Við vorum rétt í þessu að fá þær upplýsingar að það er afleitt færi og veður í Bláfjöllum. Við verðum því að fresta skíðaferðinni þar til á morgun.
Það er því venjulegur skóli í dag í Salaskóla
Innritun 6 ára barna (fædd 2010) fer nú alfarið fram í gegnum íbúagátt á vef bæjarins https://ibuagatt.kopavogur.is
Opnað verður fyrir skráningu 1.mars 2016 og stendur hún til 8.mars.
Sömu daga fer fram innritun nemenda sem flytjast milli skólahverfa og þeirra sem flytja í Kópavog eða koma úr einkaskólum.
Fimmtudaginn 21. janúar eru foreldraviðtöl í Salaskóla. Opnað hefur verið fyrir skráningu á mentor og sjá foreldrar sjálfir um að bóka viðtölin. Dægradvölin opin allan daginn. Þar sem að stærstur hluti starfsfólks er í hlutastarfi eftir hádegi er mjög mikilvægt að foreldrar skrái börn sín ef þeir ætla að nota dægradvölina þennan dag. Það þarf að skrá í síðasta lagi þriðjudaginn 19. janúar. Við þurfum að gera heilmiklar ráðstafanir til að hafa nógu marga starfsmenn, enda þarf að semja við fólk um aukna vinnu og sumir eiga erfitt með að bæta við sig vegna t.d. náms. Þetta er langur dagur fyrir litlu krakkana og þeir sem eiga möguleika á að stytta hann eitthvað eru bara að gera börnunum gott. Þess ber að geta að ekki er rukkað sérstaklega fyrir auka vistunartíma á dögum sem þessum.
Fyrstu starfsmenn eru mættir í skólann og við opnum á venjulegum tíma. Úti er þó nokkurt rok og rigning og það þarf að fylgja yngstu nemendum í skólann. Líklega eru göngustígar blautir og þungir yfirferðar og í dag eru stígvélin besti skófatnaðurinn. Við gerum frekar ráð fyrir að allir verði inni í frímínútum. Almannavarnir á höfuðborgarsvæðinu hafa gefið út tilkynningu um að skólahald geti raskast eitthvað en það ætti ekki að vera hér í Salaskóla að ráði nema vegna þeirra starfsmanna sem nota strætisvagna til að koma sér í vinnuna.
Þegar líður á daginn í dag, 7. desember, er gert ráð fyrir afleitu veðri á höfuðborgarsvæðinu með ofsaroki og úrkomu og líklega bandbrjáluðum byl. Salaskóli biður foreldra að gera ráð fyrir að sækja börn sín í skólann fljótlega eftir hádegi og frekar fyrr en seinna. Það er líklegt að það verði umferðaröngþveiti þegar líður á daginn og allir að reyna að komast heim fyrir kl. 17. Við verðum að gera ráð fyrir að búið verði að tæma skólann í allra síðasta lagi kl. 16 þannig að starfsfólk komist til síns heima. Annars sendum við nánari upplýsingar í dag undir stjórn Almannavarna. Munum bara að vera skynsöm og yfirveguð – það er betra en sitja fastur í umferðaröngþveiti og stórhríð.
Morgunhressustu starfsmenn Salaskóla eru mættir og eru að opna skólann. Veðrið er í lagi þessa stundina en það er að versna. Foreldrar verða að fylgja börnum sínum í skólann. Líklegt er að það verði ófærð og kannski illviðri enn þá þegar skóla lýkur og þá verður á sækja börnin, þau fara ekki gangandi heim ein. Munum bara að vera ekkert að ana út í vitleysu, það verða örugglega nógu margir sem gera það og allt verður stopp út um alla borg.Við biðjum ykkur um að hringja ekki í skólann nema brýna nauðsyn beri til. Sendið frekar tölvupóst á asdissig@kopavogur.is eða tilkynnið fjarvistir í gegnum mentor. Látum þenna dag ganga vel.
