Jólaball og jólafrí


Nemendur í 1. – 7. bekk mættu á jólaball þennan morguninn og áttu skemmtilega stund við jólartréð ásamt hljómsveitinni Jólakúlunum og Giljagaur. Eftir jólaballið hófst jólafrí.  Hér eru myndir frá morgninum. 4. janúar er skipulagsdagur og nemendur eiga frí, en dægradvölin er opin. Kennsla hefst svo aftur að loknu jólaleyfi miðvikudaginn 5. janúar.

Bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.

 

Skólakór Salaskóla á jólatónleikum

Skólakór Salaskóla tekur þátt í jólatónleikum Samkórs Reykjavík, fimmtudaginn 16. desember í Fella- og Hólakirkju. Tónleikarnir hefjast kl. 20:00. Eftir tónleika verður boðið upp á smákökur og kaffi. Miðaverð er 2 þús. krónur og hægt að kaupa miða á skrifstofu skólans.  

Stjórnandi Skólakórs Salaskóla er Ragnheiður Haraldsdóttir og stjórnandi Samkórs Reykjavíkur er John Gear. Á tónleikunum spilar Margrét Stefánsdóttir á þverflautu og Julian Edwards Isaacs á orgel.  

 

Lúsíuhátíð


Það er orðin hefð í Salaskóla að halda upp á Lúsíumessu sem tengist verndardýrðlingnum Santa Lúsíu. Kór Salaskóla, sem er skipaður nemendum úr 3.-7. bekk, sér ávallt um Lúsíuathöfnina undir stjórn Ragnheiðar tónmenntakennara.

Krakkarnir klæðast þá hvítum kyrtlum, hnýta silfurbönd um mitti sér og höfuð og eru með ljós í hönd. Lúsían sjálf er prýdd ljósakransi og með rauðan linda um mitti. Í morgun fór Lúsíugangan um allan skólann með söng og tilheyrandi hátíðleika. Katrín Kristinsdóttir í fálkum var Lúsían þetta árið. Nemendur komu fram á ganga með kennurum sínum og fylgdust með göngunni. Falleg og friðsæl stund í Salaskóla í morgunsárið. Fleiri myndir.

Rafræn próf í Salaskóla


Í Salaskóla taka nemendur gjarnan rafræn próf en það eru próf sem eru tekin með hjálp tölvunnar inni á námsvef Salaskóla. Í sumum tilfellum birtist einkunn nemanda í lok prófsins. Mikil hagræðing og tímasparnaður er af þessu fyrirkomulagi jafnt fyrir nemendur sem kennara og auk þess sparast hellingur af pappír. Í morgun var einmitt rafrænt próf hjá sjöundubekkingum í tölvuveri skólans og þegar litið var yfir hópinn mátti sjá einbeitnina skína úr hverju andliti. Allmörg próf í 7. – 10. bekk í lok þessarar annar eru með rafrænum hætti.

Skín í rauðar skotthúfur


Já, þær voru sannarlega flottar jólasveinahúfurnar sem nemendur og starfsfólk skartaði í dag enda hinn árlegi rauði dagur hér í Salaskóla en þá er mælst til þess að sem flestir klæðist einhverju rauðu. Þetta setur mjög skemmtilegan svip á skólann. Ýmislegt er verið að bralla á rauða deginum, víða mátti sjá jólaföndur í gangi í stofum, sumir bekkir voru að fara í jólatölvutíma (hvað skyldi það vera!!) og úr salnum mátti heyra jólalög sungin hástöfum. Þegar að var gáð voru allir krakkarnir í 4. bekk mættir í samsöng hjá Ragnheiði tónmenntakennara og tóku hraustlega undir sönginn hjá henni. Rauðu jólasveinahúfurnar settu skemmtilegan svip á samsönginn í dag. Á slíkum degi er að sjálfsögðu borinn jólagrautur á borð með kanilsykri og lifrarpylsu. Skoðið myndir.

Skemmtilegar eðlisfræðitilraunir


Nýlega voru níundubekkingarnir, krummarnir, að gera tilraunir í eðlisfræði með því að yfirvinna þyngdarafl jarðar. Með gosflöskum fylltum af vatni og þurrís tókst að skjóta 2 lítra flösku 2x hærra en Salaskóli það eru ca 14 metra upp í himininn. Þegar gosflaskan var orðin tóm var hún komin á efstu stöðu og hrundi síðan aftur til jarðar. Verst að einhverjar vatnsrakettur eru uppá þaki og við þorum ekki að sækja þær við erum svo lofthrædd.  Hér eru fleiri skemmtilegar myndir frá tilrauninni.

Himbrimar meistarar


Bekkjarmeistaramót Salaskóla í skák fór fram í dag, föstudag og urðu úrslitin á þann veg að Himbrimar sigruðu með flesta vinninga. Efstu lið voru Himbrimar 8. b. með 16,5 vinninga, Krummar 9. b.  með 16 vinninga og Súlur 6. b. með 13,5 vinning. Í liði Himbrima voru Eyþór Trausti (1b), Baldur Búi (2b) og Aron Ingi (3b). 

  

Í upphafi þessa móts tefldu ca. 100 krakkar í þremur forkeppnum. Lokamótið var síðan skipað þeim bestu af þeim bestu og eru því Himbrimar sannkallaðir meistarar í ár.

Aðventuganga foreldrafélagsins 7. desember

 Hin árlega aðventuganga foreldrafélagsins verður þriðjudaginn 7. desember kl 17:15. Safnast verður saman í Salaskóla þar sem Skólahljómsveit Kópavogs leikur jólalög meðan börn og foreldrar tygja sig í gönguna. Hljómsveitin byrjar að spila 5-10 mín yfir fimm. Gengið verður að Lindakirkju og þar mun skólakór Salaksóla syngja nokkur lög. Svo verður haldið til baka í skólann og allir fá kakó og smákökur. Tónlistarfólk úr 10. bekk mun troða upp og skemmta gestum. Gaman væri að sem flestir kæmu með vasaljós eða höfuðljós til að hafa í göngunni. Foreldrar eru hvattir til að koma með börnum sínum og gott væri ef einhverjir gætu hjálpað til meðan á þessu stendur.

Hlökkum til að sjá ykkur  
Foreldrafélag Salaskóla

Góðar niðurstöður

Niðurstöður rannsóknarinnar Heilsa og lífskjör skólanema eru býsna góðar fyrir krakka í Salaskóla. Rannsóknin var framkvæmd skólaárið 2009-2010 og náði til nemenda í 6., 8. og 10. bekk. Sem dæmi má nefna að krakkarnir hérna og í Smáraskóla fá sér oftar morgunverð í viku hverri en önnur börn á landinu, þau eru undir landsmeðaltali í sælgætisáti, líkar betur í skólanum en meðalkrakkinn á landinu, hreyfa sig meira, horfa minna á sjónvarp og nota netið minna, nota síður tóbak eða áfengi og lífsánægja þeirra er yfir landsmeðaltali.  

Skipulagsdagur kennara

Skipulagsdagur kennara verður föstudaginn 26. nóvember og er þá ekki skóli hjá nemendum. Kennsla hefst skv. stundaskrá á mánudaginn.