Starfsáætlun

Inngangur

Starfsáætlun Salaskóla 2020-2021 er upplýsingabanki um starfsemi Salaskóla á skólaárinu. Hér er um að ræða yfirlit yfir helstu viðburði sem og áherslur og markmið í skólastarfinu í vetur. Einnig er hér að finna þær venjur, siði og reglur sem ríkja í skólanum.

Áhrif heimsfaraldurs COVID19 á skólastarfið

Frá því í byrjun mars hefur COVID19 – veiran haft veruleg áhrif á skólastarf um alla heimsbyggðina. Hér í Salaskóla var skólastarf í vor verulega skert. Skólastarf hefur verið með eðlilegum hætti frá byrjun þessa skólaárs, en með ákveðnum takmörkunum þó. Skólinn er t.d. lokaður öllum öðrum en nemendum og starfsmönnum. Foreldrafundir, foreldraviðtöl og hvers kyns starf með foreldrum er því sett á ís, heimsóknir utanaðkomandi aðila með fræðslu eða annað fyrir nemendur og starfsólk sömuleiðis. Takmarkaður samgangur er milli starfsfólks og sérstök áhersla er ítrustu smitvarnir. Innanhússfundum er að sjálfsögðu haldið í lágmarki. 

Það má búast við að margt af því eðlilegt hefur talist í skólastarfi þurfi nú undan að láta og bíða betri tíma. Aðalverkefni okkar að halda hér uppi daglegu og góðu skólastarfi fyrir nemendur frá morgni og fram á dag. Annað sem fylgir starfi skóla verður því margt sett til hliðar. Veiran er ógn við skólastarf ef smit berst í skólann. Við sem vinnum hér í skólanum förum í einu og öllu eftir tilmælum almannavarna sem gilda fyrir grunnskóla og leggjum þannig okkar af mörkum til að láta þetta ganga sem best. Engu að síður getur allt gerst og við erum viðbúin því. 

Starfsáætlun Salaskóla skólaárið 2020 – 2021 tekur mið af þessu en í henni er þó engu að síður ýmissa atriða getið sem geta fallið niður eða breyst vegna faraldursins.  

Um Salaskóla

Salaskóli tók til starfa í sumarlok 2001. Skólinn er í Salahverfi, í Leirdal, sem liggur norðan við Rjúpnahæð í Kópavogi.  Skólaárið 2020-2021 verða nemendur um 590 í 1.-10. bekk.

Skólinn býr við góða aðstöðu, þó vissulega sé þröngt um starfsemina vegna fjölda nemenda.  Húsnæði skólans er hlýlegt og gott og skólinn er vel búinn kennslugögnum og tækjum. Við hlið skólans er íþróttamiðstöðin Versalir og þar eru íþróttasalir og sundlaugar sem skólinn hefur afnot af.  Þrjár lausar kennslustofur eru á lóð skólans en þær eru nýttar til að mæta þeim fjölda nemenda sem er í skólanum um þessar mundir.

Umhverfi skólans er fjölbreytt og gefur mikla möguleika til kennslu. Skammt frá skólanum eru frábær útivistarsvæði. Fremur stutt er í bæði Elliðavatn og Vífilsstaðavatn og í næsta nágrenni skólans er kirkjugarður og golfvöllur. Skólalóðin er hönnuð m.a. með tilliti til útikennslu og hún hefur verið endurbætt mikið á síðustu árum. Hún er fjölbreytt, með völlum og leiktækjum.  Skammt frá skólanum er útikennslustofan okkar, Rjúpnalundur.

Salaskóli 2020-2021

Heimilisfang: Versalir 5, 201 Kópavogur       

Sími: 441 3200

SkólastjóriKristín Sigurðardóttir

Aðstoðarskólastjóri: Hrefna Björk Karlsdóttir

Deildarstjóri: Hulda Björnsdóttir

Deildarstjóri sérkennslu: Berglind Þyrí Finnbogadóttir

Sími í félagsmiðstöð:  441 3224/696 1627, forstöðumaður er Tinna Heimisdóttir   

Ritari:  Ásdís Sigurjónsdóttir

Netfang: salaskoli@kopavogur.is              

Húsvörður:  Unnar Reynisson

Heimasíða:  http://salaskoli.is                              

Salaskóli á Facebook           

Fjöldi nemenda:  590

Fjöldi starfsmanna: 103

Skrifstofa skólans er opin mánudaga til föstudaga frá kl. 7:45 – 15:30

Stefna Salaskóla

Salaskóli er UNESCO-skóli og byggir því stefnu sína á hinum 17 heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Við einsetjum okkur að nemendur, starfsfólk og allt skólasamfélagið leggi sig fram við að gera það sem það er megnugt til að stuðla að sjálfbærni jarðar á öllum sviðum. Við hugsum vel um okkur sjálf, umhverfi okkar og hvert annað. Saman lærum við til að vera góðar manneskjur, öðlast fjölbreytta þekkingu, koma góðum hlutum í framkvæmd og lifa saman í sátt og samlyndi.

Salaskóli er framsækinn skóli sem byggir starf sitt og þróun á reynslu og rannsóknum.  Nemendur og hagsmunir þeirra eru ávallt í fyrsta sæti, en markmið skólans er að gera nemendur að góðum og nýtum þegnum þessa lands. Nemendur byggja upp sjálfstraust og sjálfsaga sem nýtist þeim í hvers kyns aðstæðum seinna meir.

Grunnþættir menntunar skipa veglegan sess bæði í námi og starfsháttum skólans. Grunnþættirnir eru læsi, lýðræði, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, sköpun og jafnrétti.

Helstu áhersluatriði Salaskóla eru:

 • Við leggjum áherslu á sterkar hliðar sérhvers nemanda. Allir eiga að fá frelsi til að njóta sín sem einstaklingur sem og í hóp.
 • Við leggjum áherslu á verndum umhverfisins og hvetjum nemendur jafnt sem foreldra að taka þátt í því starfi.
 • Við leggjum áherslu á að bæði kynin fái að njóta sín á jafnréttisgrundvelli. –
 • Salaskóli er heilsueflandi grunnskóli. Við temjum okkur heilbrigði og holla lífshættir. Markviss áhersla er lögð á útivist og fjölbreytt íþróttastarf.
 • Við leggjum áherslu á að kenna nemendum að rækta með sér góð gildi sem allir í siðmenntuðu samfélagi þurfa að rækta með sér. Mikilvægt er að nemendur temji sér góða framkomu, virðingu í garð annarra og góð vinnubrögð.
 • Við leggjum áherslu á gott samstarf skóla og foreldra og að það er forsenda góðs skólastarfs.

Skipulag

Stjórnun

Skólastjóri er Kristín Sigurðardóttir. Hann er forstöðumaður skólans og ber ábyrgð á starfi hans gagnvart sveitarstjórn. Aðstoðarskólastjóri er Hrefna Björk Karlsdóttir, Hulda Björnsdóttir er deildarstjóri og sinnir fjölmörgum verkefnum, Berglind Þyrí Finnbogadóttir er deildarstjóri sérkennslu og Logi Guðmundsson er deildarstjóri og sinnir stigsstjórn á unglingastigi. Í sameiningu veita þau skólanum faglega forystu og skipta með sér verkum við stjórn skólans.  

Samstarfsteymi   

Innan Salaskóla eru nokkur samstarfsteymi. Kennarar hvers árgangs mynda samstarfsteymi sem í sameiningu fer með umsjón með nemendur árgangsins. Auk þess eru smiðjukennarar með sérstakt samstarfsteymi sem og sérkennarar. Í hverju teymi eru einnig aðrir kennarar sem að kennslu hópanna koma hverju sinni. Þar er jafnframt sérkennari sem sinnir kennslu í þeim hópum sem um ræðir. Sá sérkennari skipuleggur sérkennslu í samvinnu við kennara teymisins og í samráði við deildarstjóra sérkennslu. 

Skipulag og stundaskrá

Skipulag og kennsluhættir Salaskóla markast af stefnu og markmiðum skólans.  Áhersla er á einstaklingsmiðað nám sem og að koma til móts við þarfir, áhuga og getu hvers og eins. Tímafjöldi nemenda í hverjum árgangi í hverri námsgrein er í samræmi við viðmiðunarstundaskrá menntamálaráðuneytisins og finna má í aðalnámskrá grunnskóla. Til að auka sveigjanleika og fjölbreytni í skólastarfinu er nauðsynlegt að stundaskráin geti verið breytileg, en sá tími sem nemendur eru í skólanum á degi hverjum er sá sami. 

Skólaráð

Skólaráð fjallar um og gefur umsögn til skólans og skólanefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða skólahaldið, fylgist með að áætlanir séu kynntar foreldrum. Skólastjóri starfar með skólaráði og veitir því upplýsingar um starfið í skólanum. Ráðið fundar að jafnaði mánaðarlega með skólastjórnendum og eru fundargerðir þeirra aðgengilegar á heimasíðu skólans.

Skólaráð er skipað 2 fulltrúum foreldra, 2 fulltrúum nemenda, 2 fulltrúum kennara, 1 fulltrúa annarra starfsmanna skólans, 1 fulltrúa grenndarsamfélagsins auk skólastjóra og aðstoðarskólastjóra. Í skólaráðinu sitja nú

Ásgerður Helga Guðmundsdóttir, kennari

Auður Kristín Ebenezersdóttir, kennari

Vantar, fulltrúi grenndarsamfélagsins

Ólöf Ásdís Ólafsdóttir, fulltrúi foreldra

Lilja Björk Hjálmarsdóttir, skólaliði

Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, fulltrúi foreldra

Hrefna Björk Karlsdóttir, aðstoðarskólastjóri situr einnig fundi skólaráðs

Fundir skólaráðs eru að jafnaði mánaðarlega.

Skóladagatal

Skóladagatal Salaskóla er unnið skv. lögum og reglugerðum. Á því koma fram helstu viðburðir skólaársins. Skipulagsdagar á þessu skólaári eiga að vera samræmdir við skiplagsdaga í leik- og grunnskólum í nágrenninu. Skóladagar nemenda eru 180 og af þeim eru 6 sem víkja frá stundaskrá. Þeir eru auðkenndir með appelsínugulum lit á skóladagatali. Fyrir utan þessa 180 daga eru 5 skipulagsdagar á skólaárinu. Þá daga vinna kennarar að skipulagi,  áætlunargerð, stefnumótun og mati á skólastarfinu. Skóladagatal Salaskóla má nálgast á vef skólans.

Nemendavernd

Salaskóli leggur mikla áherslu á að öllum nemendum líði vel í skólanum sem og utan hans. Vegna þessa gerir starfsfólk skólans sitt besta við að vera vakandi yfir velferð þeirra. Vanlíðan getur birst í óæskilegri hegðun, s.s. fjarvistum, ofbeldi, vanrækslu í námi, einelti o.s.frv. Nemendaverndarráð heldur utan um þessi mál og grípur inn í þegar þess þarf í samráði við umsjónarkennara. Auk þeirra eru nemendur sjálfir og foreldrar þeirra lykilaðilar þegar kemur að velferð nemenda.

Hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma sérfræðiþjónustu við nemendur, þ.e. námsráðgjöf, sálfræðiráðgjöf, skólahjúkrun og aðra stoðþjónustu. Nemendaverndarráð fjallar um sérstök úrræði fyrir einstaka nemendur eða nemendahópa og metur hvaða viðbótarupplýsinga er þörf. Ráðið tekur ákvörðun um aðgerðir og framkvæmd þeirra.

