lusia2

Hátíðleg stund

lusia2Á morgun er svokölluð Lúsíumessa. Í Salaskóla er hefð að farin sé Lúsíuganga í tengslum við þennan dag sem einmitt fór fram í morgun, föstudaginn 12. desember. Þetta er hátíðleg stund þar sem við njótum fallegs söngs og kertaljósa á göngum skólans.

Lúsían að þessu sinni var Selma Guðmundsdóttir í flórgoðum. Í Salaskóla höldum við dag ljóssins 13. desember í takt við eldgamla norræna hefð, sem nú er mest þekkt og notuð í Svíþjóð. Áður fyrr, á 14. öld, þegar Evrópa fylgdi júlíanska dagatalinu, bar Lúsíudaginn uppá vetrarsólstöður á norðurslóðum. Þá átti öllum undirbúningi fyrir jólin að vera lokið, og þá fengu allir eitthvað gott að borða og drekka, líka dýrin. Þó Lúsíudagurinn beri nafn dýrlingsins Luciu frá Syrakusa, þá er norræna hefðin óskyld hinni ítölsku, sem á rætur í helgisögu um stúlku sem illa var farið með og gerð var að dýrlingi eftir dauða sinn. Sögur þessara ólíku hefða sýna okkur hvernig hefðir berast frá stað til staðar og breytast í meðförum, og hvernig tekinn er hluti af einni hefð og skeytt við aðra. Þannig má segja að það sé blanda af norrænum og ítölskum hefðum í því hvernig við höldum upp á dag ljóssins, þann 13. des.

 

Birt í flokknum Fréttir.