Staðan í Salaskóla 20. mars

Það er einkennilegt ástand núna, það er ekki hægt að segja annað. Skólinn hefur verið lokaður vegna verkfalls í 8 daga og ekki sér til lands í samningamálum. Við höfum nú skellt skólahúsinu í lás. Það verður opnað aftur þegar búið er að þrífa það og gera fínt. Eins og staðan er núna er óvíst hvort Salaskóli fái að opna til að taka á móti börnum þeirra foreldra sem eru í forgangshópum og hafa sótt um forgang í skólanum í næstu viku. En við höldum ykkur upplýstum.

En öll þjóðin er nú að takast á við verkefni sem krefst þolinmæði. Skólastarf í þeim skólum sem eru opnir, er mjög skert og langt frá því nokkur skóli geti haldið þeim áætlunum sem lagt var upp með í byrjun skólaárs. Ég vil biðja ykkur, foreldrar góðir, að vera ekki áhyggjufull eða stressuð vegna náms barnanna. Það eru milljónir skólabarna um allan heim í sömu stöðu og við vinnum okkur út úr þessu þegar skólastarf getur hafist að nýju. Nú erum við öll, bæði börn og fullorðnir, að læra að takast á við veirufaraldur. Það er ekkert smá nám og í því verðum við að standa okkur vel.

Nemendur, einkum þeir eldri, hafa verið að fá verkefni til að vinna í fjarnámi. Það hefur gengið alveg prýðilega, en í þessu eru allir að læra nýjar aðferðir, bæði nemendur, kennarar og foreldrar líka. Hvet ykkur til að skoða líka Fræðslugátt Menntamálastofnunar og aðra slíka vefi sem bjóða upp á námsefni. (https://fraedslugatt.is).

Birt í flokknum Fréttir.