Viðhorfakönnunin – meirihluti hafnar skólabúningum!

Á miðnætti á laugardag lauk viðhorfakönnuninni meðal foreldra. Könnunin fór fram á vefnum og alls svöruðu henni 391 foreldri. Gera má ráð fyrir að það séu foreldrar um 70% barna í Salaskóla. Við munum vinna úr könnuninni eins hratt og við getum og kynna niðurstöður fyrir foreldrum. Meðan á heildarvinnslu stendur má búast við glefsum úr niðurstöðum hér á heimasíðu skólans. 

Nú þegar liggur fyrir afstaða foreldra í Salaskóla til skólabúninga. 300 foreldrar tóku afstöðu með eða á móti skólabúningum, 91 hafði ekki skoðun eða svörðuðu ekki. Af þeim sem tóku afstöðu voru 40% hlynnt skólabúningum en 60% á móti.  

grnn_dagur_024.jpg

Grænn og vænn dagur

grnn_dagur_024.jpgÞegar litið var yfir skólann í dag var eins græn slikja lægi yfir honum enda svokallaður grænn dagur. Nemendur og starfsfólk minntu á það með grænum lit í fötum sínum eða skarti. Dagurinn gekk mjög vel, allir bekkir fóru út á skólalóðina og týndu rusl í poka. Ætti skólalóð og næsta umhverfi að vera mun snyrtilegra núna. Gaman er að geta þess að samvinnuskólar okkar í Comeniusarverkefninu  voru að vinna að sama verkefni í  sínum heimalöndum. Við fengum góðar kveðjur frá vinum okkar í Finnlandi.

grnn_dagur_026.jpgTilgangurinn er að vekja athygli á hversu mikilvægt er að hlúa að umhverfi sínu. Þegar allir leggjast á eitt næst árangur. Nemendur stóðu sig mjög vel og í verðlaun fyrir þátttöku fengu þau frostpinna í hádeginu sem að sjálfsögðu var grænn á litinn.    grnn_dagur_030.jpg

j04377991.jpg

Grænn dagur á morgun – 17. apríl

j04377991.jpgÁ morgun, fimmtudaginn 17.apríl, er svokallaður Græni dagurinn hér í Salaskóla. Þá ætlum við að huga að nánasta umhverfi okkar og skoða hvað við getum gert til að fegra umhverfi skólans og næsta nágrenni. Það er mælst til þess að bæði nemendur og starfsfólk mæti í einhverju grænu í skólann þennan dag. Það geta verið föt, húfur, sólgleraugu og annað í þeim dúr. Breiðabliksföt gætu t.d. nýst vel í þetta.

Breytingar í bígerð

Þó nokkrar breytingar eru fyrirhugaðar á skipulagi kennslu á öllum aldursstigum í haust. Kennarar hafa farið vandlega í saumana á kennsluháttum og skoðað hvað má betur fara. Einnig hafa niðurstöður úr PISA og samræmdum prófum verið til skoðunar sem og umræður og tillögur foreldra sem komu fram í morgunkaffinu fyrr í vetur. 

Niðurstaða okkar kemur fram í tveimur viðamiklum þróunarverkefnum sem þegar er byrjað að vinna að. Annað verkefnið nær yfir 1. – 7. bekk og þar er líklega sýnilegasta breytingin sú að bekkir verða ekki lengur aldursblandaðir, heldur verða í hverjum bekk nemendur sem fæddir eru á sama ári. Hver bekkur mun hins vegar eiga sér samstarfsbekk einum árgangi ofar eða neðar. Bekkirnir munu svo vinna saman að verkefnum þar sem aldursblöndun hentar vel. 

Á unglingastigi verður  skipulagi breytt þannig að auðveldara verði að koma til móts við ólíkan námsstíl nemenda. Hugmyndir okkar ganga út á að taka að hluta til upp áfangakerfi svipað og þekkist í framhaldsskólum, auka vinnu að stórum verkefnum, búa til leið fyrir nemendur sem eru mjög sjálfstæðir í námi og auka þátt list- og verkgreina á unglingastigi.

Við ætlum að auka fjölbreytni í kennsluháttum í öllum árgöngum. Gera starfið fjölbreyttara og freista þess að gera starfið í skólanum áhugavert fyrir alla nemendur. 

Fljótlega verða foreldrar boðnir á frekari kynningu á þessum hugmyndum. Þær eru í mótun og vinnslu þó svo að meginlínur liggi fyrir. Þess má geta að sótt hefur verið um styrki til að vinna þessi verkefni. 

Velheppnuð árshátíð í 8. – 10. bekk

Árshátíð nemenda í 8. – 10. bekk var haldin miðvikudaginn 9. apríl.  Þema hátíðarinnar var hjarta, spaði, tígull og lauf og voru glæsilegar skreytingar hvert sem litið var. Mikil stemning var á hátíðinni og skemmti fólk sér hið besta. Nemendur mættu í sínu fínasta pússi vel snyrtir og margir afar brúnir og sællegir. Þeir voru sjálfum sér og skólanum til sóma með prúðmannlegri framkomu sinni.

Siggi kokkur ásamt starfsfólki sínu í eldhúsi sá um stórglæsilegan veislumat sem mjög góður rómur var gerður að. Starfsfólk þjónaði til borðs og hafði gaman að.

Kennarar tróðu upp með eitt atriði sem var spurningakeppni milli kennara og nemenda. Skemmtu allir sér vel yfir þessari uppákomu sem endaði með sigri nemenda. Að lokum voru kynnt úrslit kosninga sem nemendur stóðu fyrir.

Að loknu borðhaldi og skemmtiatriðum voru þeyttar skífur og héldu DJ-ar uppi dansstuði þar til hátíðinni lauk.

Margir nemendur lögðu á sig mikla vinnu til að árshátíðin gæti orðið sem glæsilegust og getum við verið þakklát og ánægð með þetta dugmikla unga fólk.

Könnun á viðhorfum foreldra

Við erum nú að kanna viðhorf foreldra skólastarfsins. Þetta er liður í því að bæta skólastarfið og afar mikilvægt fyrir okkur nú í undirbúningi fyrir næsta skólaár. Við viljum því hvetja foreldra til að svara könnuninni. Niðurstöður verða birtar fljótlega eftir að könnun er lokið. Könnuninni verður lokað 19. apríl.

Í raun er um þrjár kannanir að ræða, eina fyrir yngsta stig, aðra fyrir miðstig og þá þriðju fyrir unglingastig.

Foreldrar fá línk inn á könnunina senda í tölvupósti. Ef einhver fær hann ekki er hann beðinn um að senda okkur línu eða hringja og fá aðgang. Netfangið er hafsteinn@kopavogur.is og síminn 570 4600.