Það var falleg stund og ljúf samvera þann 5. desember þegar árleg ljósa- og friðarganga foreldrafélags Salaskóla fór fram í fallegu vetrarveðri Samveran hófst á hljóðfæraleik frá Skólahljómsveit Kópavogs sem spilaði fyrir okkur fallega jólatóna. Þá var haldið af stað í gönguna með vasaljós, höfuðljós og ýmsar tegundir af skemmtilegum blikkljósum. Á göngustíg við jaðar skólalóðarinnar var stoppað til að vígja nýjan bekk til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur sem lést 30. ágúst sl. en hún var nemandi í Salaskóla alla sína grunnskólagöngu. Sr. Guðni frá Lindakirkju flutti stutt ávarp og vígði bekkinn og að því loknu var haldið áfram í göngu. Göngunni lauk svo í portinu fyrir framan skólann þar sem börn og fullorðnir gæddu sér á heitu kakói og smákökum. Sannarlega ljúf og falleg stund sem gaf kærleika og hlýju í hjörtu okkar allra
Category Archives: Fréttir
Glæsilegur árangur í skákmóti
Þann 12. nóvember var haldið skólaskákmót í Smáraskóla og voru fulltrúar Salaskóla 4 nemendur úr 6. bekk, þeir Guðjón Veigar Rúnarsson, Hannes Krummi Guðlaugsson, Heiðar Már Eiðsson og Reynir Elí Kristinsson.
Þeir stóðu sig frábærlega og lentu í 2. sæti en einungis munaði einum vinningi á þeim og liðinu sem lenti í 1. sæti. Virkilega vel gert og innilega til hamingju.
Baráttudagur gegn einelti
Þann 8. nóvember tóku allir nemendur skólans auk starfsfólks þátt í baráttudegi gegn einelti. Dagurinn er að öllu jöfnu haldinn þennan dag ár hvert. Markmið dagsins er m.a. að efna til umræðu, fræðslu og viðburða til að vinna gegn einelti og hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu.
Af þessu tilefni gengu 10. bekkingar í leikskóla í hverfinu og náðu í elstu leikskólabörnin og fylgdu þeim í Salaskóla. Saman mynduðum svo vináttukeðju í kringum Salaskóla og knúsuðum við þannig skólann okkar. Eftir vel heppnað knús stjórnuðu nemendur í 9. bekk skemmtilegum útileikjum í sínum fjölgreindahópum og fengu yngri nemendur með í fjörið. Elstu nemendur skólans léku við leikskólavini okkar áður en þeim var fylgt aftur í sinn skóla.
Virkilega vel heppnaður viðburður og hafa nemendur á unglingastigi hvarvetna fengið mikið hrós þennan dag sem og fyrir sitt framlag til Fjölgreindaleika skólans, fyrir ábyrga hegðun, góða hópstjórn og hlýtt og hvetjandi viðmót gagnvart yngri nemendum.
Fjölgreindaleikar í Salaskóla
Dagana 6. og 7. nóvember fóru Fjölgreindaleikar Salaskóla fram og var mikið líf og fjör í skólanum þessa daga. Enn og aftur sannast það hvað þessir leikar eru skemmtilegir og gefandi og á svona dögum sjáum við nemendur okkar blómstra á svo fjölbreyttan hátt. Nemendur vinna verkefni í aldursblönduðum hópum, vinna sameiginlega að þrautalausnum og leysa viðfangsefni sem reyna á mismunandi hæfni og færni. Á hverri stöð voru starfsfólks skólans í gervi alls kyns furðuvera og fólks sem vissulega jók við skemmtanagildið þessa daga.
Eldri nemendur leiða þá yngri áfram, taka ábyrgð í hópastarfi og leggja sig fram um að vera góðar fyrirmyndir. Nemendur mynda ný vinatengsl og kynnast nýjum hliðum á félögum sínum. Hér gildir svo sannarlega vinátta- virðing og samstarf sem eru jú einkunnarorðin okkar í Salaskóla.
Bókagjöf frá foreldrafélagi Salaskóla!
