Almennt um starfið og skipulagsdag 2. október

Starfið gengur alveg prýðilega hér í Salaskóla. Nemendur stunda námið af krafti og nota frístundir í skólanum til að leika sér saman. Við höfum ekki orðið fyrir skakkaföllum í haust og fylgjum vel leiðbeiningum almannavarna í þeim efnum. Við megum að sjálfsögðu ekkert slaka á. Aðstæður geta breyst í einu vetfangi og við erum að sjálfsögðu viðbúin því. Auk okkar sem störfum hér gegnið þið foreldrar og forráðamenn veigamiklu hlutverki í sóttvörnunum. Þið þurfið að halda ykkur utan skólahússins áfram og foreldraviðtöl sem ættu að vera um þessar mundir munu því frestast eitthvað eða vera tekin í gegnum síma eða tölvur. Munið líka að ræða við börn ykkar reglulega um mikilvægi sóttvarna. 

Við viljum árétta að þegar einhver á heimilinu hefur óskað eftir að fara í sýnatöku, þá viljum við að börnin séu einnig í sóttkví þar til niðurstaða hefur fengist. Við viljum líka biðja ykkur um að upplýsa okkur ef börn ykkar eru heima vegna þess að þeir eru í stuttri eða langri sóttkví. Alltaf þegar þið skráið fjarvist vegna þeirra urfið þið að nefna ástæðu fjarvistar. 

Það er svo óskaplega mikilvægt fyrir krakkana og okkur öll að geta haldið uppi eðlilegu skólastarfi. Víða um heim eru skólar lokaðir og hafa verið það síðan í vor. Gríðarleg lífsgæði eru tekin frá þeim og líklegt er að fjöldi barna í fátækari löndum eigi aldrei afturkvæmt á skólabekk.

Á föstudag, 2. október, er skipulagsdagur í skólanum og þá eru nemendur í fríi. Við starfsfólkið mætum, leggjum mat á skólastarfið í haust og gerum áætlanir fyrir næstu vikur. Frístundin er opin og þeir sem eru með börn þar fá upplýsingar frá Auðbjörgu. 

Við þurfum að ganga á þolinmæðisbirgðir okkar áfram. Fara eftir leiðbeiningum og bregðast við þegar þarf. Við viljum þakka fyrir ykkar framlag og bara höldum áfram að vanda okkur. 

 

Birt í flokknum Fréttir.