Snjallir nemendur í Kópavogi

Síðastliðinn mánudag þann 27. mars voru haldnar menntabúðir #Kópmennt í Snælandsskóla sem voru nokkurs konar uppskeruhátíð skólaársins. Nemendur í grunnskólum Kópavogs áttu ,,sviðið“ þar sem þeir mættu til leiks til að kynna verkefni sem þau hafa unnið í vetur. Yfirskrift menntabúðanna voru því ,,Snjallir nemendur í Kópavogi“.
          Nokkrir nemendur í 1. bekk og 4. bekk ásamt kennurum sínum Kristjönu Pálsdóttur og Stellu Aradóttur stóðu vaktina fyrir hönd Salaskóla þar sem þau sýndu og sögðu frá verkefnum sem þau hafa unnið á þessu skólaári og þeim smáforritum eða vefsíðum sem komu þar við sögu.
         Nemendur í 1. bekk kynntu og sýndu hvernig þau hafa verið að vinna með Bitsboard og CodeSpark í vetur. Bitsboard er orða- og stafaleikur. Þar er unnið er með stafi og orð á fjölbreyttan hátt í 20 leikjum, allt frá því að æfa stafadrátt, finna fyrsta hljóðið í orði og skrifa niður orð. Frábært forrit fyrir yngstu krakkana. CodeSpark er hins vegar forritunarleikur sem kennir krökkum á aldrinum 5-10 ára að kóða og geta kennarar fylgst með framvindu mála inni á kennaraðgangi forritsins.
         Í 4. bekk hafa nemendur verið að vinna ýmis verkefni þar sem þau nýta sér rafrænt efni til að afla upplýsinga. Nemendur sögðu frá verkefnum um fugla þar sem þau nýttu sér fuglavefinn og eins frá verkefni um ýmislegt í náttúru Íslands þar sem þau notaðu kortavefsjá til að afla þeirra upplýsinga sem þau þurftu til að leysa verkefnin. Bæði Fuglavefurinn og Kortavefsjáin eru vef á MMS og öllum opnir.
        Menntabúðirnar heppnuðust einstaklega vel og stóðu nemendur okkar sig með stakri prýði og erum við mjög þakklát og stolt af okkar fólki.

Birt í flokknum Fréttir.