Morgunkaffi með foreldrum

Nú hafa nákvæmlega 300 foreldrar nemenda í 17 bekkjum mætt í morgunkaffi með skólastjórnendum Salaskóla. Enn eru sex bekkir eftir og eiga þeir boð strax eftir áramót. Um ýmislegt hefur verið spjallað, s.s. lestrarþjálfun, útivist, mötuneyti, kirkjuferðir, samræmd próf og auðvitað námið sjálft. Foreldrar skrifa á miða það sem þeim finnst gott í starfi skólans og það sem betur má fara. Við erum byrjuð að vinna úr því og gerum ráð fyrir að birta skýrslu byggða á athugasemdum foreldra þegar allir foreldrar hafa komið í kaffi til okkar.

Morgunkaffið er góð viðbót við annan foreldrastarf. Stjórnendur fá tækifæri til að ræða beint við alla foreldra og foreldrar geta komið hugmyndum sínum um skólastarfið beint á framfæri. Það er alveg ljóst að morgunkaffið styrkir skólasamfélagið og bætir starfið.

Gerur_Kristn_007

Gerður Kristný las fyrir nemendur

Gerur_Kristn_007
Í rökkrinu er svo gott að kveikja á kertum, halla sér aftur í sætinu, lygna augunum aftur og hlusta á góða sögu eða sögubút. Það gerðu einmitt krakkarnir í 1. – 5. bekk í morgun þegar Gerður Kristný, rithöfundur, kom í heimsókn og las upp úr bókunum sínum fyrir þau. Gerður kom víða við, hún sagði þeim frá æsku sinni, spáði í ævintýrin, fræddi þau um bækurnar sína og las upp úr þeim einni af annarri. Hún endaði á þeirri síðustu sem ber heitið Forsetinn, prinsessan og höllin sem svaf. Gerður brá upp teikningum úr bókunum sínum á meðan hún las sem voru býsna líflegar. Heimsóknir sem þesssar eru afar kærkomnar og brjóta upp dagana hjá nemendum sem kennurum.   

Aðventuganga foreldrafélagsins

Hin árlega aðventuganga foreldrafélagsins verður fimmtudaginn 8. desember nk. Hún verður með hefðbundnum hætti og er dagskráin svohljóðandi:
17.30 spilar Skólahljómsveit Kópavogs jólalög í skólanum og kemur öllum í jólaskap.
18.00 Allir láta ljós sitt skína þegar gengið verður í Lindakirkju, þar mun kór Salaskóla flytja nokkur lög undir stjórn Ragnheiðar Haraldsdóttur.
18.45 Haldið aftur í Salaskóla þar sem boðið verður uppá piparkökur og heitt kakó.

fjlgreindaleikauppskera

Uppskera frá fjölgreindaleikum

fjlgreindaleikauppskera
Á fjölgreindaleikum standa liðin saman og allir gera eins vel og þeir geta eins og fram hefur komið hér á síðunni áður. En í lok leikanna eru stig liða reiknuð saman og á endanum er eitt lið sem er efst að stigum. Stig eru ekki bara bundin við frammistöðu  heldur er einnig hægt að fá aukastig fyrir ýmislegt sem tengist framkomu, einbeitni og stjórnun liðsins. Fyrirliðar gegna því stóru hlutverki þegar kemur að söfnun stiga. Í dag var svokölluð uppskeruhátíð fjölgreindaleika en þá var sagt frá því á sal hvaða lið fengu flest stig. Að þessu sinni var liðið Pappírspési efst að stigum og urðu því fjölgreindameistarar 2011. Mörg önnur lið voru nefnd til sögunnar sem stóðu sig afar vel.    

dagur_slenkrar_tungu

Á íslensku má alltaf finna svar …

dagur_slenkrar_tungu
 … og orða stórt og smátt sem er og var..
hljómaði úr sal skólans í bítið, á degi íslenkrar tungu. Þar fór fram opinn samsöngur nemenda í 1. og 2. bekk og foreldrar og aðstandendur voru mættir til hlusta á krakkana sína. Krakkarnir voru afar hressir og sungu við raust og reyndu að fá foreldra til að taka undir í sögnum sem gekk þó misjafnlega. Skólasöngur Salaskóla var fluttur þarna í fyrsta skipti opinberlega  en hann er að finna annars staðar á síðunni. Hressileg byrjun á góðum degi.

Skólasöngur Salaskóla

Nýr skólasöngur Salaskóla, saminn í tilefni af 10 ára afmæli skólans er kynntur í dag 16. nóvember, á degi íslenskrar tungu. Texti og undirleikur er hér á heimasíðu skólans og þá geta fjölskyldur sameinast við tölvuna og sungið hástöfum. Söngurinn er eftir Braga Valdimar Skúlason – bæði lag og texti en undirleik annast Guðmundur Pétursson gítarsnillingur.

Skólasöngur – undirleikur

Skólasöngur – texti

Anton_og_Kristn

Hvernig verða ljóð til?

Anton_og_Kristn
Já, hvernig verða ljóð til? Hvar liggja landamæri ljóðsins? Liggja þau einhvers staðar? Þessar spurningar komu upp í kollinn á okkur, nemendum í 8.-10. bekk og kennurum, við að hlusta á skáldin Anton Helga Jónsson og Kristínu Svövu Tómasdóttur flytja ljóðin sín. En þau gerðu sér ferð í Salaskóla í morgun til þess að kynna okkur fyrir ljóðlistinni. Krakkarnir tóku sannarlega vel á móti þeim, hlustuðu af athygli og sumir voru forviða yfir hversu skemmtileg ljóð gætu verið. Skáldunum er þakkað þetta skemmtilega innlit til okkar hér í Salaskóla. Nemendum verður vafalítið heimsóknin minnisstæð á væntanlegum móðurmálsdögum sem eru að ganga í garð.

harpa

Salaskóli í Hörpunni

harpaFöstudaginn 28.10. fór glæsilegur hópur héðan úr Salaskóla, 6. bekkur Teistur, og spilaði lokaatriðið á hátíðardagskrá í Norðurljósasal Hörpunnar. Tilefnið var 60 ára afmælishátíð Tónmenntakennarafélags Íslands og þar spilaði okkar fólk tónverk sem þau höfðu nýlega samið og flutt fyrir foreldra sína og nemendur í Salaskóla. Verkefninu var stýrt af þeim Þórdísi Heiðu sem er okkur kunnug hér í Salaskóla og samstarfskonu hennar Hildi Guðnýju Þórhallsdóttur. Teisturnar spiluðu á margvísleg hljóðfæri og stóðu sig með mikilli prýði þar sem þau spiluðu af innlifun fyrir troðfullan sal, yfir 500 manns voru að hlusta. Fleiri myndir.

Aðalfundur foreldrafélagsins

Aðalfundur foreldrafélags Salaskóla verður þriðjudaginn 15. nóvember nk. Á fundinum verða venjuleg aðalfundarstörf, kosið í stjórn og fulltrúa í skólaráð. Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur kemur á fundinn og flytur erindi um einelti – einkenni þess, viðbrögð þegar það kemur upp og hvernig er hægt að stuðla að því að draga úr einelti. Allir foreldrar hvattir til að mæta. Fundurinn verður í sal Salaskóla og hefst kl. 20:00