Jólamarkaður 4. bekkinga

Á þriðjudaginn, 6. desember, stóð 4.bekkur fyrir mjög vel heppnuðum jólamarkaði sem þau hafa verið að vinna að síðustu vikur. 

Þau voru í raun að taka þátt í tveimur verkefnum.  Fyrra verkefnið heitir Öðruvísi jóladagatal og er á vegum SOS-barnaþorpa. Verkefnið snýst um réttindi barna og byggir á stuttum fræðsluerindum og myndböndum af börnum í nokkrum löndum heimsins. Seinna verkefnið er Erasmus+ verkefni sem heitir Art is for All sem við erum þátttakendur í með skólum í Þýskalandi, Spáni og Wales.

Hluti af báðum verkefnunum snýst um að láta gott af sér leiða og buðu nemendur því ættingjum sínum til skemmtunar og jólamarkaðar þar sem þau seldu ýmsan varning og veitingar sem þau höfðu búið til. Allur ágóðinn af markaðnum um 120.000 kr. var afhentur SOS barnaþorpum í dag. Hér má lesa frétt um verkefnið á heimasíðu SOS barnaþorpana.

Við erum svo stolt af 4. bekkingunum okkar og þessu yndislega framtaki þeirra – sem er svo gefandi, en um leið fræðandi og þroskandi og frábært skólaverkefni!

Jólahurðasamkeppni 2022

Nú í nokkur ár höfum við flautað til leiks í jólahurðasamkeppni hér í Salaskóla í lok nóvember og hafa nemendur keppst við að setja hurðir sínar í jólalegan búning til að freista þess að vinna best skreyttu hurðina. Dómnefnd var sett saman sem í sameiningu fór yfir allar innsendar myndir með það að markmiði að finna sigurvegara.

Eftir vandlega skoðun komst dómnefnd að þeirri niðurstöðu að 7. árgangur myndi hljóta
verðlaun í ár fyrir fallegar og vandaðar hurðaskreytingar. Ýmsir þættir vöktu
athygli dómnefndar s.s. dýpt mynda, QR kóði sem kallaði fram jólalag við skönnun og samræmt ævintýraútlit þó hver hurð hafi verið sérstök.

Aukaverðlaun fékk 5. bekkur sem sýndi mikla samvinnu og hver og einn nemandi gerði hluta í verkinu. Skreytingarnar voru skemmtilegar og frágangur snyrtilegur.

Við óskum vinningshöfum innilega til hamingju.

Klukkustund kóðunar

Alþjóðlega Hour of Code (Klukkustund kóðunar) forritunarvikan stendur nú yfir en í ár er hún haldin dagana 5. – 11. desember um heim allan.  Markmiðið með átakinu er að hver og einn nemandi forriti í a.m.k. eina klukkustund. Átakið hefur náð til yfir 1,5 milljarð þátttakenda í yfir 180 löndum.

Salaskóli er að sjálfsögðu með eins og undanfarin ár og fá allir nemendur skólans tækifæri til að taka þátt. Nemendur eru hvattir til að kóða meira heima ef áhugi er fyrir því. Á heimasíðu verkefnisins má finna fullt af spennandi verkefnum á yfir 45 tungumálum og því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. 

Jólaþorp Salaskóla

Jólaþorp Salaskóla er löngu orðin árleg hefð en í ár var þorpið sett upp í níunda sinn af nemendum í 7. bekk í samstarfi við smiðjukennara skólans. Þorpið hefur upp á flest það að bjóða sem prýða má slíkt þorp, s.s. skóla, vita, bryggju, báta, lest, kirkju, skíðabrekku, skóg, jólasveina og að sjálfsögðu fólk af öllum stærðum og gerðum. Í dag, 5.desember, var jólaþorpið formlega opnað og voru fyrstu gestirnir nemendur í 1. bekk en það er mjög vinsælt að koma í heimsókn og skoða þorpið enda hellist jólaandinn yfir þá sem það gera. Við hvetjum foreldra og aðra áhugasama að koma og líta á þorpið við tækifæri.