Hlutverk umsjónarkennara er að fylgjast með námi, þroska og líðan nemenda sinna, aðstoða þá eftir föngum og gefa þeim góð ráð í persónulegum málum. Hann er í samstarfi við foreldra og vísar til nemendaverndarráðs þeim málum sem undir það falla.

Hlutverk nemenda er að stunda nám sitt af kostgæfni og sýna alúð í vinnu og samskiptum.

Hlutverk foreldra er að gæta hagsmuna barna sinna, vera ábyrgir fyrir framkomu, skólasókn og heimavinnu barna sina og vakandi yfir líðan þeirra, námsgengi og félagslegri stöðu.

Skólaheilsugæsla

Meginmarkmið skólaheilsugæslu er að stuðla að því að börn fái að vaxa, þroskast og stunda nám sitt við bestu andlegu, líkamlegu og félagslegu skilyrði sem völ er á. Heilsugæsla skólabarna er framhald af ung- og smábarnavernd. Skólaheilsugæslan leitast við að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Starfsfólk skólaheilsugæslu vinnur í náinni samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.

Reglubundnar skoðanir og bólusetningar

1. bekkur: Sjónpróf, heyrnapróf, hæðarmæling og þyngdarmæling
4. bekkur: Sjónpróf, hæðarmæling og þyngdarmæling
7. bekkur: Sjónpróf, hæðarmæling, þyngdarmæling og athugun á litaskyni. Bólusett gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt (ein sprauta). Bólusett gegn leghálskrabbameini 3 sprautur á 6 mánaða tímabili.
9. bekkur: Sjónpróf, heyrnapróf, hæðarmæling og þyngdarmæling. Bólusett gegn mænusótt, barnaveiki og stífkrampa (ein sprauta)

Nemendur í öðrum árgöngum eru skoðaðir ef ástæða þykir til eða ef foreldrar óska eftir því. Skólaheilsugæsla fylgist einnig með því að börn hafi fengið þær bólusetningar sem tilmæli landlæknis segja til um. Ef börn hafa ekki fengið fullnægjandi bólusetningar verður haft samband við foreldra áður en bætt er úr því.

Fræðsla / heilbrigðishvatning / forvarnir

Skólaheilsugæsla sinnir skipulagðri heilbrigðisfræðslu og hvetur til heilbrigðra lífshátta. Farið er inn í alla árganga með fyrirfram ákveðið fræðsluefni. Byggt er á hugmyndafræðinni um 6-H heilsunnar sem er samstarfsverkefni skólaheilsugæslunnar og Lýðheilsustöðvar. Áherslur fræðslunnar eru Hollusta – Hvíld – Hreyfing – Hreinlæti – Hamingja – Hugrekki og kynheilbrigði. Öll tækifæri sem gefast eru nýtt til að fræða nemendur og vekja þau til umhugsunar og ábyrgðar á eigin heilbrigði. Foreldrar geta leitað eftir ráðgjöf skólaheilsugæslunnar varðandi vellíðan, andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði barnsins.

Tannvernd

Flúorskolun fer fram í skólanum hjá 1., 7. og 10. bekk eftir tilmælum frá miðstöð tannverndar. Flúorskolað er þrjá daga í röð annan hvern mánuð.

Hnetulaus Salaskóli

Í Salaskóla eru nokkur börn með svæsið hnetuofnæmi. Salaskóli er því hnetulaus skóli. Hnetur geta valdið mjög slæmu ofnæmi hjá sumum nemendum okkar og viljum við því biðja alla að passa sérstaklega upp á að koma ekki með hnetur í skólann.  Athugið að hnetur geta verið í brauðum, kökum, sælgæti og jógúrtum. Lesið innihaldslýsingar. Hnetur mega alls ekki koma inn fyrir veggi skólans.

Skólasamfélagið

Skólabragur í Salaskóla

Í Salaskóla leggjum við áherslu á jákvæðan og uppbyggilegan skólabrag. Kennsluhættir vega þungt ásamt þeim viðhorfum sem ríkja í skólanum. Áhersla er lögð á gott starfsumhverfi fyrir nemendur og starfsfólk og að hagsmunir nemenda séu í brennidepli. Skólinn vinnur í anda stefnunnar Uppeldi til ábyrgðar þar sem uppbyggilegar aðferðir eru hafðar að leiðarljósi.

Í kennslunni er horft til styrkleika og ólíkra greinda nemenda og nýjar leiðir eru farnar til að koma betur til móts við nemendur. Gott stoðkerfi undirstrikar það viðhorf að sérhver nemandi sé mikilvægur og fái notið góðrar skólagöngu.

Mikið er lagt upp úr góðum og jákvæðum samskiptum allra aðila skólasamfélagsins. Þannig er lögð áhersla á að þegar einhverjum verður á, sé málið leyst á uppbyggilegan hátt og að allir gangi uppréttir frá borði.

Hlustað er á viðhorf og vilja aðila skólasamfélagsins um skólastarfið og leitað eftir hugmyndum um hvernig bæta megi það.

Ábyrgð og skyldur nemenda, foreldra og starfsfólks skóla

(Samkvæmt reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélags í grunnskólum)

Nemendur

 • nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni, háttsemi og samskiptum við skólasystkin og starfsfólk skóla, þ.m.t. rafrænum samskiptum og netnotkun með hliðsjón af aldri þeirra og þroska
 • nemendur eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í málum sem þá varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra.
 • Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnireglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.
 • Nemanda skal gefinn kostur á að tjá sig ef fundið er að hegðun hans vegna brota á skólareglum.

Starfsfólk skóla

 • Starfsfólk skóla skal ávallt bera velferð nemenda fyrir brjósti og leggja sig fram um að tryggja nemendum öryggi, vellíðan og vinnufrið til að þeir geti notið skólagöngu sinnar. Starfsfólki ber að stuðla að jákvæðum skólabrag og starfsanda í öllu skólastarfi og góðri umgengni.
 • Starfsfólk skal sýna nærgætni og gæta virðingar í framkomu sinni gagnvart nemendum, foreldrum og samstarfsfólki og gæta þagmælsku, nema þegar um er að ræða tilkynningarskyldu gagnvart barnaverndarlögum. Stjórnendum skóla ber að vinna markvisst að því að stuðla að jákvæðum samskiptum og gagnkvæmu trausti allra í skólanum og í þeirri vinnu skal taka sérstaklega mið af aldri og þroska nemenda.
 • Skólastjórnendum og kennurum ber að eiga samstarf við foreldra um hegðun, líðan og samskipti barna þeirra. Umsjónarkennarar skulu upplýsa foreldra reglulega um skólabrag og bekkjarbrag og leita eftir uppbyggjandi samstarfi við foreldrahópinn um hvorutveggja. Starfsfólki skóla ber að taka afstöðu gegn líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi í skólanum. Ef slík tilvik koma upp skal bregðast við þeim samkvæmt stefnu skólans.
 • Skólastjórnendum og kennurum ber að upplýsa foreldra ef ítrekað er fundið að hegðun eða framkomu nemanda í öllu starfi á vegum skóla, þ. á m. í útiveru á skólatíma og í ferðum utan skólalóðar á vegum skólans.

Foreldrar

 • Foreldrar bera ábyrgð á uppeldi barna sinna. Þannig bera foreldrar einnig ásamt börnum sínum ábyrgð á hegðun þeirra og framkomu gagnvart samnemendum og starfsfólki skóla og eiga að bregðast við afleiðingum hegðunar barna sinna í skóla.
 • Foreldrar gæta hagsmuna barna sinna og ber að stuðla að því að þau stundi nám sitt. Þeim ber að fylgjast með námsframvindu í samvinnu við þau og kennara. Foreldrar skulu fá tækifæri til að taka þátt í námi barna sinna, sem og í skólastarfinu almennt í samráði við umsjónarkennara og skólastjórnendur.
 • Foreldrum ber að greina skólanum frá þeim þáttum sem kunna að hafa áhrif á námsframvindu, ástundun og hegðun, s.s. um vanlíðan barna sinna og áföll sem gætu haft áhrif á skólagönguna, sem og þegar breytingar verða á högum þeirra og aðstæðum.
 • Foreldrum er skylt að vinna að lausn mála í samstarfi við skóla, sérfræðiþjónustu og fræðsluyfirvöld sveitarfélaga þegar misbrestur verður á hegðun og framkomu barna þeirra.
 • Foreldrum ber ásamt barni að taka þátt í meðferð máls, en telji foreldrar eða stjórnendur skóla að ekki ríki trúnaður eða traust í tengslum við umfjöllun um mál barns er æskilegt að leita aðstoðar óvilhalls aðila.

Skólareglur Salaskóla

Markmið með skólareglum Salaskóla eru að:

 • nemendur geti notið bernsku sinnar í skólastarfi, notið hæfileika sinna og séu öryggir í öllu starfi á vegum skólans,
 • stuðla að ábyrgð nemenda á eigin námi, hegðun og samskiptum með hliðsjón af aldri, þroska og aðstæðum að öðru leyti,
 • allir í skólasamfélaginu kappkosti í sameiningu að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag, þar sem öryggi, vellíðan og heilbrigði eru leiðarljós,
 • stuðla að góðu samstarfi og samráði milli foreldra og skóla um nám nemenda, hegðun og samskipti og stuðla að gagnkvæmu trausti allra aðila í skólasamfélaginu, gagnkvæmri virðingu, samábyrgð, kurteislegri framkomu og tillitssemi,
 • haldið sé uppi námsaga þar sem tekið er tillit til þarfa nemenda, þroska og hæfni þeirra, með áherslu á mannréttindi, jafnrétti, lýðræðisleg vinnubrögð og bann við mismunun af öllu tagi,

