúðunum við leik og störf eina viku í senn. Þær góðu fréttir bárust í dag frá Laugum að allir skemmtu sér hið besta enda margt og mikið sem krakkarnir hafi fyrir stafni. Sirkúskúnstirnar eru alltaf vinsælar sem og sveitaferðin auk allra námskeiðanna sem í boði eru. Heimferð er á morgun, föstudag.
Author Archives: Logi
Trúðar, vampýrur og fínar frúr á ferli
Það fór ekki framhjá neinum í Salaskóla í morgun að öskudagur væri runninn upp. Krakkarnir flyktust að í morgunsárið í afar skrautlegum og frumlegum búningum og það mátti m.a. koma auga á skrautlega indíana, snjókorn, gangandi Iphone, vampýrur, Harry Pottera, alls kyns álfa, flottar frúr, velklædda herramenn og prinsessur. Krakkarnir í unglingadeildinni hjálpuðu þeim yngri með anditsmálninguna. Morguninn fór í stöðvavinnu að ýmsu tagi, það var t.d. föndrað, farið í krossglímu, unnið í ipad, getið upp á orðum, teiknað og málað svo eitthvað sé nefnt og síðan var dansað í salnum. Þessi skemmtilegi morgunn endaði svo á flottri pylsuveislu í hádeginu og svo voru allir leystir út með nammipoka. Nokkrir náðust á mynd í morgun eins og sjá má hér.
Flottu skákstelpurnar okkar
Stúlknalið Salaskóla stóð sig glæsilega á Íslandsmótinu stúlknaliða í skák síðastliðinn laugardag.
Í liði Salaskola voru
1. Hildur Berglind Jóhannsdóttir – 8. b. Kjóar
2. Una Sól Jónmundsdóttir – 8. b. Kjóar
3. Móey María Sigþórsdóttir – 6. b. Mávar
4. Tinna Þrastardóttir – 6. b. Mávar
Liðsstjóri var Tómas Rasmus.
Torfi sigraði
Torfi Tómasson í 9. bekk fór með sigur af hólmi í Söngkeppni félagsmiðstöðva Kópavogs síðastliðið miðvikudagskvöld með frumsömdu lagi sínu Gods planet of fools. Hann sigraði undankeppnina okkar þann 4. janúar síðastliðinn með öðru frumsömdu lagi sem heitir The masquerade ball . Torfi keppir síðan fyrir okkar hönd í Söngkeppni Samfés laugardaginn 2. mars næstkomandi – sem verður vonandi sjónvarpað.
Vetrardrottningar
Einn daginn þegar snjóhvít mjöllin hafði fallið til jarðar í skjóli nætur sáu nokkrar stúlkur í 4. bekk sér leik á borði. Í morgunútivistinni hófu þær að gera myndir á drifhvíta jörðina með því að sparka upp snjónum með fótunum og síðan voru hendur og vettlingar notaðir til þess að fínpússa. Úr urðu þessi fínu listaverk, hjarta, stjarna og sól. Einhver fullorðinn kom þarna að og sá sig knúinn til að smella mynd af þessum vetrardrottningum og listaverkunum þeirra.
Sjá myndir af listaverkunum hér.
Hundraðdagahátíðin
Í dag eru fyrstubekkingarnir okkar búnir að vera 100 daga í skólanum og af því tilefni var haldið upp á daginn með hundraðdagahátíð. Þá er nú margt gert sér til skemmtunar og mikið um að vera. Nú rétt fyrir hádegi í dag var búið að koma fyrir tíu skálum með góðgæti á eitt stórt borð og það var verkefni hvers og eins að telja tíu mola í poka úr hverri skál sem gerði alls hundrað. Krakkarnir voru mjög einbeittir við þetta verkefni og létu ekkert trufla sig enda nákvæmisverk að telja nákvæmlega 100 stykki. Ýmiss önnur verkefni voru í gangi t.d. bjuggu allir sér til hundraðdagakórónu og röðuðu 100 perlum upp á band. Eftir hádegismatinn verður svo sleginn botninn í veisluna með því að horfa á kvikmynd saman og borða nammið úr pokanum sínum. Skemmtileg hefð í Salaskóla sem hefur viðgengist nokkuð lengi. Myndir frá hátíðinni.
Góðar fréttir úr Reykjaskóla
Eins og fram hefur komið hér á síðunni dveljast sjöundubekkingar í skólabúðunum á Reykjum í Hrútafirði frá mánudegi fram á föstudag. Eftrifarandi fréttaskeyti barst frá kennurunum þeirra í gær:
Hér úr Reykjaskóla er allt gott að frétta. Nemendur hafa verið frábærir og eru á fullu allan daginn í hópavinnu og skemmta sér mjög vel. Krakkarnir eru að kynnast nýjum vinum úr Austurbæjarskóla og ná hóparnir vel saman. Þau hafa fengið hrós frá starfsmönnum Reykjaskóla fyrir góða hegðun og mikla jákvæðni. Það kom í ljós að það var búið að fjarlægja tíkallasímann svo nemendur hafa ekki getað hringt heim sjálfir en hafa aðgang að síma á skrifstofu kennara ef þau vilja. Þau hafa hins vegar ekkert viljað hringja heim! 🙂 Þau virðast glöð með veru sína hér. Maturinn hér í skólanum hefur verið mjög góður og hafa nemendur tekið vel til matar síns. Þá eru þau sérstaklega ánægð með kvöldkaffið (mjólk, kex, muffins og kleinuhringir!)
Veðrið hefur verið mjög gott, pínu kalt en sól á lofti og fallegt veður. Næturnar ganga mjög vel. Að sjálfsögðu er aðeins vakað fram á kvöld…. en sofa eins og steinar ÞEGAR þau lognast út af :). Umgengni hefur verið góð á vistinni, búið um rúm alla morgna og skóm raðað nánast alltaf upp í hillur. Allir eru frískir og kátir. Einstaka hnútur í maga sem hefur liðið hjá eftir gott spjall. Yndislegir krakkar. Björgvin og Hrafnhildur. Myndir.