Kópurinn 2022

Salaskóla hlotnaðist í gær sá heiður að fá Kópinn 2022, sem viðurkenningu fyrir verkefnið „Sköpun og tækni“. Kópurinn er viðurkenning Menntaráðs Kópavogsbæjar og er veitt árlega fyrir framúrskarandi skóla- og frístundastarf.

Við getum verið mjög stolt af því að þetta skólaár voru fjögur verkefni í Salaskóla og Félagsmiðstöðinni Fönix tilnefnd til Kópsins. Það eru verkefnin: „Beint í mark“ – „Fönix“ – „Kosningaverkefni 10. bekkjar“ – „Sköpun og tækni“.

Þorvaldur Hermannsson kennari í Salaskóla veitti viðurkenningunni viðtöku í gær í athöfn á hátíðarsal Álfhólsskóla. Þar kynnti Þorvaldur verkefnið sem hann hefur þróað í nokkur ár. Í „sköpun og tækni“ gefst nemendum tækifæri til að hanna og skapa, tengja verkefni við áhugasvið og styrkleika sína og vinna með fjölbreyttan efnivið auk ýmissa tækja, tóla og verkfæra.

Það er mikill heiður að fá tilnefningu til Kópsins og viðurkenningu fyrir framúrskarandi skólastarf. Í Salaskóla er metnaðarfullt og gróskumikið skóla- og frístundastarf og á bakvið hvert verkefni standa margir aðilar, mörg handtök, og mikil þróunar- og skipulagsvinna.

Viðurkenningar sem þessi eru í raun hrós og hvatning til okkar allra að halda áfram að vinna að faglegum og spennandi verkefnum, með hagsmuni nemenda að leiðarljósi.

Til hamingju öll í Salaskóla!

Vísindadagar

Sápukúlugerð, reyksprengjur, Covid Break out, þrívíddargleraugu, fílatannkrem, geimflaugar, skordýraætur, könglarannsókn var meðal annars það sem í boði var fyrir nemendur á vísindadögum.

Þetta var nú aldeilis fróðlegt, en bæði nemendur og starfsfólk skemmtu sér konunglega. Svo má auðvitað ekki gleyma að Vísindavilli kemur í heimsókn til okkar á morgun 🤓

Skipulagsdagur og skólaslit

Við minnum á að mánudaginn 16.maí er skipulagsdagur í Salaskóla og því ekki skóladagur hjá nemendum.
Frístundaheimilið er opið þann dag samkvæmt sérstökum skráningum og hafa foreldrar í 1.-4.bekk fengið tölvupóst um það frá Auðbjörgu.

Útskrift 10.bekkinga verður föstudaginn 3. júní kl. 11.
Skólaslit verða hjá 1.-9.bekk þriðjudaginn 7. júní. Tímasetningar verða sendar til ykkar fljótlega.

Kjörfundur 10.bekkjar

10.bekkur hafa unnið hörðum höndum að því síðustu vikur að mynda stjórnmálaflokka sem bjóða sig fram til nemendaþings. Flokkarnir hafa það markmið að vinna að bættum hag nemenda í unglingadeild skólans.

Hápunktur verkefnisins er svo framboðsfundur þar sem nemendum í 7.-9. bekk er boðið að fylgjast með framboðsræðum fulltrúa flokkanna og svo í kjölfarið að kjósa sína fulltrúa á þingið.

Framboðsfundurinn fór fram í morgunn og fluttu ræðuskörungar 10. bekkjar innblásnar ræður við góðar undirtektir nemenda í 7.-9. bekk. Hér fyrir neðan má svo sjá myndir frá fundinum.

Nýr skólastjóri Salaskóla

Kristín Sigurðardóttir er nýr skólastjóri Salaskóla frá og með 1. apríl. tók Kristín við starfinu af Hafsteini Karlssyni sem hefur verið skólastjóri Salaskóla frá stofnun skólans haustið 2001. Við óskum honum alls hins besta og þökkum honum fyrir allt það frábæra starf sem hann hefur gert í þágu Salaskóla.

Kristín er grunnskólakennari að mennt, með framhaldsmenntun í skólastjórnun, opinberri stjórnsýslu og sálfræðiráðgjöf. Kristín kemur til okkar frá Smáraskóla þar sem hún hefur verið aðstoðarskólastjóri sl. 3 ár. Kristín var skólastjóri í Flóaskóla á Suðurlandi í 8 ár og aðstoðarskólastjóri í Hjallaskóla í Kópavogi í 2 ár þar á undan. Auk annarra starfa hefur hún einnig starfað við kennslu í grunnskólum og við ráðgjöf í verkefnum tengdum geðheilbrigðisþjónustu.


Stóra upplestrarkeppnin

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Kópavogi fór fram í Salnum fimmtudaginn 24. mars. Stóra upplestrarkeppnin var haldin í 25. sinn í Kópavogi en keppnin á 26 ára afmæli í ár. Keppnin er ávallt sett á Degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember og markmið hennar er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði. Í Salnum komu saman tveir fulltrúar frá öllum 9 grunnskólum bæjarins og lásu þau hluta úr sögunni Víti í Vestmannaeyjum eftir Gunnar Helgason. Því næst völdu nemendur eitt af tíu ljóðum eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur og að lokum fluttu þau ljóð að eigin vali. Allir lesararnir stóðu sig með mikilli prýði og mjög erfitt var fyrir dómara að gera upp á milli þeirra.
Snædís Erla Halldórsdóttir úr Snælandsskóla sigraði Stóru upplestrarkeppnina í Kópavogi, í öðru sæti var Júlía Heiðrós Halldórsdóttir úr Álfhólsskóla og í þriðja sæti var Georg Bieltvedt Jónsson úr Salaskóla.

Inn á milli upplestra fluttu nemendur úr Skólahljómsveit Kópavogs fallega tónlist og þátttakendur fengu viðurkenningar, bók og blóm að gjöf.
Allir lesarar stóðu sig með mikilli prýði og mjög erfitt var fyrir dómara að gera upp á milli þeirra. Það er því ljóst að nemendur í Kópavogi hafa staðið sig afar vel í ræktunarhluta keppninnar í skólunum áður en til lokahátíðarinnar kom.