Bókagjöf frá foreldrafélagi Salaskóla!

Breytingar hafa staðið yfir undanfarið á skólabókasafni Salaskóla. Síðastliðið vor var safnið fært til innanhúss og farið í endurnýjun á skráningum og skipulagi safnkosts. Í ljós kom að endurnýjun bóka var nauðsynleg til að geta boðið nemendum á öllum aldursstigum upp á gæða lesefni sem höfðar til áhugasviðs þeirra og hvetur þau til yndislesturs.

Foreldrafélag Salaskóla bætti vel í endurnýjun bóka nú nýverið með peningagjöf til safnsins sem nýtt var til að kaupa nýjar bækur og bæta við bókum í vinsæla bókaflokka eftir vinsæla höfunda. Nú er verið að skrá efnið inn og nemendur mjög ánægðir með aukið úrval bóka. Næstu innkaup fara svo fram í jólabókaflóðinu eftir nokkrar vikur.

Undir stjórn Guðnýjar Birnu, bókasafns- og upplýsingarfræðings Salaskóla, er safnið orðið mjög aðlaðandi og aðgengilegt og nú búið fullt af nýju lesefni!

Við færum foreldrafélaginu innilegar þakkir fyrir stuðninginn! ❤️📚❤️📚

LESTUR er BESTUR!

Takk fyrir stuðninginn kæra samfélag

Til samfélagsins í kringum Salaskóla 💞
Það er með innilegu þakklæti í huga og kærleika í hjarta sem við þökkum ykkur fyrir stuðninginn í góðgerðarhlaupinu okkar þann 13. september sl. Ár hvert hlaupum við að hausti Ólympíuhlaup ÍSÍ og köllum það í leiðinni góðgerðarhlaup Salaskóla. Í ár ákváðum við að hlaupa góðgerðarhlaupið til styrktar nýstofnuðum minningarsjóði Bryndísar Klöru, en hún var nemandi í Salaskóla á sinni 10 ára grunnskólagöngu og alin upp í Salahverfinu.

Hlaupið okkar fékk mikla athygli og samhugurinn sem við fundum frá ykkur öllum; foreldrum, nágrönnum og fjölmörgum öðrum velunnurum skólans var áþreifanlegur. Það er skemmst frá því að segja að með ykkar stuðningi söfnuðum við rétt tæplega einni og hálfri milljón króna sem við afhentum sl. mánudag. Afhendingarathöfnin fór fram í húsnæði KPMG sem heldur utan um minningarsjóðinn, að viðstöddum forseta Íslands Höllu Tómasdóttur, sem er verndari sjóðsins. Við erum mjög stolt af þeim fulltrúum Salaskóla sem voru við afhendinguna, íþróttakennurunum okkar þeim Auði, Ísaki og Gísla og þremur nemendum, þeim Magnúsi Inga 10. bekk, Maríu 5. bekk og Kimaya 2. bekk.

Við í Salaskóla munum halda áfram að hlaupa til góðs og láta gott af okkur leiða. Innilegar þakkir fyrir að taka þátt með okkur og styrkja svo myndarlega við minningarsjóð Bryndísar Klöru. Fjármunum sem varið er í sjóðinn er ætlað að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.

Með fylgja nokkrar myndir frá afhendingunni
💗💗💗

Veruleikinn sem börnin okkar búa við – Hvernig geta foreldrar brugðist við og stutt við og leiðbeint börnum sínum?

Foreldrafélag Salaskóla, í samstarfi við SAMKÓP, býður foreldrum til fræðsluerindis:

Veruleikinn sem börnin okkar búa við.
Hvernig geta foreldrar brugðist við og stutt við og leiðbeint börnum sínum?

Fyrirlesarar eru þau Andrea Marel og Kári Sigurðsson en þau hafa bæði starfað með börnum og unglingum um langt skeið og hafa saman breiða fagþekkingu í málefnum ungmenna. Þau hafa ferðast um landið með fræðsluna „Fokk me – Fokk you“ sem fjallar um veruleika unglinga í tenglum við sjálfsmynd, samfélagsmiðla og samskipti. Þau hafa frætt bæði unglinga og foreldra sem og annað fagfólk sem starfar með börnum og unglingum um allt land. Í erindi sínu munu Andrea og Kári gefa okkur innsýn inn í þann veruleika sem börnin okkar búa við og ræða við okkur hvaða áhrif við sem foreldrar getum haft á hann. Rætt er um þá þætti sem hafa áhrif á mótun sjálfsmyndar sem og birtingarmyndir ofbeldis og áreitni í ýmsu formi.