Skólareglur

 1. Samskipti í skólasamfélaginu skulu grundvallast á gagnkvæmri virðingu, kurteisi og tillitssemi.  Nemendur, starfsmenn og foreldrar eiga að koma vel fram og stuðla þannig að góðum skólabrag.  Hvers kyns ofbeldi, líkamlegt eða andlegt er ekki liðið.
 2. Nemendur eiga að hlýða starfsfólki skólans og taka leiðbeiningum þess vel.
 3. Gestir sem koma í skólann eiga að koma fyrst á skrifstofu skólans og gera grein fyrir sér. Foreldrar sem ætla að ná tali af kennara eða skólastjórnendum verða að óska eftir viðtali með fyrirvara.
 4. Nemendur skulu sinna vinnu sinni og starfi í skólanum af kostgæfni og leggja sig fram um að gera eins vel og þeir geta. Þeir skulu sýna umburðarlyndi og leggja sig fram við að skapa góðan vinnuanda.
 5. Foreldrar eru ábyrgir fyrir því að börn þeirra mæti stundvíslega í skólann með þau gögn sem nota skal hvern dag. Foreldrum ber að tilkynna veikindi og leyfi strax að morgni dags í síma 441 3200 eða á netfangið ritari@salaskoli.is.  Veikindi sem vara allan daginn er einnig hægt að skrá í mentor. Fari nemandi veikur heim úr skólanum þarf að tilkynna það á skrifstofu skólans í síma eða með tölvupósti. Að öðrum kosti er litið svo á að um óheimila fjarvist sé að ræða.
 6. Leyfi allt að einum degi veitir umsjónarkennari, en lengri leyfi allt að einni viku skulu forráðamenn sækja um skriflega á netfangið ritari@salaskoli.is eða á skrifstofu skólans. Ef leyfi er umfram eina viku þarf að sækja um tímabundna undanþágu til skólastjóra á eyðublaði sem fæst á skrifstofu skólans. Tilgreina skal ástæður leyfis og tímabil.
 7. Ganga skal vel um jafnt innan dyra sem utan og fara vel með allar eigur skólans.
 8. Mynd- og hljóðupptökur eru aðeins leyfðar í skólahúsnæði og á skólalóð Salaskóla á skólatíma með leyfi skólastjórnar.
 9. Nemendur 1. – 7. bekkjar fara í útivist á hverjum degi og þurfa því að koma klæddir í samræmi við það. Ef nemandi þarf af einhverjum ástæðum að vera inni geta foreldrar óskað eftir því og þurfa þá að senda skriflega beiðni um það til umsjónarkennara. Nemendur í 1. – 7. bekk eiga einnig að vera á skólalóðinni og mega ekki yfirgefa hana nema að fengnu leyfi umsjónarkennara.  Hætta skal leikjum um leið og skólabjallan hringir og fara í kennslustundir í samræmi við þær reglur sem gilda í bekknum.  Samskipti nemenda í útivist skulu einkennast af félagsanda, tillitssemi og virðingu fyrir skólafélögum og starfsfólki skólans. Þegar nemendur eru í útivist sinna starfsmenn skólans gæslu og aðstoða nemendur og leiðbeina ef með þarf.
 10. Nemendur í 1. – 7. bekk geta keypt áskrift að ávöxtum á morgnana, ella skulu þeir koma með hollt og gott nesti í skólann. Þeir hafa aðgang að vatni og mjólk í skólanum. Heimilt er að neyta annarra svaladrykkja á skólaskemmtunum.  Óheimilt er að neyta sælgætis á skólatíma og gosdrykkir og orkudrykkir eru bannaðir á skólatíma.
 11. Notkun hjóla, hjólabretta, hlaupahjóla og vélhjóla er ekki leyfð á skólalóðinni á skólatíma. Þessi farartæki á að geyma við hjólagrindur utan dyra. 
 12. Notkun farsíma, hvers kyns tölva og annars sem getur truflað nám og kennslu er með öllu óheimil í kennslustundum nema kennari hafi heimilað notkunina. Ef nemandi hlýðir ekki fyrirmælum kennara getur kennari tekið tækið af honum og geymt þar til kennslustund lýkur.
 13. Skólinn tekur hvorki ábyrgð á persónulegum munum nemenda né fjármunum.
 14. Hvers kyns reykingar sem og notkun vímuefna er stranglega bönnuð í skólanum, á skólalóðinni og hvar sem nemendur eru á vegum skólans.
 15. Starfsmönnum skólans er óheimilt að neyta aflsmunar nema nauðsyn krefji til að stöðva ofbeldi eða koma í veg fyrir að nemandi valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða eignatjóni.  Í slíkum tilvikum skal ávallt greina foreldrum frá málavöxtum.
 16. Kennurum er heimilt að setja sérstakar reglur í bekkjum sínum í samráði við nemendur enda falli þær innan ramma skólareglna.
 17. Skólareglur Salaskóla gilda hvar sem nemendur eru á vegum skólans.

Brot á reglum

Þegar nemandi brýtur reglur skólans skal umsjónarkennari leita orsaka þess og reyna að ráða bót á. Verði samt ekki breyting til batnaðar skal umsjónarkennari leita aðstoðar skólastjórnenda og sérfróðra ráðgjafa skólans. Skili það ekki árangri eða ef málið er mjög alvarlegt leitar skólinn aðstoðar menntasviðs og velferðarsviðs Kópavogsbæjar. Ávallt skal leitað eftir samvinnu við forráðamenn nemenda um úrlausn málsins. Við skiptum alvarleika brota í þrjá flokka.

Flokkur 1

Í flokki 1 eru brot eins og

 • þras / ögrun / rifrildi
 • trufla vinnu eða leiki annarra
 • ganga illa um
 • fara út af skólalóðinni
 • hávaði

Viðbrögð:

 • Nemandinn fær tiltal og leiðbeiningar frá kennara.

Flokkur 2

Í flokki 2 eru brot eins og

 • ókurteisi
 • særandi eða niðrandi orðbragð
 • fordómar í garð annarra
 • óhlýðni við starfsfólk
 • ósannsögli, svik, svindl
 • stríðni, hrekkir

Viðbrögð:

 • Kennari hefur samband við foreldra og skráir atvikið í dagbók. Ef nemandi sýnir ekki bætta hegðun eru foreldra boðaðir til fundar ásamt nemanda.
 • Ef nemandi veldur verulegri truflun í kennslustund og lætur sér ekki segjast við áminningu kennara er heimilt að víkja nemanda úr kennslustund. Tryggja skal að skólastjórnandi eða sérfróður ráðgjafi í skólanum taki við nemandanum og ræði við hann um agabrotið. Forráðamönnum skal ætíð gerð grein fyrir agabrotum barns síns svo og umsjónarkennara. Einnig skal nemanda gefinn kostur á því að tjá sig um málið.

Flokkur 3

Í flokki 3 eru brot eins og

 • ofbeldi, andlegt eða líkamlegt, þar með talið einelti
 • ógnandi hegðun, áhættuhegðun og alvarlegar hótanir
 • skemmdarverk
 • þjófnaður
 • meðferð vopna og hættulegra efna
 • notkun ávana- og / eða fíkniefna, þar með talið áfengi, tóbak og rafrettur
 • óheimil myndataka

Viðbrögð:

 • Starfsmaður vísar málinu samstundis og án umræðu til skólastjórnenda sem taka ákvörðun um farveg þess. Málið er jafnframt kynnt í nemendaverndarráði og skráð í fundargerðabók ráðsins. Skólastjórnendur meta hvort tilkynna skuli málið til viðeigandi yfirvalda eða lögreglu.
 • Skólastjórnendur hafa samband við foreldra svo fljótt sem auðið er.
 • Ef nemandi gerist sekur um alvarleg eða endurtekin brot á skólareglum getur skólastjóri vísað honum úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann foreldrum nemanda og skólayfirvöldum tafarlaust þá ákvörðun,sbr. 14. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla.  Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga.
 • Nemendur eru ábyrgir fyrir því tjóni sem þeir kunna að valda á eignum skóla, starfsfólks eða skólafélaga sinna og ber að bæta tjónið.
 • Áhersla er lögð á að vinna alvarleg mál hratt og örugglega.

Reglur um notkun á spjaldtölvum og símum í Salaskóla

 1. Nemendum í 1. – 7. bekk er óheimilt að nota síma á skólatíma. Ef þeir eru með síma eiga þeir að geyma þá í skólatöskunni sinni þar til skóla lýkur. Síminn verður að vera þannig stilltur að hann hvorki gefi frá sér hljóð né hreyfist.
 2. Nemendur í 8. – 10. bekk mega ekki nota síma í kennslustund nema kennari ákveði annað og þá vegna náms. Símar þeirra eiga að vera þannig stilltir að þeir hvorki gefi frá sér hljóð né hreyfist.
 3. Spjaldtölvan er fyrst og fremst námstæki sem á að nota í skólanum undir stjórn kennara. Kennari ákveður hvenær á að nota spjaldtölvu við námið og hvenær hún er ekki í notkun. Þegar spjaldtölvan er ekki í notkun í kennslustund á að geyma hana lokaða á horni borðsins eða ofan í tösku. Spjaldtölvan á að vera á hljóðlausri stillingu í kennslustundum.
 4. Myndatökur á síma eða spjaldtölvur eru með öllu bannaðar í skólanum og á skólalóð nema með leyfi kennara eða skólastjórnenda. Sama gildir um íþróttamiðstöð og í ferðum á vegum skólans.
 5. Nemendur í 5. – 7. bekk eiga að geyma spjaldtölvur sínar í kennslustofu í frímínútum og kennsluhléum.
 6. Nemendur í 8. – 10. bekk mega nota síma og spjaldtölvur í frímínútum og kennsluhléum. Æskilegt er þó að hver árgangur komi sér saman um fjölbreytni í samskiptum og ákveði að einhverjar frímínútur verði snjalltækjalausar og um leið lögð áhersla á annars konar samskipti. Notkun síma og spjaldtölva er þó með skýrum takmörkunum:
  1. Leyfilegt er að nota síma og spjaldtölvur á bókasafni, gangi og miðrými skólans, en þó ekki á svæðum sem sérstaklega eru merkt sem snjalltækjalaus rými.
  2. Ekki má nota síma eða spjaldtölvur í matartíma, á salernum eða í íþróttahúsi og sundlaug, hvorki í búningsherbergjum eða almenningsrými.
 7. Nemanda er heimilt að taka spjaldtölvuna með sér heim að loknum skóladegi en skal hafa hana með sér í skólann daginn eftir fullhlaðna. Notkun tækisins heima skal vera í samráði við foreldra og skal nemandi fylgja þeim reglum sem foreldri setur. Ef nemandi fylgir ekki þeim reglum sem foreldrar setja getur foreldri óskað eftir því að tækið sé geymt í skólanum.
 8. Nemandi og foreldrar bera ábyrgð á notkun spjaldtölvunnar meðan nemandinn hefur hana til afnota. Nemandi skal gæta þess að fara vel með tækið og sýna ábyrgð í notkun þess. Komi í ljós að mati skólans eða foreldra að nemandi eigi í erfiðleikum með þessa ábyrgð geta foreldrar eða skóli ákveðið að tækið sé geymt í skólanum.
 9. Hver árgangur getur sett sér sérstakar reglur um spjaldtölvu- og símanotkun en þær verða að vera innan þess ramma sem þessar reglur setja.

Reglur í matartíma

 1. Nemendur fara í röð þegar þeir koma í matsalinn og bíða rólegir eftir að röðin komi að þeim.
 2. Nemendur fá hæfilegan skammt á sinn disk og fá sér sjálfir grænmeti af salatbarnum á diskinn. Ganga svo rólega með matinn til sætis.
 3. Ef nemandi vill fá meira að borða fer hann aftur í röðina með diskinn sinn. Tveir skammtar er flestum nemendum nóg ef þeir hafa skammtað sér hæfilega.
 4. Matartíminn á að vera róleg stund. Þar eiga allir að tala með inniröddinni við þá sem sitja nálægt.
 5. Ekki má vera með spjaldtölvur eða síma í matsal á matartíma.
 6. Nemendur sýna góða borðsiði og ganga snyrtilega um matinn sinn. Þeir eiga að leggja sig fram við að gera matartímann að ánægjulegri stund.
 7. Nemendur ganga frá eftir sig, þurrka af borðinu og fara með diska, hnífapör og glös á vagninn.
 8. Ef nemandi finnur aðskotahlut í matnum sínum á hann að láta starfsmann vita strax sem kemur þeim boðum til kokksins. Kokkurinn kannar hvaðan sá aðskotahlutur kemur og gerir viðeigandi ráðstafanir ef rekja má hann til eldhússins. Ef hann kemur frá birgja á tafarlaust að hafa samband við hann og gera honum viðvart. 
 9. Þegar nemendur eru búnir að borða þakka þeir starfsfólki eldhússins fyrir sig. Ef einhverjum líkar ekki maturinn, segir hann t.d. „Þessi matur fellur ekki að mínum smekk“ í stað þess að tala um vondan mat.
 10. Ef einhver gleymir reglum eiga aðrir nemendur að hjálpa honum að muna eftir þeim.
 11. Nemandi sem hagar sér illa í matsal fær aðstoð hjá foreldrum sínum til að sýna góða borðsiði og fara eftir reglum.

Punktakerfi í 8. – 10. bekk

Markmiðið með punktakerfinu er að stuðla að góðri hegðun og skólasókn og veita nemendum gott aðhald.

