ottarsbikarinn_005_small

Spilað um Óttarsbikarinn

ottarsbikarinn_005_small
Í dag, 19. desember, er spilað um  svokallaðan Óttarsbikar sem er árlegur viðburðum um þetta leyti árs haldinn í minningu Óttars heitins húsvarðar. Skipuð eru lið úr öllum bekkjum á unglingastigi  ásamt liði kennara og blásið til mikils körfuboltamóts í íþróttahúsinu. Mikil steming var í upphafi móts og ljóst að stefndi í mikið fjör og keppnisandinn var alveg í réttum gír, hjá yngri sem eldri. Í áhorfendastúkunni sást til nokkurra kennara sem létu illum látum er þeirra lið skoraði – og nemendur voru líka góðir að hvetja sín lið áfram. Jafnt var á komið með liðunum og ekki mátti sjá í upphafi hvaða lið myndi fara með sigur af hólmi. En eftir gífurlega mikla baráttu og æsispennandi úrslitaleik voru það tíndubekkingar sem báru sigur úr bítum og hlutu Óttarsbikarinn en níundubekkingar urðu í öðru sæti. Verðlaunafhending fer fram í kvöld á jólaskemmtun unglingastigs.  

upplestur_orgrmur_005small

Þorgrímur Þráinsson las upp fyrir nemendur

upplestur_orgrmur_005small
Rithöfundurinn, Þorgrímur Þráinsson, heimsótti okkur í dag og átti erindi við nemendur í 5. – 7. bekk. Eftir lestrarkeppnina sem lauk um miðjan nóvember sýndu krakkarnir á miðstiginu áhuga á að fá Þorgrím í heimsókn. Þorgrímur tók vel í það, kom og las upp fyrir nemendur úr nýjustu bókinni sinni „Krakkinn sem hvarf“ og sagði frá helstu aðalpersónunum í bókinni. Í lokin spurðu nemendur Þorgrím spurninga af ýmsu tagi t.d. hvenær hann hafi skrifað fyrstu bókina sína, hvað hann væri lengi að skrifa eina bók, hvernig hugmyndirnar kæmu í kollinn á honum og fleira í þeim dúr. Nemendurnir okkar voru sannarlega góðir hlutstendur, kurteisir í alla staði og tóku afar vel á móti gestinum okkar. Takk fyrir heimsóknina, Þorgrímur Þráinsson!

skypef_3

Spjallað í gegnum Skype

skypef_3
Í gær hittust tveir bekkir til að spjalla saman.  Var þetta mjög merkilegur spjallfundur en annar bekkurinn voru Mávar á Íslandi og hinn bekkurinn voru jafnaldrar á Kýpur.  Bekkirnir hittust í gegnum Skype samskiptaforritið, töluðu ensku og skemmtu sér vel.   Fundurinn stóð í um 15 mínútur.  Þessi fundur var hluti af comeniusarverkefninu sem við erum þátttakendur í. En Guðbjörg umsjónarkennari í Mávum og Hulda deildarstjóri eru nýkomnar af sameiginlegum kennarafundi sem haldinn var í Þýskalandi.  
Á þeim fundi voru næstu skref ákveðin en á vormánuðum verðum við með litla Ólympíuleika.   Bekkirnir á miðstigi eru þessa dagana að senda jafnöldrum sínum í hinum þátttökulöndunum jólakort.  Hægt verður að fylgjast með verkefninu á heimasíðu skólans undir merki menntastefnu Evrópusambandsins sem styrkir þetta verkefni. 

piparkokur

Er ég piparkökur baka ….

piparkokur
Það var mikil stemning hjá krökkunum í dægradvölinni í gær þegar þau fengu að skreyta piparkökur í öllum regnbogans litum. Einbeitnin skein úr andlitunum og greinilegt að þeim þótti gaman að kökuskreytingalistinni. Skreyttu kökurnar voru síðan settar í box sem krakkarnir fengu að taka með sér heim. Nokkrar myndir.

