Námsmat og viðtöl

Megintilgangur námsmats er örvun nemenda og námshjálp. Hverjum kennara ber að fylgjast vandlega með því hvernig nemendum gengur að ná þeim námsmarkmiðum sem aðalnámskrá og skólinn setja þeim. Námsmat fer ekki einungis fram í lok námstímans heldur er það einn af föstum þáttum skólastarfs, órjúfanlegt frá námi og kennslu.

Nemendur fá skriflega umsögn tvisvar á skólaárinu, í janúar og í júní. Matið er m.a. sett fram skriflega og leitast við að benda á sterkar hliðar hjá nemendum, auk þess sem við hvetjum til dáða á öllum sviðum. Við
vonum að með því getum við gefið betri mynd af stöðu nemenda í náminu og gleggri upplýsingar. Við vonum líka að þessi leið stuðli að betri og jákvæðari sjálfsmynd allra nemenda en fátt er mikilvægara nú á tímum. Við viljum hvetja foreldra til að lesa umsagnirnar með börnum sínum og fagna þeim árangri sem náðst hefur. Fátt er börnunum meiri hvatning en fölskvalaus gleði yfir góðum afrekum þeirra.

Umsjónarkennarar kalla alla foreldra til sín tvisvar yfir veturinn. Sjá nánar á skóladagatali.

Morgunkaffi

Foreldrar allra barna í Salaskóla eru boðaðir í morgunkaffi í skólanum fyrir áramót. Morgunfundir þessir hefjast kl. 8:10 og standa til kl. 9:00. Á hverjum fundi eru foreldrar barna í einum árgangi. Fundirnir eru haldnir í sal skólans og er foreldrum boðið upp á kaffi.

Það eru skólastjórnendur sem boða til fundarins. Skólastjóri byrjar fundinn og ræðir um málefni tengd skólanum og svo er orðið gefið laust. Eftir um hálfa klukkustund er farið í stutta skoðunarferð um skólann og endað hjá viðkomandi bekk.

Á hverjum fundi eru foreldrar beðnir um að skrifa á matsblað tvö atriði sem þeir eru ánægðir með í skólastarfinu og tvö atriði sem þeir telja að gætu farið betur. Þetta er svo notað við mat á starfi skólans.

Foreldrar mæta vel á þessa fundi og hafa lýst ánægju sinni með þá og þetta er ómissandi þáttur í skólastarfinu. 

 

 

 

Umsókn um leyfi

Óski nemandi eftir að leyfi frá skóla lengur en í tvo daga þurfa foreldrar nemandans að hafa samband við skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra og fylla út sérstakt eyðublað á skrifstofu skólans. Umsjónarkennari getur veitt leyfi til styttri tíma.

Eyðublað (pdf – óvirkt)

 

Aldursblöndun námshópa

Í Salaskóla er aldursblöndun að hluta til í öllum árgöngum. Aldursblöndun af þessu tagi kallast samkennsla, þ.e. tveimur eða fleiri árgöngum er kennt saman í hóp. Þetta er m.a. gert í því skyni að uppræta neikvæð félagsleg mynstur sem gjarnan skapast í hópum sem halda sér lengi, en um leið að styrkja jákvæð samskipti. Markmið skólans með aldursblöndun eru bæði námsleg og félagsleg. Í samkennslu er horft á sérhvern nemanda og hún stuðlar að einstaklingsmiðaðri kennslu. Kennari horfir til þarfa og áhuga nemanda þegar hann skipuleggur kennsluna, fremur en til þess hversu gamall hann er. Nemendur fá meira svigrúm til sinna starfa en ella. Í samkennsluskólum ríkir jafnan góður andi og góð tengsl milli nemenda, m.a. vegna þess að nemendur kynnast bæði eldri og yngri nemendum og þeir þekkja krakka í öðrum bekkjum en sínum eigin. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á aldursblöndun benda til þess að hún hafi jákvæð áhrif á skólastarf og nemendur.
Rúnar Sigþórsson, dósent við Háskólann á Akureyri fjallar um samkennslu árganga og aldursblöndun í skólum í grein sem birt er á vef Samtaka fámennra skóla. Þar fjallar hann á fræðilegan hátt um aldursblöndun með vísan í rannsóknir.  Grein um samkennslu.

Frábæru lególiðin okkar!

Lególiðin okkar í Salaskóla stóðu sig með miklum sóma í legókeppninni sem fram fór um helgina í Öskju, verkfræðihúsi HÍ. Öll liðin þrjú sýndu frammúrskarandi samvinnu og verkhæfni og komu heim með tvo bikara fyrir gott rannsóknarverkefni og besta skemmtiariði keppninnar. Liðið hans Jóns míns var einnig tilnefnt til að taka þátt í Evrópukeppni FLL í maí 2008 en liðið Ísjakarnir frá Hafnarskóla unnu síðan réttinn til að fara út að þessu sinni. Við óskum lególiðinum þremur innilega til hamingju með góðan árangur.

jlamarkaur 2007 001.jpgweb

Foreldrafélagið

jlamarkaur 2007 001.jpgwebÍ Salaskóla er starfrækt foreldrafélag. Félagar í því eru allir foreldrar/forráðamenn nemenda í skólanum. Meginmarkmið félagsins er að efla samstarf milli foreldra/forráðamanna nemenda  og skólans og stuðla að velferð nemenda í leik og starfi. Starf foreldrafélagsins byggist á skipulögðu samstarfi foreldra/forráðamanna nemenda í hverjum bekk og skólans.
Stjórn foreldrafélagsins er skipuð fimm aðalmönnum og tveimur varamönnum sem allir eru foreldrar/forráðamenn nemenda í skólanum. Stjórnin fundar reglulega einu sinni í mánuði og oftar ef ástæða er til. Til stendur að allar fundargerðir verði aðgengilegar á netinu. Ef foreldrar/forráðamenn vilja koma málum á framfæri við stjórnina þá er hægt að hafa samband við stjórnina í gegnum tölvupóst eða símleiðis. Stjórnarskipti eru á aðalfundi sem er haldinn að hausti. 

Bekkjarfulltrúar: Tveir bekkjarfulltrúar koma frá hverjum bekk og er hlutverk þeirra m.a. að halda utan um bekkjarstarf í samráði við kennara og með þátttöku annarra foreldra og mæta á aðalfund foreldrafélagsins. 
Nefndir: Ýmsar nefndir munu starfa á vegum foreldrafélagsins. Þær verða skipaðar af foreldrum/forráðamönnum nemenda.
Foreldrafélagið er með facebooksíðu og eru foreldrar hvattir til að fylgjast með henni.