Mætingar, ástundun og hegðun

Nemandi byrjar með 10 í einkunn. Ef hann fær punkta, þá lækkar sú einkunn. Fjórir punktar lækka um einn heilan. Punktar er gefnir fyrir eftirfarandi:

Of seint

1 punktur

Óheimil fjarvist úr kennslustund

2 punktar

Skilar ekki heimavinnu

1 punktur

Mætir ekki með heimavinnu

1 punktur

Óvirkur í tímum

1 punktur

Fylgir ekki fyrirmælum

1 punktur

Truflar í tímum

1 punktur

Fer ekki eftir skóla- bekkjarreglum

1 punktur

Punktar sem gilda aðeins í íþróttahúsi

Kemur ekki með íþróttaföt

1 punktur

Fylgir ekki reglum í íþróttahúsi

1 punktur

Punktar sem ekki teljast með í einkunn

Kemur með miða í íþróttir/sund

1 punktur

Tækifæri til að hækka einkunn

Einkunn kemur fram á vitnisburði nemenda í janúar og júní. Nemandi getur sótt um að hækka einkunn sína einu sinni á önn. Sótt er um til umsjónarkennara. Með því að vera punktalaus í eina viku falla niður tveir punktar.

Viðbrögð

 • Allir kennarar skrá í mentor.
 • Umsjónarkennarar fylgjast með punktastöðu nemenda sinna og láta þá vita hver staðan er.
 • Nemendur og foreldrar bera ábyrgð á að fylgjast með punktastöðunni í mentor.
 • Ekki er hægt að afskrifa punkta sem eru meira en viku gamlir nema með samningi.

Eineltisáætlun Salaskóla 

Einelti er ekki liðið í Salaskóla og í skólareglum eru það flokkað sem alvarlegt mál. Skólayfirvöld, starfsfólk, nemendur, skólaráð og foreldrafélag vinna markvisst með fjölbreyttum aðferðum gegn einelti í skólanum. Í öllum bekkjum er unnið eftir forvarnaráætlun Salaskóla þar sem áhersla er á að byggja upp jákvæð samskipti og góða sjálfsmynd. Skólinn leggur ríka áherslu á að traust og virðing ríki innan skólans og nemendum og starfsfólki líði vel í skólanum. Vinna með einstök eineltismál er á ábyrgð nemendaverndarráðs. 

Hvað er einelti?

Salaskóli styðst við eftirfarandi skilgreiningu á einelti, en túlkar hana rúmt og vinnur frekar fleiri mál en færri sem eineltismál:

Einstaklingur er lagður í einelti ef hann/hún verður fyrir endurteknum neikvæðum verknaði eins eða fleiri einstaklinga yfir ákveðið tímabil 

Tilkynning um einelti

Salaskóli hvetur nemendur sem telja sig eða aðra nemendur verða fyrir einelti að segja frá því. Þeir geta leitað til kennara, námsráðgjafa, skólastjórnenda eða foreldra. Mikilvægt er að bíða ekki með að tilkynna. 

Viðbrögð:

 • Þegar grunur vaknar um einelti eða skólanum berst tilkynning er málið kannað og aflað nauðsynlegra upplýsinga.
 • Viðtöl við gerendur og foreldra þeirra. Þá er einnig rætt við þolanda og foreldra hans.
 • Tekið fyrir í nemendaverndarráði og skráð þar.
 • Málinu fylgt eftir þar til tryggt þykir að því sé lokið.

Viðbrögð við ófullnægjandi skólasókn

Kópavogsbær hefur skýr viðbrögð við ófullnægjandi skólasókn nemenda. Salaskóli vinnur eftir þessum viðbrögðum þegar skólasókn er ófullnægjandi.

Foreldrafélag

Í Salaskóla er starfrækt öflugt foreldrafélag. Félagar í því eru allir foreldrar/forráðamenn nemenda í skólanum. Meginmarkmið félagsins er að efla samstarf milli foreldra/forráðamanna nemenda skólans og stuðla að velferð nemenda í leik og starfi. Starf foreldrafélagsins byggist á skipulögðu samstarfi foreldra/forráðamanna nemenda í hverjum bekk og skólans.

Stjórn foreldrafélagsins er skipuð fimm aðalmönnum og tveimur varamönnum sem allir eru foreldrar/forráðamenn nemenda í skólanum. Stjórnin fundar reglulega einu sinni í mánuði og oftar ef ástæða er til. Ef foreldrar/forráðamenn vilja koma málum á framfæri við stjórnina þá er hægt að hafa samband við stjórnina í gegnum tölvupóst eða símleiðis. Stjórnarskipti eru á aðalfundi sem er haldinn að vori.  Í stjórn foreldrafélagsins eru:

 • Guðjón Leifsson, formaður og fulltrúi Salaskóla í Samkóp
 • Hildur Arnars Ólafsdóttir, gjaldkeri 
 • Þorbjörg Sævarsdóttir, ritari og röltfulltrúi
 • Kristinn Ingvason, meðstjórnandi
 • Sigþór Samúelsson, meðstjórnandi
 • Kristín Friðriksdóttir, varamaður

Netfang foreldrafélagsins er foreldrafelagsalaskola@gmail.com

Bekkjarfulltrúar: Tveir bekkjarfulltrúar koma frá hverjum bekk og er hlutverk þeirra m.a. að halda utan um bekkjarstarf í samráði við kennara. Einnig fylgjast þeir með þátttöku annarra foreldra og mæta á aðalfund foreldrafélagsins.

Nefndir: Ýmsar nefndir munu starfa á vegum foreldrafélagsins. Þær verða skipaðar af foreldrum/forráðamönnum nemenda.

Fastir árvissir viðburðir á vegum foreldrafélagsins eru aðventuganga sem óvíst er um hvernig verður í ár, en þá er safnast saman við Salaskóla og hlustað á jólalög í flutningi Skólahljómsveitar Kópavogs. Síðan er farið í ljósagöngu í nágrenni skólans með viðkomu í Lindakirkju. Eftir gönguna er boðið upp á heitt súkkulaði og smákökur í skólanum. Páskabingó með glæsilegum vinningum og ósvikinni skemmtun en að þessu sinni er óvíst með afdrif þess. Vorhátíð foreldrafélagsins er einnig óviss í ár og þá koma nemendur og foreldrar þeirra saman, leika, grilla og gera margt skemmtilegt.

Foreldrafélagið hefur staðið fyrir foreldrarölti um Salahverfi á föstudögum.

Foreldrafélagið er á Facebook og eru allir foreldrar hvattir til að fylgjast með starfi þess þar.

Viðmið vegna foreldrasamskipta

Ef foreldri þarf að ná sambandi við kennara:

 • Ef foreldri þarf fund með umsjónarkennara þá á að senda ósk þar um í tölvupósti á umsjónarkennarateymi þess árgangs sem um ræðir. Þeir koma sér saman um fundartíma. Einnig er hægt að hringja á skrifstofu skólans og leggja fyrir skilaboð. Kennarar hafa þá samband til baka.
 • Ef foreldri þarf fund með öðrum kennara en umsjónarkennara er hægt að senda tölvupóst á viðkomandi kennara eða hringja á skrifstofu skólans og leggja fyrir skilaðboð. Kennari hefur þá samband til baka.
 • Ef foreldri þarf að ná símasambandi við kennara á að hringja á skrifstofu skólans og leggja fyrir skilaboð um að viðkomandi kennari hringi í sig. Kennari hringir samdægurs eftir kennslu ef erindið er brýnt en annars í síðasta lagi daginn eftir. Mikilvægt er því að það komi fram hvort erindið þoli bið eða ekki.
 • Foreldrar eiga almennt ekki að hringja í kennara eða starfsfólk skóla utan dagvinnutíma, nema mjög brýna nauðsyn beri til.

Tölvupóstur til kennara / samfélagsmiðlar

 • Kennarar svara tölvupósti foreldra eftir kennslu og að jafnaði innan tveggja daga frá því hann berst. Það getur þó dregist t.d. vegna veikinda.
 • Foreldrar geta ekki treyst því að tölvupóstur sem þeir senda kennara verði lesinn samdægurs og því er betra ef erindið er mikilvægt að hringja á skrifstofu skólans.
 • Foreldrar eiga ekki undir neinum kringumstæðum að senda kennurum skilaboð á samfélagsmiðlum.

Athugið

 • Foreldrar eru beðnir um að hringja ekki á skrifstofu skólans eða í kennara með skilaboð sem ekki eru brýn s.s. að mamma eða pabbi bíði út í bíl, að það megi fara heim með einhverjum eftir skóla o.s.frv. Sama gildir um tölvupóst með svipuðum skilaboðum. Ganga þarf frá öllu slíku við barnið áður en það fer í skólann. Ef upp koma ófyrirséð tilvik geta foreldrar hringt á skrifstofu skólans.
 • Foreldrar eru beðnir um að reyna ekki fyrirvaralaust að ná tali af kennara þegar þeir eru í kennslu eða eftir að kennslu lýkur t.d. þegar þeir eru að sækja börn sín. Ef þeir þurfa að ná tali af kennara er bent á þær leiðir sem nefndar eru hér að ofan. Kennarar eru með þéttskipaða dagskrá eftir að kennslu lýkur og eru þá að sinna undirbúningi undir kennslu, samstarfi við aðra kennara, fundum með foreldrum og sérfræðingum, kennarafundum og endurmenntun.

Tölvupóstur í samskiptum heimila og skóla

Leiðbeiningar fyrir foreldra
Hvenær á að nota tölvupóst?

 • Koma upplýsingum á framfæri
 • Leita upplýsinga
 • Hrósa kennara/skóla fyrir það sem vel er gert
 • Gera athugasemdir um það sem þér finnst miður fara

Hvenær á ekki að nota tölvupóst?

 • Ekki ræða viðkvæm, persónuleg mál í tölvupósti – hringja og panta viðtal
 • Þegar maður er reiður og illa upp lagður
 • Tölvupóstur er ekki öruggur – Aðrir geta lesið póstinn
 • Pósturinn getur “óvart” farið á annað/önnur netföng
 • Ekki er hægt að eyða bréfi sem hefur verið sent eða breyta því á nokkurn hátt
 • Þegar bréf hefur verið sent er það til, óvíst er að viðtakandi eyði því, heldur geymi það í tölvunni – jafnvel sendi það áfram til fleiri aðila eða prenti það út og sýni fleirum
 • Ekki er 100% öruggt að tölvupósturinn skili sér, frekar en sniglapóstur
 • Bréf send í tölvupósti hafa verið gögn í dómsmáli hér á landi

Hafið tölvupósta ávallt hnitmiðaða og skýra

 • Ekki senda löng skeyti. Hafðu textann hnitmiðaðan og skýran, þannig að skilaboðin komist klárlega til skila. Fáir gefa sér tíma til að lesa langan texta í tölvunni. Skeytin eiga að vera svo stutt að ekki þurfi að prenta þau út.
 • Viðtakandi getur “lesið á milli línanna” og túlkað póstinn á annan hátt en sendandi hafði ætlast til. Þess vegna þarf textinn að vera skýr og augljós. Varist hálfkveðnar vísur.

Trúnaðarmál á ekki að ræða í tölvupósti

 • Tölvupóst á ekki að nota til að ræða viðkvæm mál
 • Aldrei senda trúnaðarmál í tölvupósti – þá er betra að hringja eða hittast augliti til auglitis

Viðhengi og auglýsingar

 • Tölvupóstur er einfalt, þægilegt og fljótlegt samskiptaform
 • Tölvupóstur er ákjósanlegur í almennum samskiptum við einstaka kennara eða skólann
 • Tölvupóstur er fínn til að koma skilaboðum til skólans
 • Sendið ekki auglýsingapóst eða ruslpóst á kennara
 • Notið viðhengi í hófi. Viðhengi eru stór skjöl sem taka langan tíma í að hlaðast inn í tölvu viðtakanda. Slíkt pirrar fólk. Ekki á að senda viðhengi á einstaka kennara nema þeir vita af því áður.

