Netöryggisfræðsla

Foreldrafélag Salaskóla, í samstarfi við Salaskóla, býður nemendum í 4.-10. bekk fræðsluerindi er snýr að þáttum er varða netöryggi, upplýsinga- og miðlalæsi. Auk þess verður foreldrum boðið fræðsluerindi um sama efni í sömu viku og fræðsla til nemenda fer fram á skólatíma.

8.-10. bekkur – ,,Algóritminn sem elur mig upp“. Mánudagur 29. apríl í salnum. 

Algóritminn sem elur mig upp: Hvers virði eru upplýsingarnar um okkur og hvað greiðum við fyrir aðgang okkar að samfélagsmiðlum? Farið yfir mikilvægi þess að vera læs á upplýsingar og miðla í nútíma samfélagi. Fjölmiðlalæsi, auglýsingalæsi, myndlæsi o.fl. Hvernig virka algóritmar samfélagsmiðlanna og með hvaða hætti hefur tæknin áhrif á okkar daglega líf og líðan? Hvað þarf að hafa í huga varðandi samskipti á netinu, áreitni frá ókunnugum og deilingu mynda? Markmiðið með fræðslunni er að valdefla nemendur í taka stjórn á eigin skjánotkun og kenna þeim leiðir til að nýta tæknin á betri hátt. Erindið byggir á niðurstöðum rannsóknar Fjölmiðlnefndar og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands um börn og netmiðla.
Foreldrafræðsla

Fræðsluerindi fyrir foreldra í salnum Salaskóla. ,,Algóritminn sem elur mig upp“. Mánudagur 29. apríl kl. 17:30-18:30.

Hvað segja rannsóknir okkur um stöðuna á miðlanotkun barna á Íslandi í dag? Farið yfr atriði í stafrænu umhverfi sem beri að varast auk þess að gefa góð ráð varðandi notkun barna á skjátækjum og samfélagsmiðlum. Hvað þarf að hafa í huga varðandi samskipti á netinu, áreitni frá ókunnugum og deilingu nektarmynda? Hvaða aldurstakmörk eru á samfélagsmiðlum og af hverju? Hvaða aldurstakmörk eru á samfélagsmiðlum og af hverju? Er upplýsingaóreiða og skautun vandamál í íslensku samfélagi? Hvað áhrif mun gervigreindin hafa á okkar stafrænu tilveru á næstu árum. Erindið byggir á niðurstöðum rannsóknar Fjölmiðlnefndar í samstarfi við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands og Maskínu.

Netumferðarskólinn 4.-7. bekkur. Mánudagur 29. apríl 4. bekkur í kennslustofu og þriðjudagur 30. apríl 5.-7. bekkur í salnum.

Verkefnið er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í netöryggi og styrkt af Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Fjölmiðlanefnd og Persónuvernd fengu það hlutverk að vinna fræðsluefni um upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi ásamt því að auka þekkingu á persónuvernd í meðferð upplýsinga. Fræðsluerindið er blanda af fyrirlestri, hópverkefni og samtali við börnin þar sem áherslan er á vitundarvakningu, hugtakaskilning og valdeflingu.

Fyrirlesari er Skúli Bragi Geirdal – Verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd

Skúli Bragi Geirdal er fjölmiðlafræðingur að mennt og starfar sem verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd. Skúli stofnaði og heldur úti Tengslaneti um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi. Auk þess felst starf hans m.a. í stefnumótunarvinnu, alþjóðlegu samstarfi, fræðslustarfi og umsjón með rannsóknum nefndarinnar á miðlalæsi sem unnar eru í samstarfi við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands og Maskínu. Nefndinni er ætlað það lögbundna hlutverk að efla miðlalæsi almennings og miða því verkefni hans að því að ná til fólks á öllum aldri til að auka færni þess í að nota samfélagsmiðla og leitarvélar og vera gagnrýnið á það hvaðan upplýsingar koma. Skúli er þá einnig stundakennari í fjölmiðlafræðum við Háskólann á Akureyri.