hilmar

Skemmtilegur nóvember að baki

Í Salaskóla er alltaf heilmikið um að vera og nóvember var sérlega viðburðarríkur mánuður er þetta varðar. Við fáum oft skemmtilegar heimsóknir og krakkarnir bjóða oft til sín gestum til að hlýða á tónlist, söng og atriði á sviði. Hver bekkur í skólanum skipuleggur eina sýningu að vetri þar sem allir nemendurnir taka þátt í sýningunni með einhverjum hætti. Svölurnar voru einmitt á dögunum með glæsilega sýningu fyrir foreldra og aðra bekki í skólanum. Þau sungu, lásu ljóð, fluttu tónlist og settu á svið þjóðsöguna Djáknann á Myrká í nútímalegum búningi með tilheyrandi leikhljóðum og tónlist. Flott vinna hjá krökkunum sem þau fengu mikið lof í lófa fyrir. Fleiri bekkir eru að undirbúa samsvarandi sýningu.

hilmarHilmar Örn Óskarsson, ungur og upprennandi rithöfundur, kom við hjá okkur í síðastliðinni viku og las upp úr bók sinni „Kamilla vindmylla – og bullorðna fólkið“ fyrir nemendur í 3. og 4. bekk. Þetta er fyrsta barnabók Hilmars og krakkarnir kunnu aldeilis vel að meta innihaldið og skemmtu sér hið besta. Í lokin spurðu þau Hilmar nokkurra spurninga t.d. hvernig hann fengi hugmyndir þegar hann væri að skrifa. Skemmtileg og gefandi heimsókn. Myndir.

Nemendur í 1. og 2. bekk buðu til sín foreldrum um miðjan nóvember til að hlýða á samsöng í salnum. En hún Heiða tónmenntakennari er dugleg að láta krakkana syngja saman – oft með tilheyrandi látbragði. Foreldrarnir flykktust í skólann til að hlusta á krakkana sína syngja og fengu meira að segja að taka undir sönginn á köflum.

Síðast en ekki síst var skemmtileg uppákoma á degi íslenkrar tungu, 16. nóvember, en þá kepptu teistur og mávar til úrslita í lestrarkeppninni LESUM MEIRA. Lestrarkeppnin  er búin að vera í gangi síðan í haust á miðstiginu þar sem hver og einn hefur keppst við að lesa ákveðnar bækur sem gefnar voru upp fyrir keppnina. Bekkjarlið kepptu síðan sín á milli í október og nóvember sem endaði með að lið mávanna stóð uppi sem sigurvegari. Krakkar í öllu bekkjum á miðstigi lögðu á sig mikla vinnu við lesturinn og stóðu sig öll afar vel. Skemmtileg hvatning fyir krakka á miðstigi sem vonandi verður árlegur viðburður hjá okkur í Salaskóla. Hér má sjá myndir frá lestrarkeppninni.

Aðventuganga og jólabingó 6. desember

Hin árlega aðventuganga foreldrafélagsins verður nk. fimmtudag, 6. desember. Hún hefst í Salaskóla kl. 16:30 og þar tekur Skólahljómsveit Kópavogs á móti öllum með jólalögum. Lagt verður af stað frá Salaskóla kl. 1700 og gengið að Lindakirkju þar sem skólakórinn syngur. Síðan verður gengið aftur í skólann þar sem bíður okkar rjúkandi súkkulaði og gómsætar jólasmákökur.

 

Kl. 19:30 sama dag er svo jólabingó á vegum 9. bekkjar en það er liður í fjáröflun fyrir ferð í skólabúðirnar að Laugum í Sælingsdal. Ótrúlegir vinningar í boði. Krakkarnir ætla líka að vera með smá kaffisölu ásamt smá fjáröflunarbás þar sem nokkrar vörutegundir verða til sölu (t.d. mandarínukassar, lakkrís, útikerti, jólapappír og kannski eitthvað fleira). Það verður bæði hægt að borga með peningum eða kortum (posi á staðnum). Það er engin skylda að kaupa eitthvað en auðvitað verða krakkarnir ótrúlega glöð ef þið sjáið ykkur fær um að styrkja þau á einhvern hátt 🙂

Skipulagsdagur

Mánudaginn 19. nóvember eru kennarar að vinna að skipulagi námsins og því er frí hjá nemendum.
Dægradvölin er opin þann dag. Skólastarf hefst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 20. nóvember.