Undir stjórn Guðnýjar Birnu, bókasafns- og upplýsingarfræðings Salaskóla, er safnið orðið mjög aðlaðandi og aðgengilegt og nú búið fullt af nýju lesefni!
Takk fyrir stuðninginn kæra samfélag
Hlaupið okkar fékk mikla athygli og samhugurinn sem við fundum frá ykkur öllum; foreldrum, nágrönnum og fjölmörgum öðrum velunnurum skólans var áþreifanlegur. Það er skemmst frá því að segja að með ykkar stuðningi söfnuðum við rétt tæplega einni og hálfri milljón króna sem við afhentum sl. mánudag. Afhendingarathöfnin fór fram í húsnæði KPMG sem heldur utan um minningarsjóðinn, að viðstöddum forseta Íslands Höllu Tómasdóttur, sem er verndari sjóðsins. Við erum mjög stolt af þeim fulltrúum Salaskóla sem voru við afhendinguna, íþróttakennurunum okkar þeim Auði, Ísaki og Gísla og þremur nemendum, þeim Magnúsi Inga 10. bekk, Maríu 5. bekk og Kimaya 2. bekk.
Með fylgja nokkrar myndir frá afhendingunni
Veruleikinn sem börnin okkar búa við – Hvernig geta foreldrar brugðist við og stutt við og leiðbeint börnum sínum?
Endurskoðun skilmála vegna afnota af spjaldtölvu 2024
Skilmálar vegna afnota af spjaldtölvu hafa verið uppfærðir. Nálgast má skilmálana í heild sinni hér: https://spjaldtolvur.kopavogur.is/skilmalar/
Eftirfarandi breytingar voru gerðar:
2. grein breytist ekki efnislega en síðasta setningin hefur verið færð framar.
3. grein breytist þar sem orðið “Lightspeed” hefur verið tekið út og í staðinn sett orðið “umsýslukerfi”.
4. grein breytist. Var áður “Til þess að hægt sé að nota spjaldtölvuna er nauðsynlegt að nemandi eigi Apple-auðkenni (Apple ID) og sér Kópavogsbær um að stofna þann aðgang, auk netfangs sem tengist Apple-auðkenninu. Umsjónarkennara og foreldrum/forráðamönnum eru afhentar aðgangsupplýsingar (netfang og lykilorð) Apple-auðkennis. Auk þess hefur tæknistjóri og deildarstjórar í upplýsingatækni í hverjum skóla aðgang að innskráningarupplýsingum nemenda”.
en verður nú:
“Kópavogsbær sér um að stofna þá aðganga sem nemandi þarf til að nota í námi. Tæknistjóri og deildarstjórar í upplýsingatækni í hverjum skóla hafa aðgang að innskráningarupplýsingum nemenda”.
6. grein Fyrsta setning hefur verið umorðuð: “Nemanda í 5.-10. bekk er heimilt að taka spjaldtölvuna með sér heim að loknum skóladegi. Nemandi skal þá hafa hana með sér í skólann á hverjum degi, fullhlaðna”
en verður nú:
“Nemanda er heimilt að taka spjaldtölvuna með sér heim að loknum skóladegi í 5. -10. bekk en skal hafa hana með sér í skólann á hverjum degi, fullhlaðna. Nemandi ber ábyrgð á sínu hleðslutæki og snúru og er mælst til þess að það sé geymt heima”.
Grein 10. Breytist. Var áður “Í spjaldtölvunni er námsefni og ýmis konar hugbúnaður (öpp) sem ætluð eru til náms vinnu nemenda. Nemendur í 1. – 7. bekk hafa ekki aðgang að App Store. Öll öpp í spjaldtölvum nemenda eru skráð í Lightspeed sem er miðlægt kerfi í umsjón deildarstjóra skólans í upplýsingatækni”
en verður nú:
“ Í spjaldtölvunni er námsefni og ýmis konar hugbúnaður (öpp) sem ætlaður er til náms. Nemendur hafa ekki aðgang að App Store. Öllum öppum í spjaldtölvum nemenda er dreift með umsýslukerfi bæjarins sem er miðlægt kerfi í umsjón UT deildar. Þegar spjaldtölvunni er skilað í lok skólaárs ber nemandi ábyrgð á að vista persónuleg gögn annars staðar, þar sem spjaldtölvan getur verið uppfærð og enduruppsett áður en hún er afhent á næsta skólaári og eyðast þá öll gögn af spjaldtölvunni”.
