Við vekjum athygli á þessari ljóðakeppni fyrir grunnskóla Kópavogs. Skilafrestur er til 6.desember. Nánari upplýsingar má sjá á mynd fyrir neðan :

Það er fín veðurspá fyrir föstudaginn næsta, þann 10. september. Þá verður efnt til Ólymipíuhlaups ÍSÍ frá kl. 11:00 -13:00 hér í Salaskóla.
Hlaupið hefst stundvíslega klukkan 11:00 og lýkur klukkan 13:00.
Ræst verður í hollum klukkan 11:00.
Nemendur á unglingastigi leggja fyrst af stað, næst fer miðstig og síðast yngsta stig.
Hringurinn sem nemendur fara í Ólympíuhlaup ÍSÍ er 2.5 km.
Þess má geta að nemendur hlaupa eða ganga sama hring og í fyrra.
Vert er að nefna að nemendur geta valið hversu marga hringi þeir hlaupa.
Eftirfarandi reglur eru til viðmiðunar fyrir hvern árgang:
Nemendur í 8. – 10. bekk hlaupa 2-4. hringi (5 – 10 km).
Nemendur í 4. – 7. bekk hlaupa 1-4. Hringi (2.5 – 10 km).
Nemendur í 2. – 3. bekk hlaupa 1-2 hringi (2.5 – 5 km).
Nemendur í 1. bekk hlaupa 1 hring með umsjónakennara. (2.5 km).
Við viljum brýna fyrir foreldrum að nemendur séu klæddir eftir veðri, í góðum skóm og fatnaði til hreyfingar.
Við hvetjum alla nemendur til að koma með merktan vatnsbrúsa.
Að loknu hlaupi eða frá kl 12:00 býður skólinn upp á grillaðar pylsur fyrir alla.
Við bjóðum ykkur velkomin til samstarfs við okkur á nýju skólaári..
Það er eftirvænting og tilhlökkun í loftinu bæði hjá börnum og fullorðnum. Gott fyrir krakkana að hitta félagana og komast í rútínu.
Eins og ykkur er kunnugt er veiran enn í gangi og við þurfum að umgangast hana af varfærni. Hér í skólanum ætlum við að halda uppi eins eðlilegu starfi og mögulegt er og látum ekkert slá okkur út af laginu. Búið er að bólusetja allt starfsfólk skólans og í næstu viku er öllum nemendum í 7. – 10. bekk boðið í bólusetningu og hafa foreldrar þeirra fengið upplýsingar um það.
Eins og komið hefur fram í fréttum munu skólar fara afar varlega af stað næstu vikurnar. Við sótthreinsum og gætum persónulegra sóttvarna. Við verðum með hólfaskiptingar til að byrja með og reynum að hafa sem minnsta blöndun á milli hólfa. Skólinn verður lokaður fyrir öðrum en nemendum og starfsmönnum en engu að síður geta foreldrar komið á fundi sem við boðum. Við biðjum ykkur um að koma ekki inn í skólann nema þið hafið fengið um það boð.
Minnum ykkur á að ef börn ykkar eru veik eða með einhver einkenni sem mögulega er hægt að tengja veirunni, þá á að halda þeim heima og fara með þau í skimun. Það má enginn koma veikur í skólann.
Skólinn verður settur þriðjudaginn 24. ágúst. Nemendur koma og hitta kennara og skólafélaga og eru hér í 40 mínútur.
9 og 10. bekkur mætir kl 8:30
7. og 8. bekkur mætir kl. 9:00
5. og 6.. bekkur mætir kl 9:30
3. og 4. bekkur mætir kl 10:00
2. bekkur mætir kl. 10:30
Foreldrar geta því miður ekki komið með og börnin þurfa því að koma ein. Þau eiga að koma í aðalanddyri og þurfa ekki að fara úr skónum.
Nemendur í 1. bekk eru boðaðir í viðtöl hjá kennara með foreldrum sínum dagana 23. og 24. ágúst.
Nýir nemendur í öðrum bekkjum en 1. bekk eru boðnir velkomnir í stutta heimsókn í skólann á mánudag, 23. ágúst, kl. 9:00. Mega koma með eitt foreldri með sér.
Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá miðvikudaginn 25. ágúst.
Í sumar verða félagsmiðstöðvar Kópavogs með opnanir fyrir unglinga sem voru að klára 7.-10.bekk. Er það í annað sinn sem við verðum með sumaropnanir en í fyrra gáfust þær mjög vel. Sumaropnun félagsmiðstöðva verður frá 7.júní til 9.júlí. Dagskráin verður gerð í samvinnu við unglinga og starfsfólk. Við munum halda úti dagopnunum, kvöldopnunum og sértæku hópastarfi í samstarfi við Vinnuskóla Kópavogsbæjar. Öll nánari dagskrá verður auglýst á instagram síðu okkar (felagsmidstodinfonix) og einnig verður hún send út í tölvupósti.
Einnig verða sumarsmiðjur fyrir þau sem voru að klára 4.-7.bekk í félagsmiðstöðvum Kópavogs og má skrá sig í þær óháð búsetu, upplýsingar og skráning eru á http://sumar.kopavogur.is/
Flakkandi félagsmiðstöð er svo nýsköpunarverkefni sem unnið er í tengslum við styrk frá Félagsmálaráðuneytinu og fer fram dagana 19.júlí-4.ágúst. Nánari upplýsingar um dagskrá Flakkandi félagsmiðstöðvar verður send út síðar.
Mánudagurinn 7. júní er síðasti skóladagur nemenda í 1. – 9. bekk. Þau mæta að morgni dags og eru við leik og störf skv. skipulagi kennara hvers árgangs. Markmiðið er að eiga góðar og skemmtilegar samverustundir í lok skólaársins.
Daginn eftir, þriðjudaginn 8. júní verður skólanum slitið, en þar sem samkomutakmarkanir, (sem leyfa aðeins 150 manns og eru nemendur í þeirri tölu), koma í veg fyrir þátttöku foreldra í skólaslitum,ætlum við að ljúka þeim þætti í lok skóladags 7. júní hjá nemendum í 1. til 4. bekk. Dægradvölin er svo opin fyrir þau alla vikuna, eins og kunnugt er.
Nemendur í 5. – 7. bekk eiga að mæta á skólaslit 8. júní kl. 9:00 og nemendur í 8. og 9. bekk kl. 10:00. Þeir fara fyrst til umsjónarkennara sinna sem spjalla við þá um veturinn sem var að líða og sumarið sem nú er að taka við. Síðan hittast allir í salnum þar sem skólanum verður formlega slitið.
Sunnudaginn 21. mars nk er alþjóðlegi Downs dagurinn. Markmiði dagsins er að auka vitund og minnka aðgreiningu. Dagsetningin er táknræn að því leyti að hún vísar til þess að Downs-heilkenni orsakast af auka litning í litningi 21, þ.e. 3 eintök af litning 21 – 21.03.
Við í Salaskóla erum stolt af því að í skólanum eru nokkrir nemendur með Downs-heilkenni og við ætlum að halda upp á daginn núna á föstudaginn þ.e. 19. mars. Við mælumst til þess að bæði nemendur og starfsfólk mæti í mislitum sokkum þann dag og fögnum fjölbreytileikanum á táknrænan hátt.