Þættir sem fjallað er um (eftir aldri og þroska):
– Upplýsinga- og miðlalæsi. Hæfnin til að leita sér að, skilja, greina, meta og skapa upplýsingar á öruggan og skilvirkan hátt í gegn um mismunandi miðla og upplýsingaveitur.
– Virkni algóritma og áhrif þeirra á notkun okkar á stafrænum tækjum.
– Gervigreind – Hvað er handan við hornið og hvað ber að hafa í huga?
– Stafrænt fótspor og söfnun persónuupplýsinga.
– Samfélagsmiðlar, skjárinn og líðan.
– Skjáþreyta – Hvernig síminn kallar á athygli okkar.
– Skjátími – Nýta tímann frekar en drepa hann.
– Samskipti á netinu, áreiti og áreitni.
– Skautun og upplýsingaóreiða í íslensku samfélagi.
– Fjölmiðlanotkun Íslendinga – hvernig nálgumst við fréttir í dag?
– Aldursmerkingar á öppum og samfélagsmiðlum – Skoðum það í samhengi við       aldursmerkingar á efni í bíómyndum, þáttum og tölvuleikjum.
– Þættir sem ber að hafa í huga varðandi notkun snjalltækja í skólastarfi.
– Áhrif tækni á þjóðaröryggi, lýðræði og lýðheilsu.

Kópurinn og forvarnarsjóður Kópavogs

Opnað hefur verið fyrir tilnefningar til Kópsins, sem eru viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi skóla- og frístundastarf í grunnskólum Kópavogs.

Einnig er opið fyrir umsóknir í forvarnarsjóð Kópavogsbæjar.

Áhugasamir geta sent inn tilnefningar/umsóknir eða komið hugmyndum til skólastjóra sem getur aðstoðað við ferlið. 

Alþjóðadagur Downs heilkennis 21. mars

Fimmtudaginn 21. mars nk. er alþjóðlegur dagur Downs heilkennis. Markmið dagsins er að auka vitund og minnka aðgreiningu. Dagsetningin er táknræn að því leyti að hún vísar til þess að Downs-heilkenni orsakast af auka litning í litningi 21, þ.e. 3 eintök af litning 21 – 21.03.
 
Við hvetjum nemendur og starfsfólk til að mæta í mislitum sokkum þennan dag og fagna fjölbreytileikanum á þann hátt. 

Skólaþing Salaskóla

Skólaþing Salaskóla fór fram 8. febrúar þar sem allir nemendur skólans tóku þátt í umræðum sem tengjast skólastarfinu. Þar var meðal annars rætt hvað hægt sé að gera svo að nemendum líði betur í skólanum og hvernig hægt væri að gera námið áhugaverðara. Nemendum var skipt í hópa og 10. bekkingar tóku að sér að vera ritarar og leiða umræður, með aðstoð kennara þar sem flestir lögðu sitt að mörkum. Hugmyndir nemenda verða svo teknar saman og nokkrar tillögur fara áfram á Barnaþing Kópavogs sem verður haldið 20. mars nk. Þar munu nokkrir nemendur fara sem fulltrúar fyrir Salaskóla. 

Margar hugmyndir kviknuðu og var gaman að sjá nemendur á öllum stigum ræða saman um hvernig að þeirra mati væri hægt að gera skólastarfið áhugaverðara 🙂

Starfsmaður óskast á frístundarheimili

Vegna forfalla vantar okkur starfsmann á frístundaheimili Salaskóla til áramóta! Þetta er t.d. tilvalið tækifæri fyrir skólafólk! Vinnutími er kl. 13:00-16:00/16:30 og til greina kemur að tveir aðilar skipti þessu með sér, annar vinni 3 daga í viku og hinn 2 daga í viku.

Í Salaskóla er góður starfsandi og á frístundaheimilinu er einvalalið sem vinnur vel saman í lifandi og skemmtilegu umhverfi.
Ef þið þekkið frábært fólk sem kæmi til greina – þá endilega látið skólastjóra vita 😊 kristins@kopavogur.is

Styrkveiting til Salaskóla

Salaskóli hlaut á dögunum styrk úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar til að efla forritunarkennslu á yngsta stigi skólans að upphæð 188.980 krónur. Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla og auka áhuga nemenda á forritun og hagnýtingu á tækni í skólum landsins.

Ákveðið var að fjárfesta í Blue-Bot eða Bjöllunni sem er áhugaverður smá róbóti sem hentar einstaklega vel til að kenna börnum grunnhugtök forritunar á einfaldan og lærdómsríkan hátt. Hægt er að forrita Bjölluna með því að ýta á takkana á tækinu sjálfu eða með spjaldtölvu. Tilvalið er að blanda forritun og sköpun saman með þvi að búa til að mynda til þrautabrautir úr fjölbreyttum efnivið. Við í Salaskóla erum mjög spennt fyrir þessari nýju viðbót og hlökkum til að kynna Bjölluna fyrir nemendum okkar. Við þökkum Forriturum framtíðarinnar kærlega fyrir styrkinn.