Sýnið alltaf kurteisi

 • Aldrei skrifa bréf í reiði, bíða þar til hún rennur
 • Ef þú ert í vafa um hvort þú eigir að senda bréfið, ekki senda það. Láttu einhvern eða einhverja lesa það yfir
 • Aldrei láta hanka þig á ókurteisi, dónaskap eða ruddaskap
 • Það sem þú lætur fara frá þér í tölvupósti lýtur sömu lögum og annað ritað mál. Varastu því að láta frá þér fara óhróður um fólk og stofnanir, jafnvel þó þér finnist einhver eiga það skilið

Kennsluaðstaða

Skólabyggingin skiptist í fimm hús sem auðkennd eru með litum – gula hús, græna hús, bláa hús, gráa hús og rauða hús. Auk þess eru tvær lausar kennslustofur staðsettar á lóð skólans.

Glæsileg íþróttaaðstaða er í íþróttamiðstöðinni Versölum við hlið skólans, en þar eru íþróttasalir og sundlaug. Sundlaugin er einnig notuð af nágrannaskólum sem allir eru fremur fjölmennir. Það gengur því ekki þrautalaust að koma lögboðinni kennslu fyrir í lauginni en það hefur gengið upp hingað til. Skólalóðinni er skipt upp í marga leikvelli. Þar eru körfuboltavellir, knattspyrnuvellir, vellir fyrir brennibolta, róluvöllur. Síðastliðið ár var leiksvæðið í kringum skólann endurbætt til muna og er nú kominn til að mynda trampólín, kastali og klifurgrindur.

Rjúpnalundur er útikennslulundur sem skólinn deilir með leikskólunum Fífusölum og Rjúpnahæð. Rjúpnalundur er vestan til í Rjúpnahæð rétt austan við byggðina í Ö-sölum.

Kennsla og fagleg mál

Kennt er samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla og í samræmi við stefnu skólans. Kapp er lagt á fjölbreytni í kennsluaðferðum og endurmenntun kennara miðast við þjálfun og hvatningu til fjölbreytni. Til þess að ná þessum markmiðum leitum við leiða í einstaklingsmiðuðum kennsluháttum, fjölbreyttum kennsluaðferðum, blönduðum námshópum, samstarfi kennara og sveigjanlegum úrræðum. Við leggjum áherslu á að beina athyglinni að litrófi fjölbreyttra hæfileika nemenda og lítum á nemendur frá sjónarhorni styrkleika þeirra og áhugasviða. Leitast er við að leggja viðfangsefni í hverri grein fram á fjölbreyttan hátt þannig að höfði til allra nemenda.  Áhersla er lögð á skapandi vinnu og að sérhver nemandi noti þá hæfileika og sem hann býr yfir.

Kennsla fer fram í eða við skólann og íþróttakennslan fer fram í íþróttamiðstöðinni Versölum.  Einnig er reynt að fara í kennsluferðalög eftir því sem tilefni gefast. Nánari upplýsingar um kennslu er að finna á heimasíðu skólans undir skólanámskrá. Þar er einnig hægt að nálgast kennsluáætlanir einstakra árganga og greina.

Kennslutími

Kennsludagar á hverju skólaári eru 180 og eru þeir nánar skilgreindir á skóladagatali. Vikulegur kennslustundafjöldi er 30 í 1. – 4. bekk, 35 í 5. – 7. bekk og 37 í 8. – 10. bekk. Á yngsta stigi hefst kennsla kl. 8:10 og henni lýkur kl. 13:30. Nemendur á miðstigi mæta kl. 8:10 í skólann og eru búnir kl. 13:50. Daglegur skólatími unglinga er breytilegri og getur staðið til 15:30. Salaskóli notast við viðmið aðalnámskrár þegar reikna á út fjölda kennslustunda á hverja námsgrein.

List- og verkgreinakennsla

List- og verkgreinar að tónlist undanskilinni eru kenndar í smiðjum í 2. – 9. bekk. Nemendur eru aðeins í einni smiðju hverju sinni og að jafnaði tekur hver smiðja 6 – 7 vikur.  Á unglingastigi eru list- og verkgreinar einnig kenndar í vali.

Tónlist er kennd einu sinni í viku í 1. – 6. bekk og nemendur í unglingadeild geta tekið tónlist sem valgrein. 

Val, þemavinna 

Val, þemavinna eða fiðringur er fastur liður á stundaskrá í 5. – 10. bekk. Þá vinna nemendur í allskonar hópum að ýmsum þverfaglegum viðfangsefnum. Markmiðið er nemendur glími við heildstæð verkefni og leysi þau í samvinnu við aðra, jafnframt því að þeir fái nokkurt val um viðfangsefni. Verkefnin eru afar fjölbreytt og krefjandi. Margskonar þemavinna er einnig viðhöfð í öðrum árgöngum, stundum þvert á árganga en einnig innan árganga eða bekkja.

Auk þess vals sem tilgreint er hér að ofan er hluti af námi í unglingadeild valgreinar og hver nemandi velur að jafnaði 4 stundir á viku. Hverju skólaári er skipti í tvö valtímabil, eitt á haustönn og annað á vorönn. Nemendur geta fengið þátttöku í tómstundastarfi metið sem valgrein. Þær valgreinar sem eru í boði í vetur eru m.a.  þessar:

 • Brauð og kökur
 • Boltagreinar og skólahreystisval
 • Ljósmyndun
 • Leiklist
 • Yoga Nidra
 • Dægradvöl
 • Fimir fingur
 • Tónlistarval
 • Förðun
 • Aðrar valgreinar sem kenndar eru  í Menntaskólanum í Kópavogi, Tækniskóla Íslands og Fjölbrautaskólanum í Ármúla.

Auk þessa geta nemendur tekið framhaldsskólaáfanga í fjarnámi eða staðnámi í t.d. stærðfræði og tungumálum. MK býður upp á verklegt val í matvælagreinum en eins og stendur fellur það niður vegna COVID19.

Útikennsla

Rjúpnalundur er sameiginlegur útikennslulundur Salaskóla, Fífusala og Rjúpnahæðar. Þar er skemmtileg aðstaða til ævintýralegrar útiveru allt árið um kring. Þar eru tré, bekkir og eldstæði og því hægt að tylla sér niður, kveikja upp og grilla á opnum eldi. Kennarar skipuleggja ýmis konar útikennslu og við leitumst við að hún eigi sér stað allan ársins hring.

Sérkennsla

Gert er ráð fyrir að sérkennsla fari fram í  námsaðstæðum nemenda í bekkjarstofunum eins og kostur er. Lögð er áhersla á fyrirbyggjandi starf.  Umsjónarkennarar, sérkennarar og sérgreinakennarar vinna saman að því að skipuleggja hvetjandi námsumhverfi og námsaðstæður. Nemendur eru hvattir til dáða með því að vekja áhuga og forvitni á viðfangsefnum.

Í námsveri fer fram sérkennsla þeirra nemenda sem þurfa kennslu utan bekkjarins. Markvisst er unnið að því að nemendur snúi aftur að fullu í námshópinn sinn og því fer fram regluleg endurskoðun á stöðu nemendanna. Í námsveri fá nemendur stuðning og kennslu samkvæmt einstaklingsáætlunum sínum og aðstoðin þar er hugsuð til að bæta sjálfmynd þeirra og líðan.

Ýmiskonar námskeið eru alltaf til staðar í skólanum. Sem dæmi um námskeið má nefna lestrarnámskeið, hljóðgreininganámskeið, málörvunarnámskeið, félagsfærni- og samskiptanámskeið og stærðfræðinámskeið. Tímalengd námskeiða er gjarnan 6 vikur.

Áhersla er lögð á sveigjanleika í vinnubrögðum og reynt að koma til móts við mismunandi þarfir nemenda. Sumum nemendum nýtist best að fá stuðninginn inn í bekkinn en öðrum hentar betur að vinna í smærri hópum í öðru rými. Því eru stundum tveir kennarar í ákveðnum námsgreinum í bekknum eða sérkennari með hóp .

Markmið sérkennslu Salaskóla er að skapa námslega sigra og að nemendur vinni út frá sínum sterku hliðum og áhuga. Við leggjum áherslu á að þeir vinni með fjölbreytt viðfangsefni auk þess sem unnið er að félagslegri aðlögun.  Hlutverk sérkennara er m.a. að laga nám og námsaðstæður að þörfum nemenda auk þess að nota fjölbreyttar kennsluaðferðir.

Í Salaskóla er sérdeild fyrir einhverfa nemendur. Hún er fyrir nemendur úr öllum skólum í Kópavogi.

Kennsluáætlanir

Kennsluáætlanir í öllum bekkjum verða settar inn í Mentor.

Uppeldi til ábyrgðar

Salaskóli vinnur eftir hugmyndafræði uppeldis til ábyrgðar og hefur gert það frá árinu 2007. Meginatriði stefnunnar er að kenna börnum og unglingum sjálfsaga, sjálfstjórn og leiðir til að auka sjálfstraust sitt.

Uppeldi til ábyrgðar leggur áherslu á jákvæð samskipti fremur en reglur, á ábyrgð fremur en blinda hlýðni og á virðingu fremur en stjörnugjöf. Treyst er á hæfileikann til sjálfstjórnar og að hver og einn geti hugsað áður en hann framkvæmir og brugðist rétt við aðstæðum.

Uppeldi til ábyrgðar hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum.  Aðferðin nýtist við bekkjarstjórnun þar sem allir fá að vaxa og njóta sín. Þetta er aðferð í samskiptum og aðferð við að ná jafnvægi og innri styrk eftir að hafa beitt samferðamenn sína rangindum eða lent upp á kant við þá. Leitast er við  að ná samstöðu um lífsgildi til að hafa að leiðarljósi og fylgja þeim síðan eftir með fáum skýrum reglum.

Spurt er bæði hvernig við viljum vera og hvað við þurfum að gera til að ná eigin markmiðum í sátt og samlyndi við samferðamenn.

Námsmat

Megintilgangur námsmats er örvun nemenda og námshjálp. Hverjum kennara ber að fylgjast vandlega með því hvernig nemendum gengur að ná þeim námsmarkmiðum sem aðalnámskrá og skólinn setja þeim. Námsmat fer ekki einungis fram í lok námstímans heldur er það einn af föstum þáttum skólastarfs, órjúfanlegt frá námi og kennslu. Nemendur fá umsögn tvisvar á skólaárinu, í janúar og í júní. Matið er m.a. sett fram skriflega og leitast við að benda á sterkar hliðar nemenda, auk þess sem við hvetjum til dáða á öllum sviðum. Við vonum að með því getum við gefið betri mynd af stöðu nemenda í náminu og gleggri upplýsingar. Við vonum líka að þessi leið stuðli að betri og jákvæðari sjálfsmynd allra nemenda en fátt er mikilvægara nú á tímum. 

Við viljum hvetja foreldra til að lesa umsagnirnar með börnum sínum og fagna þeim árangri sem náðst hefur. Fátt er börnunum meiri hvatning en fölskvalaus gleði yfir góðum afrekum þeirra.

