Sjálfsmatsskýrsla Salaskóla

Sjálfsmatsskýrsla Salaskóla 2007-2009 er komin út. Hún hefur verið birt á heimasíðu skólans undir hlekknum skólinn > mat á skólastarfi. Í skýrslunni er gerð grein fyrir sjálfsmatsaðferðum skólans og þar er matsáætlun næstu ára. Greint er frá niðurstöðum úr ýmsum könnunum og prófum og að síðustu er umbótaáætlun. Við hvetjum foreldra til að kynna sér skýrsluna.

Viðbrögð við óveðri

NAUÐSYNLEGT er að tilkynna til skólans ef nemandi er hafður heima vegna óveðurs (eða veikinda). Hægt er að hringja á skrifstofu skólans (570 4600), senda tölvupóst (ritari@salaskoli.is) eða senda tilkynningu af svæði foreldra í mentor.is. Notið tölvupóst fremur en hringingar þar sem búast má við miklu álagi á símakerfi skólans.

Samræmda viðbragðaáætlun vegna óveðurs má finna hér á heimasíðu skólans. Við biðjum foreldra um að kynna sér hana.

Athugið eftirfarandi:

Skóla er aldrei lokað í óveðri nema fyrir tilstilli almannavarnanefndar.

Foreldrar verða að geta treyst því að skóli sé opinn hafi almannavarnir eða skólaskrifstofa ekki gefið út sérstaka tilkynningu um annað.

Ætlast er til að foreldrar meti sjálfir hvort þeir senda börn sín í skóla þegar óveður geisar. Sé þeim haldið heima þarf að tilkynna það til skóla eins og önnur forföll. Séu börnin hins vegar send í skóla er þess vænst af foreldrum að þeir fylgi börnum sínum í skólann og sæki þau að loknum skóladegi.

Ætlast er til þess af þeim kennurum sem kenna í síðasta tíma á stundaskrá hvers bekkjar að þeir sjái svo um að börnin fari ekki ein út í óveður að afloknum skóladegi. Heimferð þeirra sé tryggð – ella sé börnunum haldið í skóla þar til foreldrar sækja þau eða aðrar ráðstafanir hafa verið gerðar.

Telji foreldrar vafasamt að senda börn í skóla vegna óveðurs áréttar skólinn að aldrei sé teflt í tvísýnu, öryggi barnanna sitji ávallt í fyrirrúmi.

 

Val í unglingadeild – tímabil 2

Nú er fyrsta valtímabil skólaársins að renna út. Það fyrirkomulag sem við erum með núna virðist mælast vel fyrir. Nú er komið að valtímabili 2. Nemendur eiga að fara á netið og velja og þetta er eiginlega "fyrstur kemur, fyrstur fær" – kerfi, þannig að það er um að gera að drífa sig. Tvær nýjar valgreinar eru í boði, þ.e. námstækni og skapandi skrif.

Smellið á þennan línk til að komast í valblaðið: Val í unglingadeild – tímabil 2

Fjölgreindaleikarnir á miðvikudag og fimmtudag

Hinir árlegu fjölgreindaleikar Salaskóla hefjast á miðvikudaginn 23. september og standa yfir í tvo daga. Þá er nemendum skólans skipt í rúmlega 40 tíumanna lið sem keppa í greinum sem reyna á ólíkar greindir.

Í hverju liði er að jafnaði einn nemandi úr hverjum árgangi og hópstjórar koma úr 9. og 10. bekk. Þeir bera ábyrgð á sínu liði og sjá til þess að öllum líði vel og allir taki þátt.

Nemendur fá drykki og ávexti að morgni og þurfa því ekki að koma með morgunnesti.

Skólatíminn er sá sami fyrir alla nemendur þessa tvo daga, þ.e. frá kl. 8:10 – 13:30. Val í unglingadeild fellur því niður.

leifsstod1[1].jpg

Norðurlandameistararnir komu til landsins í dag

leifsstod1[1].jpgSkákmeistararnir okkar fengu góðar móttökur þegar þeir lentu í Keflavík í dag. Foreldrar þeirra fögnuðu þeim ásamt Hafsteini skólastjóra og Gunnsteini bæjarstjóra.

Þau fengu blómvönd frá skólanum og bæjarstjóri þakkaði þeim frábært framlag til skákíþróttarinnar og góða fyrirmynd á því sviði. Hann færði þeim ipod spilara af bestu gerð sem þakklætisvott frá bæjarstjórn Kópavogs. Krakkarnir voru alsælir og ánægðir með ferð sína til Stokkhólms. Þó greinilega þreytt enda reynir mót af þessu tagi mikið á. Við í Salaskóla erum yfir okkur stolt af þessu frábæra afreksfólki okkar.

Skáksveit Salaskóla Norðurlandameistar!

Þó svo að ein umferð sé eftir að Norðurlandamóti grunnskóla í skák hefur hin geysisterka sveit Salaskóla tryggt sér Norðurlandameistartitilinn. Sveitin hefur sýnt fádæma yfirburði og er vel að sigrinum komin. Afrek þessarar sveitar eru einstök en hún skartar nú Íslandsmeistaratitli, Norðurlandameistartitli og heimsmeistaratitli. Ólíklegt er að nokkur skáksveit grunnskóla hafi unnið þvílík afrek. Í sveitinni eru Patrekur Maron Magnússon, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, Páll Andrason, Eiríkur Brynjarsson og Guðmundur Kristinn Lee.

Heimasíða keppninnar er hér.