Category Archives: Fréttir
Bestu kveðjur frá Reykjum
Nú eru reykjalingarnir komnir á áfangastað. Ferðin gekk vel þrátt fyrir rok og rigningu. Gert var stutt stopp í Borgarnesi til að pissa og teygja úr sér. Nú eru krakkarnir komnir í sína hópa og andinn í hópnum mjög góður, allir hressir og láta ekki bleytu og vind á sig fá. Skoðið heimasíðu Skólabúðanna á Reykjum.
Húllað, hoppað og skákir tefldar
Á seinni degi fjölgreindaleika gekk allt eins og í sögu. Í íþróttahúsinu var húllað og hoppað af miklum móð, klifrað upp í rjáfur, boltar látnir skoppa og handleggir jafnvel lengdust um mun t.d. á „hanga á slá“ stöðinni. Sums staðar reyndi svo sannarlega á kunnáttu í landafræði og á einum stað var kannað hversu gott þreifiskynið væri hjá krökkunum. Í sjálfu skólahúsnæðinu var t.d. jóga iðkað, sögur skrifaðar, danssporin tekin, á einni stöðinni reyndi mjög á leikhæfileika að ógleymdri skákstöðinni. Á þeirri stöð tók skáksnillingurinn Birkir Karl á móti liðunum og skoraði á þau að tefla við sig. En ekki langt frá þeirri stöð vildi svo vel til að sat annar skáksnillingur, reyndar fv. heimsmeistari Anatolí Karpov, og tefldi við einn af nemendum skólans, Hilmi Frey. Karpov er hér á landi vegna 111 ára afmælis Taflfélags Reykjavíkur og heimsótti skólann okkar í leiðinni og tók nokkrar skákir. Ekki eru allir jafnheppnir og við að fá heimsmeistarann sjálfan í heimsókn.
Hér eru MYNDIR FRÁ FJÖLGREINDALEIKUM: Degi 2 og einnig frá heimsókn Karpovs.
Stóra trambólínið er svo skemmtilegt
Fréttasnápur GREINDARLEGRA FRÉTTA hitti nokkra krakka á púslstöðinni snemma morguns. Þau voru hress og kát og er þau voru innt eftir því hvað væri skemmtilegasta stöðin á fjölgreindaleikunum hingað til nefndu þau nokkur stóra trambólínið. Ein stelpan sagði þó að kaðlaklifrið vera nokkuð skemmtilegt en maður þyrfti að passa sig að „brenna sig“ ekki á fótunum á leiðinni niður kaðalinn. Þau héldu svo áfram að púsla af krafti og létu ekki trufla sig lengur við spjall.
Myndir frá fjölgreindaleikum: Dagur 1
Með því að smella á heitin má skoða myndir frá fjörugum fjölgreindaleikum í Salaskóla.
Skemmtilegur dagur á enda
Nú er fyrri dagur fjölgreindaleika á enda. Nemendur fóru heim afar sáttir að því er virtist. Tveir ungir nemendur í 2. bekk hittu Stínu-Línu á leiðinni út úr skólanum og sögðust „… hlakka svo svakalega til“ að koma í skólann á morgun, þá ættu þær að vera á stöðvunum í íþróttahúsinu. Þar fá þær Hrafnkatla og Hekla m.a. að fara í handbolta, körfubolta, limbó, kaðlaklifur, hoppa á trampólíni, húlla húlla, þekkja fána og spreyta sig á fiitness þraut. Góður dagur er á enda runninn.
Allt fer vel af stað á fyrsta degi fjölgreindaleika
Já, annar af tveimur dögum fjölgreindaleika er runninn upp. Á fjölgreindaleikum er krökkunum í Salaskóla skipt upp í 40 lið – en í hverju þeirra eru 10 krakkar, einn úr hverjum árgangi. Elstu nemendurnir eru fyrirliðar og eiga að gæta þess að allt fari vel fram innan liðsins. Liðin fara á milli stöðva þar sem er stöðvarstjóri úr röðum starfsfólks skólans. Stöðvarstjórar eru klæddir í grímubúning sem útskýrir þá miklu ringulreið sem varð í morgun þegar ýmis furðudýr og skringilegt fólk dreif að skólanum.
Afar vel gekk að skipa krökkunum niður í liðin sín og hófust síðan leikarnir stundvíslega klukkan 9. Liðin safna stigum á hverri stöð með góðum árangri sínum og góðri liðsheild. Hægt er að fá aukastig m.a. fyrir góða stjórnun liðsins. Stöðvarnar sem eru um 50 talsins reyna á hinar ýmsu greindir okkar. Nokkrar nýjar stöðvar eru í boði að þessu sinni t.d. stígvélaspark, uppþvottur, landkönnuðurinn, nafnarapp o.fl.
Nokkrir krakkar sem Stína Lína hjá GREINDARLEGUM FRÉTTUM hitti á stígvélasparkstöðinni sögðu að það væri ótrúlega erfitt að fá stig fyrir stígvélaspark. Það mætti bara sparka innan ákveðins svæðis og það væri þrautinni þyngri. Þau voru samt bjartsýn á að ná inn fullt af stigum á þeirri stöð. Nokkrir krakkar á limbóstöðinni voru brosmild og sögðu létt í bragði að þetta væri skemmtilegur dagur og það væri „svo rosalega gaman að sjá hvað kennararnir væru skrýtnir..“
Svartur svanur, gangandi jarðarber …
Upp úr klukkan 8 í morgun, 6. október, tóku vegfarendur eftir því að ekki var allt eins og venjulega við Salaskóla. Margir vissu ekki hvað á sig stóð veðrið þegar svartur svanur kom keyrandi á bíl og lagði við skólann, flögraði út og tók undurfögur ballettspor að skólanum. Tígri mætti stuttu síðar, frár á fæti, og úr einni bifreiðinni steig síðan Rauðhetta með körfuna sína. Þeim mun undarlegra varð þetta þegar á svæðið mættu líka strokufangi , egypsk kona, Karíus og Baktus, galdranorn, gangandi jarðarber og þannig mætti lengi telja. Fólk spurði sig hvað er um að vera í Salaskóla í dag?
GREINDARLEGAR FRÉTTIR af fjölgreindaleikum
Góðan daginn!
Velkomin á Fréttamiðilinn GREINDARLEGAR FRÉTTIR. Aðalmarkmið fréttamiðilsins er að flytja ykkur fréttir af hinum stórkostlegu fjölgreindaleikum sem hófust í morgun, fimmtudaginn 6. október, í SALAKÓLA. Stína – Lína, fréttasnápurinn alkunni, er á sveimi, kíkir í öll horn, hlustar eftir öllu og lætur ekkert fram hjá sér fara. Hún snapar eftir fréttum alls staðar. Hér á síðunni er hægt að kynna sér það sem fram fer.
Fjölgreindaleikarnir 6. og 7. október
Hinir árlegu fjölgreindaleikar Salaskóla verða haldnir 6. og 7. október nk. Þá verður nemendum skólans skipt upp í tæplega 50 tíumanna líð og í hverju liði er nemendur á öllum aldri. Liðsstjórar eru elstu nemendur skólans og stýra þeir sínum hópi allan daginn. Keppt er í 50 keppnisgreinum sem reyna á hinar ýmsu greindir mannskepnunnar. Að þessu sinni verða þó nokkrar nýjar keppnisgreinar.