Heimanámsstefna Salaskóla

Foreldrar hafa áhuga á að fylgjast með gengi sinna barna í náminu og eins og allir vita getur það skipt sköpum. Einfaldasta leiðin fyrir foreldra til að fylgjast með náminu er að setjast daglega niður með barni sínu og aðstoða það við heimanámið. Hlusta á það lesa, hvetja til vandvirkni við ritun, hjálpa því að fletta upp í orðabók, hlýða yfir margföldunartöfluna o.s.frv. Gamla fyrirkomulagið, að börnin sitji við eldhúsborðið og vinni heimaverkefni sín meðan foreldrar hræra í pottunum er gulls ígildi. Þá geta foreldrar einnig setið með börnum sínum meðan þau vinna. Maður þarf ekki endilega að kunna námsefnið til að aðstoða við heimanámið, það er hvatningin og áhuginn sem mestu máli skiptir. Ef barnið lendir í vandræðum og enginn á heimilinu áttar sig á hvað á að gera, þá bara skrifa athugasemd til kennarans.

Markmið með heimanámi nemenda í Salaskóla er að barnið læri að sýna sjálfsaga, læri að vinna á eigin spýtur, þjálfun, undirbúningur undir kennslustundir og ekki síst að skapa jákvæð samskipti milli foreldra og barna um það sem börnin eru að gera á daginn. Góð og jákvæð samskipti foreldra og barna á meðan á heimanáminu stendur geta haft mikil áhrif á námsárangur. Ef foreldrar eiga í vandræðum með að fá börn sín til að læra heima biðjum við þá um að hafa samband við okkur og í sameiningu hjálpumst við að við að leysa málið farsællega.

Heimanám – yngsta stig

 • megináherslan er á heimalestur. Nemendur eiga að þjálfa sig a.m.k. 5 daga í viku og best ef þeir gera það á hverjum einasta degi vikunnar. Hlutverk foreldra er að fylgjast með og skrá niður það sem lesið var og kvitta fyrir.
 • auk heimalesturs er stöku sinnum í möppunni eitt lítið verkefni, kynning fyrir foreldra á því sem búið er að vinna með í skólanum. Einnig getur verið verkefni sem er ætlað til þjálfunar í t.d. ritun eða stærðfræði.
 • nemendur í grunnskóla eru í fullri vinnu í skólanum og allt heimanám að undanskildum lestrinum er aukavinna og í raun sýnishort á vinnu nemenda í skólanum.
 • ef heimanám er sent heim kemur það á föstudegi og því á að skila til baka á föstudegi viku síðar. Það á ávallt að vera í sérstakri heimanámsmöppu sem auðveldar kennara og foreldrum að halda utan um það.
 • ef foreldrar óska eftir auknu heimanámi bendum við á gagnvirkt námsefni á Salaskólavefnum.
 • heimanám eða vikubréf birtast vikulega inni á Mentor.

Heimanám á miðstigi

 • markmið með heimanáminu er undirbúningur undir kennslustundir en jafnframt geta foreldra nýtt það til að fylgjast með námi barna sinna.
 • mikilvægt er að allir nemendur lesi daglega t.d. skáldsögu sem höfðar til þeirra. 15 – 20 mín að kvöldi fyrir svefn skiptir miklu máli í þjálfun á lesskilningi. Meiri tími er bara til bóta.
 • ef nemendur eða foreldrar óska eftir meiri heimavinnu en skólinn lætur nemendur hafa bendum við á gagnvirkt efni á Salaskólavefnum.
 • Heimanám og / eða vikubréf birtast vikulega á mentor í flísinni „vikuáætlun“

Heimanám í unglingadeild

 • markmið með heimanámi í unglingadeild er að nemendur vinni frekar með þá námsþætti sem verið er að vinna með í skólanum. Þannig fá þeir tækifæri til að byggja upp og dýpka þekkingu sína. Spjaldtölvur eru mjög gagnlegar hvað þetta varðar.
 • heimanám í unglingadeild gengur gjarnan út á að ljúka við verkefni sem ekki tókst að ljúka í kennslustundum í skólanum. Einnig geta verið önnur verkefni sem kennarar setja nemendum fyrir og eru þá upplýsingar um það á mentor og classroom. Gera má ráð fyrir að daglega sé eitthvert heimanám.
 • mikilvægt er að allir nemendur lesi daglega t.d. skáldsögu sem höfðar til þeirra. 15 – 20 mín að kvöldi fyrir svefn skiptir miklu máli í þjálfun á lesskilningi. Meiri tími er bara til bóta.

Símenntun starfsmanna

Starfsfólk Salaskóla leggur sig fram við að halda sér við í faginu og sækir reglulega símenntun allt árið. Hér að neðan eru nokkrir áherslupunktar skólans í þeim efnum.

Byrjendalæsi og læsi til náms

Í samstarfi við Háskólann á Akureyri hefur Salaskóli á síðastliðnum árum verið að innleiða aðferð sem kennd er við byrjendalæsi. Kennarar í 1. – 4. bekk sækja námskeið og fá leiðsögn frá sérfræðingum sem fylgja vinnunni eftir með markvissum hætti. Svipuð vinna hefur farið fram hjá kennurum eldri bekkja og þar er unnið eftir hugmyndum sem kennd er við læsi til náms.

Skyndihjálp

Það er mikilvægt að starfsmenn bergðist rétt við ef slys verða og geti veitt fyrstu hjálp. Þeir sækja því reglulega skyndihjálparnámskeið þar sem farið er yfir helstu atriði.

Skólaheimsóknir, ráðstefnur

Auk þessa verður farið í skólaheimsóknir og ráðstefnur hérlendis og erlendis og skólar heimsóttir sem eru að vinna vel í skapandi móðurmálskennslu.

Uppbyggingarstefna

Salaskóli er að innleiða uppbyggingarstefnuna inn í starf sitt. Einu sinni í mánuði er starfsmannafundur um þessi viðfangsefni og þar fer fram skipuleg fræðsla hvað þetta varðar.

Upplýsingatækni

Í skólanum hefur verið unnið að innleiðingu spjaldtölva í kennslu. Allir kennarar hafa fengið þjálfun á því sviði og allir nemendur í 5. – 10. bekk hafa fengið spjaldtölvur til afnota í námi sínu. Auk þess á skólinn fjölda spjaldtölva sem nemendur í öðrum árgöngum geta notað í námi sínu. Kennarar í Salaskóla hafa farið og munu áfram fara í heimsóknir í skóla í nágrannalöndunum sem eru framarlega í upplýsingatækni. Við höfum gert kynningarmyndir um verkefnið þar sem viðhorf nemenda, foreldra og kennara til verkefnisins eru skoðuð.

ADHD

Við leggjum áherslu á að allir starfsmenn skólans fræðist um ADHD. Unnið verður með þá þekkingu sem til er innanhúss og einnig leitað til sérfræðinga utan skólans. Pælt verður í skipulagi, kennsluaðferðum og fl. Lögð verður áhersla á samræður og að fólk deili reynslu sinni. Fræðslan fer fram á starfsmannafundum. Við höfum gert kynningamynd um ADHD og fleira sem heitir Allir geta eitthvað, enginn getur allt.

Þróunarstarf

Í Salaskóla er unnið markvisst að þróun og endurbótum á námi og kennslu.  Þróunarstarfið er unnið út frá stefnu skólans, grunnskólalögum og markmiðum Aðalnámskrár grunnskóla. Sérstaklega er unnið að því að koma æ betur til móts við þarfir, áhuga og getu sérhvers einstaklings og stuðlað að vellíðan og góðum árangri nemenda. 

Breyttir kennsluhættir

Stærsta þróunarverkefni Salaskóla er þróun kennsluhátta í takti við hraðar samfélagsbreytingar.  Meginstefið er skóli án aðgreiningar og verkefnið er að byggja upp fjölbreytt nám og námsumhverfi sem hæfir ólíkum þörfum nemenda.

Byrjendalæsi

Í 1. – 4. bekk vinnum við eftir hugmyndafræði byrjendalæsis. Markmið byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í læsi sem allra fyrst á skólagöngu sinni. Gengið er út frá því að börn þurfi lesefni sem kveikir áhuga þeirra, ýtir undir ímyndunaraflið, hvetur þau til gagnrýninnar hugsunar og gefur þeim færi á að mynda merkingarbærar tengingar við eigið líf. Því er margs konar gæðatexti lagður til grundvallar lestrarkennslunni og hann nýttur sem efniviður í vinnu með stafi og hljóð, sem og vinnu með orðaforða, skilning og ritun af ýmsu tagi. Salaskóli er í samvinnu við Skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri sem leiðbeinir okkur í þessu þróunarstarfi.

Áhugasamari nemendur

Það hendir ýmsa nemendur að tapa áhuga á námi og skólastarfi ýmist um stundarsakir eða í lengri tíma. Við erum að þróa leiðir til að bregðast við þessu á jákvæðan hátt og höfum fengið til þess styrk úr sprotasjóði grunnskóla.

Stoðkerfi Salaskóla

Salaskóli leggur kapp á að nemendum líði vel í skólanum.  Nemendum sem líður vel og fá að takast á við fjölbreytt og krefjandi viðfangsefni, þurfa síður sérstök úrræði innan eða utan skólans.  Salaskóli leggur áherslu á fjölbreyttar leiðir til að styðja við nemendur sem eiga erfitt í skólanum, en sveigjanleiki og fjölbreytni í skólastarfinu er liður í nemendavernd.

Nemendaverndarráð

Nemendaverndarráð starfar samkvæmt lögum. Í því sitja skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, sérkennslustjóri, félagsráðgjafi og hjúkrunarfræðingur. Ráðið fundar vikulega.  Umsjónarkennarar vísa málum til nemendaverndarráðs. Formaður nemendaverndarráðs er Hrefna Björk Karlsdóttir aðstoðarskólastjóri. Nemendaverndarráð fundar á miðvikudögum kl. 8:00 – 9:00. Einu sinni í mánuði situr sálfræðingur skólans fund ráðsins. 

Sálfræðingur

Við Salaskóla starfar sálfræðingur sem vinnur greiningar og ráðgjafarstörf. Skólasálfræðingur er Björg Norðfjörð. Sálfræðingur er að jafnaði í skólanum tvo til þrjá daga í viku.

Félagsráðgjafi

Við Salaskóla starfar félagsráðgjafi sem sinnir ýmsum nemendamálum. Félagsráðgjafi skólans er Kristrún Helga Ólafsdóttir, en hún er með viðtalstíma fyrir nemendur og foreldra eftir samkomulagi.

Hjúkrunarfræðingur

Í Salaskóla starfa hjúkrunarfræðingar sem vinna að heilsuvernd nemenda bæði til líkama og sálar. Skólahjúkrunarfræðingur er Rakel Dís Björnsdóttir. Hjúkrunarfræðingur er við á mánudögum frá 8:00 – 14:00, þriðjudögum frá 9:30 – 14:00, miðvikudögum frá 8:00 – 14:00 og fimmtudögum og föstudögum frá 8:00 – 12:00.

Sérkennarar

Við Salaskóla starfa 7 sérkennarar. Berglind Þyrí Finnbogadóttir er deildarstjóri sérkennslu.

Þroskaþjálfar

Við skólann starfa 8 þroskaþjálfar.

Talkennari

Talkennari er í hlutastarfi við Salaskóla. Hún heitir Ágústa Guðjónsdóttir og er í skólanum einn dag í viku.

Önnur úrræði

Salaskóli leitar eftir þeirri sérfræðiaðstoð sem þurfa þykir hverju sinni. Má þar nefna sérkennsluráðgjafa menntasviðs, atferlisráðgjafa og fleiri.

