riturnar

Lestrarkeppnin í fullum gangi

riturnar


Eins og fram kom í haust er lestrarkeppnin Lesum meira í gangi á miðstigi, 5. – 7. bekk. Meginmarkmið keppninnar er að nemendur verði víðlesnari, auki orðaforða sinn og áhugi á bókalestri eflist. Í fyrstu var gefinn góður tími fyrir lestur áveðinna bóka á bókalista keppninnar  og síðan var dregið um hvaða bekkir ættu að keppa saman. Í keppninni reynir jafnt á almenna þekkingu nemenda sem þekkingu á ýmsu í heimi bókmenntanna auk þess að kunna vel skil á ákveðnum sögum.

teisturNú þegar eru búnar þrjár keppnir og sú fjórða verður á morgun, miðvikudag, þegar svölur og súlur etja kappi saman. Liðin samanstanda af þremur nemendum en stuðningsliðið, sem er bekkurinn, skipar stórt hlutverk því eins og gefur að skilja er mjög mikilvægt að styðja vel við sitt lið, hvetja og fagna á réttum stöðum og sýna í alla staði háttprúða framkomu. Einnig má beina einni spurningu til bekkjarins ef liðið stendur á gati.  Bekkirnir mæta prúðbúnir til leiks því hver bekkur skartar ákveðnum litum. Þetta eru miklar skrautsýningar bæði er varðar föt og andlitsmálningu. Ekki má gleyma hvatningaspjöldunum sem að sjálfsögðu eru líka í réttum litum. Sumir bekkir hafa jafnvel troðið upp með atriði til að styðja enn betur við liðið sitt. Á meðfylgjandi myndum sést annars vegar lið ritanna spreyta sig í síðustu viku á spurningum sem fyrir það voru lagt – hins vegar eru glæsileg stuðningslið teista og rita í salnum.   

jol_ikassa

Jól í skókassa

jol_ikassaKrakkarnir okkar í dægradvölinni taka þátt í verkefninu „Jól í skókassa“ fyrir þessi jól. Í því felst að hvert barn safnar ákveðnum hlutum í skókassa s.s. skóladóti, leikföngum, hreinlætisvörum, fötum  og sælgæti, skreytir kassann að utan og merkir hvort innihaldið henti strák eða stelpu. Á dögunum söfnuðust krakkarnir saman í anddyri skólans með kassana sína og gengu síðan fylktu liði út í Lindakirkju þar sem kassarnir voru afhentir. Krakkarnir tóku greinilega verkefnið alvarlega, héldu fast utan um kassann sinn og voru ábúðarfull á svipinn.

 „Jól í skókassa“ er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa. Skókassarnir verða sendir til Úkraínu þar sem búa um 46 milljónir manna. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift ríkir mikil örbirgð. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili og barnaspítala. Skoðið fleiri myndir.

frida

Vöfflur, nammi namm …

fridavofflur2
Á fjölgreindaleikum í síðustu viku var á einni stöðinni boðið upp á vöfflur eftir að liðið hafði leyst úr ákveðinni þraut. Krakkarnir voru afar ánægðir með þetta framtak stöðvarstjórans og vöfflurnar runnu ljúflega niður. Sumir komu svo að máli við stöðvarstjórann, hana Fríðu, og báðu um uppskrift að vöfflunum góðu. Að sjálfsögðu varð Fríða við þeirri bón og hér kemur uppskriftin. Uppskriftina er einnig að finna inni á Heimilisfræðihorninu á salaskoli.is/ Námið (Uppskriftir fyrir 5. – 10. bekk).

kosi

Hvað er þetta Kósý-herbergi sem allir eru að tala um?

kosiKósý-herbergi? Hvað er nú það, spurði einhver á fjölgreindaleikunum í gær?  Þegar farið var á stúfana til að njósna fundust loksins dyr sem merktar voru Kósý-herbergi  STÖР11. Inni ríkti verulega notaleg stemning þar sem liðsmenn eins liðsins voru að sýsla, sumir voru í tölvuspili, aðrir að horfa á vídeó og loks voru nokkrir að spila billjard.  Allir mjög slakir og nutu þess að vera í algjörum rólegheitum. Þetta var þá AFSLÖPPUNARSTÖРinn á milli til þess að safna kröftum fyrir þau viðfangsefni sem framundan voru á fjölgreindaleikum. Kósí hjá þeim!

skak22

Liðin standa sig vel

skak22
Seinni dagur fjölgreindaleikanna fór vel af stað og bakarinn, indíánastelpan, kötturinn og jólasveinninn voru mætt á sína stöðvar til þess að taka á móti liðunum í morgunsárið. Krakkarnir í liðunum eru farin að þekkjast vel og koma ennþá sterkari inn í þrautirnar fyrir bragðið. Fyrirliðarnir eru til mikillar fyrirmyndar, sýna ábyrgð og beita sína liðsmenn jákvæðum aga. Grænlendingarnir, sem eru í heimsókn hér í nokkra daga, koma inn í liðin eftir því sem þeir geta og virðast njóta sín vel. Í dag var pylsuveisla í hádeginum og boðið upp á ís á eftir sem allir kunnu vel að meta. Það er svo gaman hjá okkur.