Starfsmaður óskast á frístundarheimili

Vegna forfalla vantar okkur starfsmann á frístundaheimili Salaskóla til áramóta! Þetta er t.d. tilvalið tækifæri fyrir skólafólk! Vinnutími er kl. 13:00-16:00/16:30 og til greina kemur að tveir aðilar skipti þessu með sér, annar vinni 3 daga í viku og hinn 2 daga í viku.

Í Salaskóla er góður starfsandi og á frístundaheimilinu er einvalalið sem vinnur vel saman í lifandi og skemmtilegu umhverfi.
Ef þið þekkið frábært fólk sem kæmi til greina – þá endilega látið skólastjóra vita 😊 kristins@kopavogur.is

Styrkveiting til Salaskóla

Salaskóli hlaut á dögunum styrk úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar til að efla forritunarkennslu á yngsta stigi skólans að upphæð 188.980 krónur. Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla og auka áhuga nemenda á forritun og hagnýtingu á tækni í skólum landsins.

Ákveðið var að fjárfesta í Blue-Bot eða Bjöllunni sem er áhugaverður smá róbóti sem hentar einstaklega vel til að kenna börnum grunnhugtök forritunar á einfaldan og lærdómsríkan hátt. Hægt er að forrita Bjölluna með því að ýta á takkana á tækinu sjálfu eða með spjaldtölvu. Tilvalið er að blanda forritun og sköpun saman með þvi að búa til að mynda til þrautabrautir úr fjölbreyttum efnivið. Við í Salaskóla erum mjög spennt fyrir þessari nýju viðbót og hlökkum til að kynna Bjölluna fyrir nemendum okkar. Við þökkum Forriturum framtíðarinnar kærlega fyrir styrkinn.

Skólasetning Salaskóla

Skólaárið 2022-2023 hefst með skólasetningu þriðjudaginn 23. ágúst 2022.

Skólasetning nemenda í 1. bekk fer fram í viðtölum við umsjónarkennara samkvæmt tímabókunum 22.-23. ágúst og munu foreldrar fá upplýsingar um það frá umsjónarkennurum.

Skólasetning annarra nemenda er sem hér segir:

2.-4. bekkur mæting kl. 9:00

5.-7. bekkur mæting kl. 10:00

8.-10. bekkur mæting kl. 11:00

Skólasetning verður standandi athöfn og fer fram í opnu rými við aðal inngang skólans. Eftir stutta tölu skólastjórnenda fara nemendur í skólastofur sínar með umsjónarkennurum. Foreldrum er velkomið að fylgja börnum sínum til skólasetningar.

Kennsla hefst miðvikudaginn 24. ágúst samkvæmt stundaskrám.

Frístundaheimilið fyrir nemendur í 1.-4. bekk opnar fyrsta kennsludag fyrir þau börn sem þar eru skráð. Athugið að frístundaheimilið er lokað mánudag 22. ágúst og þriðjudag 23. ágúst.

Salaskóli óskar eftir stuðningsfulltrúum og/eða frístundaleiðbeinendum.

Salaskóli óskar eftir að ráða stuðningsfulltrúa og/eða frístundaleiðbeinendur.

Í Salaskóla eru tæplega 600 nemendur og um 100 starfsmenn. Í skólanum er faglegt og metnaðarfullt starf, þar ríkir góður starfsandi og boðið er upp á gott starfsumhverfi. Í störfunum felst stuðningur við nemendur í námi og leik. Fyrri hluta dags er unnið með nemendum í kennslustundum og eftir hádegi í frístundastarfi – til greina kemur að ráða starfsmenn í fullt starf eða hlutastarf sem væri þá ýmist fyrir eða eftir hádegi.

Hér má finna nánari upplýsingar og til þess að sækja um : alfred.is/starf/salaskoli