Við óskum þess að sem flestir foreldrar geti mætt, fundið samstöðuna sem felst í því þegar mörg okkar sækja sér uppbyggilega fræðslu saman.

Oft gengur foreldrum betur að halda utan um börnin og vini þeirra þegar þeir hafa hist, spjallað og stillt saman strengi.

Góðgerðahlaup Salaskóla

Í dag föstudaginn 15. september, fer Ólympíuhlaup UMFÍ fram í Salaskóla. Við höfum ákveðið að gera hlaupið að „Góðgerðarhlaupi“ og styrkja gott málefni.

Fyrir valinu varð Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, SKB. Það er félag sem stendur skólasamfélaginu okkar nærri. SKB styður við fjölskyldur, fjárhagslega og félagslega, heldur uppi foreldra- og unglingafundum, listmeðferðum og sinnir margvíslegu öðru stuðningsstarfi við krabbameinssjúk börn og fjölskyldur þeirra. Svo vel vill til að september mánuður en tileinkaður gylltu slaufunni, en sú slaufa er tileinkuð börnum með krabbamein.

Það er spenna í okkur á hlaupdegi og við höfum beðið foreldra og aðra velunnara skólans að styrkja nemendur um eina krónu fyrir hvern nemenda, en það eru þá 530kr – upphæð framlags getur þó að sjálfsögðu verið frjáls og allt skiptir máli.

Endilega takið þátt og hjálpið okkur að hjálpa öðrum – við hlaupum til góðs!

Framlög má leggja inn á reikning Salaskóla, 0536-14-750900, kt. 670601-3070.

Snemma í morgun höfðu safnast rúmlega 100.000kr og við erum spennt að hækka þá upphæð og munum láta ykkur vita þegar við komum styrknum á framfæri.

 

Skólaárið 2023-2024!

Skólasetning Salaskóla verður miðvikudaginn 23. ágúst.

  • Nemendur í 2.-4. bekk mæta kl. 9:00.
  • Nemendur í 5.-7. bekk mæta kl. 10:00
  • Nemendur í 8.-10. bekk mæta kl. 11:00.

Skólasetningin verður í opnu rými við aðalinngang skólans, nálægt stiganum.

Foreldrar eru hjartanlega velkomnir með börnum sínum.
Eftir stutta skólasetningarathöfn fara nemendur í kennslustofur þar sem umsjónarkennarar bjóða þá velkomna og fara stuttlega yfir skólabyrjun og helstu áherslur árgangsins.
Nemendur í 1. bekk mæta ekki til hefðbundinnar skólasetningar en umsjónarkennarar þeirra hafa boðað hvern nemanda til viðtals ásamt foreldrum en viðtölin fara fram dagana 22. og 23. ágúst.
Kennsla hefst samkvæmt stundatöflum hjá öllum árgöngum fimmtudaginn 24. ágúst.

Frístund er lokuð á skólasetningardegi en opnar kl. 13:20 fyrsta skóladaginn.
Foreldrar nemenda í 1.-4. bekk fá allar frekari upplýsingar um skráningar og aðra þætti sem snúa að frístundastarfinu frá Kristrúnu Sveinbjörnsdóttur sem er ný forstöðukona frístundar.

Foreldrar skrá  börn sín í mötuneyti skólans í gegnum þjónustugátt á heimasíðu Kópavogsbæjar.
Sá möguleiki er nú fyrir hendi að við skráningu geta foreldrar valið hvort þeir skrái börnin í „vegan“ fæði eða ekki.
Þeir sem nú þegar eiga virkar skráningar í mötuneyti og vilja breyta yfir í „vegan“ verða að skrá sig inn og framkvæma breytinguna.
Foreldrar nemenda í 1.-7. bekk geta einnig valið skráningu í ávexti sem morgunhressingu og hafa langflestir nýtt það.

Unglingastiginu verður boðið í hafragraut í morgunfrímínútum alla virka daga.

Skóladagatal skólaársins 2023-2024 er aðgengilegt á heimasíðu skólans.

Skrifstofa skólans er opin alla virka daga kl. 8:00-15:00.
Símanúmer skólans er 441-3200.
Ritari er Ásdís Sigurjónsdóttir en hún er öllum hnútum kunnug hvað skólastarfið varðar og svarar fyrirspurnum hratt og vel, netfang; ritari@salaskoli.is .

Við hlökkum til að hittast aftur eftir sumarfríið – GLEÐILEGT NÝTT SKÓLAÁR!