Mat á skólastarfi

Salaskóli hefur lengi unnið að því að koma upp eigin sjálfsmatskerfi. Kerfið hefur þróast og mótast í tímanna rás og er nú orðið býsna víðtækt. Unnið er skv. matsáætlun og á þriggja ára fresti gefur skólinn út ítarlega matsskýrslu sem byggir á matsvinnu síðustu ára. Sérstakur matshópur, skipaður fulltrúum starfsmanna, nemenda og foreldra hefur haldið utan um mat á skólastarfinu.

Nokkrum sinnum yfir skólaárið er gerð könnun á líðan og viðhorfum nemenda í 6. – 10. bekk og er það Skólapúlsinn sem framkvæmir þá könnun. Þar fáum við mikilvægan samanburð við aðra sambærilega skóla á landinu. Skólapúlsinn leggur viðhorfakönnun fyrir foreldra annað hvert ár, jafnframt því sem hann kannar viðhorf starfsmanna skólans.  Morgunkaffi hefur einnig verið til staðar fyrir foreldra, en þegar slíkir fundir eru fylla þeir út könnun um góða þætti í starfi Salaskóla og hvað, ef eitthvað er, mætti bæta. Auk þess eru óreglulega lagðar kannanir fyrir nemendur, foreldra eða starfsmenn varðandi ýmsa þætti skólastarfsins.

Þá höfum við einnig smátt og smátt verið að þróa aðkomu nemenda að mati á skólastarfinu. Við höfum haldið skólaþing nemenda í 5. – 10. bekk þar sem litlir hópar nemenda á ólíkum aldri ræða ýmis mál er snerta nám og félagslíf. Við höfum haldið með þeim kaffihúsafundi, þar sem þeir draga fram það sem gott er við skólann, það sem má bæta og hvernig má bæta það. Einnig er verkefni í þjóðfélagsfræði í 10. bekk orðið fastur liður en þá búa 10. bekkingar til stjórnmálaflokka sem bjóða fram til kosninga og þar eru skólamálin viðfangsefni. Framboðsfundur er haldinn þar sem þeir kynna stefnu sína og umbótamál og allir nemendur í 8. – 10. bekk kjósa svo þann flokk sem þeim lýst best á. Þeir sem flest atkvæði fá funda svo með stjórnendum og skólaráði og kynna áherslu mál sín. Þetta hefur nýst afar vel í umbótastarfi í skólanum.

Umbætur í skólastarfinu sem unnið verður að í vetur byggja á þeim gögnum sem fást í gegnum þá vinnu sem nefnd er hér að ofan. Stórt verkefni snýr að breyttum kennsluháttum á öllum aldursstigum. Innleiðing spjaldtölva hefur sl. ár verið hluti af því verkefni. Innleiðing þeirra hefur gengið vel í skólanum og nú er miklu meiri áhersla lögð á breytta kennsluhætti m.t.t. skóla án aðgreiningar.  Einnig er unnið að umbótum á námsmati skólans og nýtingu á Mentor sem samskiptatæki við foreldra. Frekari upplýsingar um mat á skólastarfi í Salaskóla og matsskýrslur er hægt að nálgast á heimasíðu skólans.

Áherslur í innra mati skólaárið 2020-2021

Helstu áherslur í innra mati á starfi Salaskóla á skólaárinu eru þessar:

 • Viðbrögð við Covid19 og afleiðingar faraldursins fyrir skólastarfið
 • Endurgjöf til kennara um nám og kennslu.
 • Skóli án aðgreiningar
 • Skipulag náms- og námsumhverfis
 • Vinnuaðstæður starfsfólks

Hagnýtar upplýsingar

Leyfi

Leyfi allt að einum degi veitir umsjónarkennari, en lengri leyfi allt að einni viku skulu forráðamenn sækja um skriflega á netfangið ritari@salaskoli.is eða á skrifstofu skólans. Ef leyfi er umfram eina viku þarf að sækja um tímabundna undanþágu til skólastjóra á eyðublaði sem fæst á skrifstofu skólans. Tilgreina skal ástæður leyfis og tímabil.

Forföll nemenda

Foreldrar eru ábyrgir fyrir því að börn þeirra mæti stundvíslega í skólann með þau gögn sem nota skal hvern dag. Foreldrum ber að tilkynna veikindi og leyfi strax að morgni dags í síma 441 3200 eða á netfangið ritari@salaskoli.is.  Veikindi sem vara allan daginn er einnig hægt að skrá í mentor. Fari nemandi veikur heim úr skólanum þarf að tilkynna það á skrifstofu skólans í síma eða með tölvupósti. Að öðrum kosti er litið svo á að um óheimila fjarvist sé að ræða.

Viðbrögð við ófullnægjandi skólasókn nemenda

Fræðsluyfirvöld í Kópavogi hafa sett samræmd viðbrögð við ófullnægjandi skólasókn nemenda í grunnskólum bæjarins. Nánar um þetta hér:

https://www.kopavogur.is/static/files/Menntasvid/vidbrogd-vid-skolasokn.pdf

Veikindi kennara

Þegar kennarar veikjast er reynt eftir mætti að fá forfallakennara. Takist það ekki getur komið upp sú staða að fella verði niður kennslu og senda nemendur heim. Vegna Covid19 höfum við ekki ráðið forfallakennara utan skólans í tilfallandi kennslu enda er skólinn lokaður öllum öðrum en nemendum og föstum starfsmönnum. Sú staða getur því komið upp að ekki sé hægt að leysa forföll.

Mötuneyti og nesti

Salaskóli rekur mötuneyti þar sem boðið er upp á málsverð í hádegi og hver máltíð kostar 493 kr. Aðeins er í boði að vera í áskrift og er mánaðargjaldið 9.721 kr. Starfsfólk mötuneytisins eldar matinn að morgni hvers dags. Foreldrar þurfa að ganga frá mataráskrift í gegnum íbúagátt Kópavogsbæjar. Nemendum í 1.–7. bekk gefst kostur á að fá ávexti í morgunhressingu fyrir 1.750 kr á mánuði, en aðrir nemendur koma sjálfir með bita í morgunhressingu, t.d. ávöxt eða gott brauð. Við leyfum aðeins mjólk eða vatn í skólanum og fá nemendur af hvoru tveggja eins og þá lystir.

Samstarf við leikskóla

Í Salahverfi eru tveir leikskólar, Fífusalir og Rjúpnahæð.  Samstarf er við þá báða á ýmsum sviðum.  Unnið er markvisst að því að gera börnum auðvelt að fara úr leikskólunum í Salaskóla og heimsækja 5 ára nemendur leikskólana Salaskóla. Leikskólarnir eru með sumarskóla í júní í húsnæði Salaskóla og dægradvöl Salaskóla er með sumardvöl fyrir verðandi nemendur skólans í tvær vikur fyrir skólasetningu. Þetta gerir skólabyrjun þeirra í Salaskóla auðvelda og vinalega.

Mætið á réttum tíma

Skólinn opnar kl. 8:00 og þá mega nemendur í 1. – 4. bekk fara inn í sína kennslustofu og lesa eða tefla. Eldri nemendur geta komið sér þægilega fyrir á göngum og beðið eftir að kennsla hefjist. Kennsla hefst kl. 8:10 á hverjum morgni og þá eiga nemendur að vera mættir í kennslustofu.  Þeir sem koma of seint trufla kennslu.

Gangið í skólann

Við hvetjum nemendur til að ganga í skólann og foreldra til að spara aksturinn að skólahúsinu á morgnana eins og kostur er. Margir nemendur eiga greiða leið í skólann eftir göngustígum og hvetjum við þá til að ganga.  Þannig drögum við úr umferð, bensíneyðslu og stuðlum að heilbrigðri hreyfingu.

Tölvunotkun

Í skólanum eru fjöldi tölva til að nota við námið auk þess sem allir nemendur í 5. – 10. bekk eru með spjaldtölvur. Nemendur fá aðgangsorð inn í tölvukerfi skólans. Þá er þráðlaust net í skólanum sem nemendur hafa aðgang að við nám sitt. 

Óskilamunir

Í skólanum er mikið um óskilamuni.  Um er að ræða fatnað af ýmsu tagi, þar á meðal vandaðar og óslitnar flíkur.  Ef fatnaður eða aðrar eigur nemenda skila sér ekki heim að loknum skóladegi eru foreldrar vinsamlegast beðnir um að snúa sér til gangavarða eða húsvarðar.  Foreldrar eru beðnir um að merkja greinilega skófatnað nemenda, íþróttafatnað, yfirhafnir og töskur.

Hjól og hjólabretti

Á vorin eru hjólin tekin fram og mörgum finnst gott að koma á hjóli í skólann. Þeir sem koma á hjóli í skólann þurfa að kunna umferðarreglur sem gilda um hjólreiðar og fara eftir þeim. Mikil umferð er á göngustígum á morgnana og þurfa hjólandi vegfarendur því að hjóla varlega framhjá gangandi vegfarendum. Allir sem ferðast á hjóli eiga undantekningalaust að vera með hjálm á höfðinu.

Vegna öryggis nemenda er ekki leyfilegt að vera á skólalóðinni á vespum, reiðhjólum eða hlaupahjólum á skólatíma, frímínútum eða hádegishléi. Í skólanum eru um 590 nemendur og það skapar slysahættu ef einhverjir þeysast um á slíkum farartækjum á meðan aðrir eru að leik á skólalóðinni. Hins vegar má vera á hjólabrettum á svæðinu á milli skólans og íþróttamiðstöðvarinnar.

Slys og veikindi

Veitt er fyrsta hjálp í skólanum og minniháttar slysum sinnt. Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð eða slysadeild skulu foreldrar/forráðamenn fara með barninu. Mikilvægt er að skólinn hafi öll símanúmer sem hægt er að ná í foreldra á skólatíma barnsins. Ef barn er með greindan alvarlegan sjúkdóm sem getur stefnt heilsu eða lífi þess í bráða hættu er nauðsynlegt að skólaheilsugæsla viti af því. Hér er átt við sjúkdóma eins og t.d. sykursýki, bráðaofnæmi, flogaveiki og blæðingarsjúkdóma.

Lyfjagjafir

Samkvæmt fyrirmælum Landlæknisembættisins eru sérstakar vinnureglur varðandi lyfjagjafir til nemenda á skólatíma. Þar kemur meðal annars fram að skólabörn skulu ekki fá önnur lyf í skólanum en þau sem hafa verið ávísuð af lækni. Í engum tilvikum getur barn borið ábyrgð á lyfjatökunni, ábyrgðin er foreldra. Börn skulu ekki hafa nein lyf undir höndum í skólanum nema í algjörum undantekningartilvikum. Slíkar lyfjagjafir geta t.d. verið insúlín-gjafir sem barnið sér sjálft alfarið um. Foreldrar/forráðamenn þeirra barna sem þurfa að taka lyf á skólatíma skulu hafa samband við skólaheilsugæslu sem skipuleggur lyfjagjafir á skólatíma.

Gegn einelti

8. nóvember ár hvert taka Salaskóli og leikskólarnir í Salahverfi höndum saman og vinna verkefni tengd vinnáttu og gegn einelti. Elstu nemendur Salaskóla heimsækja leikskólana þar sem þeir leika við krakkana og eru með þeim í samverustundum þar sem rætt er um vináttu og einelti.

Röskun á skólastarfi vegna óveðurs

Stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS), skipuð framkvæmdastjórum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, fól SHS að útbúa í samvinnu við fræðsluyfirvöld allra sveitarfélaganna, reglur fyrir foreldra og skólayfirvöld um röskun á skólastarfi vegna óveðurs.