Ágætu nemendur og foreldrar í Salaskóla – vond veðurspá í fyrramálið og þið skulið því fylgjast vandlega með tilkynningum í útvarpi og fréttamiðlum strax í fyrramálið. Tilkynning um hvort það verður skóli eða ekki verður send út um kl. 7. Við í skólanum tökum enga ákvörðun um það heldur er það gert af slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Mögulega getum við sem vinnum í skólanum átt erfitt með að komast í vinnu til að opna skólann og því er líka nauðsynlegt að fylgjast með tilkynningu hér á heimasíðu skólans og á facebook um hvort einhver sé búinn að opna húsið. Ekki leggja af stað fyrr en það liggur fyrir. Og ekki reyna að hringja í skólann, við höfum örugglega nóg annað að gera en að svara í símann. Svör við öllum spurningum verða á hér eða á facebooksíðu skólans. Verum bara slök og önum ekki út í vitlaust veður – það er algjjör óþarfi.
Í gær var skólaþing nemenda í Salaskóla haldið í annað skipti. Þá skiptu nemendur í 5. – 10. bekk sér í 50 hópa sem ræddu ýmis mál sem snúa að starfi og skipulagi Salaskóla. Nú var t.d. rætt um spjaldtölvuvæðinguna, einkunnarorð Salaskóla, matarsóun, Grænfánann og félagsmiðstöðina Fönix. Nemendur í 9. og 10. bekk voru hópstjórar og ritarar og skiluðu skriflegum niðurstöðum. Það er nú þegar byrjað að vinna úr þeim. Umræður voru afskaplega góðar og vel haldið utan um umræðurnar í hverjum hópi.
Niðurstöður samræmdu könnunarprófanna í 4. og 7. bekk voru að koma til okkar og krakkarnir koma með sínar niðurstöður heim í dag. Niðurstöðurnar eru ljómandi góðar og framfarir 7. bekkinga frá því í 4. bekk mjög miklar. Meðaltal 7. bekkjar er nú á landsmeðaltali en talsvert vantaði upp á það í 4. bekk. 4. bekkur er nú á landsmeðaltali. Venjan hér í Salaskóla er sú að nemendur sýna góðar framfarir á milli prófa í 4. og 7. bekk og 7. og 10. bekk. Þessar niðurstöður staðfesta þá tilhneigingu. Einnig höfum við fengið staðfestingu frá Námsmatsstofnun að framfarastuðull á milli prófa er hærri hér en almennt gerist. Við erum mjög sátt við það. Það sýnir okkur að við erum að gera vel í kennslunni.
Nú í október er vakin sérstök athygli á ADHD í þeim tilgangi að auka skilning í samfélaginu á þessum eiginleika sem svo margir fá í vöggugjöf.
Næst komandi miðvikudag ætlum við að huga að þessu hér í Salaskóla og hafa dag þar sem við minnum okkur á að “allir geta eitthvað, enginn getur allt”. Í öllum bekkjum fá nemendur tækifæri til að segja bekkjarfélögum sínum í hverju þeir eru góðir og við hvað þeir þurfa hjálp eða vilja bæta sig í. Þetta þarf ekki að snúast einungis um í hverju maður er góður í skólanum. Getur t.d líka verið góður vinur, hjálpsamur, góður að gera eitthvað heima o.s.frv. Hér er líka tækifæri til að segja frá einhverju sem maður er góður í og fáir vita um.
Heimaverkefni allra nemenda Salaskóla fyrir miðvikudag er að velta þessu fyrir sér og búa til stutta kynningu þar sem þetta kemur fram. Við biðjum foreldra um að hjálpa börnum sínum við þetta.
Þeir nemendur sem treysta sér ekki í þetta er leyfilegt að segja “pass” – það er í góðu lagi.
Með þessu viljum við undirstrika að við erum öll sérstök, hvert á sinn hátt og allir búa yfir styrkleika sem þarf að rækta sérstaklega.
Í tilefni dagsins verður öllum nemendum boðið upp á kökubita.