Í grein 11 bætist við “Nemendur og foreldrar/forsjáraðilar bera ekki fjárhagslega ábyrgð þótt tækið glatist, skemmist eða verði með öðrum hætti ónothæft. Ef um vísvitandi skemmdarverk, verulega vanrækslu er að ræða eða ef námstæki er ekki skilað ber foreldrum/forsjáraðilum að bæta skólanum tækið fyrir hönd nemanda”.
Að síðustu breytist 14. grein sem hér segir: “Við útskrift úr grunnskóla er persónulegum skólaaðgangi nemanda að gögnum lokað eftir einn mánuð frá útskrift og öllum gögnum þar inni eytt. Nemendur fá leiðbeiningar um hvernig þeir geta breytt aðgangi sínum á Apple og iCloud til að varðveita persónuleg gögn og gert hann að persónulegum aðgangi til að varðveita þau. Nemandinn ber ábyrgð á að bjarga gögnum sínum áður en þeir skila spjaldtölvunni”.
en verður nú:
“Við útskrift úr grunnskóla er persónulegum skólaaðgangi nemanda að gögnum lokað eftir einn mánuð frá útskrift og öllum gögnum þar inni eytt. Nemendur fá leiðbeiningar um hvernig þeir geta flutt persónuleg gögn af skólaaðgangi sínum yfir á persónulegan aðgang. Nemandinn ber ábyrgð á að bjarga gögnum sínum áður en þeir skila spjaldtölvunni.
Góðgerðarhlaup Salaskóla
Föstudaginn 13. september munu nemendur Salaskóla taka þátt í árlegu Ólympíuhlaupi ÍSÍ á skólatíma. Eins og í fyrra, þá skilgreinum við hlaupið einnig sem „Góðgerðahlaup Salaskóla“. Að þessu sinni langar okkur að styrkja nýstofnaðan minningarsjóð Bryndísar Klöru Birgisdóttur, en hún var nemandi í Salaskóla og útskrifaðist frá okkur vorið 2023.
Í minningu Bryndísar Klöru ætlum við einnig að klæðast bleiku þennan dag en bleikur var hennar uppáhalds litur.
Íþróttakennararnir okkar skipuleggja hlaupið og eru vegalengdir mismunandi eftir aldri.
Við leitum til foreldra og vina og vandamanna skólasamfélagsins okkar að styrkja okkur við að láta gott af okkur leiða og heiðra um leið minnngu Bryndísar Klöru.
Minningarsjóður Bryndísar Klöru er í umsjón KPMG og forseti Íslands, Halla Tómasdóttr, er verndari sjóðsins. Minningarsjóðnum er ætlað að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.
Sjóðurinn mun einbeita sér að fræðslu, rannsóknum og vitundarvakningu til að koma í veg fyrir að þær hörmungar sem leiddu til fráfalls Bryndísar Klöru endurtaki sig.
Í hlaupinu óskum við eftir stuðningi sem að lágmarki er ein króna fyrir hvern nemanda skólans, eða að lágmarki 530 kr. Í fyrra söfnuðum við kr. 192,500- sem voru afhentar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna. Margir völdu að styrkja nemendahópinn um 530 kr, en aðrir völdu hærri styrkupphæð að eigin vali.
Í nafni Salaskóla langar okkur að styðja myndarlega við nýstofnaðan minningarsjóð og leggja okkar af mörkum til að markmið hans náist. Við hvetjum ykkur til að taka þátt, styðja duglega hlaupakrakka og hjálpa okkur í skólanum að heiðra minningu Bryndísar Klöru.
Endilega takið þátt og hjálpið okkur að hlaupa til góðs!
Framlög má leggja inn á reikning Salaskóla, 0536-14-750900, kt. 670601-3070.
Í nafni skólasamfélags Salaskóla munum við svo koma einni heildarupphæð til minningarsjóðsins strax í næstu viku.