Rýmingaráætlun Salaskóla

Í Salaskóla er viðurkennt brunaviðvörunarkerfi sem fylgst er með reglulega.  Flóttaleiðir eru tvær eða fleiri.  Í hverri stofu skólans við útgöngudyr er nafnalisti með nöfnum nemenda, lýsing á fyrstu viðbrögðum og skóhlífar.

Ef brunaviðvörunarkerfið fer í gang skal unnið eftir eftirfarandi rýmingaráætlun.

 1. Fulltrúi í öryggisnefnd fer að stjórntöflu brunaviðvörunarkerfis, slekkur á kerfinu og aðgætir hvaðan brunaboðið kemur.
 2. Kennarar undirbúa rýmingu kennslustofunnar og fara eftir ákveðnum reglum sem er að finna í hverri kennslustofu.  Þeir taki  með nafnalista og skóhlífar.  Ef brunakerfið fer strax aftur í gang er um eld að ræða og skal skólinn þá strax rýmdur.
 3. Skólastjóri eða fulltrúi í öryggisnefnd hafa samband við slökkvilið í síma 112, tilkynna um eld eða gefa skýringar á brunaboðinu.  Ritari tekur með sér skráningarbók fjarvista.  Starfsfólk rýmir skólann, fer á söfnunarsvæðið (sparkvöllur) og myndar röð fyrir framan nemendur.
 4. Þegar komið er á söfnunarsvæðið hefur hver hópur sitt afmarkaða svæði.  Kennarar fara yfir nafnalista og aðgæta hvort allir nemendur hafa komist út.  Umsjónarmanni söfnunarsvæðis skal tilkynnt hver staðan er.
 5. Skólastjóri eða staðgengill hans fer á milli hópa og fær upplýsingar um hve margir nemendur hafa ekki skilað sér með hópnum út og kannar hvar þeir sáust síðast.
 6. Slökkvilið kemur á staðinn, skólastjóri eða staðgengill gefur varðstjóra upplýsingar um hve margir nemendur hafa orðið eftir inni og hugsanlega staðsetningu þeirra.
 7. Ef veður er vont er farið með nemendur og starfsfólk af söfnunarsvæðinu inn í íþróttahúsið Versali.

Sá aðili sem síðastur er út úr hverri stofu skal loka öllum dyrum á eftir sér til að draga úr reykflæði um bygginguna og hindra útbreiðslu elds eins og hægt er.

Viðbrögð við eldsvoða eða hættuástandi

 1. Þegar brunakerfið fer í gang fara nemendur strax í röð í stofunni.  Kennari stendur við opna hurð og er vakandi fyrir því sem fram fer. Nemendur bíða í stofu á meðan skólastjóri eða starfsmaður slökkva  á kerfinu og aðgæta hvaðan boðið kemur
 2. Ef um eld er að ræða fer kerfið strax aftur í gang og skal þá rýma skólann samkvæmt áætlun.
 3. Kennari athugar hvort leiðin er opin/greiðfær og tekur með sér skrá yfir viðbrögð, nafnalista og skóhlífar og lokar öllum dyrum.
 4. Nemendur fara í skó sé þess kostur en ekki yfirhafnir.
 5. Nemendur ganga í röð út á söfnunarsvæðið á eftir kennara sínum.
 6. Þegar þangað er komið fer hver hópur á sitt afmarkaða svæði.
 7. Kennarar fara yfir nafnalista og aðgæta hvort öll börnin hafa komist út. Kennari setur grænt spjald upp ef allir eru komnir en rautt ef einhvern vantar.  Ef einhvern vantar skal kennari tilkynna það yfirmanni söfnunarsvæðis. ( Appelsínugul vesti ).

  

Útivist

Nemendur í 1. – 7. bekk fara út í kennsluhléum tvisvar til þrisvar á dag. Ekki eru allir úti á sama tíma og er það gert til að draga úr fjölda nemenda á leikvellinum og nýta leiktæki og leikvelli betur. Farið er út í öllum veðrum, nema þeim allra verstu. Nemendur þurfa því að koma klæddir eftir veðri á hverjum einasta degi. Útivistin er hugsuð sem frjáls tími fyrir nemendur, þar sem þeim gefst tækifæri til að leika sér saman, fá holla hreyfingu og fylla lungun af súrefni.

Starfsmenn sem eru í gæslu hverju sinni skipta sér yfirleitt ekki af leikjum barnanna, en grípa að sjálfsögðu inn í þegar þarf og eru til taks fyrir krakkana. Fjöldi starfsmanna í gæslu er mismunandi, en þeir eru frá 5-8 eftir fjölda þeirra nemenda sem eru úti. Auk þess eru nemendur úr 10. bekk sem sinna gæslu og aðstoð við nemendur í morgunfrímínútum. Þeir sem eru í gæslu fara um skólalóðina og fylgjast með því sem er að gerast.  Þeir eru klæddir í áberandi vesti þannig að auðvelt er fyrir krakkana að sjá hvar þá er að finna.

Ferðalög

Nemendur í 7.  bekk fara í skólabúðirnar á Laugarvatni 1. – 5. mars og safna sjálfir fyrir ferðinni. Nemendur í 9. bekk safna fyrir ferð í skólabúðirnar á Laugarvatni sem farin verður 12. – 16. apríl. Við stefnum einnig á skíðaferð með 5. – 10. bekk ef nægur snjór verður í Bláfjöllum. Eitthvað verður um styttri ferðir, en þeim verður í hóf stillt í hóf. Þar sem að skólinn ræður ekki við allan þann kostnað sem hlýst af ferðum er mögulegt að leitað verði til foreldra um að greiða rútukostnað vegna ferða sem ekki falla undir vettvangsferðir. Það verður þá gert að höfðu samráði við foreldra.

Ritföng nemenda

Kópavogsbær útvegar nemendum nauðsynlega ritföng til að nota í skólanum foreldrum að kostnaðarlausu. 

Gróðursetning

Árlega taka nemendur í 5. bekk að sér gróðursetningu á trjáplöntum í bæjarlandinu. Það verkefni er í samstarfi við Skógræktarfélag Kópavogs.

Fjölgreindaleikar

Fjölgreindaleikar Salaskóla eru einn mikilvægasti viðburður skólaársins. Fyrstu fjölgreindaleikar Salaskóla voru vorið 2003, á öðru starfsári skólans. Það voru kennarar við skólann sem áttu hugmyndina að leikunum og síðan hafa þeir breiðst út til fjölda skóla á Íslandi. Markmiðið með leikunum er að vinna að góðum skólabrag með því að nemendur á ólíkum aldri vinna saman að lausn verkefna sem reyna á allar greindir mannskepnunnar. Leikarnir eru jafnframt keppni milli hópa í samvinnu og félagsanda. Þar reynir ekki síst á leiðtoga hvers hóps, en það eru nemendur úr elstu bekkjum skólans. Þá daga sem leikarnir standa yfir ríkir einstök gleði í skólanum og til að ýta enn frekar undir hana mætir starfsfólk í furðufötum.

Efnt verður til 18. fjölgreindaleika Salaskóla 5. og 6. nóvember ef aðstæður leyfa. Allir nemendur taka þátt í leikunum og er þeim skipt í um 40 hópa og í hverjum hópi eru nemendur af öllum skólastigum.  Keppnisgreinar eru um 40 og hver hópur keppir í öllum greinum.  Keppnisgreinar reyna eins og áður segir á allar greindir og fjölbreytni er afar mikil. Við höfum gert kynningarmynd um fjölgreindaleikana sem hægt að að nálgast á heimasíðu skólans.

Jólahefðir Salaskóla

Jólatré er sett upp á aðventunni í salnum okkar. Yngri nemendur skreyta tréð með skrauti sem þeir hafa gert sjálfir. Nemendur í 8. bekk búa til og setja upp jólaþorp. Mötuneytið er með jólamat og tilheyrandi í síðustu vikunni fyrir jólafrí. Jólaball unglingadeildar er að kvöldi og daginn eftir eru litlu jólin hjá yngri nemendum. Jólafrí nemenda hefst að loknum jólaböllum föstudaginn 18. desember. Skóli hefst svo að nýju eftir áramót þriðjudaginn 5. janúar.

Tómstundir

Dægradvöl og klúbbastarf

Að lokinni kennslu gefst ákveðnum nemendum kostur á gæslu í dægradvöl til kl. 17:00.   Þar geta börnin leikið við félagana, verið úti, lesið, unnið í heimanámi, hvílt sig og margt fleira. Á hverjum degi er fjölbreytt hópastarf þar sem lögð er áhersla á leiki, íþróttir, dans, leiklist, tölvunotkun og fleira. Dægradvöl er opin alla daga sem skólinn starfar, hún er opin á skipulagsdögum með tveimur undantekningum en lokuð í vetrarfríum, jólafríi og páskafríi. Foreldrar greiða fyrir dægradvölina skv. gjaldskrá Kópavogsbæjar. Umsjónarmaður dægradvalar er Auðbjörg Sigurðardóttir.

Tónlistarskólar

Tónlistarskóli Kópavogs, Skólahljómsveit Kópavogs og Tónsalir fá aðstöðu í skólanum til hljóðfærakennslu. Í vetur hefur þó þrengt verulega að þessari starfsemi vegna fjölgunar nemenda í skólanum.

Skák

Áhersla er lögð á skákstarf í Salaskóla og skólinn hefur í gegnum tíðina náð góðum árangri á því sviði. Skólinn hreppti heimsmeistaratitil í skák sumarið 2007 og auk þess hefur skólinn hampað Íslandsmeistaratitlum og Norðurlandameistaratitli. Óvíst er um skákæfingar í vetur vegna Covid19. Við reynum að finna einhverja góða lausn á því. 

Félagsstarf  nemenda

Félagsstarf nemenda fer rólega af stað og hjá yngri nemendum er það mest á ábyrgð og að frumkvæði foreldra, s.s. bekkjarskemmtanir og vinahópar. Eftir því sem nemendur eldast eykst þörf þeirra fyrir félagsstarf af ýmsu tagi. Við skólann starfar félagsmiðstöðin Fönix og er forstöðumaður hennar Tinna. Þar eru haldin diskótek fyrir nemendur auk þess sem boðið er upp á ýmis konar annað starf fyrir nemendur.  Árshátíð unglingadeildar er á vegum félagsmiðstöðvarinnar en í samstarfi við Salaskóla.

Forvarnaráætlun Salaskóla

Salaskóli tekur forvarnarhlutverki sínu mjög alvarlega og er einhvers konar forvörn á öllum skólastigum skólans. Á vormánuðum 2015 tók fulltrúi saman alla forvarnarvinnu skólans og setti í eitt heildstætt skjal til þess að auðvelda skólastjórnendum og kennurum að hafa yfirsýn yfir forvarnarstarf skólans. Áætlunin á að verða til þess að starfsmenn skólans sofni ekki á verðinum þegar kemur að forvörnum. Einnig verður hún til þess að ákveðin þemu eru fyrir hvert aldursstig. Þannig má koma í veg fyrir að sama fræðslan fari fram ár eftir ár sem bæði getur verið þreytandi sem og orðið til þess að önnur mikilvæg málefni gleymast. Samkvæmt forvarnaráætluninni á að fræða nemendur um einelti og afleiðingar þess á hverju ári. Einnig er uppeldi til ábyrgðar nýtt sem forvarnarstarf. Aðrar forvarnir sem skólinn tekur fyrir er t.a.m. fræðsla um ofbeldi (heimilisofbeldi/kynferðisofbeldi), hugrekkisfræðsla, tóbaks og vímuefnafræðsla og kynfræðsla. Forvarnaráætlun er hægt að nálgast á heimasíðu skólans.