Sérkennsla

Markmið Salaskóla í sérkennslu er að skapa námslega sigra, efla vellíðan og félagslega færni nemenda.

Við beinum athyglinni að litrófi fjölbreyttra hæfileika nemenda og lítum á nemendur frá sjónarhorni styrkleika þeirra og áhugasviða. Þegar upp kemur vandi hjá einstökum nemendum eða námshópum er lögð áhersla á að vandinn sé rétt skilgreindur, greindur og úrræði valin í samræmi við niðurstöður greininga. Einstaklingsnámskrár eru gerðar fyrir þá nemendur sem þurfa á því að halda. Þær eru unnar í samstarfi sérkennara, umsjónarkennara, foreldra og annarra fagaðila.

Greiningarniðurstöður sérfræðinga frá Greiningarstöð ríkisins, BUGL, skólasálfræðingi og sérkennurum eru notaðar til grundvallar við gerð einstaklingsnámskrár. Einnig eru ýmis próf og skimanir  notaðar til grundvallar.

Á yngsta aldursstigi, í 1.-4. bekk, er áhersla lögð að fyrirbyggjandi starfi með því að nota fjölbreyttar aðferðir. Unnið er markvisst að því að finna og vinna með þau börn sem eru í áhættuhóp vegna lestrarerfiðleika og viðvarandi hegðunarvanda.

Á miðstigi, í 5.-7. bekk, er m.a. unnið með námstækni og nemendum með  sértækan námsvanda bent á aðrar námsaðferðir. Nemendur með  sértæka lestrarerfiðleika/dyslexíu  þjálfast í að nota ýmis hjálpartæki, s.s. hljóðbækur og tölvur.

Á unglingastigi, í 8.-10. bekk, er megináhersla lögð á námstækni og reynt að finna ákjósanlegar leiðir í námi fyrir nemendur með sértækan námsvanda. Mismunandi leiðir eru farnar í sérkennslunni til að mæta námsþörfum unglinganna og eru þær valdar í samstarfi við fagkennarana.

Gert er ráð fyrir að sérkennsla fari fram í bekkjarstofunum eins og kostur er og áhersla lögð á fyrirbyggjandi starf. Sérkennarar, umsjónarkennarar, þroskaþjálfar og sérgreinakennarar vinna saman að því að skipuleggja hvetjandi námsumhverfi og aðstæður. Hvetja nemendur til dáða með því að vekja áhuga og forvitni á viðfangsefnum.

Við leggjum áherslu á sveigjanleg vinnubrögð og reynum að koma til móts við styrkleika nemenda og mismunandi námsþarfir. Sumum nemendum nýtist best að fá stuðninginn inn í bekkinn en öðrum hentar betur að vinna í smærri hópum í námsveri. Því eru stundum tveir kennarar í ákveðnum námsgreinum í bekknum eða sérkennari með hóp nemenda í námsveri. Við leggjum áherslu á breytilega nemendahópa.

Námsverin Ugla og Hreiðrið eru ætluð fyrir nemendur í yngri bekkjum og eru staðsett í nánd við bekkjarstofur þeirra. Námsverið C-11 er fyrir nemendur á miðstigi og er staðsett á vinnusvæði miðstigsnemendanna. Námsverið F-13 er námsver unglingastigs og er það einnig staðsett eins landfræðilega nálægt unglingunum og kostur er í byggingunni.

Í námsveri fer fram kennsla í minni hópum, það geta verið allt frá tveimur til tólf nemendur í hóp og geta hóparnir verið breytilegir. Jafnframt því að leggja áherslu á fjölbreyttar kennsluaðferðir þá leggjum við einnig áherslu á að mæta ólíkum námsþörfum nemenda okkar. Í námsveri fá nemendur einnig aðstoð sem hugsuð er til að bæta sjálfmynd þeirra og líðan.

Námskeið eru haldin fyrir nemendur sem þurfa tímabundna aðstoð í námi. Sem dæmi um námskeið má nefna lestrarnámskeið, hljóðgreininganámskeið, málörvunarnámskeið, félagsfærni- og samskiptanámskeið og stærðfræðinámskeið. Tímalengd námskeiða er gjarnan 6 vikur.

Við vinnum eftir hugmyndafræði skóla án aðgreiningar, hugmyndafræði H. Gardners um fjölgreindir, grunnskólalaga og Aðalnámskrá grunnskóla. Til að ná markmiðunum leitum við leiða í einstaklingsmiðuðum kennsluháttum, fjölbreyttum kennsluaðferðum, blönduðum námshópum, samstarfi kennara, og sveigjanlegum úrræðum.