Author Archives: Ásgerður Helga Guðmundsdóttir
Aðalfundur foreldrafélagsins
Aðalfundur foreldrafélags Salaskóla verður þriðjudaginn 15. nóvember nk. Á fundinum verða venjuleg aðalfundarstörf, kosið í stjórn og fulltrúa í skólaráð. Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur kemur á fundinn og flytur erindi um einelti – einkenni þess, viðbrögð þegar það kemur upp og hvernig er hægt að stuðla að því að draga úr einelti. Allir foreldrar hvattir til að mæta. Fundurinn verður í sal Salaskóla og hefst kl. 20:00
Morgunkaffi með skólastjórnendum
Á næstu vikum bjóða stjórnendur Salaskóla foreldrum í morgunkaffi. Fyrirkomulagið er þannig að foreldrar nemenda í hverjum bekk fyrir sig mæta kl. 8:10 á kaffistofu starfsmanna, fá sér kaffisopa og spjalla við skólastjórnendur um skólastarfið. Eftir spjallið er bekkurinn heimsóttur í kennslustund og svo er allt búið kl. 9:00
Meðan á kaffispjallinu stendur skrifa foreldrar á blað það sem þeim finnst gott í starfi skólans og það sem má bæta.
Morgunkaffi með foreldrum er siður sem var tekinn upp fyrir nokkrum árum í Salaskóla. Þetta er kjörinn vettvangur fyrir foreldra að ræða skólastarfið við stjórnendur og fyrir stjórnendur að koma sjónarmiðum á framfæri við foreldra. Þá kynnast foreldrar einnig innbyrðis sem er ekki síður mikilvægt.
Dagsetningar eru þessar:
8. nóv – álftir
9. nóv – súlur
10. nóv – langvíur
11. nóv – teistur
15. nóv – lundar
16. nóv – ritur
17. nóv – mávar
18. nóv – kríur
22. nóv – steindeplar
29. nóv – starar
30. nóv – maríuerlur
1. des – stelkar
2. des – sólskríkjur
6. des – glókollar
7. des – þrestir
8. des – spóar
9. des – lóur
13. des – sendlingar
14. des – hrossagaukar
15. des músarindlar
Unglingadeildin er svo eftir áramót
Fjölgreindaleikarnir 6. og 7. október
Hinir árlegu fjölgreindaleikar Salaskóla verða haldnir 6. og 7. október nk. Þá verður nemendum skólans skipt upp í tæplega 50 tíumanna líð og í hverju liði er nemendur á öllum aldri. Liðsstjórar eru elstu nemendur skólans og stýra þeir sínum hópi allan daginn. Keppt er í 50 keppnisgreinum sem reyna á hinar ýmsu greindir mannskepnunnar. Að þessu sinni verða þó nokkrar nýjar keppnisgreinar.
Nýr kokkur
Siggi kokkur, sem hefur verið hjá okkur til margra ára og átt stóran þátt í að móta þá ágætu matarmenningu sem hér ríkir, er nú farin í veikindaleyfi. Við starfi hans tók Klara Björnsdóttir kokkur, en hún er reyndur skólakokkur. Við bjóðum hana velkomna til starfa. Vænta má einhverra breytinga á matseðlinum því nýtt fólk kemur alltaf með eitthvað nýtt.
Skipulagsdagur 30. september
Föstudaginn 30. september er skipulagsdagur í Salaskóla. Nemendur eiga frí en dægradvölin er opin frá kl. 8:00. Þennan dag er sameiginlegur skipulagsdagur í öllum grunnskólum Kópavogs og hann verður að þessu sinni haldinn í Salaskóla. Hér verða um 500 starfsmenn skólanna á námskeiðum og fræðslufundum allan daginn. Þar sem mikið álag verður á skólanum biðjum við þá foreldra sem ætla að nýta sér dægradvölina að láta okkur vita með því að senda tilkynningu á netfang dægradvalar egg@salaskoli.is
Skólaslit og vorhátíð
Salaskóla verður slitið mánudaginn 6. júní kl. 13:00. Nemendur mæta í sínar kennslustofur og ganga þaðan í hátíðarsal skólans, Klettagjá, þar sem skólanum verður slitið. Að loknum skólaslitum hefst vorhátíð foreldrafélagsins og þar verður mikið húllumhæ og boðið upp á grillaðar pylsur að venju. Nemendur eiga ekki að mæta í skólann fyrr en kl. 13:00 þennan dag, en dægradvölin er opin frá kl. 8:00 og fram að skólaslitum.