Vond veðurspá 12. nóvember

Það er spáð vitlausu veðri í fyrramálið og líklega verður veðrið kolvitlaust í Salahverfi um það leyti sem börnin eiga að mæta í skólann. Við biðjum ykkur um að kynna ykkur tilmæli til foreldra og forráðamanna frá stjórn slökkviliðsins og sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu í slíkum tilfellum, en þau er að finna á þessari slóð:

Röskun á skólastarfi vegna óveðurs

Við munum opna Salaskóla á venjulegum tíma, en ef aftakaveður verður er mögulegt að einhver röskun verði á skólastarfi fyrst í fyrramálið. Vekjum athygli á að ábyrgðin hvílir á foreldrum í þessum efnum, eins og kemur fram í tilmælum sem bent er á hér að framan.

Niðurstöður í samræmdum prófum í 4. og 7. bekk

Nemendur hafa nú fengið niðurstöður samræmdu prófanna í 4. og 7. bekk í hendur. Niðurstöður Salaskóla í 7. bekk voru ákaflega ánægjulegar og nemendur hafa tekið mjög miklum framförum almennt frá því í 4. bekk. Sérstaklega var útkoman í stærðfræði góð en þar er meðaltal skólans 8,0 sem er langt yfir landsmeðaltali en það var 6,9. Í íslensku var meðaltal skólans 6,7, örlítið yfir landsmeðaltali sem var 6,6.

Í 4. bekk var meðaltal skólans 6 í íslensku, rétt undir landsmeðaltalinu sem var 6,1. Útkoman í stærðfræði var heldur lakari en þar var meðaltal skólans 6,1 en landsmeðaltali 6,9.

Við erum nú að rýna í niðurstöður og munum grípa til aðgerða þar sem þess er þörf hjá einstökum nemendum. Við erum einnig að vinna í því að styrkja verulega stærðfræðikennslu í 4. bekk og væntum þess að það skili góðum árangri.

riturnar

Lestrarkeppnin í fullum gangi

riturnar


Eins og fram kom í haust er lestrarkeppnin Lesum meira í gangi á miðstigi, 5. – 7. bekk. Meginmarkmið keppninnar er að nemendur verði víðlesnari, auki orðaforða sinn og áhugi á bókalestri eflist. Í fyrstu var gefinn góður tími fyrir lestur áveðinna bóka á bókalista keppninnar  og síðan var dregið um hvaða bekkir ættu að keppa saman. Í keppninni reynir jafnt á almenna þekkingu nemenda sem þekkingu á ýmsu í heimi bókmenntanna auk þess að kunna vel skil á ákveðnum sögum.

teisturNú þegar eru búnar þrjár keppnir og sú fjórða verður á morgun, miðvikudag, þegar svölur og súlur etja kappi saman. Liðin samanstanda af þremur nemendum en stuðningsliðið, sem er bekkurinn, skipar stórt hlutverk því eins og gefur að skilja er mjög mikilvægt að styðja vel við sitt lið, hvetja og fagna á réttum stöðum og sýna í alla staði háttprúða framkomu. Einnig má beina einni spurningu til bekkjarins ef liðið stendur á gati.  Bekkirnir mæta prúðbúnir til leiks því hver bekkur skartar ákveðnum litum. Þetta eru miklar skrautsýningar bæði er varðar föt og andlitsmálningu. Ekki má gleyma hvatningaspjöldunum sem að sjálfsögðu eru líka í réttum litum. Sumir bekkir hafa jafnvel troðið upp með atriði til að styðja enn betur við liðið sitt. Á meðfylgjandi myndum sést annars vegar lið ritanna spreyta sig í síðustu viku á spurningum sem fyrir það voru lagt – hins vegar eru glæsileg stuðningslið teista og rita í salnum.