Mikilvæg skilaboð

Það hefur gengið prýðilega hér í Salaskóla í haust. Í ljósi ástandsins í samfélaginu er aðalverkefni okkar að halda hér uppi daglegu skólastarfi fyrir nemendur frá morgni og fram á dag. Annað sem fylgir starfi skóla er margt sett til hliðar. Eins og fréttir bera með sér getur veiran verið ógn við skólastarf ef smit berst í skólann. Við sem vinnum hér í skólanum förum í einu og öllu eftir tilmælum almannavarna sem gilda fyrir grunnskóla og leggjum þannig okkar af mörkum til að láta þetta ganga sem best. Engu að síður getur allt gerst og við erum viðbúin því. 

Við viljum vekja athygli ykkar á því að skólinn er lokaður öðrum en starfsfólki og nemendum bæði á skólatíma og utan hans. Foreldrar og aðrir utanaðkomandi mega ekki koma inn í skólahúsið en við höfum þó gert örfáar undantekningar á því. Við munum nú herða enn frekar á þessu næstu tvær vikurnar. 

Foreldraviðtöl eru á dagskránni á næstunni og að þessu sinni verða þau aðallega tekin í síma eða í fundarforritum í tölvunni. Kennarar munu verða í sambandi við ykkur og finna út úr þessu með ykkur. 

Rétt er að vekja athygli á að allt þetta hefur áhrif á kennslu og fræðslu sem utanaðkomandi aðilar hafa séð um hér í skólanum. Þar má nefna skákþjálfun, forfallakennslu, hljóðfærakennslu og hvers kyns fræðslu aðra sem fólk utan skólans hefur sinnt. Starfsfólk skólans tekur þannig á sig vinnu fyrir aðra sem eru forfallaðir og því geta komið dagar sem við ráðum ekki við að sinna allri kennslu vegna forfalla. Þá þurfum við að senda nemendur heim. Biðjum ykkur um að taka því vel. 

Yngstu börnin eru í frístund eftir skóla og þar gildir það sama og í skólastarfinu. Foreldrar eiga ekki að koma inn í skólann þegar þeir sækja börnin, starf getur fallið niður vegna forfalla og börn eiga ekki að vera hálfveik í frístundinni.  

Það eru tilmæli frá almannavörnum um að börn sem eru með einhver veikindi eigi að vera heima. Það gildir líka um kvef og svoleiðis. Brýnið fyrir þeim að þvo sér og spritta. 

Við þurfum öll að hjálpast að við á láta þetta ganga vel. Það skiptir mestu máli að krakkarnir geti mætt í skólann. Takið upp símann ef þið þurfið að ræða eitthvað mikilvægt við okkur, sendið tölvupóst ef það eru upplýsingar sem þið þurfið að koma á framfæri. 

Birt í flokknum Fréttir.