ADHD

Hér í Salaskóla er vaninn að halda Allir geta eitthvað – Enginn getur allt – daginn, í október. Þar er vakin sérstök athygli á ADHD í þeim tilgangi að auka skilning í samfélaginu á þessum eiginleika sem svo margir fá í vöggugjöf.

Hvað er ADHD ?

Á heimasíðu ADHD samtakanna er að finna góða útskýringu á því hvað Athyglisbrestur og ofvirkni – ADHD er:

 „Athyglisbrestur og ofvirkni, oft kallað ADHD í daglegu tali, er taugaþroskaröskun sem kemur yfirleitt snemma fram eða fyrir 7 ára aldur og getur haft víðtæk áhrif á daglegt líf, nám og félagslega aðlögun. Athyglisbrestur og ofvirkni er algerlega óháð greind. ADHD er alþjóðleg skammstöfun og stendur fyrir “Attention Deficit Hyperactivity Disorder” eða athyglisbrest og ofvirkni…. Nýjar rannsóknir sýna að 5-10% af hundraði barna og unglinga glíma við ofvirkni sem þýðir að 2-3 börn með ADHD gætu verið í hverjum bekk að meðaltali í öllum aldurshópum. Auk þess geta börn haft vægari einkenni. Í hópi barna með ADHD eru þrír drengir á móti hverri einni stúlku. Nýjar rannsóknir benda þó til að fleiri stúlkur séu með ADHD en talið hefur verið“.  

Auk þess er þar góður punktur um uppeldi barna og unglinga með ADHD:

„Uppeldi barna og unglinga með ADHD er oft krefjandi og reynir því töluvert á bæði foreldra og aðra, t.d. kennara.  Góð sjálfsímynd er forsenda velgengni og því er lykilatriði að stuðla að því að börnin bíði ekki stöðuga ósigra í daglegu lífi. Börn og unglingar læra ekki af skömmum og neikvæðu viðmóti. Þetta brýtur niður sjálfsmyndina og eykur hættu á kvíða og depurð. Mikilvægt er að leita eftir sterkum hliðum en ekki að einblína á veikleika“.

Á Allir geta eitthvað – enginn getur allt – deginum, fá nemendur í öllum bekkjum tækifæri til þess að segja bekkjarfélögum sínum í hverju þeir eru góðir og við hvað þeir þurfa hjálp eða vilja bæta sig í. Þetta þarf ekki að snúast einungis um í hverju maður er góður í skólanum. En það er t.d. hægt að vera góður vinur, hjálpsamur, góður að gera eitthvað heima o.s.frv. Nemendur koma þá fram með stutta kynningu þar sem þetta kemur fram, en enginn er þó skyldugur að tjá sig. Með þessu vill Salaskóli undirstrika að við erum öll sérstök, hvert á sinn hátt og allir búa yfir styrkleika sem þarf að rækta sérstaklega. Nemendur og starfsfólk eru þá hvött til þess að mæta í einhverju röndóttu í tilefni dagsins.

Í Salaskóla er svo starfandi faghópur um ADHD – nemendur. Gert var myndbandið „allir geta eitthvað, enginn getur allt“ fyrir nokkru síðan sem var afrakstur hugmyndafræði og vinnu þessa faghóps. Hugmyndin að myndbandinu kviknaði einmitt á ADHD deginum sjálfum. Hópur stelpna á miðstigi málaði bakgrunninn í myndbandinu. Nemandi, sem var þá, í 5. bekk teiknaði persónurnar og nokkrum textum frá nemendum, frá ADHD deginum hefur verið blandað saman. Upplesarar eru einnig nemendur í Salaskóla.

Myndbandið má sjá hér