Myndir frá seinni degi fjölgreindaleika.

met

Við slógum metið!

metLiðsmenn í liði númer 38 komu fagnandi út úr einni stöðinni á efri hæð í gula húsi og hrópuðu: „Við slógum metið“. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að þrautin á þessari stöð fólst í því að þekkja eins marga fána og mögulegt var á 10 mínútum.

Greinilegt var að nokkrir í þessu liði voru mjög vel að sér í fánum hinna ýmissa landa því þeir náðu að þekkja 114 fána sem stöðvarstjórinn, Alla bakarameistari, sagði að væri met frá upphafi. Skyldi einhverju liði takast að slá þetta met áður en kemur að lokum fjölgreindaleika í dag. Spennandi!

pusl

Fjölgreindaleikar, það hlaut að vera!!

puslÞegar málið var rannsakað (sjá frétt fyrir neðan) kom í ljós að fjölgreindaleikar voru að byrja í Salaskóla þennan ágæta miðvikudagsmorgun. Það er orðin hefð að halda þá að hausti en þá er skólastarfið leyst upp í tvo daga og nemendum skipt upp í hópa. Í hvern hóp raðast nemendur þvert á árganga sem þýðir að í hópnum eru nemendur frá 1.- 10. bekk. Elstu krakkarnir eru liðsstjórar og þurfa að standa sig í að halda utan um hópinn sinn og styðja við þá sem yngri eru. Hóparnir fara á milli 40 stöðva sem reyna á ýmsa hæfileika manna t.d. gæti einhver í hópnum verið góður í að þekkja fána meðan annar slær met í að klifra upp kaðal eða finna orð. Þannig verða einstaklingarnir í hópnum ein sterk heild sem vinnur til stiga er reiknuð eru saman í lokin. Á hverri stöð er stöðvastjóri, oftast kennari, sem er klæddur í furðuföt. Hann tekur tímann, safnar stigum og gefur gjarnan aukastig ef hópurinn er til fyrirmyndar. Þar er komin skýringin á skurðlækninum, spæjaranum Bond, senjórítunni og kengúrunni sem voru á sveimi við skólann fyrr í morgun. Skoðið myndir af þessu stórfurðulega fólki hér.

Krakkarnir voru hressir í bragði á fjölgreindaleikunum og þeir sem voru teknir tali sögðu að þetta væru afar skemmtilegir dagar. Þegar þeir voru spurðir hver væri skemmtilegasta stöðin voru svörin ærið misjöfn, sumum fannst stóra trambólínið skemmtilegast, aðrir nefndu húllahringina, kvikmyndastöðina og skákina. Kósí-hornið var einnig oft nefnt á nafn. Hvað skyldi vera gert þar, hm? Það verður rannsakað á morgun. Skoðið myndir af krökkunum við að leysa hinar margvíslegustu þrautir í skólanum. Þar reyndi mjög misjafnlega á hvern og einn. 

hjalti2

Stórfurðulegur morgunn

hjalti2james_bond
„Heyrið mig nú, hvað er um að vera?“, spurðu vegfarendur sem áttu leið framhjá Salaskóla í morgun. Var ekki sjóræningi að ganga inn í skólann? Þarna kemur svo prumpublaðra labbandi, síðan spænsk senjóríta sem svífur í fína kjólnum sínum í áttina að skólanum og ófrýnilegur mótorhjólakappi ! Nei, nei, nei…. hvað er að sjá ….. skurðlæknir kemur út úr einum bílnum. Er einhver aðgerð í gangi þarna, eða hvað? Vá, hættið nú alveg, þarna koma alls kyns furðuleg dýr sem ekki eiga einu sinni heima á Íslandi, pandabjörn og kengúra. Þarf ekki að ná í lögguna þetta er meira en lítið furðulegt. Nú, nú… þarna rennir glæsibifreið upp að skólanum og út stígur afar glæsilegur maður, sjálfur James Bond, ú, hú … njósnari hennar hátignar, mættur á svæðið. Guði sé lof, hann hlýtur að taka málin í sínar hendur.

prumpublara

graenlendingar

Grænlendingar í heimsókn

graenlendingar
Nokkir grænlenskir krakkar af austurströnd Grænlands eru staddir á Íslandi til að læra að synda á nokkrum dögum. Sundikennslan fer fram í Versalalaug og á milli þess sem þeir sækja sundtíma koma þeir í Salaskóla og fá að vera með krökkunum í 6. bekk. Þau taka þátt í ýmsum verkefnum með þeim og hefur samstarfið gengið mjög vel þessa dagana. Einnig fá þeir að borða í mötuneyti skólans með jafnöldrum sínum. Heimsóknin stendur í u.þ.b. 10 daga.

blatt_afram_002smalleast

Blátt áfram með sýningu

blatt_afram_002smalleast

Á dögunum fengu nemendur í 2. bekk heimsókn frá Blátt áfram. Það voru þær Hallveig Thorlacius og Helga Arnalds sem stjórnuðu brúðum í leikþættinum Krakkarnir í hverfinu.

Námsefnið Krakkarnir í hverfinu fjallar um líkamlegt ofbeldi og er samið og þróað með það fyrir augum að fræða börn um líkamlegt ofbeldi og gera þau meðvituð um þá þjónustu sem í boði er. Fræðslan felst í því að brúðurnar ræða saman um það sem þær hafa lent í og krakkarnir fá svo að bera fram spurningar í lokin.